VALMYND ×

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á Íslandi á hverju ári þann 16. nóvember. Dagsetningin er valin til að minnast fæðingardags íslenska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sem er eitt af þekktustu skáldum íslenskrar bókmenntasögu og mikilvægur persónuleiki í þróun íslenskrar tungu. Markmið dagsins er að vekja athygli á íslenskri tungu og menningu, stuðla að varðveislu hennar og efla notkun íslensks máls í samfélaginu. 

Nemendur í 1. bekk hafa verið að vinna allskonar verkefni í vikunni nú sem endranær og hérna má sjá eitt þeirra. 

 

Heimsókn í Orkubú Vestfjarða

1 af 3

Í morgun heimsóttu nemendur 7.bekkjar Orkubú Vestfjarða, þar sem nemendur eru að læra um orku, virkjanir og fleira. Birgir Örn Birgisson, svæðisstjóri tók á móti þeim að vanda og fengu krakkarnir að fara um alla stöðina í Mjósundi og fræðast um ýmsa þætti starfseminnar. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga og eru eflaust margs vísari eftir heimsóknina. Hópurinn vill þakka OV kærlega fyrir góðar móttökur

Setning Stóru upplestrakeppninnar

Stóra upplestrarkeppnin er árleg keppni í upplestri sem haldin er fyrir nemendur í 7. bekk. Markmið keppninnar er að efla lesskilning og lesskilningi ásamt því að auka áhuga á bókmenntum og menningu. Nemendur taka þátt í keppninni með því að lesa upphátt úr ýmsum textum, oft bæði ljóðum og sögum, og er lögð áhersla á að flytja textann á skýran og skilmerkilegan hátt.

Keppnin stuðlar að því að efla upplestrarmenningu, eykur færni nemenda í að tjá sig munnlega og hefur almennt jákvæð áhrif á skólastarf. Þetta er mikilvægur vettvangur fyrir nemendur til að sýna framfarir sínar í lestri og njóta þess að miðla sögu eða ljóði til áheyrenda.

Nú sem endranær er keppnin sett í tengslum við Dag íslenskrar tungu og er hann einmitt á laugardaginn 16. nóvember. Halla skólastjóri setti keppnina Tveir nemendur úr 8. bekk lásu ljóð og texta úr bók. Í lokin sungu allir viðstaddir lagið ,,Á íslensku má alltaf finna svar"

Sjálf keppnin verður í mars og mun Grunnskólinn á Ísafirði standa að keppninni, skólar á norðanverðum Vestfjörðum taka þátt. 

Aðeins farið að hvessa

Það er aðeins farið að hvessa og nemendur bráðum búnir með skólann. Allar stöðvar að klárast og mikil gleði búin að vera í skólanum í allan dag. Við viljum beina því til foreldra að fylgjast með hvort yngstu börnin fari ekki á sína staði eftir að skóla lýkur. 

Jól í skókassa

Hið árlega verkefni 7. bekkjar ,,Jól í skókassa" er yfirstaðið. Nemendur fóru með rúmlega 40 kassa í kirkjuna á fimmtudaginn og það var gaman að sjá hversu mikil gleði var á meðal þeirra og hversu stolt þau voru að gefa svona af sér. Þessar jólagjafir munu gleðja börn í Úkraínu eins og undanfarin ár. 

Skelfilegi bókaklúbburinn

Í október var lestrarleikur á bókasafninu sem kallaðist Skelfilegi bókaklúbburinn. Hann snérist um að lesa 10 bækur um Skúla skelfi, skrá þær niður og fá miða fyrir hverja lesna bók. 4. bekkingar tóku þátt af fullum krafti og lásu samtals yfir 200 bækur.

Á hrekkjavöku fengu þau sem tóku þátt viðurkenningu og við erum virkilega stolt af þessum krökkum

Hrekkjavaka í dag

Undafarið hefur mikið verið um að vera hérna í skólanum í tengslum við hrekkjavöku. Nemendur hafa verið að vinna verkefni í mörgum greinum í tengslum við hana og afraksturinn hefur verið sýnilegur á göngum skólans, á bókasafni og fleiri stöðum. Í gær stóð foreldrafélag skólans fyrir hrekkjavökuballi fyrir 1.-7. bekk. Í kvöld verður ball fyrir unglingastigið. 

Vá Vest fyrirlestur í dag kl. 17.00

Við viljum minna á fyrirlesturinn í dag uppi í Menntaskóla kl. 17.00. 

Hildur H. Pálsdóttir hefur farið í marga grunnskóla og framhaldsskóla með fyrirlestur um forvarnir gegn fíkniefnum. Hún nýtir eigin reynslu en hún missti 15 ára gamla dóttur sínu úr neyslu fíkniefna. Hildur mun hitta nemendur í 9.bekk á norðanverðum Vestfjörðum og 1.bekk í Menntaskólanum á Ísafirði í dag með þessa áhrifaríku fræðslu. Við viljum bjóða foreldra og aðra áhugasama velkomna á fyrirlestur hjá henni á þriðjudaginn 29.október kl 17.00 í sal menntaskólans á Ísafirði.
Notum tækifærið, fræðumst, spjöllum og vinnum saman að forvörnum ungmenna.

Útivist og fjallamennska

Í haust bjóðum við upp á val á unglingastigi sem tengist útivist og fjallamennsku. Nemendur hafa farið í gönguferðir, farið í heimsóknir og fleira. Í gær fengu þau kynningu á allskonar klifri, meðal annars klettaklifri og ísklifri. Síðan var farið yfir í Skátaheimilið þar sem krakkarnir fengu að klifra og fengu góða leiðsögn frá Björgvini Hilmarssyni sem hefur sérhæft sig í klifri ásamt öðru sem tengist útivist.  

Snjórinn kominn

Það hefur sannarlega verið mikið stuð á skólalóðinni undanfarna daga. Nemendur ánægðir með að fá snjóinn og nýta hvert tækifæri til að leika sér.  Njótið helgarinnar.