VALMYND ×

Fréttir

Íþróttahátíð í Bolungarvík

Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin á morgun, fimmtudaginn 20. október fyrir nemendur í 8., 9. og 10.bekk. Í síðustu viku skráðu nemendur sig til keppni og nú er búið að skipta öllum í lið (gulur, rauður, grænn og blár) með nemendum úr öðrum skólum.
Nemendur eru beðnir um að mæta til keppni í sínum lit ef þeir hafa tök á. Allir fá að keppa í a.m.k. einni grein sem þeir skráðu sig í en mótshaldarar sjá um þá skiptingu.

Nokkur hagnýt atriði:
-Hátíðin verður sett kl. 10:00 og henni lýkur með balli sem er til kl.22:15
-Þeir nemendur sem ekki skráðu sig til keppni velja sér lið til að styðja.
- Ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl.18:45 og ballið byrjar kl.20:00. Tímann á milli er hægt að nota til að borða og græja sig fyrir ball.
-Allir skólar fá afnot af kennslustofu sem verður læst þar sem hægt er að geyma dót og verðmæti.
-Þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá afhentar samlokur við litla anddyri skólans (nær íþróttahúsinu) milli 12:00 og 13.00
- Sjoppa verður á staðnum þar sem hægt verður að kaupa samlokur, drykki og annað. Miðar á ballið verðar einnig seldir í sjoppunni.
- Ballið er haldið í skólanum, miðaverð er 1.500 kr.
- Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:20 og fer strætóleið út í bæ og tekur upp nemendur á sínum stoppistöðvum.
-Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:20, tekur upp nemendur í króknum og á strætóstoppistöð í Hnífsdal.
- Rúta fer frá Bolungarvík kl. 19:00 og að loknu balli kl. 22:30 strætó leið heim.
-Kennarar/starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann.
-Nemendur fá frjálsa mætingu í fyrsta tíma á föstudaginn.
Grunnskólinn á Ísafirði treystir því að allir mæti með bæði góða skapið og keppnisskapið.

Rýmingaræfing

1 af 2

Í morgun fór fram rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og gekk greiðlega að rýma húsið og veðuraðstæður eins og best verður á kosið.

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.

Stuttar vikur framundan

Næstu tvær vikur verða styttri en venjulega. Fimmtudaginn 13. október eru foreldraviðtöl og er hægt að bóka tíma frá og með deginum í dag. Á föstudaginn er starfsdagur og engin kennsla. Mánudaginn 17. og þriðjudaginn 18. október er svo haustfrí, sem við vonum að allir njóti sem best.

,,Góðan daginn faggi"

Mynd: www.leikhusid.is
Mynd: www.leikhusid.is

Í morgun bauð Þjóðleikhúsið nemendum 9. og 10. bekkjar upp á sýninguna ,,Góðan daginn faggi" í Edinborgarhúsinu. Sýningin er í raun sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur, þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Verkið tekst á við fyrirbæri eins og skömm og innhverfa fordóma með húmor og einlægni að vopni. Boðskapurinn er sérstaklega aðkallandi nú, í ljósi þess bakslags sem hefur orðið hvað varðar hinseginfordóma, skaðlega orðræðu og ofbeldi og einelti gagnvart hinsegin fólki. Í lok sýningar buðu flytjendur, þeir Bjarni Snæbjörnsson og Axel Ingi Árnason upp á umræður og spurningar.

Við þökkum Þjóðleikhúsinu fyrir þessa kærkomnu sýningu sem við teljum virkilega þarfa fyrir unglingana okkar.

Heimsókn sendiherra Bretlands

1 af 3

Í dag kom til okkar sendiherra Bretlands, Dr. Bryony Mathew og átti skemmtilega stund með 5.bekkingum. Hún kynnti meðal annars nýju bókina sína sem nefnist á íslensku Tæknitröll og íseldfjöll. Nemendur unnu 2 verkefni og hlustuðu á áhugavert erindi sendiherrans og allir fengu í lokin aðgang að rafrænni útgáfu bókarinnar, sem hægt er að nálgast hér.

