VALMYND ×

Fréttir

Halla nýr skólastjóri

Guðbjörg Halla Magnadóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri G.Í. frá 1.ágúst næstkomandi. Halla hefur verið kennari við skólann frá árinu 1999 og deildarstjóri frá árinu 2007 og er því öllum hnútum kunnug. Hún lauk B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 2003 og MT gráðu frá Háskóla Íslands 2023. Halla er fædd og uppalin á Ísafirði, gift Þresti Jóhannessyni og eiga þau fjóra uppkomna syni. Við óskum Höllu innilega til hamingju með starfið.

Heimsókn frá Alþingi

1 af 4

Í ár eru 80 ár liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins. Af því tilefni heimsækir starfsfólk skrifstofu Alþingis grunnskóla á landsbyggðinni og setur upp eins konar Skólaþing fyrir nemendur í efstu bekkjunum. Markmið heimsóknanna er að efla lýðræðisvitund, fræða nemendur um störf Alþingis og veita innsýn í dagleg störf þingmanna.

Á Alþingi hefur Skólaþing verið starfrækt frá árinu 2007 en á slíku þingi fara nemendur í 10.bekk í hlutverkaleik þar sem þeir setja sig í spor þingmanna og fylgja reglum um starfshætti Alþingis.

Í dag erum við svo heppin hér í G.Í. að fá heimsókn frá tveimur starfsmönnum skrifstofu Alþingis og eru nemendur 9. og 10. bekkjar því ,,þingmenn" í dag. Við þökkum Alþingi kærlega fyrir komuna og vonum svo sannarlega að við eigum eftir að sjá einhverja nemendur á Alþingi í framtíðinni.

Litla upplestrarkeppnin í 4.bekk

1 af 4

Á hverju vori taka nemendur 4. bekkjar þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem er undanfari Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk.  Keppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin þar sem ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni og  að allir nemendur taki þátt sem liðsheild.

Í morgun fór keppnin fram í Hömrum að viðstöddum foreldrum og gestum 4.bekkjar, ásamt nemendum 3. bekkjar. Flutt voru ljóð, sögubrot, vísur, málfarsmolar, þula, skrýtlur og andheiti, - allt eftir íslenska höfunda. Sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar á norðanverðum Vestfjörðum, Símon Richard Eraclides,  flutti einnig ljóð og textabrot af sinni einlægni. Þá léku tvær stúlkur úr árgangnum, þær Fjóla Gunnarsdóttir og Isabel Snæbrá Rodriguez sitt hvort lagið á píanó.

Flytjendur allir ásamt kennurum stóðu sig með mikilli prýði, þannig að unun var á að hlýða. Að flutningi loknum var boðið upp á veitingar og að sjálfsögðu fengu allir nemendur viðurkenningarskjal. Til hamingju 4.bekkur!

Rithöfundur í heimsókn

Undanfarna daga hafa börnin á yngsta stiginu unnið með bókina ,,Svona tala ég" eftir Helen Cova. Markmiðið með verkefninu er m.a. að nemendur kynnist menningarlegri fjölbreytni, geti sett sig í spor innflytjenda og upplifi hve íslenska jafnt sem önnur tungumál eru mikilvæg. Af þessu tilefni heimsótti svo rithöfundurinn Helen Cova 1. - 4. bekk nú í vikunni. Hún las fyrir börnin upp úr nýjustu barnabók sinni ,,Svona tala ég" og sagði frá því hvernig hún vann með hinum 8 ára Davíð Stefánssyni við að myndskreyta bók sína ,,Snúlla finnst erfitt að segja nei". Börnin fengu svo tækifæri til að spyrja hana um hvernig það sé að vera rithöfundur.

Við erum sannarlega heppin að hafa barnabókahöfund í Ísafjarðarbæ og þökkum Helen kærlega fyrir heimsóknina.

Mikil fjölgun í mötuneytisáskrift í vetur

1 af 2

Í vetur hefur orðið mikil fjölgun í mötuneytisáskrift. Í apríl 2023 voru 272 nemendur skráðir, en eru nú í apríl 2024 orðnir 325 sem gerir um 19,5% fjölgun á milli ári. Í skólanum í vetur eru um 390 nemendur og er hlutfall nemenda í mötuneyti því 83,3%.

Gjöf frá Kvenfélaginu Hlíf

Kvenfélagskonurnar þær Jóna Símonía Bjarnadóttir, Sigurrós Sigurðardóttir, Alma Björk Sigurðardóttir og Anna Karen Kristjánsdóttir, ásamt Guðlaugu Jónsdóttur heimilisfræðikennara, Höllu Magnadóttur deildarstjóra, Írisi Ösp Heiðrúnardóttur textílkennara og Kristjáni Arnari Ingasyni skólastjóra.
Kvenfélagskonurnar þær Jóna Símonía Bjarnadóttir, Sigurrós Sigurðardóttir, Alma Björk Sigurðardóttir og Anna Karen Kristjánsdóttir, ásamt Guðlaugu Jónsdóttur heimilisfræðikennara, Höllu Magnadóttur deildarstjóra, Írisi Ösp Heiðrúnardóttur textílkennara og Kristjáni Arnari Ingasyni skólastjóra.

