VALMYND ×

Fréttir

Dagar umburðarlyndis

Síðustu dagar hafa verið tileinkaðir umburðarlyndi og í gær var baráttudagur gegn einelti. Við gleymdum svo sannarlega ekki að fást við þau viðfangsefni og fléttuðum þau saman við þemadagana okkar. Yfirskrift þemadaga var ,,Samfélag" en í öllum samfélögum reynir mikið á samskipti, virðingu og umburðarlyndi. Afrakstur þemadaganna prýðir nú veggi skólans og vonum við að allir sem leið eiga um skólann geti staldrað við og rýnt í hin fjölbreyttu verk sem þar eru og hugsunina að baki þeim.

Í gær fóru nemendur 3. og 4. bekkjar út á Silfurtorg og römmuðu inn viðfangsefni þessara daga með umburðarlyndi og virðingu fyrir öllum að leiðarljósi.

Skertur skóladagur á fimmtudaginn

Vegna sameiginlegrar fræðsludagskrár starfsfólks Ísafjarðarbæjar fellur öll kennsla niður í skólanum eftir hádegið fimmtudaginn 9.nóvember. Nemendur fá allir að borða áður en þeir fara heim, en strætó fer frá skólanum kl. 12:10.

Dagar umburðarlyndis

Barnaheill - Save the children standa að dögum umburðarlyndis 6. - 8. nóvember.  Morgundagurinn er einnig baráttudagur gegn einelti og því tilvalið að minna vel á umburðarlyndi sem er okkur öllum svo mikilvægt. Það ætlum við að gera með því að fagna fjölbreytileikanum og mæta í litríkum fötum í skólann.

Skilgreining Barnaheilla á umburðarlyndi er að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu. Umburðarlyndi snýst um hæfileikann eða viljann til að viðurkenna það sem er frábrugðið því sem maður sjálfur telur rétt.

 

Þemadagar

Á morgun og miðvikudag eru þemadagar í skólanum. Nemendum er þá raðað í 20 hópa, þvert á árganga og verða því um 20 nemendur saman í hóp, u.þ.b. tveir úr hverjum árgangi. Viðfangsefni þemadaga er ,,Samfélag", þar sem nemendur skapa samfélag sem þeir myndu vilja búa í. Það er að mörgu að hyggja þegar skapa þarf sjálfbært samfélag og margar spurningar sem vakna. Við hvað vinnur fólkið? Hvað þarf fólk nauðsynlega til að lifa af? Hvernig fær það mat? En peninga? Hvað með menntun, menningu, húsnæði, heilbrigðismál, skipulagsmál o.s.frv.?

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eru sex grunnþættir menntunar, sem ætlað er að styrkja skólastarfið. Þessir þættir eru læsi, sjálfbærni, sköpun, jafnrétti, heilbrigði og velferð, og lýðræði og mannréttindi. Þemanám er tilvalið til að vinna með alla þessa þætti og höfum við valið okkur söguaðferðina (e. Storyline), sem er kennsluskipulag sem ýtir undir fjölbreytni í kennslu. Hún gefur kennurum og nemendum möguleika á að útfæra viðfangsefnið á skapandi hátt, þannig að allir nemendur geti tekið virkan þátt í verkefninu. Afrakstur skapandi vinnu er ekki eina markmið hennar heldur er það ferlið sem fer af stað sem skiptir ekki síður máli. Það verður því virkilega gaman að sjá útfærsluna á þessum samfélögum sem verða til við þessa vinnu og upplifa sköpunargleðina sem á eflaust eftir að verða allsráðandi.

 

Furðusögur og forynjur

Alexander Dan og Hildur Knútsdóttir. (Mynd: rsi.is)
Alexander Dan og Hildur Knútsdóttir. (Mynd: rsi.is)

Í morgun komu rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Alexander Dan í heimsókn og töluðu við unglingana okkar um störf rithöfunda. Þau eru bæði furðusagnahöfundar og fjölluðu um slíkar sögur í bókmenntum og poppmenningu og hvernig megi nýta íslenskan sagna- og menningararf til að skapa nýstárlegar og spennandi sögur. Furðusagnahöfundar skrifa ekki bara skáldsögur heldur einnig teiknimyndasögur, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki. Fantasían og vísindaskáldsagan eru alls staðar í dægurmenningunni í dag og því möguleikarnir fjölbreyttir og miklir.

Heimsókn þeirra Hildar og Alexanders er í tengslum við verkefnið Skáld í skólum, sem er bókmenntadagskrá fyrir grunn- og leikskóla í boði höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands.

Sjáumst í vetur!

Nú í svartasta skammdeginu er mikilvægt að öryggisútbúnaður allra sé í lagi, ekki síst barna sem eru ekki eins há í loftinu. Því er nauðsynlegt að fara yfir endurskinsmerki á yfirhöfnum og töskum og tryggja að ljós á reiðhjólum séu í lagi svo allir sjáist vel í myrkrinu. Vart þarf að nefna hjálminn sem er skylda samkvæmt lögum. 

 

 

Kvennaverkfall 24.október

Eins og flestir vita hefur verið boðað til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk. Allar konur í Grunnskólanum á Ísafirði ætla að taka þátt og er ógjörningur að halda starfsemi skólans gangandi án þeirra. Við sjáum okkur ekki fært að tryggja öryggi nemenda ef um 90% starfsfólks er ekki í vinnu. Þar af leiðandi verður skólinn lokaður þriðjudaginn 24. október.

 

Netumferðarskólinn

Í dag komu fulltrúar frá Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd í heimsókn í 4. - 7. bekk. Þeir fóru yfir ýmsa þætti sem þarf að hafa í huga varðandi netöryggi og samfélagsmiðla, t.d. mynddeilingar, samþykki, samskipti, persónuupplýsingar, stafrænt fótspor, miðlalæsi og gagnrýna hugsun. Það eru margar hættur og gildrur sem leynast á netinu og því nauðsynlegt að kenna börnum og unglingum að vara sig. Við hvetjum foreldra til að skoða þessar leiðbeiningar sem má finna hér fyrir neðan.

Umboðsmaður barna: https://www.barn.is/netid-samfelagsmidlar-og-born/leidbeiningar-til-foreldra/ 

Upplýsingar um miðlalæsi https://midlalaesi.is/ 

 

Haustfrí framundan

Næstu tvær vikur verða stuttar,  þar sem komið er að starfsdögum og haustfríi. Þessu er slegið saman þetta árið og starfsmenn geta því nýtt þessa daga til endurmenntunar og munu fara í skólaheimsóknir til Póllands.

Miðvikudagur 18.október - starfsdagur

Fimmtudagur 19.október - starfsdagur

Föstudagur 20.október - haustfrí

Mánudagur 23.október - haustfrí

 

Við vonum að nemendur njóti þessara frídaga og komi endurnærðir til baka.

 

Hafragrautur fyrir 5. og 6. bekk

Frá og með 1. nóvember bjóðum við nemendum í 5. og 6. bekk upp á frían hafragraut kl. 9:00 á morgnana. 7. - 10. bekk hefur staðið þessi fría áskrift til boða frá síðustu áramótum. Í morgun buðum við yngri hópnum upp á graut til kynningar og voru nemendur alsælir með það og vonum við svo sannarlega að sem flestir skrái sig í áskrift sem fyrst.