 

Púttað á Torfnesi

Á meðan helmingur nemenda á miðstigi reyndu sig í hjólagarði Vestra í gær, þá fór hinn helmingur nemenda í golf á púttvellinum á Torfnesi. Margir nemendur hafa ekki haldið á golfkylfu/pútter áður, en fengu leiðsögn hinna reyndari. Það eru forréttindi að hafa þessa flottu aðstöðu innan seilingar og vonandi verður framhald á heimsóknum okkar á púttvöllinn þar sem nemendur kunnu vel að meta þetta uppbrot í íþróttakennslunni.

Púttvöllurinn á Torfnesi var vígður formlega í september 2008 og var þá stærsti púttvöllur sinnar tegundar á landinu, 80 metrar að lengd. Að vellinum koma Golfklúbbur Ísafjarðar, Félag eldri borgara og Ísafjarðarbær. 

Hjólagarður Vestra prófaður

1 af 9

Í dag er íþróttadagur á miðstigi og fengu nemendur að reyna sig í hinni nýju hólabraut eða pumpubraut, sem Vestri er búinn að koma upp. Helmingur nemenda spreytti sig á brautinni í þetta skiptið, á meðan hinn helmingurinn fór í golf á púttvellinum við sjúkrahúsið. Í næstu viku snýst svo dagskráin við, þannig að allir fá að reyna sig.

Hjólagarðurinn var vígður nú í september og tók 2-3 vikur að leggja brautina í sjálfboðavinnu foreldra. Þetta er góð viðbót við þá íþróttaaðstöðu sem fyrir er og virkilega skemmtileg nýjung.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

1 af 5

Í morgun fór Ólympíuhlaup ÍSÍ fram, áður Norræna skólahlaupið, sem verið hefur fastur liður í skólastarfi margra skóla allt frá árinu 1984. Með hlaupinu er lietast við að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Hlaupið var frá Seljalandsvegi 2 og voru þrjár vegalengdir, allt eftir aldri nemenda. Yngsta stigið hljóp inn að Engi og til baka, miðstigið inn að Seljalandi og unglingastigið inn að golfvelli.

Í þetta sinn fá nemendur ekki viðurkenningarskjal sjálfir, en hver skóli fær sent viðurkenningarskjal með þeirri heildarvegalengd sem hlaupin var.

Við vorum einstaklega heppin með veður, 11 stiga hita, smá andvara og þurrt þannig að allt gekk eins og best verður á kosið og allir glaðir og endurnærðir eftir góða hreyfingu.

ÞOTA – þemanám og tilraunakennd alvara í 8. HS

Í 8. HS er verið að vinna með samþættingu námsgreina. Við erum með svokallaða þotutíma þar sem við höfum 12 kennslustundir á viku til að taka fyrir þemu úr náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku, lífsleikni og upplýsingatækni og sökkva sér niður í þau af miklum krafti í stuttan tíma áður en haldið er í næsta. Við höfum því 12 kennslustundir á viku í þemavinnu. Þetta fyrirkomulag gefur okkur kennurunum tækifæri til að kafa mun dýpra og á annan hátt í viðfangsefni með krökkunum en hefðbundin stundatafla býður uppá

Í síðustu viku var 70% nemenda í 8. bekk GÍ í leyfi vegna ferðar tilvonandi fermingarbarna í Ísafjarðarkirkju í Vatnaskóg. Það fylgir því augljóslega töluverð röskun fyrir skólastarfið þegar svo stór hluti nemendanna er ekki í skólanum en því geta líka fylgt ákveðin tækifæri. Það er til dæmis mun auðveldara fyrir 10 nemendur að ná samkomulagi heldur en 34.

Við hófum vikuna á mánudagsmorgni með því að setjast saman og spjalla um hvernig nemendur vildu hafa vikuna. Slíkar hópumræður með nemendum eru mikilvægur hluti af skólastarfinu, nemendur þurfa að segja sína skoðun, ræða hana við félaga sína, hlusta á tillögur annarra og jafnvel gagnrýni á sínar eigin tillögur. Við æfum okkur að tala saman af virðingu og gefa öllum tækifæri til að tjá sig. Tillögurnar sem nemendur komu með þennan mánudagsmorgunn voru eftirfarandi, og komu fram í þessari röð:

 

