Jól í skókassa
Í allmörg ár hafa nemendur 7.bekkjar skólans tekið þátt í verkefninu Jól í skókassa. Verkefnið felst í því að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Í hverjum og einum kassa þarf að vera að minnsta kosti einn hlutur úr hverjum flokki; leikfang, skóladót, hreinlætisvörur, sælgæti og föt.
Skókassarnir verða sendir til Úkraínu, þar sem þeim verður m.a. dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Í morgun fóru nemendur 7.bekkjar G.Í. sem leið lá upp í Ísafjarðarkirkju og afhentu sr. Magnúsi Erlingssyni, sem er tengiliður verkefnisins hér á Ísafirði, jólapakka til þessara barna. Það verða glöð börn í Úkraínu sem taka við gjöfunum og vonum við að þau njóti sem best þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Deila 
						