VALMYND ×

Fréttir

Hvað er Dægradvöl?

Dægradvöl er staður þar sem börn geta verið eftir að skóla lýkur á daginn þar til klukkan fjögur, í öruggu umhverfi en samt látin bera ábyrgð sem hæfir aldri þeirra og þroska.  Um er að ræða frítíma þeirra og aðstoðar starfsfólk það við að fara á réttum tíma í skipulagðar tómstundir eða skapa þeim rými fyrir frjálsan leik.

Ég er menntaður tómstunda og félagsmálafræðingur og í námi mínu var lögð mikil áhersla á að við værum að vinna að því að gera frítíma barnanna betri því jú þetta er þeirra frítími og það á að vera þeirra val hvað þau gera í þessum tíma. Í Dægradvöl er hægt að gera ýmislegt sér til skemmtunar og dundurs eins og að perla eitthvað fallegt, það er í boði að teikna og eða föndra. Einnig er playmó, legó, barbie, dúkkur og fleira dót í boði. Við spilum, púslum og förum leiki. Við viljum að börnum líði vel, stuðlum að auknum þroska barna og leggjum mikla áherslu á að auka sjálfstæði þeirra, ábyrgðartilfinningu og virkni í félags- og tómstundastarfi. Við viljum að allir fái sömu tækifæri og við veitum faglega og góða þjónustu.

Til þess að leyfa ykkur að fá innsýn í starfið þá ákvað ég að setja hér upp hvernig einn dagur gengur fyrir sig.

Tökum mánudag sem dæmi, börnin koma til okkar úr skólanum sjálf og við merkjum við hvert og eitt barn, ef það kemur fyrir að barn skilar sér ekki þá förum við út að leita og oftast finnum við börnin hér fyrir utan ef ekki þá hringjum í foreldra. Kaffitímann okkar reynum við að hafa frá  14:15 til 14:45, en oft dregst hann til 15:00 þar sem það getur tekið langan tíma að gera rúmlega 70 börnum að borða.

Á mánudögum byrja strákarnir í 2. bekk á því koma inn ganga þeir frá dótinu sínu í fatahengið og fara í grunnþjálfun 13:50.  Kl 14:30 sendum við stelpur í 2. bekk í grunnþjálfun, 15:10 sendum við 1. bekkjar stráka í grunnþjálfun og 15:50 fer síðasti hópur dagsins sem eru stelpur í  1. bekk í grunnþjálfun.  Þetta gengur svona  alla daga, einnig sendum við hópa í sund, ballet og tónlistarskóla, það er því mikið að gera á stóru heimili en við viljum einmitt að börnunum líði líkt og heima hjá sér.

Við skiptum öllum börnunum reglulega í 9  hópa og við förum með tvo hópa á dag í annað umhverfi til þess að minnka álag og hávaða uppi. Við erum með afnot af herbergjum í félagsmiðstöðinni þar sem hægt er að kubba, spila, teikna og margt fleira. Þá höfum við í gegnum tíðina farið  í vettvangsferðir og í vetur verður farið með þessa hópa í ferðir víða um bæinn. Ábyrgðin á hverjum hópi fyrir sig og hvað hann gerir er hjá þeim starfsmanni sem hefur umsjón með hópnum þá vikuna. Ég vona að fólk sé einhverju nær um starfið í Dægradvöl en hvet foreldra barna sem eru þar í dag eða foreldra sem eiga börn sem koma næsta vetur og vilja kynna sér starfið betur að vera í sambandi við mig í síma 4508059, í gegnum netfangið estherosk@isafjordur.is eða bara koma til okkar í heimsókn.

Esther Ósk Arnórsdóttir
Tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar