VALMYND ×

Fréttir

Hálka og hvassviðri

Vegna mikillar hálku og hvassviðris á 5.bekkur ekki að mæta í íþróttir á Torfnesi klukkan 8:00. Þau mæta þess í stað í sínar bekkjarstofur.

Heimsókn frá Píeta samtökunum

Píeta samtökin og Rótary klúbbur Ísafjarðar standa fyrir fræðslu- og kynningarfundi fyrir almenning fimmtudaginn 26. janúar kl.19:30 í sal skólans. Píeta samtökin eru samtök gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og fræðsla um þau mál mjög þörf. Við fögnum þessu framtaki og hvetjum sem flesta til að mæta, því þessi málefni snerta okkur öll.

Þorrablót 10.bekkjar

Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Samkvæmt venju bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 18:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:00.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur. Einnig hefur frést að foreldrar hafi verið að bursta dansskóna, þannig að það er aldrei að vita nema þeir komi á óvart á dansgólfinu.

Unglingum boðið upp á frían hafragraut

Frá og með áramótum eru breytingar á gjaldskrá skólamötuneytis um 5-8% og er þar horft til hækkunar verðlags. Stök máltíð og ávextir hækka um 5% og mjólkuráskrift um 7-8%. Veittur er 10% afsláttur af hádegismat ef barn er skráð alla skóladaga í bundna áskrift í heila önn. Eftir hækkun kostar stök máltíð miðað við mánaðargjald kr. 515 en kostaði kr. 490 áður.

Nýtt í gjaldskrá er að hafragrautur fyrir 7. - 10. bekk verður gjaldfrjáls. Þetta er gert til að mæta þörf þeirra unglinga sem ekki gefa sér tíma, eða hafa ekki lyst á morgunmat fyrir klukkan 8. Við sjáum til hver reynslan verður af þessu, áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið. Vonandi eiga margir unglingar eftir að nýta sér þetta, en grauturinn verður afgreiddur í matsal skólans kl. 9:20 dag hvern. Við bendum á að þeir sem hyggjast nýta sér þennan möguleika þurfa að skrá sig í grautaráskriftina.

Matseðill fyrir janúar er tilbúinn og er skráning í fullum gangi. Síðasti skráningardagur er á morgun, fimmtudaginn 29. desember. 

Jólaleyfi

Eftir litlu jólin í morgun hófst jólaleyfi. Við óskum starfsfólki okkar, nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar með von um farsæld á nýju ári.

Skólastarf hefst að jólaleyfi loknu miðvikudaginn 4.janúar 2023 samkvæmt stundaskrá.

Litlu jólin

Á morgun, þriðjudaginn 20. desember, höldum við litlu jólin hátíðleg frá kl. 9:00 - 12:00. Allir mæta þá spariklæddir, með sparinesti sem við köllum; smákökur og drykki. Nemendur mæta í sínar bekkjarstofur, eiga notalega stund með sínum bekk og ganga svo og syngja í kringum jólatréð.

Strætó fer kl. 8:40 úr firðinum og Hnífsdal og til baka frá skóla kl. 12:10. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00 - 14:30 fyrir þá sem munu nýta sér þá þjónustu.

Skóli hefst svo aftur að jólaleyfi loknu miðvikudaginn 4.janúar 2023 samkvæmt stundaskrá.

 

Boðið upp á kakó og piparkökur

1 af 2

Í morgun var boðið upp á kakó og piparkökur úti í porti í frímínútunum. Þetta mæltist vel fyrir líkt og undanfarin ár og kom sér vel í frostinu. Kristján Arnar Ingason, skólastjóri og Harpa Henrysdóttir, kennari, toppuðu svo útiveruna með því að spúa eldi, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hurðaskreytingar

Nemendur og starfsmenn hafa verið duglegir að vanda við að skreyta hurðir undanfarna daga, líkt og undanfarin ár. Fjölbreytnin er mikil og virkilega gaman að sjá mismunandi útgáfur. 

Spilagjöf

Í síðustu viku kom Þórunn Sigurbjörg Berg fyrir hönd Foreldrafélags G.Í. og færði skólanum borðspil að gjöf. Gjöfin er svo sannarlega kærkomin og sendum við foreldrum bestu þakkir fyrir.

Piparkökuhúsagerð

Við höldum í þá skemmtilegu hefð í heimilisfræðivali á unglingastigi að baka og skreyta piparkökuhús. Húsin voru ákaflega falleg þetta árið og fjölbreytnin heilmikil. Það mátti sjá gleði og stolt í andlitum nemenda þegar þeir fóru heim með afraksturinn í síðustu viku. Húsin prýða nú yfir þrjátíu heimili á svæðinu. Guðlaug Jónsdóttir, Elva Jóhannsdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir leiddu þessa skemmtilegu og gefandi vinnu.