VALMYND ×

Fréttir

Haustferðir, fjallgöngur og skólabúðir

1 af 2

Fyrsta kennsluvika skólaársins hefur verið lífleg, fjölbreytt og skemmtileg. 7.bekkur fór í Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og stór hluti 8.bekkjar fór í fermingarbúðir í Vatnaskógi. Eins og flestir vita fara allir árgangar skólans í fjallgöngur á hverju hausti og luku 5., 6. og 10. bekkur sínum ferðum nú í vikunni. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst helstu fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell, svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur 10. bekkjar hafa svo siglt yfir í Jökulfirði og gengið þaðan, gist í tjöldum yfir nótt og komið til baka daginn eftir. Þetta árið var siglt til Hesteyrar og gengið þaðan yfir að Látrum, sem er u.þ.b. 14 km. leið. Þar var gist eina nótt í tjöldum við Sólvelli og siglt svo til baka um hádegið daginn eftir.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda, seiglu og virðingu fyrir umhverfinu.

Það er gaman að rifja það upp að í fyrra fékk Grunnskólinn á Ísafirði Íslensku lýðheilsuverðlaunin fyrir þetta fjallgönguverkefni sitt, sem okkur telst til að hafi verið allt frá árinu 1996 eða í 29 ár.

 

7.bekkur kominn að Reykjum

Nú um hádegið kom 7.bekkur að Reykjum í Hrútafirði, þar sem hann mun dvelja fram á fimmtudag í skólabúðum UMFÍ. Lögð verður áhersla á félagsfærni, samskipti og samveru og fá nemendur tækifæri til þess að efla leiðtogahæfni sína og sjálfsmynd og vinna með styrkleika sína. Við vonum að krakkarnir njóti dvalarinnar og komi sterkari inn í veturinn.

 

Strætóferðir

Ferðir strætisvagna verða frá Hnífsdal og úr firðinum kl. 7:40 í vetur og til baka frá skóla kl. 13:15, 14:00 og 14:40. Gæsla verður með yngstu nemendunum frá skóla kl.13:15.

Skólasetning

Skólasetning fer fram föstudaginn 22. ágúst næstkomandi. Nemendur mæta í matsal skólans sem hér segir:

kl. 9:00    2. - 4. bekkur

kl. 9:30    5. - 7. bekkur

kl. 10:00   8. - 10. bekkur

Nemendur fyrsta bekkjar eru boðaðir sérstaklega með foreldrum í gegnum fundaboð Mentor.

Hlökkum til að sjá ykkur öll!

Skólaslit

Grunnskólanum á Ísafirði var slitið í 150. skipti miðvikudaginn 4. júní og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Jón Hálfdán Pétursson, deildarstjóri unglingastigs setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Birnir Snær Heiðarsson og Saga Björgvinsdóttir, nemendur í 9.bekk.

Guðbjörg Halla Magnadóttir skólastjóri, flutti ávarp. Þá fluttu Axel Vilji Bragason og Ásthildur Elma Stefánsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Nemendur buðu upp á tvö tónlistaratriði. Jökull Eydal og Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir spiluðu fjórhent á píanó, lögin Krummavísur og Á sprengisandi í útsetningu Ísfirðingsins Vilbergs Viggóssonar.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Pétur Arnar Kristjánsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Árni Fannar Finneyjarson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir í 10. bekk og hana hlaut Friðrikka Líney Sigurðardóttir.

 

Kvenfélagið Hvöt gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Sylvía Rán Franklín Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir listræna hæfileika, jákvæðni og áhugasemi í myndmennt hlaut Soffía Rún Ívarsdóttir.

Viðurkenningu fyrir brennandi áhuga, kraft og dugnað í heimilisfræði hlaut Zuzanna Majewska.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í smíði og hönnun hlaut Axel Leví Marteinsson.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Dagný Emma Kristinsdóttir og Einar Orri Einarsson .

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun, vinnusemi, góð skil og framfarir í dönsku og hlaut Jökull Eydal þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Vésteinn Guðjónsson.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Sylvía Rán Franklín Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Aram Nói Norðdahl Widell.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Dýri Hjörleifsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Aram Nói Norðdahl Widell.

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráði hlutu þeir Þórir Karl Sigurðsson.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2009 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 

Skólaslit 4. júní

Á miðvikudaginn verður Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 150. sinn, í matsal skólans.

Kl. 09.00 - 1.og 2. bekkur

Kl. 09.30 - 3. og 4. bekkur

Kl. 10.00 - 5. - 7. bekkur

Kl. 20.00 - 8. - 10. bekkur, í Ísafjarðarkirkju. Nemendur og forráðamenn 8. og 9. bekkjar sitja uppi ásamt kennurum. 

Hjálmar í 1. bekk

Það voru glaðir og kátir nemendur sem fóru út í vorið með nýju hjálmana sína.

Eimskip, í samstarfi við Kiwanishreyfinguna á Íslandi, afhendir hjálma til allra barna í 1. bekk á Íslandi. Samstarf Kiwanis og Eimskips hefur staðið yfir frá árinu 2004 og hafa verið afhentir yfir 90.000 hjálmar á þessum árum.

 

Pangea

Í vetur tóku nemendur 8. og 9. bekkjar þátt í Pangea stærðfræðikeppni sem er fyrir alla nemendur áttundu og níundu bekkja grunnskóla landsins. Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.

Öll vinna við skipulagningu og framkvæmd keppninnar er unnin af sjálfboðaliðum úr Félagi Horizon og raungreina- og verkfræðinemum. Kennarasamband Íslands hefur verið skipuleggjendum innan handar við gerð prófanna.

Nú er ljóst að einn nemandi G.Í. komst í úrslit Pangeu 2025. Það er hún Svaha Halldórsdóttir. Þetta er frábær árangur hjá henni og erum við innilega stolt af henni og óskum henni góðs gengis í úrslitakeppninni, sem haldin verður 17.maí í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Skólahreysti

Nemendur úr Grunnskólanum á Ísafirði stóðu sig vel í Skólahreysti 6. maí og urðu í 2. sæti í sínum riðli með 35 stig og Íslandsmet í hreystigreip þar að auki. 

 

Landsmótið í skólaskák á Ísafirði

1 af 4

Landsmótið í skólaskák fór fram um helgina á Ísafirði. Landsmótið er keppni sterkustu ungmenna allra landshluta Íslands og er eitt af sögufrægustu skákmótum landsins. Mótið stóð yfir dagana 3. og 4. maí og teflt var í þremur aldurskiptum flokkum, 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Tólf keppendur eru í hverjum flokki og tefla allir við alla með atskákartímamörkum, 15+5.

Keppendur frá Grunnskólanum á Ísafirði voru 5 að þessu sinni og stóðu sig mjög vel. 

Samúel Máni fékk 6 vinninga í yngsta flokki og hlaut landsbyggðarverðlaunin.
Pétur Ívar fékk 1 vinning í yngsta flokki.
Karma fékk 9.5 vinninga í miðflokki og hlaut verðlaun fyrir annað sæti.
Nirvaan fékk 6 vinninga í miðflokki og hlaut landsbyggðarverðlaunin.
Sigurjón Kári fékk 2 vinninga í elsta flokki.