VALMYND ×

Fréttir

Samstarf grunnskóla og Menntaskólans á Ísafirði

Miðvikudaginn 9. mars hittust skólastjórnendur grunnskóla á norðanverðum Vesfjörðum og Menntaskólans á Ísafirði á fundi. Umræðuefnið var efling samstarfs milli skólastiganna tveggja. Mikill hugur er í skólastjórnendum um að auka samstarf milli skólastiganna, bæði hvað varðar starfsfólk og nemendur. Næsti fundur skólastjórnenda verður haldinn í Grunnskólanum í Bolungarvík í byrjun maí og þar verða línurnar fyrir formlegra frekara samstarfi betur lagðar.

Óveður í dag

Að ósk verktaka sem sér um akstur verður síðasta ferð skólaaksturs frá skóla í dag kl. 9:30. Foreldrar eru beðnir um að sækja aðra nemendur fyrir 11 þar sem veðurspáin virðist vera að ganga eftir.

Kökugerð

Síðustu tvær vikur hafa unglingar í heimilisfræðivali unnið við kökugerð. Í fyrri vikunni bökuðu þau svamptertubotna og bjuggu til sykurmassa. Í vikunni sem er að líða var kakan síðan sett saman og skreytt. Að sögn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara voru nemendur mjög áhugasamir og lögðu flestir heilmikla vinnu og metnað í verkið.

Þótt oftast sé hollusta og heilbrigði í forgrunni í heimilisfræðinni er nauðsynlegt að gleðja stundum munn og maga - ekki spillir ef óhollustan gleður augað um leið.

Leit með snjóflóðaýlum

1 af 2

Í vetur er boðið upp á fjölbreytt val á unglingastigi. Ein valgrein heitir útivist, sem er undir leiðsögn Katrínar Sifjar Kristbjörnsdóttur. Þar læra nemendur m.a. að njóta nærumhverfisins og hvers ber að varast í umhverfinu, til að öðlast þekkingu, skilning og virðingu fyrir náttúrunni.

Í tengslum við námið fengu nemendur góða heimsókn í kennslustund í gær, þegar Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofunni, kom og fræddi þá um snjóflóð. Í framhaldi af því var farið í létta keppni í að leita með aðstoð snjóflóðaýla. Það þurfti ekki að fara upp í fjall til að finna snjó, heldur dugði að fara undir næsta húsvegg skólans í þetta skiptið. Við þökkum Óliver kærlega fyrir skemmtilegt og fræðandi innlegg í kennsluna.

 

Þorrablóti/góugleði frestað

Vegna mikilla veikinda nemenda í 10. bekk hefur verið ákveðið að fresta þorrblótinu/góugleðinni til 1. apríl næstkomandi. Vonandi verða allir búnir að jafna sig þá. 

Þorrablót/góugleði 10.bekkjar

Nú er loksins komið að hinu eina sanna þorrablóti hjá 10. bekk. Vegna fjöldatakmarkana fram í febrúar var ekki hægt að halda það á þorranum sjálfum, en góan er ekkert síðri og því ekki eftir neinu að bíða núna.

Þorrablótið verður haldið fimmtudaginn 10. mars. Húsið opnar kl. 19:00 og borðhaldið sjálft hefst kl. 19:30. Skemmtiatriði eru í höndum forelda og starfsfólks skólans og að því loknu verður dansinn stiginn við harmonikkuundirleik. Krakkarnir í 10.bekk hafa verið að æfa gömlu dansana á fullu undir leiðsögn Hlífar Guðmundsdóttur og Sveinbjörns Björnssonar og hafa þau öll staðið sig með eindæmum vel.

Þorrablót nemenda 10.bekkjar hafa verið haldin frá árinu 1981 (árgangur 1965) og hefur einu sinni fallið niður, þ.e. í fyrra vegna covid-19.

Maskadagur

Það var líf og fjör í skólanum hjá okkur í dag, enda maskadagur. Veðurfræðingar gáfu út gula viðvörun fyrir Vestfirði í gær og í morgun, sem breyttist svo í appelsínugula eftir að skólastarf var hafið, en það hafði ekki áhrif á gleðina sem ríkti hjá börnunum. Nemendur fengu sitt árlega maskaball í 1. - 7. bekk og var gaman að sjá allar þær persónur, dýr, ofurhetjur, furðuverur og allt hvað heitir. Allar þessar verur skemmtu sér saman í sátt og samlyndi og höfðu leikgleðina og samheldnina að leiðarljósi í dag.

 

Strætó í dag

Strætó fer frá skólanum kl. 14  í dag, inn í fjörð og út í Hnífsdal.  Ekki verða fleiri ferðir frá skólanum í dag og akstur frístundarútu fellur niður í dag vegna versnandi færðar.

Hinsegin fræðsla

Dagana 15. og 16. febrúar síðastliðinn fengu nemendur í 7. - 10. bekk hinsegin fræðslu frá Samtökunum 78. María Rut Kristinsdóttir fræddi nemendur um hvað það er að vera hinsegin, en það hugtak er regnhlífarhugtak yfir fólk með kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og/eða kyntjáningu sem fellur ekki að ríkjandi viðmiðum samfélagsins. María Rut náði vel til krakkanna og svaraði spurningum þeirra varðandi þessi mál.

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar en undir þá menntun fellur meðal annars nám um kyn og kynhneigð. Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hina ýmsu þætti og kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar. 

Flöskuskeyti við Noregsstrendur

1 af 2

Í apríl 2015 sendu þáverandi nemendur 5.bekkjar flöskuskeyti af stað út í óvissuna. Tilefnið var það að Ævar vísindamaður var að fylgja flöskuskeytum eftir með gps staðsetningartækjum og langaði nemendur og kennara að sjá hvort og þá hvar þeirra skeyti höfnuðu.

Nú á dögunum barst eitt þessara flöskuskeyta að strönd Smöla í Noregi. Sjálfboðaliðar á vegum ,,Plastjegerne" (Plastveiðaranna) fundu skeytið, en þeir hafa verið að hreinsa strendur undanfarið. Þeir sendu okkur svo mynd af skeytinu, sem er frá þeim Pétri Einarssyni og Herði Newman. Samkvæmt loftlínu er ferðalagið einir 1.521,82 km., en telja má víst að flaskan hafi tekið á sig allnokkrar lykkjur á leið sinni til Noregs.