VALMYND ×

Fréttir

Gjöf frá Foreldrafélaginu

Velvilvji samfélagsins er okkur mikils virði og eigum við mjög marga velunnara sem standa við bakið á okkur. Á dögunum barst okkur fótboltaspil að gjöf frá Foreldrafélagi GÍ og erum við innilega þakklát fyrir það. Nemendur kunna vel að meta hvers kyns afþreyingu í frímínútum og er fótboltaspilið  því afar kærkomið.

100 ára starfsaldur

Frá vinstri: Berglind, Rannveig, Helga og Halla skólastjóri.
Frá vinstri: Berglind, Rannveig, Helga og Halla skólastjóri.

Mannauður er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja og stofnana. Nú á dögunum var því fagnað hér innanhúss að þrír starfsmenn hafa starfað við skólann í yfir 30 ár hver - eða ríflega 100 ár samtals. Berglind Árnadóttir, deildarstjóri stoðþjónustu á lengstan starfsaldur eða 38 ár. Rannveig Halldórsdóttir, bókasafnsfræðingur hefur starfað hér í 33 ár og Helga Aðalsteinsdóttir, deildarstjóri yngsta stigs í 32 ár. Þessar konur hafa helgað líf sitt því að starfa með börnum í öll þessi ár og er það virkilega dýrmætt fyrir skólann og samfélagið allt.

Af þessu tilefni var boðið upp á kökur og fengu þær allar blómvönd, sem þakklætisvott fyrir trúmennsku og góð störf.

Íslenskt mál

1 af 3

Í hverjum mánuði tökum við fyrir málshátt, orðatvennu og orðtak mánaðarins. Í október er málshátturinn Hver er sinnar gæfu smiður, orðtakið Að bíta á jaxlinn og orðatvennan dragsúgur og dumbungur. Með þetta er svo unnið í íslensku og öðrum námsgreinum eins og hægt er. Þetta er virkilega skemmtilegt og orðin á allra vörum þessa dagana.

Síðasta fjallganga haustsins

Síðasta fjallganga haustsins var í dag, þegar 7.bekkur labbaði úr Engidal og upp að Fossavatni. Hópurinn fékk frábært gönguveður, nokkrar hitagráður og stafalogn.

Samráðsdagur/foreldradagur

Miðvikudaginn 1.október er samráðsdagur hér í skólanum, þar sem foreldrar mæta með sínum börnum í viðtal hjá umsjónarkennnara. Foreldraviðtölin endurspegla áherslur leiðsagnarnáms sem skólinn starfar eftir, þar sem námsmarkmið og staða nemenda eru í forgrunni. Viðtölin eru að einhverjum hluta nemendastýrð, þar sem nemendurnir sjálfir kynna nám sitt fyrir foreldrum, með það að markmiði að auka trú þeirra á eigin getu. Nálgunin er misjöfn eftir aldri og þroska nemenda, en mun eflaust valdefla hvern og einn.

 

Verum ástfangin af lífinu

1 af 4

Í morgun heimsótti Þorgrímur Þráinsson okkur og hélt tvo fyrirlestra fyrir nemendur, einn fyrir 5.-7.bekk og annan fyrir 10.bekk. Í fyrri fyrirlestrinum leiðbeindi rithöfundurinn nemendum varðandi skapandi skrif með það að markmiði að efla læsi og styrkja þar með sjálfsmynd nemenda. Hann gaf þeim skemmtilegar kveikjur að sögum og komu ansi fjölbreyttar og skemmtilegar sögur sem nemendur sömdu í framhaldi af fyrirlestrinum.

