VALMYND ×

Fréttir

Litlu jól og jólaleyfi

Á morgun, föstudaginn 19.desember eru litlu jólin haldin frá kl. 9:30-12:00. Að því loknu hefst jólaleyfi nemenda.

Kennsla hefst á nýju ári þriðjudaginn 6.janúar kl. 10:00. 

Starfsfólk skólans óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.

Nýyrðakeppni

1 af 2

Íslenskuteymi kennara skólans ákvað í haust að halda nýyrðakeppni í tilefni af Degi íslenskrar tungu 16.nóvember síðastliðinn. Nemendur voru fræddir sérstaklega um Jónas Hallgrímsson og framlag hans til nýyrða í íslensku þess tíma. Sem dæmi um nýyrði hans má nefna orðin aðdráttarafl, sporbaugur og fjaðurmagnaður.
Í framhaldi af því voru nemendur fengnir til að spreyta sig á nýyrðasmíði. Hugmyndirnar voru teknar saman ásamt útskýringum og að lokum kosið um besta orðið.

Besta nýyrðið á miðstigi var orðið þrætustubbur. Það merkir manneskju sem þrætir of mikið. Höfundar þess orðs eru þær Kristín Dóra Aradóttir, Maya Esí Badu og Vilborg Rakel Guðmundsdóttir.

Besta nýyrðið á unglingastigi átti Helga Karen Haraldsdóttir í 10.GJ, en það var orðið orðdregin, sem merkir að þú sért orðlaus eða veist ekki hvað þú átt að segja.

Halla Magnadóttir, skólastjóri, afhenti verðlaunahöfum viðurkenningar í morgun fyrir þessi nýju orð. Snerpa gaf vinningshöfum bakpoka og Hamraborg vinatilboð og þökkum við þeim kærlega fyrir um leið og við óskum höfundum svo og öllum þátttakendum innilega til hamingju. 

 

Útikakó

1 af 4

Í morgun var nemendum boðið upp á heitt kakó og smákökur í frímínútunum. Góð stund sem fest hefur verið í sessi á aðventunni hjá okkur og kunnu nemendur vel að meta framtakið.

Frakklandsferð nemenda

1 af 2

Frétt frá nemendum í Erasmus+ vali:

Mánudaginn 24.nóvember fóru átta nemendur ásamt tveimur kennurum í Grunnskólanum á Ísafirði til Frakklands í ferð á vegum Erasmus+. Hópurinn þurfti að vakna eldsnemma og hittast á BSÍ kl. 4:15. Þau tóku rútu til Keflavíkur og svo flugið til Frankfurt, sem var 3,5 klst. Eftir það fóru þau í lest frá Frankfurt til Strassborg og svo með tramminu á hótelið. Hópurinn hitti nemendur og starfsfólk úr samstarfsskólunum okkar frá Þýskalandi og Portúgal áður en þau fóru í kvöldmat.

Á þriðjudeginum fóru þau í Evrópuráðið og fengu að vita ýmislegt um störf fólks þar. Svo kom Gréta Gunnarsdóttir, sem er fulltrúi Íslands í Evrópuráðinu, og sagði hópnum frá starfinu sínu. Seinni partinn fór hópurinn í ratleik þar sem nemendum var skipt í hópa með Þjóðverjunum og Portúgölunum.

Á miðvikudeginum fór hópurinn í Alsace-Moselle memorial og þar lærðu þau ýmislegt um sögu heimsstyrjaldanna. Eftir hádegið fór hópurinn í bátsferð um Strassborg þar sem þau lærðu um sögu borgarinnar.

Á fimmtudeginum fór hópurinn á Evrópuþingið að hlusta á þingmenn rökræða um loftslagsbreytingar í The Hemicycle og svo að hitta Dr. Peter Liese, sem er einn af fulltrúum Þýskalands á þinginu. Liese talaði um vandamálin sem hann sér um að leysa í Evrópu og hvernig það er að vera þingmaður á Evrópuþinginu. Seinna um daginn var farið að skoða og versla á jólamarkaðinum, sem er einn sá allra flottasti í Evrópu.

Á föstudeginum var mjög rólegur dagur, þau kvöddu Þjóðverjana um morguninn og löbbuðu svo að fallegu kirkjunni sem var nálægt hótelinu. Eftir það var farið í verslunarleiðangur í miðbænum, hádegismatur á McDonald's og svo var afslöppun á hótelinu fyrir lokakvöldverð ferðarinnar.

Allur hópurinn vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgni og fór með tramminu á lestarstöðina. Þar borðuðu þau morgunmat og tóku tvær lestir til Frankfurt á flugvöllinn þar. Klukkan var um fjögur þegar þau lentu á Íslandi, svo var farið með rútu á BSÍ og þá var þessari frábæru ferð lokið.

 

Heimsóknir á Byggðasafn Vestfjarða

2.bekkur á Byggðasafninu
2.bekkur á Byggðasafninu

Síðustu daga hafa margir bekkir farið í heimsókn á Byggðasafnið í Neðsta kaupstað. Þar hefur Sæbjörg Freyja Gísladóttir, safnvörður tekið á móti hópum og sagt ýmsar sögur af jólasveinum, Grýlu og ísbjörnum. Elfar Logi Hannesson, leikari las kvæði um eldgamla jólasveina sem sjaldan er talað um í dag. Svo voru nokkur jólalög sungin við undirleik Magna Hreins Jónssonar, sem spilaði á harmonikku. Að lokum var boðið upp á þrautaleik um safnið og hægt að finna ilm af hangikjöti, Grýlu og floti svo dæmi séu nefnd. Nemendum og starfsfólki hefur þótt afar skemmtilegt í þessum heimsókn og kunna safninu bestu þakkir fyrir góðar, skemmtilegar og fræðandi móttökur. 

