VALMYND ×

Fréttir

Jólaleyfi

Eftir litlu jólin í morgun hófst jólaleyfi. Við óskum starfsfólki okkar, nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar með von um farsæld á nýju ári.

Skólastarf hefst að jólaleyfi loknu miðvikudaginn 4.janúar 2023 samkvæmt stundaskrá.

Litlu jólin

Á morgun, þriðjudaginn 20. desember, höldum við litlu jólin hátíðleg frá kl. 9:00 - 12:00. Allir mæta þá spariklæddir, með sparinesti sem við köllum; smákökur og drykki. Nemendur mæta í sínar bekkjarstofur, eiga notalega stund með sínum bekk og ganga svo og syngja í kringum jólatréð.

Strætó fer kl. 8:40 úr firðinum og Hnífsdal og til baka frá skóla kl. 12:10. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00 - 14:30 fyrir þá sem munu nýta sér þá þjónustu.

Skóli hefst svo aftur að jólaleyfi loknu miðvikudaginn 4.janúar 2023 samkvæmt stundaskrá.

 

Boðið upp á kakó og piparkökur

1 af 2

Í morgun var boðið upp á kakó og piparkökur úti í porti í frímínútunum. Þetta mæltist vel fyrir líkt og undanfarin ár og kom sér vel í frostinu. Kristján Arnar Ingason, skólastjóri og Harpa Henrysdóttir, kennari, toppuðu svo útiveruna með því að spúa eldi, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hurðaskreytingar

Nemendur og starfsmenn hafa verið duglegir að vanda við að skreyta hurðir undanfarna daga, líkt og undanfarin ár. Fjölbreytnin er mikil og virkilega gaman að sjá mismunandi útgáfur. 

Spilagjöf

Í síðustu viku kom Þórunn Sigurbjörg Berg fyrir hönd Foreldrafélags G.Í. og færði skólanum borðspil að gjöf. Gjöfin er svo sannarlega kærkomin og sendum við foreldrum bestu þakkir fyrir.

Piparkökuhúsagerð

Við höldum í þá skemmtilegu hefð í heimilisfræðivali á unglingastigi að baka og skreyta piparkökuhús. Húsin voru ákaflega falleg þetta árið og fjölbreytnin heilmikil. Það mátti sjá gleði og stolt í andlitum nemenda þegar þeir fóru heim með afraksturinn í síðustu viku. Húsin prýða nú yfir þrjátíu heimili á svæðinu. Guðlaug Jónsdóttir, Elva Jóhannsdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir leiddu þessa skemmtilegu og gefandi vinnu.
 
 
 
 
 

Bókagjöf

Í morgun barst skólanum bókagjöf frá samtökunum Stöndum saman Vestfirðir. Samtökin voru stofnuð árið 2016 með það í huga að standa saman að því að bæta samfélagið okkar eins og hægt er. Í þetta sinn var ákveðið að safna fyrir bókagjöf í alla leik- og grunnskóla á Vestfjörðum, en það eru alls 13 leikskólar og 12 grunnskólar. Markmiðið er að allir skólar á Vestfjörðum fái fallegar jólabækur til að hægt sé að eiga góða jóla lestrarstund.

Samtökin hafa staðið fyrir tveimur söfnunum á þessu ári, annars vegar fyrir heyrnamælingartæki fyrir HVEST og hins vegar fyrir hjartastuðtækjum til nota á skíðasvæðinu á Ísafirði.

Við þökkum kærlega fyrir þessa rausnarlegu og góðu gjöf, sem á eflaust eftir að gleðja marga lesendur.

Skólablak

1 af 3

Í dag bauð Blaksamband Íslands nemendum í 4. - 6. bekk upp á kynningu á skólablaki í íþróttahúsinu á Torfnesi. Þetta er hluti af hringferð um landið þar sem öllum skólum boðin þátttaka.

Markmiðið með skólablaki er að kynna blakíþróttina fyrir krökkum og kennurum, einfalda kennsluaðferðir og auka sýnileika hennar á landsvísu. Einnig er þetta frábær vettvangur fyrir hópefli fyrir nemendur.

Góð mæting á opnum degi

1 af 4

Í dag var opið hús hjá okkur þar sem foreldrum og öðrum velunnurum var boðið að líta við hjá okkur. Mætingin var framar öllum vonum og erum við starfsfólkið virkilega þakklátt fyrir þann fjölda heimsókna sem við fengum. Við finnum að það var virkilega kominn tími til að opna skólann upp á gátt eftir covid og myglu undanfarin ár. 

Tilgangurinn var fyrst og fremst að kynna starfið fyrir fjölskyldum nemenda okkar og vitum við að nemendur okkar eru alsælir með heimsóknirnar og glaðir að geta sýnt sínum nánustu hvað þeir eru að fást við í skólastarfinu.

Við viljum þakka ykkur kæru foreldrar, afar, ömmur og öll þið hin sem sáuð ykkur fært að líta við hjá okkur í dag, þið gerðuð daginn eftirminnilegan.

Opinn dagur

Á morgun, þann fyrsta 1.desember, fögnum við fullveldi Íslands. Það gerum við m.a. með því að mæta í betri fötunum í skólann og bjóða foreldrum og öðrum velunnurum í heimsókn til okkar, líta við í kennslu og skoða verk nemenda. Við verðum með heitt á könnunni og piparkökur á kaffistofu starfsmanna og vonumst til að sjá sem flesta.