Fyrirlesturinn fyrir 10.bekk bar yfirskriftina ,,Verum ástfangin af lífinu" þar sem Þorgrímur hvatti nemendur fyrst og fremst til að leggja sig fram, bera ábyrgð á sjálfum sér, hjálpa öðrum og vera góðar manneskjur. Einnig fjallaði hann um mikilvægi svefns og markmiðssetningar. Nemendur hlýddu af athygli og tileinka sér vonandi eitthvað af hans góðu ráðum.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Ólympíuhlaup ÍSÍ (áður Norræna skólahlaupið) hefur verið fastur liður í skólastarfinu á haustin. Með því er leitast við að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan. Í morgun hlupu nemendur yngsta stigs G.Í. frá Bæjarbrekku, inn að Engi og til baka. Miðstigið hljóp að Seljalandi og til baka og unglingastigið inn að Golfskálanum í Tunguskógi og til baka. Í hlaupinu er ekki keppt um hraða, heldur fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt sem það geta.

Nemendur létu veðrið ekki stöðva sig þó hitastigið sé ekki nema 4 gráður. Það er hressandi að hlaupa við þær aðstæður vel búinn og njóta hreyfingar og útiveru.

Gjöf frá árgangi 1969

Helga aðstoðarskólastjóri tekur við hljóðnemunum úr hendi Hörpu Stefánsdóttur
Helga aðstoðarskólastjóri tekur við hljóðnemunum úr hendi Hörpu Stefánsdóttur
1 af 4

Síðastliðinn laugardag hittist árgangur 1969 og færði Ísafjarðarbæ fallega fjólubláan bekk, til styrktar Alzheimersamtökunum. Bekkurinn er staðsettur við Eyri, þaðan sem er fagurt útsýni yfir pollinn. Árgangurinn lét ekki þar við sitja, heldur færði Grunnskólanum á Ísafirði 3 þráðlausa hljóðnema, sem koma sér einstaklega vel í félagsstarfi nemenda. Það er ómetanlegt fyrir skólann að eiga velunnara úti í samfélaginu og hefur hann oft þegið góðar gjafir sem þessa og kunnum við árgangi 1969 bestu þakkir fyrir.

Afhending gjafanna var við bekkinn góða, þar sem Maraþonmenn tóku tvö lög og létu veðrið ekki á sig fá, þó lognið hafi verið á talsverðri hraðferð þann daginn.

 

Lestrarátak

Læsi er lykillinn að öllu námi og mjög mikilvægt að allir geti lesið sér til gagns. Til að hvetja nemendur enn frekar til lesturs hefur skólinn nú skráð sig til leiks í lestrarátak 1.-7. bekkjar, þar sem allir skólar á landinu geta tekið þátt og keppt um það hvaða skóli les mest. Lestrarátakið nefnist Svakalega lestrarkeppnin og fer fram á tímabilinu 15.september - 15.október 2025. Keppnin var haldin í þremur landshlutum í fyrra og fékk gríðarlega góðar viðtökur og gekk frábærlega. Tilgangurinn með keppninni er að hvetja sem flesta krakka til að lesa skemmtilegar bækur og sýna að öll börn geta verið flottar fyrirmyndir í lestri. Við vonumst til að foreldrar láti ekki sitt eftir liggja og verði duglegir að hvetja börn sín til lestrariðkunar og sýni átakinu þannig áhuga. Áfram GÍ!

Rýmingaræfing

Það er að mörgu að hyggja á vinnustað með um 500 manns innanhúss. Eitt mikilvægasta atriðið í skólastarfinu er öryggi allra og þurfum við að vera undirbúin fyrir ýmsar aðstæður sem upp geta komið. Liður í þeim undirbúningi er æfing á rýmingu húsnæðiss ef viðvörunarkerfi fer í gang. Það er mikilvægt að rýming gangi fumlaust fyrir sig og allir þekki sína útgönguleið með tilliti til flóttaleiða og viti af sínu söfnunarsvæði. Þetta æfðum við í morgun undir stjórn Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar. Æfingin gekk eins og best verður á kosið og veðrið lék við okkur, sem gerir allt ferlið þægilegra.

Í framhaldi af æfingu sem þessari er svo farið yfir rýmingaráætlunina í heild og bætt úr hnökrum ef einhverjir eru.