Astoðarskólastjóri í námsleyfi veturinn 2024 - 2025
Helga S. Snorradóttir aðstoðarskólastjóri verður í námsleyfi næsta skólaár. Guðný Stefanía Stefánsdóttir kennari mun leysa hana af og verður því aðstoðarskólastjóri skólaárið 2024-2025.
Helga S. Snorradóttir aðstoðarskólastjóri verður í námsleyfi næsta skólaár. Guðný Stefanía Stefánsdóttir kennari mun leysa hana af og verður því aðstoðarskólastjóri skólaárið 2024-2025.
Í morgun fór bekkjakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í 7.bekk. Allir nemendur árgangsins hafa æft sig undanfarnar vikur og lásu þeir sögubrot og ljóð að eigin vali. Árangurinn var líka eftir því og stóðu allir sig með prýði.
Þeir sem komust áfram í skólakeppnina sem verður haldin þann 4.apríl eru Magnús Húni, Matthías Kristján, Pétur Arnar, Aðalheiður, Vanda Rós, Salka Rosina, Elínborg Birna, Emelía Rós, Birkir Hafsteinn, Einar, Simon Richard, Nadia, Emilía Rós, Margrét Rán, Freyja Rún og Edda Sigríður. Til vara verða þau Patrekur Rafn og Amelia Anna.
Við óskum öllum 7.bekkingum til hamingju með góðan árangur í lestrarþjálfuninni og hlökkum til að fylgjast með framhaldinu.
Miðvikudaginn 6.mars ætlum við að hafa skíða- og útivistardag í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Við biðjum þá sem geta að sameinast í einkabíla, en ein rúta fer frá skólanum kl. 10:00 og til baka úr Tungudal kl. 13:00. Engin kennsla er frá kl. 8:00 - 10:00 hjá þessum árgöngum. Þeir sem ekki eiga skíðabúnað geta komið með sleða, þotur eða annað til að renna sér á, en einnig er hægt að fá skíði lánuð endurgjaldslaust í skíðaskálanum, á meðan birgðir endast. Mötuneytið sendir samlokur og fernur á svæðið fyrir áskrifendur og verður hægt að grilla þær í skálanum.
Það stefnir í að veðrið leiki við okkur og vonum við svo sannarlega að allir njóti dagsins sem best.
Í myndmennt öðlast nemendur tækifæri til að læra og tjá sig án orða. Þeir geta ýmist unnið á gagnrýninn hátt með málefni daglegs lífs eða með ímyndunaraflið. Í myndmenntinni hjá 4.bekk í morgun unnu nemendur með ímyndunaraflið, tengdu menningu sína og umhverfi saman og efldu skapandi og gagnrýna hugsun. Afurðin var glæsilegt myndverk af þeim sjálfum á skautum.
Skóla- og tómstundasviði hafa borist fyrirspurnir frá foreldrum og kennurum um hvaða þjónustu Ísafjarðarbær býður upp á fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri með málþroska- og framburðarfrávik. Talmeinaþjónusta flokkast sem heilbrigðisþjónusta þó svo að sveitarfélögin sjái um að útvega fagfólkið.
Í vetur hefur enginn talmeinafræðingur verið starfandi á Ísafirði þar sem enginn með slíka menntun hefur fengist í verkið og þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að bjóða upp á almenna þjónustu talmeinafræðings fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri. Í fámennari skólunum hefur þjónustan verið keypt af Tröppu í tal- og framburðarþjálfun, en þar sem Trappa býður aðeins upp á takmarkaðan fjölda plássa hafa þau ekki getað bætt við börnunum á Ísafirði.
Ísafjarðarbær hefur þó haft tök á því í vetur að fá Signýju Gunnarsdóttur talmeinafræðing til Ísafjarðar einu sinni í mánuði, til að skima fyrir og greina málþroskavanda barna með áherslu á áætlanagerð og eftirfylgd í leik- og grunnskólum.
Leik- og grunnskólar hafa svo í samvinnu við foreldra verið að vinna að snemmtækri íhlutun í málþroska og stuðla þannig að fyrirbyggjandi aðgerðum sem geta komið í veg fyrir langvarandi námsvanda.
Foreldrar barna með málþroskavanda hafa svo alltaf kost á að útvega börnum sínum sjálfir þjónustu hjá öðrum talmeinafræðingum eða fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu.
Það er von okkar að það takist sem fyrst að ráða til okkar talmeinafræðing, enda er hér um mikilvæga heilbrigðisþjónustu að ræða. Staðan hefur því miður verið þannig að talmeinafræðingar eru fáir og mörg sveitarfélög að leitast eftir að ráða þá til sín.
Skóla- og tómstundasvið ísafjarðarbæjar
Á morgun er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Samkvæmt venju bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 18:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:00.
Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans við harmonikuleik og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur.
Solveig E. Söebech, myndmenntakennari, býður nemendum upp á opna vinnustofu þessar vikurnar. Vinnustofan er opin á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 12:50-15:45 og hafa nemendur verið duglegir að nýta sér það. Í síðustu viku gripu nokkrir nemendur úr 8.bekk tækifærið, fundu kork og pappa og hönnuðu gírkassa í Subaru, ásamt leikmyndamunum úr blöðum og gipsi. Í dag mættu upprennandi grafík listakonur í vinnustofuna í tilraunavinnu með prent af gelplötum. Sköpunargleðin var allsráðandi eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Lykilhæfni nemenda byggir meðal annars á sköpun, sjálfstæði og samvinnu, sem sífellt er verið að þjálfa í öllu námi. Undanfarið hafa nemendur á miðstigi verið í fjölbreyttri vinnu sem eflir þessa þætti. Í borðspilum, sem er valgrein á miðstigi, hönnuðu nemendur t.d. sín eigin borðspil frá grunni, með eigin reglum og útfærslum. Í textílmennt í 5.bekk hönnuðu nemendur svo sínar eigin sessur á stóla. Afraksturinn má sjá á meðfylgjandi myndum.