VALMYND ×

Fréttir

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Ólympíuhlaup ÍSÍ (áður Norræna skólahlaupið) hefur verið fastur liður í skólastarfinu á haustin. Með því er leitast við að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan. Í morgun hlupu nemendur yngsta stigs G.Í. frá Bæjarbrekku, inn að Engi og til baka. Miðstigið hljóp að Seljalandi og til baka og unglingastigið inn að Golfskálanum í Tunguskógi og til baka. Í hlaupinu er ekki keppt um hraða, heldur fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt sem það geta.

Nemendur létu veðrið ekki stöðva sig þó hitastigið sé ekki nema 4 gráður. Það er hressandi að hlaupa við þær aðstæður vel búinn og njóta hreyfingar og útiveru.

Gjöf frá árgangi 1969

Helga aðstoðarskólastjóri tekur við hljóðnemunum úr hendi Hörpu Stefánsdóttur
Helga aðstoðarskólastjóri tekur við hljóðnemunum úr hendi Hörpu Stefánsdóttur
1 af 4

Síðastliðinn laugardag hittist árgangur 1969 og færði Ísafjarðarbæ fallega fjólubláan bekk, til styrktar Alzheimersamtökunum. Bekkurinn er staðsettur við Eyri, þaðan sem er fagurt útsýni yfir pollinn. Árgangurinn lét ekki þar við sitja, heldur færði Grunnskólanum á Ísafirði 3 þráðlausa hljóðnema, sem koma sér einstaklega vel í félagsstarfi nemenda. Það er ómetanlegt fyrir skólann að eiga velunnara úti í samfélaginu og hefur hann oft þegið góðar gjafir sem þessa og kunnum við árgangi 1969 bestu þakkir fyrir.

Afhending gjafanna var við bekkinn góða, þar sem Maraþonmenn tóku tvö lög og létu veðrið ekki á sig fá, þó lognið hafi verið á talsverðri hraðferð þann daginn.

 

Lestrarátak

Læsi er lykillinn að öllu námi og mjög mikilvægt að allir geti lesið sér til gagns. Til að hvetja nemendur enn frekar til lesturs hefur skólinn nú skráð sig til leiks í lestrarátak 1.-7. bekkjar, þar sem allir skólar á landinu geta tekið þátt og keppt um það hvaða skóli les mest. Lestrarátakið nefnist Svakalega lestrarkeppnin og fer fram á tímabilinu 15.september - 15.október 2025. Keppnin var haldin í þremur landshlutum í fyrra og fékk gríðarlega góðar viðtökur og gekk frábærlega. Tilgangurinn með keppninni er að hvetja sem flesta krakka til að lesa skemmtilegar bækur og sýna að öll börn geta verið flottar fyrirmyndir í lestri. Við vonumst til að foreldrar láti ekki sitt eftir liggja og verði duglegir að hvetja börn sín til lestrariðkunar og sýni átakinu þannig áhuga. Áfram GÍ!

Rýmingaræfing

Það er að mörgu að hyggja á vinnustað með um 500 manns innanhúss. Eitt mikilvægasta atriðið í skólastarfinu er öryggi allra og þurfum við að vera undirbúin fyrir ýmsar aðstæður sem upp geta komið. Liður í þeim undirbúningi er æfing á rýmingu húsnæðiss ef viðvörunarkerfi fer í gang. Það er mikilvægt að rýming gangi fumlaust fyrir sig og allir þekki sína útgönguleið með tilliti til flóttaleiða og viti af sínu söfnunarsvæði. Þetta æfðum við í morgun undir stjórn Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar. Æfingin gekk eins og best verður á kosið og veðrið lék við okkur, sem gerir allt ferlið þægilegra.

Í framhaldi af æfingu sem þessari er svo farið yfir rýmingaráætlunina í heild og bætt úr hnökrum ef einhverjir eru.

Valgreinar á miðstigi

Í vetur líkt og undanfarin ár er boðið upp á 3 tíma í svokölluðum Hræringi, eða valgreinum á miðstigi. Hræringurinn er kenndur í fjórum lotum, sem þýðir það að hver nemandi kemst í 8 valgreinar yfir veturinn.  Á hverju ári er reynt að brydda upp á nýjungum meðfram rótgrónum og vinsælum viðfangsefnum. Í vetur bjóðum við upp á Bestu lögin, Borðspil, FabLab, Frjálsar íþróttir, Hreyfingu og fræðslu, Leiklist, Listsköpun með pappamassa, Útivist í nærumhverfi, Sprengjum ímyndunaraflið (tilraunasmiðja), og Ræktun: íslenskur matur og menning. Allar þessar greinar eru kenndar á miðvikudögum í tvöfaldri kennslustund.

