VALMYND ×

Fréttir

Kynning á Reykjum

Á hverju ári fara nemendur 7. bekkjar í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Það er mikil spenna fyrir þessari ferð og það er hefð fyrir því að krakkarnir kynni sína ferð fyrir nemendum 6. bekkjar þegar skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fer fram. Þessi hópur vann að kynningu fyrir 6.bekk.

Stóra upplestrarkeppnin - Skólakeppni

1 af 4

Venju samkvæmt á þessum árstíma þá er Stóra upplestrarkeppnin. 

Keppnin á fastan sess í skólanum hjá okkur og hafa nemendur 7. bekkjar verið að æfa sig mikið undanfarið. 

Í síðustu viku kepptu krakkarnir í sínum bekkjum og svo í dag voru 16 nemendur sem lásu ljóð og texta úr bók fyrir 6. bekkinga, foreldra og forráðamenn. 

Þeir nemendur sem munu keppa fyrir hönd skólans eru Anna Margrét Gísladóttir, Anna Ásgerður Hálfdánsdóttir, Elna Kristín Líf Karlsdóttir,  Esja Rut Atladóttir, Gabríela Rún Rodriguez, Guðrún María Johanson, Iðunn Ósk Bragadóttir, Katrín Dalía Daníelsdóttir, Sunna Adelía Stefánsdóttir, Ylfa K. Rósinkara Tómasdóttir, 

Dómarar að þessu sinni voru Herdís Hübner, Kristín Svanhildur Ólafsdóttir og Rannveig Halldórsdóttir. Lokakeppnin fer fram í Hömrum í mars.

 

Spennandi Bókaklúbbur

Þessa vikurnar er í gangi bókaklúbbur á bókasafninu. Klúbburinn á við bækurnar um Heyrðu Jónsa og Binnu Bjarna og til að taka þátt fær barnið lítið hefti sem er merkt með nafni og bekk. Inni í heftinu eru ferningar og fyrir hverja lesna bók getur barnið valið sér mynd í stíl við myndina á kápunni á bókinni sem er lesin.
Litla myndin er svo límd inn í heftið. Bækurnar um Jónsa og Binnu Bjarna eru mjög margar og afar vinsælar, enda hefur klúbburinn slegið í gegn nú þegar.

4. bekkur í myndmennt

4. bekkur er að vinna í flettibókunum sínum.

Þau efla hér sjálfstæði í vinnubrögðum og hleypa hugmyndafluginu af stað með því að gera hreyfimyndasögur með teikningu og litum.

1. og 2. bekkur í tæknimennt

1 af 2

Nemendur í 1. og 2. bekk hafa verið að vinna að ýmsum verkefnun í tæknimennt. 

1. bekkur hefur verið að búa til vorblóm til þess að stinga í blómapotta. Blómin voru söguð út úr krossvið með útsögunarsög, pússuð og máluð. Viðarstilkurinn var tússaður og fúavarinn. 

2. bekkur hefur verið að búa til myndastand úr krossvið, þvottaklemmu, tréstöng og furukubb. Sagaður með útsögunarsög, pússaður og málaður. Þau teiknuðu einfalt form, umræða var um form í umhverfinu og hvernig best væri að nýta krossviðinn. Fengu útprentaða mynd sem tekin var af þeim í tæknimennt til að festa á klemmuna. 

Samráðsdagur

Í dag er samráðsdagur og því ekki hefðbundinn skóli. Nemendur mæta með foreldrum/forráðamönnum sínum í viðtal. 10. bekkur er með vöfflusölu í fjáröflunarskyni. 

Bingó á bókasafni

Á bókasafninu er hitt og þetta gert til að hvetja börnin til lesturs. Eitt af því eru ýmiskonar bingó, annarsvegar þematengt og hinsvegar stórt bingó sem nær yfir 1-2 mánuði. Þematengda bingóið tengist bókunum í kósýhorninu á bókasafninu, en þar hafa verið bækur tengdar þjóðsögum og tröllum eins og hæfir í myrkum janúarmánuði. Börn og unglingar hafa verið dugleg við að henda sér af fullum krafti í það bingó og skoðað ýmsar furðuverur í leiðinni. 

Langa bingóið snýst um að lesa bækur sem eru til dæmis eftir kvenkyns rithöfund, bók sem byrjar á S, bók sem er með gula forsíðu, bók sem er lengri en 100 blaðsíður og ýmislegt í þeim dúr. Börnin hafa þannig nokkuð frjálst val um hvaða bækur þau velja að lesa, og hversu erfiðar eða þungar þær eru. Fyrir hverja lesna bók má setja X yfir þann reit í bingóspjaldinu. Þegar allt spjaldið hefur verið fyllt út og þannig 24 bækur lesnar, getur barnið komið með spjaldið á bókasafnið í næstu eyðu eða frítíma og fengið tölvutíma að launum. Að vera í tölvunni á bókasafninu er afar vinsælt og á þennan hátt hvetjum við til lesturs, drögum örlítið úr tölvutímanum, en gefum krökkunum um leið tækifæri til að vinna sér inn umbun. 

Í næsta mánuði tekur við nýtt þema en það er vinátta og bækur sem tengjast vináttu af ýmsu tagi. Endilega spyrjið börnin út í þemað og bingóið og hvetjið þau til að vera með.

Pönnukökulagið

Í dag var frumflutt í skólanum Sólarpönnukökulagið eftir Gylfa Ólafsson. Æfing og flutningur var í samstarfi við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ásta Kristín Pétursdóttir hefur verið fulltrúi TÍ hér í skólanum í verkefninu syngjandi skóli sem er í 1.-4. bekk. Rúna Esradóttir og Dagný Hermannsdóttir sjá um kórana hjá TÍ og Madis Maekalle stjórnaði blásurum. Höfundur verksins spilaði undir á flygilinn. Foreldrum var boðið að koma og fylgjast með flutningum.

Nýtt merki skólans

Það hefur lengi staðið til að skólinn eignist sitt merki og nú er komið að því.  Ágúst Atlason, margmiðlunarhönnuður og ljósmyndari, hannaði merkið og erum við ánægð með útkomuna.