VALMYND ×

Fréttir

Guðlaug hlýtur hvatningarverðlaun fræðslunefndar

Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs
Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs

Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólastarf voru afhent þann 23. nóvember síðastliðinn.

Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut Guðlaugar Jónsdóttur, Diddu, fyrir heimilisfræðival við Grunnskólann á Ísafirði. Í umsögn nefndarinnar kemur meðal annars fram að Didda hafi einstakt lag á að vekja áhuga nemenda á íslensku hráefni og matargerð, enda er íslensk og vestfirsk matarmenning í hávegum höfð hjá henni. Þá hefur Didda farið óhefðbundnar leiðir í kennslu, meðal annars hefur hún haldið súpusamkeppnir á unglingastigi þar sem nemendur þróa sínar eigin súpur og lærðir kokkar eru fengnir til að sitja í dómnefnd.

Heimilisfræðival Diddu er dæmi um einstaklega vel heppnaða valgrein, sem náð hefur að vaxa og dafna með einstakri nálgun kennara á námsefni og jákvæðu viðhorfi til nemenda. Allt frá því að Guðlaug hóf störf við GÍ hafa valgreinar hennar í heimilisfræði verið mjög vinsælar, bæði á mið- og unglingastigi, og komast færri að en vilja. 

Didda er hlý í framkomu, metnaðarfull og kröfuhörð en með hlýrri nálgun og finnur ýmsar leiðir til að mæta nemendum á þeim stað sem þeir eru staddir.

Þetta er í þriðja sinn sem fræðslunefnd veitir hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf í Ísafjarðarbæ. Árið 2022 hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar verðlaun fyrir verkefnið Samstarf leik og grunnskóla – brú milli skólastiga og Grunnskólinn á Ísafirði fyrir verkefnið Útistærðfræði á unglingastigi. Árið 2021 féllu verðlaunin í skaut Tanga vegna öflugs útináms sem þar er boðið upp á.

Við erum ákaflega stolt af okkar konu og óskum henni innilega til hamingju með þessi verðskulduðu verðlaun.

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag og við það tilefni var Stóra upplestrarkeppnin hjá 7.bekk sett formlega í Hömrum og stýrði Kristján Arnar Ingason, skólastjóri, athöfninni. Lesararnir Jökull Örn Þorvarðarson og Hilmir Freyr Norðfjörð úr 8.bekk lásu sögubrot og ljóð, en þeir stóðu sig afar vel í keppninni í fyrra. Þá léku þær stöllur Saga Björgvinsdóttir og Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir frumsamið lag á píanó og harmóníku. Í lokin sungu svo allir saman lagið Á íslensku má alltaf finna svar, lag Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Þórarins Eldjárns. Bergþór Pálsson lék undir á píanó.

Góðar niðurstöður foreldrakönnunar

Í október s.l. sendum við foreldrum könnun varðandi sex atriði skólastarfsins, þ.e. nám og kennslu, upplýsingamiðlun, úrvinnslu aga- og samskiptavandamála, samskipti við umsjónarkennara, notkun mötuneytisins og samskipti við stjórnendur.

Við úrvinnslu niðurstaðna er unnið út frá skoska sjálfsmatskerfinu Hversu góður er skólinn okkar? (How good is our school) sem einnig er kallað Gæðagreinir. Kerfið er hannað til að stuðla að árangursríku sjálfsmati sem er fyrsta mikilvæga skrefið til umbóta. Notaður er einkunnaskali  frá 1 - 6 sem á að miða að faglegri hæfni fremur en tæknilegri útfærslu. Á þessum skala merkir 1 = ófullnægjandi, 2 = slakt, 3 = fullnægjandi, 4 = gott, 5 = mjög gott og 6 = framúrskarandi. Við setjum okkur það markmið að ná 4 í öllum þáttum, en lægri einkunn þýðir það að úrbóta er þörf sem fyrst.

Það er okkur mjög mikilvægt að rödd foreldra heyrist varðandi skólastarfið og því erum við mjög þakklát þeim 191 sem sáu sér fært að svara könnuninni. Við munum rýna í niðurstöðurnar og gera okkar besta til að bregðast við af fagmennsku. Það er alltaf tækifæri til að gera betur í öllum atriðum. Varðandi niðurstöðurnar erum við sérstaklega ánægð að sjá að mötuneytið okkar fær góða einkunn, en það hefur ekki verið niðurstaðan undanfarið. Áskrifendum hefur fjölgað um 20% frá fyrra vetri, sem segir sitt.

 

 

Nemendafjöldi

Það er alltaf fróðlegt að líta á þróun nemendafjölda við skólann hin síðustu ár. Í dag eru nemendur 389 og er það fjölgun um 5 nemendur frá því í júní s.l.

Stærsti árgangurinn (6.bekkur) er fæddur árið 2012, 48 nemendur í tveimur bekkjadeildum. Minnsti árgangurinn (5.bekkur) er fæddur árið 2013, 27 nemendur í einni bekkjardeild. 

