VALMYND ×

Fréttir

Haustfrí framundan

Næstu tvær vikur verða stuttar,  þar sem komið er að starfsdögum og haustfríi. Þessu er slegið saman þetta árið og starfsmenn geta því nýtt þessa daga til endurmenntunar og munu fara í skólaheimsóknir til Póllands.

Miðvikudagur 18.október - starfsdagur

Fimmtudagur 19.október - starfsdagur

Föstudagur 20.október - haustfrí

Mánudagur 23.október - haustfrí

 

Við vonum að nemendur njóti þessara frídaga og komi endurnærðir til baka.

 

Hafragrautur fyrir 5. og 6. bekk

Frá og með 1. nóvember bjóðum við nemendum í 5. og 6. bekk upp á frían hafragraut kl. 9:00 á morgnana. 7. - 10. bekk hefur staðið þessi fría áskrift til boða frá síðustu áramótum. Í morgun buðum við yngri hópnum upp á graut til kynningar og voru nemendur alsælir með það og vonum við svo sannarlega að sem flestir skrái sig í áskrift sem fyrst. 

Bleikur dagur

Á Bleika deginum hvetjum við nemendur og starfsfólk til að klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Þar sem bleika daginn ber upp á vetrarfrísdag þetta árið, þá ætlum við að taka okkur það bessaleyfi að flýta honum til föstudagsins 13.október.

Íþróttahátíð í Bolungarvík

Á morgun, fimmtudaginn 12. október, fara allir nemendur í 8. -10. bekk á íþróttahátíð í Bolungarvík.
Nemendur fengu að skrá sig í keppnisgreinar og starfsfólk í Bolungarvík skiptir svo öllum sem mæta í fjögur lið. 
Keppni er frá kl. 9:00-19:00 og svo er ball í sal skólans frá kl. 20:00-22:00.

Rútur:
Frá Holtahverfi 8:40 og fer strætóleiðina út í bæ.
Frá skólanum 8:40 og önnur stoppar í Hnífsdal.

Frá Bolungarvík 19:00, eftir keppni - önnur fer inn í fjörð.
Frá Bolungarvík 22:15, eftir ball - önnur fer inn í fjörð.

Þegar keppni er lokið er í boði að fara í sund fyrir ballið. Þeir sem eru skráðir í mat fá nesti sem verður afhent milli 11:30 og 12:30 í anddyri skólans. Frjáls mæting er í fyrsta tíma á föstudag.

Við hvetjum alla nemendur til að mæta í sínum lit (gulur, rauður, grænn eða blár) og að njóta dagsins með virðingu og jákvæðni að leiðarljósi.

Alþjóðlegur dagur kennara

Kennarar eru í forgrunni 5. október ár hvert en þá er Alþjóðadagur kennara haldinn hátíðlegur. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á mikilvægi kennarastarfsins og huga um leið að menntun kynslóða framtíðarinnar.

Við eigum frábæra kennara í skólanum okkar sem daglega mæta margvíslegum áskorunum í störfum sínum og búa yfir  miklum eldmóði og metnaði fyrir hönd sinna nemenda. Fyrir það erum við þakklát. Til hamingju með daginn kennarar!

Rýmingaræfing gekk vel

1 af 2

Í morgun fór fram rýmingaræfing undir styrkri stjórn Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar. Rýming húsnæðisins tók um 2 mínútur, sem er mjög góður tími, en um 440 manns eru í húsi í dag. Veðrið var eins og best var á kosið og gerði það allar aðstæður betri.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur öll að æfa okkur í rýmingu, því flóttaleiðir og söfnunarsvæði þurfa að vera á hreinu svo og hlutverk hvers og eins starfsmanns. Æfingin gekk vel, en við förum ætíð yfir ferlið eftir á og bætum það sem hægt er. 

Foreldraviðtöl

Á morgun, þriðjudaginn 3.október er fyrri foreldradagur/samráðsdagur vetrarins. Nemendur mæta þá með foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara á þeim tíma sem þeir velja sér í Mentor og er engin kennsla þann daginn. 

Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíðin Púkinn stendur nú sem hæst, en hún er ætluð öllum grunnskólabörnum á Vestfjörðum og er sú fyrsta sinnar tegundar á svæðinu. Á hátíðinni er boðið upp á ýmsa viðburði inni í skólum og er þema hátíðarinnar sögur og munu öll börn á svæðinu skrifa sögu um eitthvað sem á daga þeirra dreif nýliðið sumar.

Misjafnt er hvað boðið verður upp á á ólíkum stöðum og á mismunandi skólastigum, en kapp lagt á að eitthvað verði í boði fyrir alla. Nefna má ritlistarsmiðjur, gervigreindar-listasmiðjur, kvikmyndagerðarnámskeið og grímugerð. Hátíðinni lýkur 22. september og verða þá lokahátíðir á Ísafirði, Patreksfirði, Ströndum og í Bolungarvík.

Dansarinn Sigríður Soffía Níelsdóttir kom í heimsókn til okkar í vikunni og kenndi nemendum miðstigs dansspor hátíðarinnar og bauð unglingunum upp á danssýninguna Eldblóm. Í dag og á morgun fá nemendur unglingastigs námskeið í gervigreind, með áherslu á gervigreindina í MidJourney þar sem þátttakendur fara í ferðalag sem eykur sköpunargáfu, ögrar ímyndunarafli og valdeflir þá til að skapa list sem er handan hins hefðbundna. 

Nánari upplýsingar um barnamenningarhátíðina má finna á heimasíðu hennar 

Göngum í skólann

Göngum í skólann 2023 verður sett hátíðlega á morgun, miðvikudaginn 6. september í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ. Þetta er í sautjánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi. 

Grunnskólinn á Ísafirði ásamt fjölda annarra skóla tekur þátt og hefur þátttakendum fjölgað jafnt og þétt með árunum.Fyrst þegar verkefnið fór af stað árið 2007 tóku 26 skólar þátt og í fyrra voru alls 82 skólar skráðir til þátttöku. 

Við vonum svo sannarlega að nemendur og starfsmenn taki virkan þátt í átakinu, sem stendur til 4.október n.k.

Góð stemning á Reykjum

1 af 2

Það er allt gott að frétta af 7.bekkingum í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði. Hópurinn er vel stemmdur og nýtur samverunnar og umhverfisins til hins ýtrasta. Brottför frá Reykjum er kl.17:00 á morgun.