VALMYND ×

Fréttir

Viðurkenning í eldvarnarátaki

Þórður Atli Sigurðsson ásamt Sigurði A. Jónssyni slökkviliðsstjóra
Þórður Atli Sigurðsson ásamt Sigurði A. Jónssyni slökkviliðsstjóra

Í nóvember s.l. hófst eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Slökkviliðin heimsóttu nemendur 3.bekkjar um land allt og ræddu við þá um eldvarnir og sýndu þeim teiknimynd um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Einnig gafst nemendum kostur á að taka þátt í eldvarnagetraun. Nú hefur verið dregið úr réttum svörum getraunarinnar hér á Ísafirði og kom Sigurður A. Jónsson slökkviliðisstjóri í heimsókn í morgun og afhenti verðlaunin. Það var Þórður Atli Sigurðsson sem reyndist sá heppni í þetta sinn og hlaut að launum viðurkenningarskjal og gjafabréf.

Við þökkum slökkviliði Ísafjarðarbæjar kærlega fyrir fræðsluna og óskum Þórði Atla innilega til hamingju.

Stutt vika framundan

Nú er stutt vika framundan, aðeins tveir kennsludagar. Á miðvikudaginn er starfsdagur og á fimmtudag og föstudag er vetrarfrí. Við vonum að allir njóti vel og komi endurnærðir til baka.

Einnig viljum við minna á maskadaginn/bolludaginn n.k. mánudag. Þá verða maskaböll í skólanum og allir hvattir til að mæta í búningum. Að sjálfsögðu er leyfilegt að koma með bollur í nesti þann dag.

Bókaverðlaun barnanna

Í febrúar og mars geta börn á aldrinum 6-12 ára kosið sína uppáhaldsbók sem bók ársins. Börnin geta valið eina til þrjár bækur sem þeim finnast skemmtilegastar, áhugaverðastar eða bestar af hvaða ástæðu sem er. Atkvæðaseðlar eru á bókasafni skólans ásamt QR kóða til skönnunar, en einnig er hægt að kjósa á netinu
Við hvetjum öll börn í 1.-7. bekk til að taka þátt.

Hljómsveitin Celebs í heimsókn

Í dag kom hljómsveitin Celebs í heimsókn til okkar og lék tvö lög fyrir alla nemendur skólans. Hljómsveitina skipa þau Katla Vigdís, Hrafnkell Hugi og Valgeir Skorri Vernharðsbörn frá Suðureyri, en þau eru að taka þátt í undankeppni Evróvision þessa dagana. Nemendur og starfsfólk kunnu vel að meta þetta uppbrot og tóku virkan þátt i söng og dansi. Við þökkum þeim systkinum kærlega fyrir komuna!

Enn ein gul viðvörun

Í morgun var allhvasst og úrkoma, sem sagt leiðindaveður. Um þriðjungur nemenda var fjarverandi í dag, bæði vegna óveðurs og veikinda sem virðast vera í hámarki núna þessa dagana og vantaði allt upp í 24 nemendur í árgang. Samtals vantaði 128 nemendur í skólann í dag.

Í fyrramálið á veðrið að vera gengið niður, en það verður skammvinn sæla, þar sem næsta gula veðurviðvörun tekur gildi kl. 16:00 á morgun. Við ættum því að geta haldið úti eðlilegu skólahaldi á morgun að öllu óbreyttu. Við trúum því að öll él stytti upp um síðir og við förum að sjá til sólar.

Gul veðurviðvörun

Í fyrramálið er gul veðurviðvörun í gildi frá kl. 9:00 með austan hvassviðri og snjókomu eða slyddu. Skólinn verður opinn, en þegar slík viðvörun er í gildi hjá Veðurstofu Íslands skulu foreldrar ávallt meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann. 

Íþróttir verða ekki á Torfnesi í fyrramálið og eiga nemendur að mæta í sínar bekkjarstofur í staðinn.

Veðurviðvaranir

Í kvöld og nótt er spáð austan og norðaustan stormi eða roki, 18-25 m/s. Appelsínugul viðvörun er í gangi til klukkan 7:00 í fyrramálið, en eftir það á veðrið að fara að ganga niður og er gul viðvörun í gangi til kl. 10:00 á morgun.

Þegar gular viðvaranir eru í gildi hjá Veðurstofu Íslands skulu foreldrar ávallt meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann. Skólinn er alltaf opinn þó slíkar viðvaranir sé í gildi. 

Þegar appelsínugular eða rauðar viðvaranir Veðurstofu Íslands eru í gildi hefur skólastjóri heimild, í samráði við sviðsstjóra, að fella niður skólastarf. Sé það gert er það auglýst á heimasíðu skólans, Facebook síðu skólans, svo og í tölvupósti til foreldra, eigi síðar en kl. 7:00 að morgni þess dags.

Við bendum á nýjar reglur um skólahald í Ísafjarðarbæ þegar óveður geisar, sem samþykktar voru á síðasta ári.

Nemendastýrð foreldraviðtöl

Miðvikudaginn 1.febrúar er foreldradagur hjá okkur. Við höfum verið að fikra okkur áfram með nemendastýrð foreldraviðtöl, sem er hluti af innleiðingu leiðsagnarnáms hér í skólanum og verða viðtölin nú með þeim hætti. Tilgangur nemendastýrðra foreldraviðtala er að valdefla nemendur, auka meðvitund þeirra um eigið nám og námsaðferðir og greina hvað þeir gera vel og hvar má gera betur. Nemendur eru þessa dagana að undirbúa viðtölin með því að velja sér verkefni til að kynna fyrir foreldrum sínum. Þar með fá þeir tækifæri til að sýna hvað þeir eru ánægðir með í sinni vinnu og gert sér betur grein fyrir hvaða hæfni er verið að þjálfa. 

Foreldrar geta nú skráð sig í viðtöl inni á Mentor og valið sér þá tímasetningu sem hentar best.

Hálka og hvassviðri

Vegna mikillar hálku og hvassviðris á 5.bekkur ekki að mæta í íþróttir á Torfnesi klukkan 8:00. Þau mæta þess í stað í sínar bekkjarstofur.

Heimsókn frá Píeta samtökunum

Píeta samtökin og Rótary klúbbur Ísafjarðar standa fyrir fræðslu- og kynningarfundi fyrir almenning fimmtudaginn 26. janúar kl.19:30 í sal skólans. Píeta samtökin eru samtök gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og fræðsla um þau mál mjög þörf. Við fögnum þessu framtaki og hvetjum sem flesta til að mæta, því þessi málefni snerta okkur öll.