Á föstudögum er svo einfaldur tími, þar sem boðið er upp á: Gefðu gömlum fötum nýtt líf, Klassíska list, Lestur og hlustun, Pílu, Skák, Skólahreysti, Skrautskrift, Tálgun og útskurð, Útivist og leiki og Ævintýrasmiðju - lífsleikni og hópefli.

Eins og sjá má á framangreindum lista eru viðfangsefnin fjölbreytt og reynir á lykilhæfni s.s. tjáningu, skapandi og gagnrýna hugsun, sjálfstæði og samvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Það er reynsla okkar af Hræringnum að nemendur kunni vel að meta hann og hann hjálpi nemendum að finna og efla sín áhugasvið.

Haustferðir, fjallgöngur og skólabúðir

1 af 2

Fyrsta kennsluvika skólaársins hefur verið lífleg, fjölbreytt og skemmtileg. 7.bekkur fór í Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og stór hluti 8.bekkjar fór í fermingarbúðir í Vatnaskógi. Eins og flestir vita fara allir árgangar skólans í fjallgöngur á hverju hausti og luku 5., 6. og 10. bekkur sínum ferðum nú í vikunni. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst helstu fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell, svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur 10. bekkjar hafa svo siglt yfir í Jökulfirði og gengið þaðan, gist í tjöldum yfir nótt og komið til baka daginn eftir. Þetta árið var siglt til Hesteyrar og gengið þaðan yfir að Látrum, sem er u.þ.b. 14 km. leið. Þar var gist eina nótt í tjöldum við Sólvelli og siglt svo til baka um hádegið daginn eftir.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda, seiglu og virðingu fyrir umhverfinu.

Það er gaman að rifja það upp að í fyrra fékk Grunnskólinn á Ísafirði Íslensku lýðheilsuverðlaunin fyrir þetta fjallgönguverkefni sitt, sem okkur telst til að hafi verið allt frá árinu 1996 eða í 29 ár.

 

7.bekkur kominn að Reykjum

Nú um hádegið kom 7.bekkur að Reykjum í Hrútafirði, þar sem hann mun dvelja fram á fimmtudag í skólabúðum UMFÍ. Lögð verður áhersla á félagsfærni, samskipti og samveru og fá nemendur tækifæri til þess að efla leiðtogahæfni sína og sjálfsmynd og vinna með styrkleika sína. Við vonum að krakkarnir njóti dvalarinnar og komi sterkari inn í veturinn.

 

Strætóferðir

Ferðir strætisvagna verða frá Hnífsdal og úr firðinum kl. 7:40 í vetur og til baka frá skóla kl. 13:15, 14:00 og 14:40. Gæsla verður með yngstu nemendunum frá skóla kl.13:15.

Skólasetning

Skólasetning fer fram föstudaginn 22. ágúst næstkomandi. Nemendur mæta í matsal skólans sem hér segir:

kl. 9:00    2. - 4. bekkur

kl. 9:30    5. - 7. bekkur

kl. 10:00   8. - 10. bekkur

Nemendur fyrsta bekkjar eru boðaðir sérstaklega með foreldrum í gegnum fundaboð Mentor.

Hlökkum til að sjá ykkur öll!

Skólaslit

Grunnskólanum á Ísafirði var slitið í 150. skipti miðvikudaginn 4. júní og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Jón Hálfdán Pétursson, deildarstjóri unglingastigs setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Birnir Snær Heiðarsson og Saga Björgvinsdóttir, nemendur í 9.bekk.

Guðbjörg Halla Magnadóttir skólastjóri, flutti ávarp. Þá fluttu Axel Vilji Bragason og Ásthildur Elma Stefánsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Nemendur buðu upp á tvö tónlistaratriði. Jökull Eydal og Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir spiluðu fjórhent á píanó, lögin Krummavísur og Á sprengisandi í útsetningu Ísfirðingsins Vilbergs Viggóssonar.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Pétur Arnar Kristjánsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Árni Fannar Finneyjarson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir í 10. bekk og hana hlaut Friðrikka Líney Sigurðardóttir.

 

Kvenfélagið Hvöt gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Sylvía Rán Franklín Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir listræna hæfileika, jákvæðni og áhugasemi í myndmennt hlaut Soffía Rún Ívarsdóttir.

Viðurkenningu fyrir brennandi áhuga, kraft og dugnað í heimilisfræði hlaut Zuzanna Majewska.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í smíði og hönnun hlaut Axel Leví Marteinsson.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Dagný Emma Kristinsdóttir og Einar Orri Einarsson .

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun, vinnusemi, góð skil og framfarir í dönsku og hlaut Jökull Eydal þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Vésteinn Guðjónsson.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Sylvía Rán Franklín Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Aram Nói Norðdahl Widell.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Dýri Hjörleifsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Aram Nói Norðdahl Widell.

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráði hlutu þeir Þórir Karl Sigurðsson.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2009 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.