Tína ber

Sjósund

Fótbolti

Körfubolti

Stólaleikir

Spjalltímar

Eltingaleikur

Handbolti

Skotboltaleikir

I-pad

Hvíld

Veiða

Taka myndir

Kajak

Horfa á eitthvað

 

Veðrið lék við okkur þessa vikuna og svo heppilega vildi til að við gátum með hraði útvegað 10 veiðistangir. Við héldum því niður á bryggju í blíðunni og renndum fyrir ufsakríli. Sumir höfðu aldrei snert á veiðistöng fyrr á meðan aðrir hafa mikla reynslu. Það var gaman að sjá þá reyndari hjálpa nýliðunum og fyrr en varði voru allir komnir á fullt. Að deila reynslu sinni, hjálpa öðrum og þiggja hjálp eru einmitt eiginleikar sem við viljum að krakkarnir tileinki sér. Það komu margir fiskar á land og bryggjukötturinn naut góðs af!

Á þriðjudeginum byrjuðu krakkarnir í íþróttum og svo hittumst við úti til að kryfja fisk, krakkarnir voru með teikningu af innyflum fiska og báru saman við það sem þeir sáu og fundu í raunverulegum fiski, lyktin var vond (enda ufsi) en áhugavert að sjá að jafnvel í svona litlum fiski var allt að finna sem þar átti að vera. Við lok grunnskóla eiga nemendur að geta gert grein fyrir eigin athugunum á lífverum, hegðun þeirra og búsvæðum og var þessi litla skoðun liður í að öðlast þá hæfni.

Rétt fyrir hádegið fórum við og heimsóttum Kára í fiskbúðinni og hann sýndi okkur ýmsar fiskitegundir og svaraði ótal spurningum nemenda. Í náttúrufræðihluta Aðalnámskrár grunnskóla segir einmitt að nám í náttúrugreinum eigi að snúast um að viðhalda og efla forvitni og áhuga nemenda á sjálfum sér, umhverfi sínu og fyrirbærum náttúrunnar.

Á miðvikudagsmorgni hittumst við í fjörunni fyrir neðan Fjarðarstrætið og skelltum okkur í sjósund. Samfélagsgreinar eiga að efla hæfni nemenda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra, þær eiga að hjálpa nemendum að átta sig á sjálfum sér og dýpka og víkka út reynsluheim nemenda. Í þessari stuttu sundferð  stigu margir langt út fyrir sinn þægindaramma og litlir sigrar unnust við mikla gleði. Krakkarnir hvöttu hvern annan og studdu og aðstoðuðu þegar á þurfti að halda.

Fimmtudagurinn var öllu rólegri en dagarnir á undan, við nutum þess að horfa á náttúrulífsþátt með David Attenborough en það er einmitt líka í námskránni að nemendur öðlist færni í að meðtaka upplýsingar úr töluðu máli á erlendum tungumálum.

Það má svo ekki gleyma því að til þess að svona sprell nýtist nemendum sem best til náms þarf að ræða saman, hvað lærðu nemendur í vikunni? Hvernig gekk? Hvað fannst þér skemmtilegast? Erfiðast? Hvað myndir þú vilja gera aftur? Hvað myndir þú vilja gera öðruvísi? Hvað finnst þér þú hafa lært um sjálfan þig? Hvað finnst þér þú hafa lært um samskipti? Og svo framvegis.

Greining hópsins var að þau kynntust betur, þeim fannst gaman, þau þorðu að taka áhættu, þau þurftu að hjálpast að og biðja aðra um hjálp og það var ekkert erfitt því allir vildu að öllum hinum liði líka vel. Síðast en ekki síst langar þau að fara oftar að veiða og í sjósund! - Harpa & Salome, umsjónarkennarar.

Verum ástfangin af lífinu

1 af 2

Í morgun kom Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, í heimsókn í 10.bekk og ræddi við nemendur um lífið og tilveruna undir yfirskriftinni ,,Verum ástfangin af lífinu". Hann  hvatti nemendur til að setja sér markmið í lífinu og leggja sig fram í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Árangur næst ekki nema með markmiðssetningu og þrautseigju og dagurinn í dag er sá rétti til að stíga skrefið til að ná lengra, verða betri manneskja og láta gott af sér leiða.