Í dag komu fulltrúar frá Kvenfélaginu Hlíf á Ísafirði, færandi hendi í skólann. Félagið gaf skólanum tvær saumavélar, tvær overlock saumavélar og fjóra handþeytara, til kennslu í textílmennt og heimilisfræði. Með gjöfinni vill félagið þakka hlýhug og velvild í sinn garð í gegnum tíðina og efla verkgreinakennslu í skólanum.

Við þökkum Kvenfélaginu Hlíf kærlega fyrir þessar rausnarlegu gjafir og stuðning í gegnum árin.

G.Í. hlýtur Íslensku lýðheilsuverðlaunin 2024

Mynd: www.forseti.is
Mynd: www.forseti.is

Í kvöld afhenti forseti Íslands Íslensku lýðheilsuverðlaunin í annað sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki og afhenti forseti þau. Í flokki starfsheilda varð Grunnskólinn á Ísafirði fyrir valinu fyrir fjallgönguverkefni sitt, sem okkur telst til að hafi verið allt frá árinu 1996 eða 28 ár. Kristján Arnar Ingason tók við verðlaununum, sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti. Við erum afar stolt af þessum verðlaunum fyrir hönd starfsmanna, nemenda og foreldra, sem margir hverjir hafa verið duglegir að slást í för með okkur í fjallgöngurnar og skipulagt með okkur ferðir 10.bekkjar. 

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst helstu fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur 10.bekkjar hafa siglt yfir í Jökulfirði og gengið þar, gist í tjöldum yfir nótt og komið til baka daginn eftir.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda, seiglu og virðingu fyrir umhverfinu.

Til hamingju við öll!

 

 

Tilnefning til hinna Íslensku lýðheilsuverðlauna

Sex aðilar hafa nú verið tilnefndir til hinna Íslensku lýðheilsuverðlauna, sem forseti Íslands og heilbrigðisráðherra veita nú í annað sinn, á sumardaginn fyrsta. Kallað var eftir hugmyndum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og hefur dómnefnd tekið þær til umfjöllunar og tilnefnt Grunnskólann á Ísafirði í flokki starfsheilda fyrir fjallgönguverkefni sitt.

Í umsögn um verkefnið segir:
Skólinn hefur í (tæp) 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni. Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.

Við erum afar stolf af tilnefningunni og bíðum spennt eftir úrslitum sem verða tilkynnt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á morgun, sumardaginn fyrsta. Sjónvarpað verður frá athöfninni kl. 19:40 á RÚV.

G.Í. aðildarskóli Erasmus+

Grunnskólinn á Ísafirði var nú í desember samþykktur sem aðildarskóli að Erasmus+ sem er partur af menntaáætlun Evrópusambandsins og er gildistími aðildar árin 2024-2027. Áhersluatriði skólans eru þróun kennsluhátta, móttaka nýbúa/flóttamanna og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Þegar skóli er orðinn aðildarskóli er auðveldara að sækja um styrk fyrir verkefnum í flokknum Nám og þjálfun. Núna var skólinn að fá samþykktan styrk upp á 25.000 evrur (u.þ.b. 3,7 millj. kr.) en þrjú verkefni eru fyrirhuguð á næsta ári. Eitt þeirra er samstarfsverkefni við skóla í Þýskalandi og Portúgal.

Nánari fréttir munu birtast hér á heimasíðunni varðandi verkefnið, en umsjónarmaður þess er Halla Magnadóttir deildarstjóri.

Góður árangur á Íslandsmóti barnaskólasveita í skák

Um síðustu helgi fór fram Íslandsmót barnaskólasveita í skák, í Rimaskóla í Reykjavík. Mótið er fyrir nemendur 4. - 7. bekkjar og tók ein sveit frá skólanum þátt í mótinu og er það annað árið í röð sem við tökum þátt. Í sveit skólans voru þau: Karma Halldórsson, Nirvaan Halldórsson, Svaha Halldórsdóttir, Stefan-Alexnadru Croitoru og Nicolae Razvan Croitoru. Liðsstjóri var Halldór Pálmi Bjarkason sem á allan heiður að þátttöku sveitarinnar. 

Úrslit urðu þau að sveitin lenti í 13. sæti af 35 og fékk bronsverðlaun sem þriðja hæsta landsbyggðarsveitin. Þá hlaut Karma einnig einstaklingsverðlaun með 7 vinninga af 8 á fyrsta borði.

Við óskum þessari frábæru skáksveit iásamt liðsstjóra innilega til hamingju með mjög góðan árangur