VALMYND ×

Fréttir

Leiksýning fyrir 1. - 5. bekk

Í dag var nemendum 1. - 5. bekkjar boðið upp á leiksýningu í sal skólans. Þar var á ferðinni sjálfstæður leikhópur á aldrinum 8 - 14 ára frá Ingarö í Svíþjóð sem bauð nemendum upp í ferðalag um hinn stórkostlega sagnasjóð Astrid Lindgren, með söng dans og sýnishornum úr ýmsum verkum hennar. Meðal annarra mátti sjá Línu Langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur, Rasmus og fleiri. 

Nemendur nutu sýningarinnar og þökkum við kærlega fyrir þessa skemmtilegu heimsókn.

Háskólalestin í heimsókn

Á 100 ára afmæli Háskóla Íslands árið 2011 var tímamótunum fagnað víða um land með svokallaðri Háskólalest, til að kynna fjölþætta starfsemi skólans. Síðan þá hefur lestin ferðast um landið og er nú væntanleg á Ísafjörð á föstudag og laugardag. Föstudaginn 19.maí verður hún hér í skólanum og býður nemendum unglingastigs upp á fjölbreyttar smiðjur tækni og vísinda.
Laugardaginn 20. maí er svo opið hús hér í salnum okkar, þar sem Háskólalestin býður upp á fjör og fræði fyrir alla fjölskylduna frá kl. 10:00 - 13:30. Við hvetjum alla til að líta við og taka þátt í skemmtilegri dagskrá. 

Náttúrudagur

4.bekkur skoðaði brum og trjátegundir uppi í Stórurð
4.bekkur skoðaði brum og trjátegundir uppi í Stórurð
1 af 6

Í dag var náttúrudagur hjá 1. - 9. bekk, þar sem nemendur fóru í fjölbreytt verkefni allt frá fjöru til fjalls. Við létum ekki fáeinar hitagráður stöðva okkur, en hitamælar sýndu 3 gráður í upphafi dags, en voru orðnar 7 um hádegið og voru þær allar vel nýttar! Í hádeginu var svo öllum nemendum boðið upp á pylsur með öllu.

Skólaferðalag 10.bekkjar

Í morgun hélt 10. bekkur í skólaferðalag og er ferðinni heitið að Bakkaflöt í Skagafirði, líkt og gert hefur verið hin síðustu ár. Næstu daga mun hópurinn njóta þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða og fara í flúðasiglingar, loftbolta, klettaklifur, kayakferðir, sund og fleira. Heimkoma er áætluð á fimmtudag.

Valgreinar næsta vetur

Í gær fengu nemendur 7., 8. og 9. bekkjar kynningu á valgreinum næsta vetur og eiga að skila valblöðum í síðasta lagi 16.maí. Í dag koma nemendur 4., 5. og 6. bekkjar einnig með blöð heim og biðjum við foreldra um að hjálpa þeim að velja út frá áhugasviði hvers og eins. 

Allar nánari upplýsingar varðandi valgreinar næsta vetrar má nálgast hér https://grisa.isafjordur.is/namid/valgreinar_/

Úrslit í Skólahreysti

Krakkarnir okkar stóðu sig vel í Skólahreystinni í dag og höfnuðu í 5. sæti í sínum riðli. Við erum stolt af hópnum og óskum þeim góðrar heimferðar.

Keppni í Skólahreysti í dag

Í dag keppa nemendur G.Í. í undankeppni Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Í liði skólans eru þau Aníta Ólöf Smáradóttir, Dagný Emma Kristinsdóttir, Eyþór Freyr Árnason, Hugi Lúthersson, Patrik Duda og Svala Katrín Birkisdóttir. Liðsstjóri er Axel Sveinsson íþróttakennari, sem hefur ásamt Árna Heiðari Ívarssyni þjálfað nemendur í vetur. Keppnin er sýnd beint á RÚV kl. 14:00 og hvetjum við alla til að fylgjast með. Við óskum hópnum okkar góðs gengis og segjum ÁFRAM G.Í.

Litla upplestrarkeppnin

Í morgun fór Litla upplestrarkeppnin fram í 4.bekk, en undirbúningur hefur staðið yfir síðustu mánuði, þar sem lögð hefur verið rækt við vandaðan upplestur og framburð. Í raun má segja að um uppskeruhátíð sé að ræða fremur en keppni, þar sem allir nemendur árgangsins stigu á stokk og fluttu ljóð og texta fyrir foreldra og nemendur 3. bekkjar, auk þess sem þeir sungu og spiluðu á píanó. Birnir Snær Heiðarsson úr 7.bekk las einnig textabrot fyrir áheyrendur, en hann tók þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrr í vetur og stóð sig mjög vel og er því góð fyrirmynd fyrir yngri nemendur. 

Nemendur stóðu sig allir með mikilli prýði og að dagskrá lokinni var boðið upp á djús og kökur úti í porti og auðvitað tók sólin þátt í gleðinni og þakkaði krökkunum fyrir góða frammistöðu.

Vordagskráin

Nú er vordagskráin klár og gott að hafa hana til hliðsjónar næstu vikurnar. Umsjónarkennarar láta svo vita af nánari útfærslum.

Öryggishjálmar í 1.bekk

Í morgun kom Gunnlaugur Gunnlaugsson fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Bása hér á Ísafirði og færði öllum 1. bekkingum, alls 40 krökkum, öryggishjálma að gjöf. Þetta hafa Kiwanismenn gert undanfarin 30 ár eða svo og þökkum við þeim kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Um leið minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, hvort heldur er á reiðhjólum, hlaupahjólum eða hvers kyns öðrum hjólum.