Spurningakeppni á miðstigi

Nemendur 7. og 6. bekkjar kepptu til úrslita
Nemendur 7. og 6. bekkjar kepptu til úrslita

Í haust var farið af stað með spurningakeppnina ,,Ég veit" á miðstigi. Keppnin gekk út á það að 5.-7. bekkur fékk bókalista og ákveðinn tíma til að lesa þær bækur. Eftir þann tíma valdi hver bekkur þrjá þátttakendur til keppni fyrir sína hönd.

Á bókalistanum voru bækurnar Benjamín Dúfa eftir Friðrik Erlingsson, Baukað og brallað í Skollavík eftir Guðlaugu Jónsdóttur, Ferðin til Samiraka eftir Hörpu Jónsdóttur, Frosnu tærnar eftir Sigrúnu Eldjárn, Henri og hetjurnar eftir Þorgrím Þráinsson, Hingað og ekki lengra eftir Hildi Knútsdóttur, Lending eftir Hjalta Halldórsson, Orri óstöðvandi: heimsfrægur á Íslandi eftir Bjarna Fritzson, Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur.

Öll liðin kepptu sín á milli í stigakeppni og komust tvö stigahæstu liðin í úrslitakeppnina sem haldin var í morgun í sal skólans. Það voru lið 6. og 7. bekkjar sem kepptu sín á milli og lauk keppni þannig að 6.bekkur sigraði með eins stigs mun eftir hörku spennandi viðureign. 6.bekkur hreppti þannig Vitann í ár, sem er farandbikar. Einnig fékk sigurliðið bókina Skólastjórinn, eftir Ævar Þór Benediktsson, að gjöf frá Pennanum og þökkum við kærlega fyrir rausnarlega gjöf. 

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju og öllum nemendum miðstigs með drengilega keppni og dugnað við lesturinn.

Desemberlestur

Grunnskólinn á Ísafirði kallar eftir heimalestrarátaki í desember. Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir grunnskólabörn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri.

Það er öllum ljóst að lestur:

  • Bætir lestrarfærni -  reglulegur heimalestur styrkir lesfimi, skilning ogorðaforða.
  • Eykur einbeitingu og hugsun - lestur þjálfar athygli og ímyndunarafl.
  • Skapar lestraráhuga - þegar börn fá að velja bækur sem þau hafa áhuga á
    verða þau líklegri til að njóta lestrar.
  • Bætir námsárangur - góð lestrarfærni nýtist í öllum námsgreinum.
  • Þroskar skilning og samkennd -með lestri læra börn um aðra menningu,
    líf og sjónarhorn.

Rannsóknir sýna að börn sem lesa í að minnsta kosti 15 mínútur á dag læra hundrað ný orð á ári. Þessi aukni orðaforði hjálpar í ritun, lesskilningi og samtölum. Sá bekkur á hverju stigi sem les hæstan mínútufjölda að meðaltali í
desember mun fá verðlaun fyrir góðan árangur í heimalestrarátakinu.

Lögreglan í heimsókn

Þær Ingibjörg og Pálína ræddu við 3. og 4. bekk í dag
Þær Ingibjörg og Pálína ræddu við 3. og 4. bekk í dag

Þessa dagana er samfélagslögreglan í heimsóknum hjá okkur og kom hún í 3. og 4. bekk í dag. Markmið heimsóknanna er að miðla upplýsingum um öryggi og forvarnir, ásamt því að byggja upp traust meðal barna og ungmenna. 

 

 

Dagur íslenskrar tungu

1 af 4

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag og af því tilefni var Stóra upplestrarkeppnin hjá 7.bekk sett formlega og einnig Litla upplestrarkeppnin hjá 4. bekk. Athöfnin fór fram í Hömrum og stýrði Guðbjörg Halla Magnadóttir, skólastjóri, dagskránni. Elna Kristín Líf Karlsdóttir úr 8.bekk las ljóð, en hún stóð sig afar vel í Stóru upplestrarkeppninni í fyrra. Þá lék Gunnsteinn Skúli Helgason lag á gítar eftir Emmsjé Gauta og gerði það af miklu öryggi.

Í lokin sungu svo allir saman lagið Á íslensku má alltaf finna svar, lag Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Þórarins Eldjárns, við undirleik Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. 

Vel heppnuðum þemadögum lokið

Síðustu tvo daga voru þemadagar hjá okkur undir yfirskriftinni ,,Hafið". Nemendur fengust við fjölbreytt verkefni og má sjá stóran hluta afrakstursins á göngum skólans. Einhverjir hópar nemenda fór í heimsókn til Kerecis, þar sem var sérstaklega vel tekið á móti þeim, einhverjir fóru í fjöruferð, stórfiskaleik, krufðu fiska og fleira og fleira.

Þemadagar sem þessir stuðla að betri umhverfisvitund og skilningi á náttúruvísindum og hlutverki þeirra innan nútíma samfélags, sem er stór þáttur í þroska og menntun barna og unglinga. Einnig eflist samstarf nemenda og félagsfærni, auk þess sem samblöndun hópa og samvinna hefur forvarnargildi gegn einelti, en dagur gegn einelti er einmitt 8. nóvember ár hvert.

Við erum virkilega stolt af nemendum okkar og starfsfólki, sem gerðu þemadaga þessa jafn skemmtilega og áhugaverða og raun ber vitni. Við hvetjum foreldra til að líta við hjá okkur í næstu viku og sjá afrakstur þessara daga.