VALMYND ×

Fréttir

Jólakaffihús

Nemendur í heimilisfræðivali á unglingastigi eru önnum kafnir þessa dagana, en óneitanlega setur koma jólanna sterkan svip á verkefnavalið á þessum árstíma. Í liðinni viku var skólaeldhúsinu breytt í lítið jólakaffihús þar sem boðið var upp á nokkrar tegundir af smákökum, heitt súkkulaði með rjóma og kaffi. Starfsfólk skólans var svo lánsamt að fá að þiggja þessar ljúffengu veitingar í notalegu andrúmslofti og umhverfi, en nemendur skiptust á að veita þeim skemmtilegan félagsskap og góða þjónustu. Það var virkilega gaman fyrir alla að upplifa þessa indælu og öðruvísi samverustund starfsfólks og nemenda. Í næstu viku tekur við hinn hefðbundni piparkökuhúsabakstur og rétt fyrir jól er stefnt að konfektgerð.

Það eru þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir, Elva Jóhannsdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir sem stýra nemendum styrkum höndum í gegnum allt þetta ferli og mega vera virkilega stoltar af sínum nemendum og starfi.

Leiksýning

Í morgun bauð Kómedíuleikhúsið nemendum 1. - 5. bekkjar upp á leiksýninguna Tindátarnir, sem er byggð á samnefndri ljóðabók Steins Steinarrs. Leikverkið er barna- og fjölskyldumiðað með mikilvægt erindi, þar sem umfjöllunarefnið er stríð með öllum sínum hörmungum og leiðu afleiðingum. Það er sett upp sem skuggabrúðuleikhús, sem er lítið notað leikhúsform hér á landi, en fangaði vel athygli nemenda. 

Tindátarnir er 51. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið en leikhúsið hefur starfað á Vestfjörðum síðan 2001 og er eina atvinnuleikhúsið á svæðinu. Sýningarnar í morgun voru samkvæmt samningi Ísafjarðarbæjar við leikhúsið og erum við afar þakklát fyrir að fá tækifæri til að njóta slíkrar leiksýningar.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og héldu nemendur og starfsfólk upp á hann með ýmsu móti. Setning Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Hömrum undir stjórn Kristjáns Arnars Ingasonar, skólastjóra, þar sem nemendur 7.bekkjar voru gestir. Sigurbjörg Danía Árnadóttir og Sylvía Rán Magnúsdóttir úr 8.bekk lásu sögubút og ljóð, en þær stóðu sig báðar mjög vel í keppninni í fyrra. Þá var einnig boðið upp á tónlistaratriði, þar sem Jökull Örn Þorvarðarson lék á fiðlu við undirleik Iwonu Frach, píanókennara og þær stöllur Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir og Saga Björgvinsdóttir léku fjórhent á píanó, frumasamið lag. Í lokin var svo sunginn fjöldasöngur við undileik Bergþórs Pálssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Nú tekur við heilmikil dagskrá hjá 7.bekk, þar sem áhersla er á vandaðan og skýran upplestur í vetur. Lokahátíð keppninnar verður svo í mars, þar sem nemendur af norðanverðum Vestfjörðum koma fram og sýna hvað þeir hafa lært í vetur.

Við þökkum Tónlistarskóla Ísafjarðar kærlega fyrir aðstoðina við tónlistarflutning og húsrými. Það er alltaf svolítill hátíðarblær yfir Hömrum og virkilega notalegt að njóta menningar þar.

 

Pláss fyrir okkur öll

Í dag og í gær hafa verið þemadagar í gangi hjá okkur undir yfirskriftinni ,,Pláss fyrir okkur öll". Verkefnin sem lögð voru fyrir nemendur voru mjög fjölbreytt og miðuðu öll að því að vinna að umburðarlyndi gagnvart öllu fólki. Við þurfum öll að virða fjölbreytileikann og fagna honum, þar sem engir tveir einstaklingar eru eins og allir eiga rétt á að vera nákvæmlega eins og þeir eru. Í gær var baráttudagur gegn einelti og þemavinnan einnig hugsuð sem forvarnir gegn andfélagslegri hegðun. Við vonum svo sannarlega að þessi vinna skili sér í dýpri skilningi á fjölbreytileikanum og að við temjum okkur öll meira umburðarlyndi gagnvart öðrum. Það er pláss fyrir okkur öll - án þess að traðka á öðrum.

Jólagjafir til Úkraínu

1 af 2

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla 36 kassa, sem þeir skiluðu til sr. Magnúsar Erlingssonar, prests í Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.  Skókassarnir verða sendir til Úkraínu og eiga án efa eftir að gleðja viðtakendur, sem er einmitt markmið gefenda. 

