VALMYND ×

Fréttir

Aðeins farið að hvessa

Það er aðeins farið að hvessa og nemendur bráðum búnir með skólann. Allar stöðvar að klárast og mikil gleði búin að vera í skólanum í allan dag. Við viljum beina því til foreldra að fylgjast með hvort yngstu börnin fari ekki á sína staði eftir að skóla lýkur. 

Jól í skókassa

Hið árlega verkefni 7. bekkjar ,,Jól í skókassa" er yfirstaðið. Nemendur fóru með rúmlega 40 kassa í kirkjuna á fimmtudaginn og það var gaman að sjá hversu mikil gleði var á meðal þeirra og hversu stolt þau voru að gefa svona af sér. Þessar jólagjafir munu gleðja börn í Úkraínu eins og undanfarin ár. 

Skelfilegi bókaklúbburinn

Í október var lestrarleikur á bókasafninu sem kallaðist Skelfilegi bókaklúbburinn. Hann snérist um að lesa 10 bækur um Skúla skelfi, skrá þær niður og fá miða fyrir hverja lesna bók. 4. bekkingar tóku þátt af fullum krafti og lásu samtals yfir 200 bækur.

Á hrekkjavöku fengu þau sem tóku þátt viðurkenningu og við erum virkilega stolt af þessum krökkum

Hrekkjavaka í dag

Undafarið hefur mikið verið um að vera hérna í skólanum í tengslum við hrekkjavöku. Nemendur hafa verið að vinna verkefni í mörgum greinum í tengslum við hana og afraksturinn hefur verið sýnilegur á göngum skólans, á bókasafni og fleiri stöðum. Í gær stóð foreldrafélag skólans fyrir hrekkjavökuballi fyrir 1.-7. bekk. Í kvöld verður ball fyrir unglingastigið. 

Vá Vest fyrirlestur í dag kl. 17.00

Við viljum minna á fyrirlesturinn í dag uppi í Menntaskóla kl. 17.00. 

Hildur H. Pálsdóttir hefur farið í marga grunnskóla og framhaldsskóla með fyrirlestur um forvarnir gegn fíkniefnum. Hún nýtir eigin reynslu en hún missti 15 ára gamla dóttur sínu úr neyslu fíkniefna. Hildur mun hitta nemendur í 9.bekk á norðanverðum Vestfjörðum og 1.bekk í Menntaskólanum á Ísafirði í dag með þessa áhrifaríku fræðslu. Við viljum bjóða foreldra og aðra áhugasama velkomna á fyrirlestur hjá henni á þriðjudaginn 29.október kl 17.00 í sal menntaskólans á Ísafirði.
Notum tækifærið, fræðumst, spjöllum og vinnum saman að forvörnum ungmenna.

Útivist og fjallamennska

Í haust bjóðum við upp á val á unglingastigi sem tengist útivist og fjallamennsku. Nemendur hafa farið í gönguferðir, farið í heimsóknir og fleira. Í gær fengu þau kynningu á allskonar klifri, meðal annars klettaklifri og ísklifri. Síðan var farið yfir í Skátaheimilið þar sem krakkarnir fengu að klifra og fengu góða leiðsögn frá Björgvini Hilmarssyni sem hefur sérhæft sig í klifri ásamt öðru sem tengist útivist.  

Snjórinn kominn

Það hefur sannarlega verið mikið stuð á skólalóðinni undanfarna daga. Nemendur ánægðir með að fá snjóinn og nýta hvert tækifæri til að leika sér.  Njótið helgarinnar. 

Jól í skókassa

Eins og undanfarin ár þá mun 7. bekkur taka þátt í verkefninu Jól í skókassa. Í næstu viku verður farið með kassana í kirkjuna.

Hvað er „Jól í skókassa“?

„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.
Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala hefur síðan tvöfaldast því undanfarin ár hafa borist í kringum 5000 gjafir.

Hvert fara skókassarnir?

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu. Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.  Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovskiy sem komið hefur hingað til lands í heimsókn og m.a. kynnt sér starf KFUM og KFUK hér á landi. Hann starfar með KFUM í Úkraínu og er sjálfboðaliðum KFUM og KFUK innan handar þegar þau hafa farið til Úkraínu með gjafirnar.

Hvernig á að ganga frá skókassanum?

  1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
  2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð fyrir strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Hér til hægri á síðunni (útprentanlegt efni) má finna tilbúinn merkimiða. Klippið miðann út, merkið við réttan aldursflokk og límið ofan á skókassann. Einnig er hægt að útbúa sína eigin merkimiða og merkja aldur og kyn á þá.
  3. Setjið 500-1.000 krónur  efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
  4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

 

Bleikur dagur

Á miðvikudaginn er bleikur dagur og hvetjum við alla til að mæta í einhverju bleiku. 

Skelfilegur bókaklúbbur

Á bókasafninu okkar er bókaklúbbur sem hefur yfirskriftina ,,skelfilegur bókakúbbur". Hrekkjavakan er á næsta leyti og gaman að lesa bækur sem snúa að henni og allskonar öðrum skelfilegum hlutum.  Við hvetjum foreldra til að lesa með börnunum sínum.