VALMYND ×

Fréttir

Lögreglan í heimsókn

Í gær fengum við góða heimsókn frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn, ræddi við nemendur 9. og 10. bekkjar um samskipti, hvað við megum gera og hvað ekki. Einnig var rætt um ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt ásamt hótunum. Síðast en ekki síst var farið inn á skuggahliðar netsins, hvað ber að varast og hvað við megum leyfa okkur að birta þar. Ofbeldi birtist því miður allsstaðar, líka á netinu. Nemendur fengu góð ráð varðandi netnotkun og hér má sjá myndband frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem við hvetjum nemendur og alla til að horfa á.

Við vonum að þessi fræðsla skili sér til okkar allra og vonandi getum við boðið upp á hana í fleiri árgöngum.

 

Unnið eftir uppskriftum

Í heimilisfræðinni hafa nemendur í gegnum tíðina unnið eftir nokkuð nákvæmum uppskriftum, enda kveður eitt hæfniviðmið greinarinnar á um það að nemendur geti unnið eftir uppskrift. En námskráin býður upp á ýmislegt annað eins og til dæmis að virkja frumkvæði nemenda, að nemendur þjálfist í góðri samvinnu og síðan er áherslan á sköpun alltaf að verða fyrirferðarmeiri.

Í vetur höfum við verið með verkefni í heimilisfræðinni í 7. bekk og allt upp í 10. bekk þar sem nemendur geta svo sannarlega látið reyna á þessa þætti. Í gær var til dæmis tími hjá 7. bekk þar sem nemendur áttu að búa til pastarétt. Þeim var skipt upp í tveggja og þriggja manna hópa og þurftu að koma sér saman um hvaða hráefni þeir vildu nota, en kennarinn hafði tekið það fram. Eftir að nemendur höfðu fengið stutta kynningu og leiðbeiningar um gerð pastarétta afgreiddi Guðlaug Jónsdóttir, kennari,  þau með hráefnið og síðan var bara byrjað að elda. Árangurinn var frábær! Vinnugleðin var allsráðandi, frumkvæðið ótrúlega mikið og pastaréttirnir smökkuðust afar vel.

Kennarar og nemendur eru sammála um að svona tímar séu afar gagnlegir, ekki síst við að kveikja áhuga og metnað nemenda.

Þýskir gestir í heimsókn

Á árunum 2015-2017 tók Grunnskólinn á Ísafirði þátt í Erasmus+ verkefni ásamt skólum frá Þýskalandi, Portúgal, Króatíu, Lettlandi og Kýpur. Í því samstarfi komust á tengsl á milli GÍ og Städtische Adolf-Reichwein-Gesamtschule skólans í Lüdenscheid í Þýskalandi. Sá skóli er nú í innleiðingarferli á upplýsingatækni í skólastarfi og fannst tilvalið að heimsækja skóla sem er langt kominn í því ferli. Haft var samband við Guðbjörgu Höllu Magnadóttur, sem er verkefnastjóri GÍ í þeirri innleiðingu, sem tók erindinu fagnandi. Úr varð að þær Victoria Oberbörsch og Theresia Vogel frá STARG skólanum eru í heimsókn hjá okkur þessa viku og fylgjast með notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þær hafa fengið að kynnast því hvernig nemendur allt frá 1. og upp í 10.bekk nýta sér upplýsingatæknina með spjaldtölvur í forgrunni. Það má segja að margt hafi komið þeim á óvart og finnst þeim kennsluhættir t.d. mjög nútímalegir og fjölbreyttir hjá okkur, þar sem nemendur fá mikið rými til sköpunar. 

Við vonum svo sannarlega að þær stöllur hafi haft bæði gagn og gaman af þessari heimsókn og vonumst til að frekara samstarf sé mögulegt í framtíðinni á milli þessara tveggja skóla.

 

Skólakeppni upplestrarkeppninnar

1 af 2

Í morgun fór skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í sal skólans. Þar lásu 13 nemendur úr 7.bekk, sem valdir höfðu verið úr fyrri undankeppni, sögubrot og ljóð að eigin vali. Hafdís Gunnarsdóttir stýrði keppninni og voru dómarar þau Eiríkur Örn Norðdahl, Kristján Arnar Ingason og Bergljót Halldórsdóttir. Þeirra hlutverk var ekki auðvelt, en þau þurftu að velja 7 nemendur sem keppa munu fyrir hönd skólans á lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík þann 16.mars n.k. Þeir nemendur sem valdir voru eru Álfheiður Björg Atladóttir, Birnir Snær Heiðarsson, Camilla Rán Friðbjörnsdóttir, Clara Charlotte Árnadóttir Kraus, Garðar Smári Jareksson, Hilmir Freyr Norðfjörð og Jökull Örn Þorvarðarson.