Verðlaun fræðslunefndar

Frá vinstri: Berglind, Harpa, Katrín Sif og Finney. Á myndina vantar þau Bryndísi og Jón Hálfdán.
Frá vinstri: Berglind, Harpa, Katrín Sif og Finney. Á myndina vantar þau Bryndísi og Jón Hálfdán.
1 af 3

Í morgun kom Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar ásamt fríðu föruneyti og veitti skólanum verðlaun fyrir framúrskarandi skólaumhverfi. Verðlaunin voru veitt vegna verkefnisins Útistærðfræði á unglingastigi, en heiðurinn að því verkefni eiga stærðfræðikennararnir Berglind Árnadóttir, Bryndís Bjarnason, Harpa Henrýsdóttir, Jón Hálfdán Pétursson og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir.

Haustið 2021 fóru stærðfræðikennarar í GÍ á námskeið um útikennslu og eftir það var ákveðið að hafa útistærðfræði vikulega í unglingadeildinni veturinn 21-22. Hugmyndin byggir á því að nemendur fái aðgengileg verkefni sem tengjast nærumhverfinu og krefjast þess að hugsað sé á stærðfræðilegan hátt svo hægt sé að leysa þau. Kennarar sáu miklar breytingar á viðhorfi nemenda til stærðfræðinnar og margir sáu loksins gleðina og gagnið í stærðfræðinámi svo ákveðið hefur verið að halda þessu áfram núna veturinn 22-23.

Auk þessa verkefnis hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar viðurkenningu fyrir verkefnið Brú milli skólastiga - samstarf leik- og grunnskóla og óskum við þeim innilega til hamingju.

Íþróttahátíð í Bolungarvík

Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin á morgun, fimmtudaginn 20. október fyrir nemendur í 8., 9. og 10.bekk. Í síðustu viku skráðu nemendur sig til keppni og nú er búið að skipta öllum í lið (gulur, rauður, grænn og blár) með nemendum úr öðrum skólum.
Nemendur eru beðnir um að mæta til keppni í sínum lit ef þeir hafa tök á. Allir fá að keppa í a.m.k. einni grein sem þeir skráðu sig í en mótshaldarar sjá um þá skiptingu.

Nokkur hagnýt atriði:
-Hátíðin verður sett kl. 10:00 og henni lýkur með balli sem er til kl.22:15
-Þeir nemendur sem ekki skráðu sig til keppni velja sér lið til að styðja.
- Ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl.18:45 og ballið byrjar kl.20:00. Tímann á milli er hægt að nota til að borða og græja sig fyrir ball.
-Allir skólar fá afnot af kennslustofu sem verður læst þar sem hægt er að geyma dót og verðmæti.
-Þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá afhentar samlokur við litla anddyri skólans (nær íþróttahúsinu) milli 12:00 og 13.00
- Sjoppa verður á staðnum þar sem hægt verður að kaupa samlokur, drykki og annað. Miðar á ballið verðar einnig seldir í sjoppunni.
- Ballið er haldið í skólanum, miðaverð er 1.500 kr.
- Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:20 og fer strætóleið út í bæ og tekur upp nemendur á sínum stoppistöðvum.
-Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:20, tekur upp nemendur í króknum og á strætóstoppistöð í Hnífsdal.
- Rúta fer frá Bolungarvík kl. 19:00 og að loknu balli kl. 22:30 strætó leið heim.
-Kennarar/starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann.
-Nemendur fá frjálsa mætingu í fyrsta tíma á föstudaginn.
Grunnskólinn á Ísafirði treystir því að allir mæti með bæði góða skapið og keppnisskapið.

Rýmingaræfing

1 af 2

Í morgun fór fram rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og gekk greiðlega að rýma húsið og veðuraðstæður eins og best verður á kosið.

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.

Stuttar vikur framundan

Næstu tvær vikur verða styttri en venjulega. Fimmtudaginn 13. október eru foreldraviðtöl og er hægt að bóka tíma frá og með deginum í dag. Á föstudaginn er starfsdagur og engin kennsla. Mánudaginn 17. og þriðjudaginn 18. október er svo haustfrí, sem við vonum að allir njóti sem best.

,,Góðan daginn faggi"

Mynd: www.leikhusid.is
Mynd: www.leikhusid.is

Í morgun bauð Þjóðleikhúsið nemendum 9. og 10. bekkjar upp á sýninguna ,,Góðan daginn faggi" í Edinborgarhúsinu. Sýningin er í raun sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur, þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Verkið tekst á við fyrirbæri eins og skömm og innhverfa fordóma með húmor og einlægni að vopni. Boðskapurinn er sérstaklega aðkallandi nú, í ljósi þess bakslags sem hefur orðið hvað varðar hinseginfordóma, skaðlega orðræðu og ofbeldi og einelti gagnvart hinsegin fólki. Í lok sýningar buðu flytjendur, þeir Bjarni Snæbjörnsson og Axel Ingi Árnason upp á umræður og spurningar.

Við þökkum Þjóðleikhúsinu fyrir þessa kærkomnu sýningu sem við teljum virkilega þarfa fyrir unglingana okkar.