Þýskir gestir í heimsókn
Á árunum 2015-2017 tók Grunnskólinn á Ísafirði þátt í Erasmus+ verkefni ásamt skólum frá Þýskalandi, Portúgal, Króatíu, Lettlandi og Kýpur. Í því samstarfi komust á tengsl á milli GÍ og Städtische Adolf-Reichwein-Gesamtschule skólans í Lüdenscheid í Þýskalandi. Sá skóli er nú í innleiðingarferli á upplýsingatækni í skólastarfi og fannst tilvalið að heimsækja skóla sem er langt kominn í því ferli. Haft var samband við Guðbjörgu Höllu Magnadóttur, sem er verkefnastjóri GÍ í þeirri innleiðingu, sem tók erindinu fagnandi. Úr varð að þær Victoria Oberbörsch og Theresia Vogel frá STARG skólanum eru í heimsókn hjá okkur þessa viku og fylgjast með notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þær hafa fengið að kynnast því hvernig nemendur allt frá 1. og upp í 10.bekk nýta sér upplýsingatæknina með spjaldtölvur í forgrunni. Það má segja að margt hafi komið þeim á óvart og finnst þeim kennsluhættir t.d. mjög nútímalegir og fjölbreyttir hjá okkur, þar sem nemendur fá mikið rými til sköpunar.
Við vonum svo sannarlega að þær stöllur hafi haft bæði gagn og gaman af þessari heimsókn og vonumst til að frekara samstarf sé mögulegt í framtíðinni á milli þessara tveggja skóla.
Deila