VALMYND ×

Fréttir

Skólahreysti lokið þetta árið

1 af 4

Lið G.Í. keppti í undanrásum Skólahreysti í Garðabæ í dag. Það var við ofurefli að etja hjá okkar fólki, en liðið hafnaði í 8.sæti riðilsins og komst því ekki áfram upp úr riðlinum. Tvö efstu liðin úr hverjum riðli komast í úrslitakeppnina sem haldin verður í næsta mánuði. 

Við erum mjög stolt af þessum krökkum okkar sem leggja sig virkilega fram þrátt fyrir bágborna aðstöðu miðað við marga aðra skóla, sem hafa fullkomnar skólahreystibrautir við sína skóla.

Nemendur í útivistarvali gengu upp á varnargarðinn við Seljaland í dag og þaðan upp að Skíðheimum og fylgdust að sjálfsögðu með skólafélögunum keppa í beinni útsendingu á RÚV. 

Undankeppni í Skólahreysti á morgun

Á morgun tekur G.Í. þátt í undankeppni Skólahreysti í Garðabæ. G.Í. keppir í 1.riðli ásamt 9 öðrum skólum, víðs vegar að af landinu, en alls eru riðlarnir 7 þetta árið. Efstu liðin úr hverjum riðli keppa svo til úrslita í Laugardalshöllinni þann 21.maí n.k.

Fyrir hönd G.Í. keppa þau Anna Salína Hilmarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Birta Kristín Ingadóttir, Grétar Smári Samúelsson og Tómas Elí Vilhelmsson. Þjálfari liðsins er Axel Sveinsson, íþróttakennari.

Undankeppnin verður sýnd á RÚV kl. 14:00 í beinni útsendingu. Við óskum okkar fólki góðs gengis og fylgjumst spennt með.

Fjölgun nemenda

Nemendafjöldi við G.Í. í dag er nú kominn í 388 og er það fjölgun um 25 nemendur eða um 7% á milli ára. Fjöldi nemenda hefur ekki verið svo mikill í 10 ár og er svo sannarlega tilefni til að fagna þessari þróun.

Fjöldi nemenda er mjög misjafn eftir árgöngum:

1.bekkur 48 nemendur (3 hópar)

2.bekkur 30 nemendur (2 hópar)

3.bekkur 25 nemendur (1 hópur)

4.bekkur 50 nemendur (2 hópar)

5.bekkur 47 nemendur (2 hópar)

6.bekkur 44 nemendur (2 hópar)

7.bekkur 32 nemendur (2 hópar)

8.bekkur 39 nemendur (2 hópar)

9.bekkur 32 nemendur (2 hópar)

10.bekkur 41 nemandi (1 hópur, teymiskennsla)

 

Skjátími barna - samfélagslegt vandamál?

Þriðjudaginn 19. apríl kl.20:00 verður foreldrum grunnskólabarna boðið á fyrirlestur um skjátíma barna sem haldinn verður af Margréti Lilju Guðmundsdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknum og greiningu. Fyrirlesturinn verður í matsal Grunnskólans á Ísafirði og við vonum að sem flestir foreldrar sjái sér fært að mæta enda sýna rannsóknir að skjátími barna hafi aukist á sl. 2 árum.

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar

Allir þátttakendur
Allir þátttakendur
1 af 11

Í gær fór Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Þrettán nemendur úr 7.bekk á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt fyrir hönd sinna skóla og stóðu sig allir með mikilli prýði.

Í upphafi hátíðarinnar lék Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar tvö lög undir stjórn Madis Maeekalle; Livin´da vida loca eftir Desmond Child og Who let the dogs out eftir Anslem Douglas.

Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar var kynnir keppninnar. Alexander Sebastían Magneuson, nemandi í 8.bekk G.Í. kynnti skáld keppninnar, sem voru að þessu sinni þau Guðrún Helgadóttir og Þórarinn Eldjárn. Nemendur völdu sér textabrot og ljóð eftir þessa höfunda og lásu í tveimur umferðum. Í hléi voru þrjú tónlistaratriði í boði 7. bekkinga G.Í. Gunnar Geir Gunnarsson lék á píanó Innocence eftir Burgmüller, Urður Óliversdóttir lék Blackbird eftir þá Lennon & McCartney á gítar og þær stöllur Sigurbjörg Danía Árnadóttir og Silja Marín Jónsdóttir sungu saman Kvæðið um fuglana.

Dómarar keppninnar voru þau Bergþór Pálsson, Gísli Elís Úlfarsson, Guðlaug Jónsdóttir og Sólrún Geirsdóttir. Þeirra starf var ekki auðvelt, þar sem keppendur þóttu mjög jafnir og einstaklega vel æfðir. Úrslit urðu þau að Sigurbjörg Danía Árnadóttir hlaut 1.verðlaun, Aram Nói Norðdahl Widell hlaut 2.verðlaun og Helga Sigríður Jónsdóttir 3.verðlaun. Þau eru öll nemendur við Grunnskólann á Ísafirði. Að launum fengu þau öll bókina Í huganum heim eftir Guðlaugu okkar Jónsdóttur, auk þess sem Landsbankinn gaf sigurvegaranum peningaverðlaun. Þá fengu allir lesarar viðurkenningarskjal fyrir sína þátttöku og þá alúð sem þau hafa lagt í æfingar.

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Keppnin var sett 16.nóvember s.l. á Degi íslenskrar tungu og hafa nemendur verið að æfa sig markvisst síðan, undir leiðsögn sinna kennara og foreldra.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með frábæran árangur og vonum að allt þetta æfingaferli verði þeim gott veganesti inn í framtíðina.