Dagar umburðarlyndis

Síðustu dagar hafa verið tileinkaðir umburðarlyndi og í gær var baráttudagur gegn einelti. Við gleymdum svo sannarlega ekki að fást við þau viðfangsefni og fléttuðum þau saman við þemadagana okkar. Yfirskrift þemadaga var ,,Samfélag" en í öllum samfélögum reynir mikið á samskipti, virðingu og umburðarlyndi. Afrakstur þemadaganna prýðir nú veggi skólans og vonum við að allir sem leið eiga um skólann geti staldrað við og rýnt í hin fjölbreyttu verk sem þar eru og hugsunina að baki þeim.

Í gær fóru nemendur 3. og 4. bekkjar út á Silfurtorg og römmuðu inn viðfangsefni þessara daga með umburðarlyndi og virðingu fyrir öllum að leiðarljósi.

Skertur skóladagur á fimmtudaginn

Vegna sameiginlegrar fræðsludagskrár starfsfólks Ísafjarðarbæjar fellur öll kennsla niður í skólanum eftir hádegið fimmtudaginn 9.nóvember. Nemendur fá allir að borða áður en þeir fara heim, en strætó fer frá skólanum kl. 12:10.

Dagar umburðarlyndis

Barnaheill - Save the children standa að dögum umburðarlyndis 6. - 8. nóvember.  Morgundagurinn er einnig baráttudagur gegn einelti og því tilvalið að minna vel á umburðarlyndi sem er okkur öllum svo mikilvægt. Það ætlum við að gera með því að fagna fjölbreytileikanum og mæta í litríkum fötum í skólann.

Skilgreining Barnaheilla á umburðarlyndi er að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu. Umburðarlyndi snýst um hæfileikann eða viljann til að viðurkenna það sem er frábrugðið því sem maður sjálfur telur rétt.

 

Þemadagar

Á morgun og miðvikudag eru þemadagar í skólanum. Nemendum er þá raðað í 20 hópa, þvert á árganga og verða því um 20 nemendur saman í hóp, u.þ.b. tveir úr hverjum árgangi. Viðfangsefni þemadaga er ,,Samfélag", þar sem nemendur skapa samfélag sem þeir myndu vilja búa í. Það er að mörgu að hyggja þegar skapa þarf sjálfbært samfélag og margar spurningar sem vakna. Við hvað vinnur fólkið? Hvað þarf fólk nauðsynlega til að lifa af? Hvernig fær það mat? En peninga? Hvað með menntun, menningu, húsnæði, heilbrigðismál, skipulagsmál o.s.frv.?

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eru sex grunnþættir menntunar, sem ætlað er að styrkja skólastarfið. Þessir þættir eru læsi, sjálfbærni, sköpun, jafnrétti, heilbrigði og velferð, og lýðræði og mannréttindi. Þemanám er tilvalið til að vinna með alla þessa þætti og höfum við valið okkur söguaðferðina (e. Storyline), sem er kennsluskipulag sem ýtir undir fjölbreytni í kennslu. Hún gefur kennurum og nemendum möguleika á að útfæra viðfangsefnið á skapandi hátt, þannig að allir nemendur geti tekið virkan þátt í verkefninu. Afrakstur skapandi vinnu er ekki eina markmið hennar heldur er það ferlið sem fer af stað sem skiptir ekki síður máli. Það verður því virkilega gaman að sjá útfærsluna á þessum samfélögum sem verða til við þessa vinnu og upplifa sköpunargleðina sem á eflaust eftir að verða allsráðandi.

 

Furðusögur og forynjur

Alexander Dan og Hildur Knútsdóttir. (Mynd: rsi.is)
Alexander Dan og Hildur Knútsdóttir. (Mynd: rsi.is)

Í morgun komu rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Alexander Dan í heimsókn og töluðu við unglingana okkar um störf rithöfunda. Þau eru bæði furðusagnahöfundar og fjölluðu um slíkar sögur í bókmenntum og poppmenningu og hvernig megi nýta íslenskan sagna- og menningararf til að skapa nýstárlegar og spennandi sögur. Furðusagnahöfundar skrifa ekki bara skáldsögur heldur einnig teiknimyndasögur, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki. Fantasían og vísindaskáldsagan eru alls staðar í dægurmenningunni í dag og því möguleikarnir fjölbreyttir og miklir.

Heimsókn þeirra Hildar og Alexanders er í tengslum við verkefnið Skáld í skólum, sem er bókmenntadagskrá fyrir grunn- og leikskóla í boði höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands.

Sjáumst í vetur!

Nú í svartasta skammdeginu er mikilvægt að öryggisútbúnaður allra sé í lagi, ekki síst barna sem eru ekki eins há í loftinu. Því er nauðsynlegt að fara yfir endurskinsmerki á yfirhöfnum og töskum og tryggja að ljós á reiðhjólum séu í lagi svo allir sjáist vel í myrkrinu. Vart þarf að nefna hjálminn sem er skylda samkvæmt lögum.