VALMYND ×

Fréttir

Golfæfingar

Síðastliðinn miðvikudag fór 7.bekkur í heimsókn á golfvöllinn í Tungudal og fékk að kynnast golfíþróttinni. Vel var tekið á móti hópnum og endaði dagurinn á pylsuveislu, sem allir kunnu vel að meta.

Listsköpun

Fjaran við Fjarðarstrætið er mikið nýtt þessa dagana af nemendum skólans. List-og verkgreinakennarar fóru á dögunum með 8.bekkinn í listsköpun í fjörunni úr þeim efnivið sem náttúran býður upp á. Til urðu hin fjölbreyttustu listaverk og voru nemendur einstaklega duglegir og frjóir í sköpuninni.

Skólaferðalag 10.bekkjar

Nú í maí fór 10.bekkur Grunnskólans á Ísafirði í skólaferðalag að Bakkaflöt í Skagafirði, ásamt nokkrum starfsmönnum og foreldrum. Hópurinn hafði eitt og annað fyrir stafni og má þar nefna litbolta, þrautabraut, flúðasiglingu, sundferðir og safnaheimsóknir. Matnum var einnig gerð góð skil og runnu kvöldkaffiveitingar frá foreldrum sérlega vel niður í svanga unglinga. Mikil ánægja var með ferðina hjá nemendum og fararstjórum þar sem hópurinn fékk mikið lof hvert sem hann kom.

Árgangurinn er nú á síðustu metrum grunnskólagöngu sinnar og formlegri kennslu lokið hjá þeim. Vorpróf standa nú yfir og að þeim loknum er þeim boðið upp á starfskynningar hjá fyrirtækjum hér í bæ, útivistardag og lokaball. Útskriftin sjálf er svo þriðjudaginn 7.júní n.k. kl. 20:00 í Ísafjarðarkirkju.

Gönguferð um Ísafjörð

1 af 4

Á dögunum unnu nemendur 9.bekkjar samþætt verkefni í ensku og dönsku sem byggðist á gönguferð um Ísafjörð. Nemendur stofnuðu ferðaskrifstofu, hönnuðu bækling á ensku og dönsku, kort og merki fyrir skrifstofuna, með öllum þeim markaðsupplýsingum sem þarf til að heilla viðskiptavini.

Hver hópur var svo í hlutverki leiðsögumanna og gengu um eyrina ásamt öllum nemendum árgangsins og kynntu það sem fyrir augu bar, á ensku og dönsku. 

Megintilgangur tungumálanáms er að nemendur öðlist alhliða hæfni til að nota tungumálið sem lifandi verkfæri í fjölbreyttum tilgangi og við ólíkar aðstæður. Námið á að veita nemendum tækifæri til að nota málið á skapandi hátt í ræðu og riti, og hefur verkefni þetta svo sannarlega uppfyllt markmið aðalnámskrár að því leyti. Síðast en ekki síst fræddust nemendur heilmikið um bæinn sinn í þessu skemmtilega verkefni.

Tilfærslur vegna myglu

6.Es flyst í náttúrufræðistofu skólans
6.Es flyst í náttúrufræðistofu skólans
1 af 7

Í dag var í nógu að snúast vegna staðfestrar myglu á efri hæð gula hússins. Verkefni dagsins var að koma tæplega 70 börnum í 6. og 7. bekk, fyrir í öðrum rýmum skólans og þrífa og flytja flest allt sem þeim fylgir, þ.e. borð, stóla, tölvur, spjaldtölvur, ritföng, skápa og skúffur. Allur pappír var skilinn eftir þar sem ekki er auðvelt að mygluhreinsa hann. Nú sanna spjaldtölvurnar enn og aftur gildi sitt, en hægt er að nálgast flestallar námsbækur sem raf- og hljóðbækur í gegnum þær.

Lendingin var sú að 6. bekkirnir báðir flytjast á neðri hæð hvíta hússins, 7.bekkirnir báðir sameinast í dansstofu skólans og danskennslan flyst í matsalinn. Inngangur þeirra verður því Aðalstrætismegin.