Við óskum þátttakendum öllum til hamingju með góðan árangur og óskum framangreindum nemendum góðs gengis á lokahátíðinni.

 

Foreldrakönnun

Nú stendur yfir foreldrakönnun Skólapúlsins, þar sem ákveðið úrtak foreldra fær senda slóð að könnuninni og beðið um að svara spurningum um skólastarfið. Okkur er mikið í mun að svarhlutfallið sé sem hæst, þannig að niðurstöður séu sem marktækastar. Við biðlum því til þeirra foreldra sem lentu í úrtakinu að svara sem allra fyrst, en frestur til þess er til sunnudagsins 5.mars.

Snjókarlagerð hjá 10.bekk

Í gær var stærðfræðitíminn í 10.bekk utandyra, þar sem nemendur kepptust við að gera snjókarla. Karlarnir voru af ýmsum stærðum og gerðum, en allir glæsilegir á velli. Form, hlutföll og stærðir skipta miklu máli í snjókarlagerð og gaman að sjá fjölbreytnina þegar sköpun og listfengi nemenda bætist við.

Fyrsti hluti upplestrarkeppninnar

Allt frá degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember s.l. hafa nemendur 7. bekkjar æft markvissan upplestur sem þátttakendur í stóru upplestrarkeppninni.

Í morgun var komið að bekkjakeppninni, þar sem allir nemendur árgangsins lásu sögubrot og ljóð fyrir þær Magnúsínu Harðardóttur og Rannveigu Halldórsdóttur, sem voru dómarar að þessu sinni. Tólf nemendur voru valdir til áframhaldandi þátttöku og munu þeir etja kappi í skólakeppninni sem haldin verður eftir viku. Þeir sem valdir voru áfram í þá keppni eru þau Álfheiður Björg Atladóttir, Birnir Snær Heiðarsson, Camilla Rán Friðbjörnsdóttir, Clara Charlotte Árnadóttir Kraus, Embla Karítas Kristjánsdóttir, Garðar Smári Jareksson, Hilmir Freyr Norðfjörð, Ingólfur Viðar Sindrason, Jökull Örn Þorvarðarson, Karen Drífa Ólafsdóttir, Oscar Alvarez Tunas, og Sölvey Marie Tómasdóttir. Til vara verða þær Eyrún Birta Ísfjörð Arnórsdóttir og María Sif Hlynsdóttir. Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með sinn árangur.

 

Viðurkenning í eldvarnarátaki

Þórður Atli Sigurðsson ásamt Sigurði A. Jónssyni slökkviliðsstjóra
Þórður Atli Sigurðsson ásamt Sigurði A. Jónssyni slökkviliðsstjóra

Í nóvember s.l. hófst eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Slökkviliðin heimsóttu nemendur 3.bekkjar um land allt og ræddu við þá um eldvarnir og sýndu þeim teiknimynd um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Einnig gafst nemendum kostur á að taka þátt í eldvarnagetraun. Nú hefur verið dregið úr réttum svörum getraunarinnar hér á Ísafirði og kom Sigurður A. Jónsson slökkviliðisstjóri í heimsókn í morgun og afhenti verðlaunin. Það var Þórður Atli Sigurðsson sem reyndist sá heppni í þetta sinn og hlaut að launum viðurkenningarskjal og gjafabréf.

Við þökkum slökkviliði Ísafjarðarbæjar kærlega fyrir fræðsluna og óskum Þórði Atla innilega til hamingju.

Stutt vika framundan

Nú er stutt vika framundan, aðeins tveir kennsludagar. Á miðvikudaginn er starfsdagur og á fimmtudag og föstudag er vetrarfrí. Við vonum að allir njóti vel og komi endurnærðir til baka.

Einnig viljum við minna á maskadaginn/bolludaginn n.k. mánudag. Þá verða maskaböll í skólanum og allir hvattir til að mæta í búningum. Að sjálfsögðu er leyfilegt að koma með bollur í nesti þann dag.

Bókaverðlaun barnanna

Í febrúar og mars geta börn á aldrinum 6-12 ára kosið sína uppáhaldsbók sem bók ársins. Börnin geta valið eina til þrjár bækur sem þeim finnast skemmtilegastar, áhugaverðastar eða bestar af hvaða ástæðu sem er. Atkvæðaseðlar eru á bókasafni skólans ásamt QR kóða til skönnunar, en einnig er hægt að kjósa á netinu
Við hvetjum öll börn í 1.-7. bekk til að taka þátt.