Fréttir
Ég veit - úrslit
Ég veit! spurningakeppni miðstigs var í dag. Undanfarna mánuði hafa krakkarnir á miðstigi verið undirbúa sig fyrir spurningakeppnina með því að lesa 8 valdar skáldsögur. Valdir voru þrír fulltrúar úr hverjum bekk í keppnislið en samt sem áður þurftu allir að undirbúa sig vel því oft getur keppnisliðið fengið hjálp frá bekknum sínum til að svara spurningunum.
Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag kepptu bekkirnir í stigakeppni, þau tvö lið sem voru með hæstu samanlögðu stigin kepptu svo til úrslita í dag en það voru 6. AS og 7. JE. Svo fór að 6. AS bar sigur úr býtum og hreppti farandbikarinn Vitann sem mun tilheyra bekknum fram að næstu keppni sem áætlað er að halda að ári.
Einnig fékk keppnisliðið sjálft verðlaun en það var Penninn Eymundsson sem gaf hverjum liðsmanni bókina Orri óstöðvandi Heimsfrægur á Íslandi eftir Bjarna Fritz að gjöf. Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn og um leið óskum við öllum nemendum á miðstigi til hamingju með vel heppnaðan undirbúning og skemmtun.
Listasýning 6. bekkjar
Það var mikið líf og fjör hjá nemendum 6. bekkjar á þriðjudag, en þá buðu þeir foreldrum sínum á listasýningu í skólanum. Á sýningunni mátti sjá myndlist af ýmsum toga, skúlptúra, nokkrar gerðir verka sem unnin voru úr textíl og allskonar smíðagripi svo sem lampa.
Nemendur buðu gestum upp á heitt kakó og smákökur, sem þau höfðu sjálf bakað, og sáu auk þess um móttöku og alla þjónustu við gestina. List-og verkgreinakennarar skólans stóðu að þessum viðburði. Þeir eru afar ánægðir með hvernig til tókst og eru virkilega stoltir af nemendum sínum
Uppáhalds bækur 10. bekkjar
Á bókasafninu eru oft skemmtilegir lestrarleikir sem nemendur geta tekið þátt í. Nóvemberleikurinn snérist um 10. bekk en í byrjun mánaðarins voru nemendur bekkjarins beðnir um að finna uppáhaldsbækurnar sínar á bókasafninu. Bókunum var síðan stillt upp til sýnis og unglingarnir hvattir til að taka þátt í leiknum. Leikurinn snýst um það að lesa tvær bækur af þessum 33 sem valdar voru, eða velja sér aðrar þyngri. Í lok nóvember kemur í ljós hversu mörg tóku þátt og eru 10 verðlaun í boði fyrir þau sem klára leikinn.
Það hefur verið áhugavert að sjá hvaða bækur unglingarnir velja fram yfir aðrar og tilvalið að spjalla heima um það hvaða lesefni þeim finnst skemmtilegt.
Grænland í nýju ljósi
Í dag heimsótti Karl Inuk nemendur í dönskutíma hjá 8., 9. og 10. bekk og kynnti landið sitt, Grænland. Hann ræddi við þau um hvernig það er að alast upp á Grænlandi og sagði frá menningu og hefðum landsins. Nemendur áttuðu sig á því að Grænland er kannski ekki svo ólíkt Íslandi.
Nemendur sýndu mikinn áhuga á því að fræðast um ísbirni og voru sumir hissa að heyra að Grænland er ekki eingöngu ís og snjór, heldur er þar einnig mikill gróður. Þau ræddu einnig menningu tengda sleðahundum og hvernig landið skiptist í raun í tvennt þegar kemur að hundasleðum, þ.e. suður- og norðurhluta Grænlands.
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á Íslandi á hverju ári þann 16. nóvember. Dagsetningin er valin til að minnast fæðingardags íslenska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sem er eitt af þekktustu skáldum íslenskrar bókmenntasögu og mikilvægur persónuleiki í þróun íslenskrar tungu. Markmið dagsins er að vekja athygli á íslenskri tungu og menningu, stuðla að varðveislu hennar og efla notkun íslensks máls í samfélaginu.
Nemendur í 1. bekk hafa verið að vinna allskonar verkefni í vikunni nú sem endranær og hérna má sjá eitt þeirra.
Heimsókn í Orkubú Vestfjarða
Í morgun heimsóttu nemendur 7.bekkjar Orkubú Vestfjarða, þar sem nemendur eru að læra um orku, virkjanir og fleira. Birgir Örn Birgisson, svæðisstjóri tók á móti þeim að vanda og fengu krakkarnir að fara um alla stöðina í Mjósundi og fræðast um ýmsa þætti starfseminnar. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga og eru eflaust margs vísari eftir heimsóknina. Hópurinn vill þakka OV kærlega fyrir góðar móttökur
Setning Stóru upplestrakeppninnar
Stóra upplestrarkeppnin er árleg keppni í upplestri sem haldin er fyrir nemendur í 7. bekk. Markmið keppninnar er að efla lesskilning og lesskilningi ásamt því að auka áhuga á bókmenntum og menningu. Nemendur taka þátt í keppninni með því að lesa upphátt úr ýmsum textum, oft bæði ljóðum og sögum, og er lögð áhersla á að flytja textann á skýran og skilmerkilegan hátt.
Keppnin stuðlar að því að efla upplestrarmenningu, eykur færni nemenda í að tjá sig munnlega og hefur almennt jákvæð áhrif á skólastarf. Þetta er mikilvægur vettvangur fyrir nemendur til að sýna framfarir sínar í lestri og njóta þess að miðla sögu eða ljóði til áheyrenda.
Nú sem endranær er keppnin sett í tengslum við Dag íslenskrar tungu og er hann einmitt á laugardaginn 16. nóvember. Halla skólastjóri setti keppnina Tveir nemendur úr 8. bekk lásu ljóð og texta úr bók. Í lokin sungu allir viðstaddir lagið ,,Á íslensku má alltaf finna svar"
Sjálf keppnin verður í mars og mun Grunnskólinn á Ísafirði standa að keppninni, skólar á norðanverðum Vestfjörðum taka þátt.
Aðeins farið að hvessa
Það er aðeins farið að hvessa og nemendur bráðum búnir með skólann. Allar stöðvar að klárast og mikil gleði búin að vera í skólanum í allan dag. Við viljum beina því til foreldra að fylgjast með hvort yngstu börnin fari ekki á sína staði eftir að skóla lýkur.
Jól í skókassa
Hið árlega verkefni 7. bekkjar ,,Jól í skókassa" er yfirstaðið. Nemendur fóru með rúmlega 40 kassa í kirkjuna á fimmtudaginn og það var gaman að sjá hversu mikil gleði var á meðal þeirra og hversu stolt þau voru að gefa svona af sér. Þessar jólagjafir munu gleðja börn í Úkraínu eins og undanfarin ár.