Haustferðir, fjallgöngur og skólabúðir
Fyrsta kennsluvika skólaársins hefur verið lífleg, fjölbreytt og skemmtileg. 7.bekkur fór í Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og stór hluti 8.bekkjar fór í fermingarbúðir í Vatnaskógi. Eins og flestir vita fara allir árgangar skólans í fjallgöngur á hverju hausti og luku 5., 6. og 10. bekkur sínum ferðum nú í vikunni. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst helstu fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell, svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur 10. bekkjar hafa svo siglt yfir í Jökulfirði og gengið þaðan, gist í tjöldum yfir nótt og komið til baka daginn eftir. Þetta árið var siglt til Hesteyrar og gengið þaðan yfir að Látrum, sem er u.þ.b. 14 km. leið. Þar var gist eina nótt í tjöldum við Sólvelli og siglt svo til baka um hádegið daginn eftir.
Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda, seiglu og virðingu fyrir umhverfinu.
Það er gaman að rifja það upp að í fyrra fékk Grunnskólinn á Ísafirði Íslensku lýðheilsuverðlaunin fyrir þetta fjallgönguverkefni sitt, sem okkur telst til að hafi verið allt frá árinu 1996 eða í 29 ár.
Deila