VALMYND ×

Fréttir

Bingó á bókasafni

Á bókasafninu er hitt og þetta gert til að hvetja börnin til lesturs. Eitt af því eru ýmiskonar bingó, annarsvegar þematengt og hinsvegar stórt bingó sem nær yfir 1-2 mánuði. Þematengda bingóið tengist bókunum í kósýhorninu á bókasafninu, en þar hafa verið bækur tengdar þjóðsögum og tröllum eins og hæfir í myrkum janúarmánuði. Börn og unglingar hafa verið dugleg við að henda sér af fullum krafti í það bingó og skoðað ýmsar furðuverur í leiðinni. 

Langa bingóið snýst um að lesa bækur sem eru til dæmis eftir kvenkyns rithöfund, bók sem byrjar á S, bók sem er með gula forsíðu, bók sem er lengri en 100 blaðsíður og ýmislegt í þeim dúr. Börnin hafa þannig nokkuð frjálst val um hvaða bækur þau velja að lesa, og hversu erfiðar eða þungar þær eru. Fyrir hverja lesna bók má setja X yfir þann reit í bingóspjaldinu. Þegar allt spjaldið hefur verið fyllt út og þannig 24 bækur lesnar, getur barnið komið með spjaldið á bókasafnið í næstu eyðu eða frítíma og fengið tölvutíma að launum. Að vera í tölvunni á bókasafninu er afar vinsælt og á þennan hátt hvetjum við til lesturs, drögum örlítið úr tölvutímanum, en gefum krökkunum um leið tækifæri til að vinna sér inn umbun. 

Í næsta mánuði tekur við nýtt þema en það er vinátta og bækur sem tengjast vináttu af ýmsu tagi. Endilega spyrjið börnin út í þemað og bingóið og hvetjið þau til að vera með.

Pönnukökulagið

Í dag var frumflutt í skólanum Sólarpönnukökulagið eftir Gylfa Ólafsson. Æfing og flutningur var í samstarfi við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ásta Kristín Pétursdóttir hefur verið fulltrúi TÍ hér í skólanum í verkefninu syngjandi skóli sem er í 1.-4. bekk. Rúna Esradóttir og Dagný Hermannsdóttir sjá um kórana hjá TÍ og Madis Maekalle stjórnaði blásurum. Höfundur verksins spilaði undir á flygilinn. Foreldrum var boðið að koma og fylgjast með flutningum.

Nýtt merki skólans

Það hefur lengi staðið til að skólinn eignist sitt merki og nú er komið að því.  Ágúst Atlason, margmiðlunarhönnuður og ljósmyndari, hannaði merkið og erum við ánægð með útkomuna. 

Domino í skólanum

Mikið fjör var í skólanum í dag - nemendur komu með morgunverðakassa í skólann og úr varð Domino. Tæplega 300 kassar fengu að falla á göngum skólans og allir voru sammála um að þetta þyrfti að endurtaka. Það voru tveir drengir í 4. bekk, þeir Kári og Birkir Snær, sem komu að máli við Höllu skólastjóra og sögðust hafa séð svo skemmtilegt myndband á netinu og spurðu hvort þetta væri hægt í skólanum okkar. 

Stöðvavinna í 5. bekk

Nemendur í 5. bekk voru í stöðvavinnu í morgun. Þau voru að vinna á hreyfistöð, í stærðfræðispili, fóru í margföldunarleiki á Ipad og ýmislegt fleira. 

Jólalestur

Krakkarnir í GÍ taka jólabókahefð Íslendinga alvarlega og voru dugleg að lesa í desember. Þau sem vildu tóku þátt í örlitlum jólaleik, sem fólst í því að fyrir hverja lesna bók var nafn bókarinnar skrifað á jólakúlu og hún var svo hengd á jólatréð í glugga bókasafnsins.
Yngri krakkarnir voru ötulli en þau eldri við skreytingarnar og ekki vildu allir skreyta en samtals fóru 160 kúlur, stjörnur og hjörtu á tréð. Það gera að minnsta kosti 160 lesnar bækur í desember.
Krakkarnir höfðu gaman af þessu uppátæki og voru stolt af skreytingunum sínum. Ef þú lesandi góður hefur ekki ennþá frétt af þessu uppátæki þá hvetjum við þig til að spyrja börnin í nágrenni þínu hvort þau hafi tekið þátt og hvaða bækur þau lásu.

Litlu jólin og jólafrí

Nú er lítið eftir af þessu ári og styttist í jólafrí. Í dag var síðasti valgreinadagur á unglingastigi.

Á föstudaginn eru litlu jólin hér í skólanum og þau verða frá 9:00-12:00.

Strætó fer frá Holtahverfi og Hnífsdal klukkan 8:40 og frá skóla 12:10.

Kennsla hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 10:00 hjá umsjónarkennara.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum nemendum, foreldrum, forráðamönnum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla

Jólahurðir

Nemendur hafa verið önnum kafnir undanfarið að skreyta skólann og má segja að það finnist varla hurð í skólanum sem ekki er skreytt.