Fréttir
Hljómsveitin Celebs í heimsókn
Í dag kom hljómsveitin Celebs í heimsókn til okkar og lék tvö lög fyrir alla nemendur skólans. Hljómsveitina skipa þau Katla Vigdís, Hrafnkell Hugi og Valgeir Skorri Vernharðsbörn frá Suðureyri, en þau eru að taka þátt í undankeppni Evróvision þessa dagana. Nemendur og starfsfólk kunnu vel að meta þetta uppbrot og tóku virkan þátt i söng og dansi. Við þökkum þeim systkinum kærlega fyrir komuna!
Enn ein gul viðvörun
Í morgun var allhvasst og úrkoma, sem sagt leiðindaveður. Um þriðjungur nemenda var fjarverandi í dag, bæði vegna óveðurs og veikinda sem virðast vera í hámarki núna þessa dagana og vantaði allt upp í 24 nemendur í árgang. Samtals vantaði 128 nemendur í skólann í dag.
Í fyrramálið á veðrið að vera gengið niður, en það verður skammvinn sæla, þar sem næsta gula veðurviðvörun tekur gildi kl. 16:00 á morgun. Við ættum því að geta haldið úti eðlilegu skólahaldi á morgun að öllu óbreyttu. Við trúum því að öll él stytti upp um síðir og við förum að sjá til sólar.
Gul veðurviðvörun
Í fyrramálið er gul veðurviðvörun í gildi frá kl. 9:00 með austan hvassviðri og snjókomu eða slyddu. Skólinn verður opinn, en þegar slík viðvörun er í gildi hjá Veðurstofu Íslands skulu foreldrar ávallt meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann.
Íþróttir verða ekki á Torfnesi í fyrramálið og eiga nemendur að mæta í sínar bekkjarstofur í staðinn.
Veðurviðvaranir
Í kvöld og nótt er spáð austan og norðaustan stormi eða roki, 18-25 m/s. Appelsínugul viðvörun er í gangi til klukkan 7:00 í fyrramálið, en eftir það á veðrið að fara að ganga niður og er gul viðvörun í gangi til kl. 10:00 á morgun.
Þegar gular viðvaranir eru í gildi hjá Veðurstofu Íslands skulu foreldrar ávallt meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann. Skólinn er alltaf opinn þó slíkar viðvaranir sé í gildi.
Þegar appelsínugular eða rauðar viðvaranir Veðurstofu Íslands eru í gildi hefur skólastjóri heimild, í samráði við sviðsstjóra, að fella niður skólastarf. Sé það gert er það auglýst á heimasíðu skólans, Facebook síðu skólans, svo og í tölvupósti til foreldra, eigi síðar en kl. 7:00 að morgni þess dags.
Við bendum á nýjar reglur um skólahald í Ísafjarðarbæ þegar óveður geisar, sem samþykktar voru á síðasta ári.
Nemendastýrð foreldraviðtöl
Miðvikudaginn 1.febrúar er foreldradagur hjá okkur. Við höfum verið að fikra okkur áfram með nemendastýrð foreldraviðtöl, sem er hluti af innleiðingu leiðsagnarnáms hér í skólanum og verða viðtölin nú með þeim hætti. Tilgangur nemendastýrðra foreldraviðtala er að valdefla nemendur, auka meðvitund þeirra um eigið nám og námsaðferðir og greina hvað þeir gera vel og hvar má gera betur. Nemendur eru þessa dagana að undirbúa viðtölin með því að velja sér verkefni til að kynna fyrir foreldrum sínum. Þar með fá þeir tækifæri til að sýna hvað þeir eru ánægðir með í sinni vinnu og gert sér betur grein fyrir hvaða hæfni er verið að þjálfa.
Foreldrar geta nú skráð sig í viðtöl inni á Mentor og valið sér þá tímasetningu sem hentar best.
Hálka og hvassviðri
Vegna mikillar hálku og hvassviðris á 5.bekkur ekki að mæta í íþróttir á Torfnesi klukkan 8:00. Þau mæta þess í stað í sínar bekkjarstofur.
Heimsókn frá Píeta samtökunum
Píeta samtökin og Rótary klúbbur Ísafjarðar standa fyrir fræðslu- og kynningarfundi fyrir almenning fimmtudaginn 26. janúar kl.19:30 í sal skólans. Píeta samtökin eru samtök gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og fræðsla um þau mál mjög þörf. Við fögnum þessu framtaki og hvetjum sem flesta til að mæta, því þessi málefni snerta okkur öll.
Þorrablót 10.bekkjar
Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Samkvæmt venju bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 18:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:00.
Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur. Einnig hefur frést að foreldrar hafi verið að bursta dansskóna, þannig að það er aldrei að vita nema þeir komi á óvart á dansgólfinu.
Unglingum boðið upp á frían hafragraut
Frá og með áramótum eru breytingar á gjaldskrá skólamötuneytis um 5-8% og er þar horft til hækkunar verðlags. Stök máltíð og ávextir hækka um 5% og mjólkuráskrift um 7-8%. Veittur er 10% afsláttur af hádegismat ef barn er skráð alla skóladaga í bundna áskrift í heila önn. Eftir hækkun kostar stök máltíð miðað við mánaðargjald kr. 515 en kostaði kr. 490 áður.
Nýtt í gjaldskrá er að hafragrautur fyrir 7. - 10. bekk verður gjaldfrjáls. Þetta er gert til að mæta þörf þeirra unglinga sem ekki gefa sér tíma, eða hafa ekki lyst á morgunmat fyrir klukkan 8. Við sjáum til hver reynslan verður af þessu, áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið. Vonandi eiga margir unglingar eftir að nýta sér þetta, en grauturinn verður afgreiddur í matsal skólans kl. 9:20 dag hvern. Við bendum á að þeir sem hyggjast nýta sér þennan möguleika þurfa að skrá sig í grautaráskriftina.
Matseðill fyrir janúar er tilbúinn og er skráning í fullum gangi. Síðasti skráningardagur er á morgun, fimmtudaginn 29. desember.