Það var alveg ótrúlegt hvað allt þetta flutningsferli gekk vel og starfsmenn samhentir og lausnamiðaðir. Þeir lyftu svo sannarlega grettistaki og kláruðu þetta verkefni með miklum sóma. Á morgun koma 6. og 7. bekkur aftur í skólann og erum við viss um að vel muni fara um þau í þessum nýju rýmum fram á vorið.

Litla Act alone

1 af 2

Litla Act alone er haldin hátíðleg fyrir æsku Vestfjarða þessa dagana. Í morgun var röðin komin að G.Í. og fengu öll stig sína sýningu í Hömrum. Yngsta stigið fékk sýninguna Sól á Vestfjörðum en eldri nemendum var boðið upp á Lalla og töframanninn. 

Sýningarnar voru mjög vel heppnaðar og nemendur skemmtu sér frábærlega.

Mygla í hluta skólans

Nýlega voru gerðar rakamælingar í kennslustofum 211-213 á annarri hæð gula hússins. Niðurstöðurnar gáfu tilefni til frekari skoðunar og því voru tekin sýni til að kanna hvort mygla leyndist í stofunum. Niðurstaða sýnatöku er að mygla fannst í öllum stofunum, mismikil þó. Ákveðið hefur verið að rýma stofurnar á þessum gangi og verða þær ekki teknar aftur í notkun fyrr en framkvæmdum er lokið.
Ráðist verður í framkvæmdir til að uppræta mygluna eins fljótt og auðið er en ljóst er að framkvæmdin verður umfangsmikil og á þessu stigi er óvíst hver verkhraðinn verður vegna skorts á iðnaðarmönnum. Því er hafin vinna við að kortleggja þá möguleika sem í boði eru fyrir skólastarfið í haust.


Aðal verkefnið núna er að koma nemendum 6. og 7. bekkjar fyrir í öðrum rýmum skólans og fer starfsfólk skólans í það verkefni strax í fyrramálið, eftir leiðbeiningum frá sérfræðingi í mygluskemmdum. Af þeim sökum verðum við að biðja foreldra um að hafa þá nemendur heima á morgun.
Eflaust vakna nú margar spurningar hjá foreldrum varðandi þetta mál og því hefur verið ákveðið að bjóða til upplýsingafundar á miðvikudaginn nk. Nákvæmari tímasetning er ekki ljós en hún verður send til foreldra um leið og hún liggur fyrir.

Smáréttaveisla í heimilisfræði

Annar hópur nemenda í heimilisfræðivali
Annar hópur nemenda í heimilisfræðivali
1 af 2

Heimilisfræðival hjá Guðlaugu Jónsdóttur, bauð upp á smáréttaveislu á dögunum. Matseðillinn var aldeilis fjölbreyttur, þar sem mátti sjá hrökkbrauð og hummus, sushi að hætti nemans, litlar veislupítsur, kjúklinga- og blaðlauksböku með sætri chillisósu, mexíkóskar körfur hlaðnar góðgæti, súkkulaðihrísbita og suðræna ávexti með vanillusósu.

Gestirnir, sem voru úr hópi starfsmanna, kunnu vel að meta þessar glæsilegu veitingar og gerðu þeim góð skil.

 

Fjöruhreinsun

Nemendur í 7.bekk fóru í hreinsunarstarf í fjörunni við Fjarðarstrætið á dögunum. Var það liður í verkefni sem Vatnsendaskóli stendur fyrir, sem miðar að sameiginlegu átaki í að hreinsa fjörur í kringum landið. Til stendur að merkja inn á kort hversu mikill hluti strandlengju Íslands verður hreinsaður, en hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook síðu verkefnisins; 7.bekkur hreinsar í kringum landið.

1.bekkingar fá öryggishjálma að gjöf

Í morgun komu þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson og Sveinbjörn Björnsson frá Kiwanisklúbbnum Básum hér á Ísafirði og færðu öllum 1. bekkingum, alls 48 krökkum, öryggishjálma að gjöf. 

Um leið og við þökkum Kiwanismönnum kærlega fyrir þessar rausnarlegu gjafir, þá minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, bæði á reiðhjólum, hlaupahjólum og hvers kyns öðrum hjólum.