 

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fram á morgun í Hömrum kl.17:00. Þar munu 13 nemendur úr 7.bekk á norðanverðum Vestfjörðum lesa valinn texta eftir Guðrúnu Helgadóttur og ljóð eftir Þórarin Eldjárn.

Krakkarnir hafa æft sig í framsögn allt frá Degi íslenskrar tungu, þann 16.nóvember síðastliðinn. Það verður gaman að hlýða á þessi frambærilegu ungmenni og eru allir velkomnir.

Frístund óbreytt á næsta skólaári

Í haust var send út könnun til foreldra barna í 1.-4. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði varðandi ýmislegt tengt skólaumhverfi barnanna. Þar var m.a. spurt út í afstöðu foreldra til Frístundar en í haust hefst tíundi veturinn sem hún er samþætt skólastarfi Grunnskólans á Ísafirði. Frístundin snýst um að flétta íþróttir og tómstundastarf meira inn í skóladaginn og að jafna aðgengi barna að tómstundastarfi. Frístundin hefur þróast úr því að vera starfrækt á miðjum skóladegi yfir í að hafa hana í lok skóladags, eins og fyrirkomulagið er núna. Það er öllum hollt að staldra við og athuga hvort ánægja sé með ákveðið fyrirkomulag og því var ákveðið að kanna hug foreldra gagnvart Frístundinni. Niðurstöðurnar voru frekar afgerandi. Þegar foreldrar voru spurðir hvernig þeim líkaði við Frístundina svöruðu 88%, af þeim 68 sem tóku afstöðu, að þeim líkaði mjög vel eða frekar vel við hana. Foreldrar voru einnig spurðir hvort þeir vildu halda áfram með núverandi fyrirkomulag á Frístund og svöruðu 82% af þeim játandi.

Við teljum mikilvægt að kalla eftir skoðunum foreldra þegar kemur að skóla- og frístundastarfi og virða þær. Því hefur skóla- og tómstundasvið í samvinnu við skólastjórnendur og forstöðumann Frístundar ákveðið að halda núverandi fyrirkomulagi á næsta skólaári.

Útivistardagur á morgun 29. mars

Á morgun spáir mjög góðu veðri og því stefnum við á útivistardag í Tungudal í 5.-10. bekk, milli 10 og 13.  Nemendur mæta beint á svæðið og fer rúta frá skólanum kl. 9:30 fyrir þá sem þurfa far. Færið á skíðasvæðinu er ekki alveg upp á það besta en umsjónarmaður svæðisins segir að það verði troðið í dag og aftur á morgun svo að þetta verður í lagi.  Hins vegar verða ótroðnar brautir lokaðar og mikilvægt að fara ekki út fyrir troðnar brautir.  Nánari upplýisngar hafa verið sendar foreldrum í tölvupósti.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í sal skólans. Þar lásu 10 af 12 nemendum sem valdir höfðu verið úr árgangnum í fyrri undankeppni, sögubrot og ljóð að eigin vali, en því miður forfölluðust tveir. Sveinfríður Olga skólastjóri stýrði keppninni og voru dómarar þær Auður Yngvadóttir, Elín Sveinsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir. Þeirra hlutverk var ekki auðvelt, en þær þurftu að velja 6 nemendur sem keppa munu fyrir hönd skólans á lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í Hömrum þann 5.apríl n.k.

Úrslitin urðu þau að Aram Nói Norðdahl Widell, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, Helga Sigríður Jónsdóttir, Sigurbjörg Danía Árnadóttir, Sylvía Rán Magnúsdóttir og Vésteinn Guðjónsson munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni. Til vara verður Gunnar Geir Gunnarsson.

Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.

Allt frá upphafi hefur keppnin verið haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Nú er því lokið og keppnin því undir skólunum sjálfum komin. Grunnskólarnir á norðanverðum Vestfjörðum ákváðu í haust að taka höndum saman og skiptast á skipulagningu. Þetta árið verður lokahátíðin í höndum okkar Ísfirðinga, á næsta ári taka Bolvíkingar við keflinu og árið 2024 verður röðin komin að Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík.

Hafa ber í huga að „keppnin" er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meira í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn. Keppnin er sett formlega á degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember ár hvert og lýkur í mars/apríl með lokahátíð.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góðan árangur og hlökkum til að fylgjast með lokahátíðinni í Hömrum þann 5.apríl kl.17:00. Ennfremur viljum við þakka þeim Guðnýju S. Stefánsdóttur og Jóni Ólafi Eiríkssyni, umsjónarkennurum í 7.bekk og foreldrum allra nemenda kærlega fyrir þeirra framlag, en þjálfun nemenda hefur alfarið verið í þeirra höndum.

Árshátíð GÍ 2022- Tímaflakk

Nú styttist heldur betur í árshátíðina okkar og tilhlökkun og spenningur í gangi.  Æfingar og undirbúningur ganga vel þrátt fyrir að eitt lítið veirugrey láti á sér kræla. Að þessu sinni er enginn aðgangseyrir. Hér fyrir neðan er skipulag á árshátíðarsýningum. 

 

  1. sýning –miðvikudaginn 23. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

  1. sýning – miðvikudaginn 23. mars kl. 11:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

 

  1. sýning – fimmtudaginn 24. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

  1. sýningfimmtudaginn 24. mars kl kl. 11:00

            Flytjendur: 1.-6.bekkur

            Áhorfendur: Tangi og unglingastig

 

  1. sýning – fimmtudaginn 24. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 7.–10. bekkur,

Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra

(7.-10. bekkur mætir 9:40 á föstudeginum)