VALMYND ×

Fréttir

Vordagskráin

Nú er vordagskráin klár og gott að hafa hana til hliðsjónar næstu vikurnar. Umsjónarkennarar láta svo vita af nánari útfærslum.

Öryggishjálmar í 1.bekk

Í morgun kom Gunnlaugur Gunnlaugsson fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Bása hér á Ísafirði og færði öllum 1. bekkingum, alls 40 krökkum, öryggishjálma að gjöf. Þetta hafa Kiwanismenn gert undanfarin 30 ár eða svo og þökkum við þeim kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Um leið minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, hvort heldur er á reiðhjólum, hlaupahjólum eða hvers kyns öðrum hjólum.

Íslandsmót barnaskólasveita í skák

Laugardaginn 22.apríl s.l. var Íslandsmót barnaskólasveita í skák haldið í Rimaskóla í Reykjavík. Grunnskólinn á Ísafirði sendi lið í yngri flokki þ.e. í flokki 4. - 7. bekkjar og er það í fyrsta skipti sem við tökum þátt að við best munum. Alls mætti 31 sveit til leiks og óvenju margar af landsbyggðinni.

Fyrir hönd skólans kepptu þau Karma Halldórsson, Nirvaan Halldórsson, Svaha Halldórsdóttir og Stígur Aðalsteinn Arnórsson. Þau stóðu sig öll með stakri prýði og enduðu í 19.-20. sæti og voru nærri því að tryggja sér verðlaunasæti sem eitt af þremur hæstu landsbyggðarliðunum. Við erum virkilega stolt og þakklát fyrir að hafa getað sent lið á mótið og þökkum þessum nemendum fyrir þátttökuna, svo og liðsstjóranum Halldóri Bjarkasyni fyrir utanumhaldið. 

Síðasti vetrardagur

Veturinn kveður okkur í dag með mildu vorveðri. Á morgun, sumardaginn fyrsta, er lögbundinn frídagur og margir á faraldsfæti. Í dag voru um 70 nemendur fjarverandi, sem einkennist einna helst af Andrésar andar leikunum á Akureyri. Við óskum þeim öllum góðrar ferðar og góðs gengis, svo og öðrum ferðalöngum.

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Í gamalli vísu segir ,,Harpa vekur von og kæti, vingjarnleg og kvik á fæti". Það á svo sannarlega við þessa dagana og vonum við að svo verði áfram. Gleðilegt sumar!

Hárgreiðsluval

26 nemendur á unglingastigi hafa hárgreiðlsuval á stundaskránni sinni í vetur, 11 fyrir áramót og 15 eftir áramót, undir styrkri stjórn Kristínar B. Oddsdóttur kennara. Þessa dagana hafa nemendur fengið að heimsækja hárstofuna Ametyst og nýtt sér aðstöðuna þar. Það er að mörgu að hyggja varðand umhirðu hárs, bæði hvað varðar þvott og þurrk. Auk fræðslu um umhirðu, hafa nemendur einnig fræðst um hársöguna frá árunum 1940 til 2020 og teiknuðuð uppáhalds greiðsluna sína.

Úrslit í Pangeu

Úrslitakeppni Pangeu 2023 fór fram með pompi og prakt í gær í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Keppendur stóðu sig virkilega vel og þátttökumet var slegið í ár þar sem 4.893 nemendur alls (2.573 úr 8.bekk og 2.320 úr 9.bekk), úr samtals 66 skólum af öllu landinu tóku þátt í keppninni. Okkar menn, þeir Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson og Orri Norðfjörð stóðu sig frábærlega og eru í topp 37 í sínum árgöngum, af þessum 4.893 nemendum. Við óskum þeim, kennurum þeirra og foreldrum innilega til hamingju með árangurinn. 

Tveir nemendur í úrslit í Pangeu

Í vetur tóku nemendur 8. og 9. bekkjar þátt í Pangea stærðfræðikeppni sem er fyrir alla nemendur áttundu og níundu bekkja grunnskóla landsins. Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.

Öll vinna við skipulagningu og framkvæmd keppninnar er unnin af sjálfboðaliðum úr Félagi Horizon og raungreina- og verkfræðinemum. Kennarasamband Íslands hefur verið skipuleggjendum innan handar við gerð prófanna.

Nú er ljóst að tveir nemendur G.Í. komust í úrslit Pangeu 2023. Það eru þeir Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson í 8. bekk og Orri Norðfjörð í 9.bekk. Þetta er frábær árangur hjá þeim og erum við innilega stolt af þeim og óskum þeim góðs gengis í úrslitakeppninni, sem haldin verður 15.apríl í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Enginn skíðadagur að sinni

Því miður er ekki hægt að bjóða upp á skíðadag á morgun vegna snjóleysis. Við höldum þó í þá veiku von að enn eigi eftir að snjóa til fjalla og grípum þá tækifærið ef og þegar það gefst.