Skáld í heimsókn
Í morgun heimsóttu rithöfundarnir Rebekka Sif Stefánsdóttir og Kristín Björg Sigurvinsdóttir nemendur í 1. - 4. bekk, á vegum verkefnisins Skáld í skólum. Þær hafa dýrkað bækur frá því að þær lærðu stafina og mega því teljast sérfróðar um króka og kima bókaheimsins. Þær fengu nemendur í lið með sér sem spæjarar, til að kanna óþekktar lendur og leysa dularfullu bókaráðgátuna. Nemendur tóku virkan þátt í verkefninu og sýndu mikinn áhuga.
Rebekka Sif er rithöfundur og söngkona. Hún hefur skrifað þónokkrar bækur, t.d. Gling Gló, Flot og Trúnað. Kristín Björg er höfundur ungmennabókaflokksins Dulstafir, en fyrsta bókin, Dóttir hafsins, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá hefur Kristín einnig skrifað léttlestrarbækurnar Ráðgátugleraugun, Silfurflautuna og barnabókina Amelía og Óliver.
Þess má til gamans geta að báðir þessir rithöfundar eru ættaðir héðan að vestan; þ.e. frá Ísafirði og Suðureyri.
Deila