Jólakaffihús
Nemendur í heimilisfræðivali á unglingastigi eru önnum kafnir þessa dagana, en óneitanlega setur koma jólanna sterkan svip á verkefnavalið á þessum árstíma. Í liðinni viku var skólaeldhúsinu breytt í lítið jólakaffihús þar sem boðið var upp á nokkrar tegundir af smákökum, heitt súkkulaði með rjóma og kaffi. Starfsfólk skólans var svo lánsamt að fá að þiggja þessar ljúffengu veitingar í notalegu andrúmslofti og umhverfi, en nemendur skiptust á að veita þeim skemmtilegan félagsskap og góða þjónustu. Það var virkilega gaman fyrir alla að upplifa þessa indælu og öðruvísi samverustund starfsfólks og nemenda. Í næstu viku tekur við hinn hefðbundni piparkökuhúsabakstur og rétt fyrir jól er stefnt að konfektgerð.
Það eru þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir, Elva Jóhannsdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir sem stýra nemendum styrkum höndum í gegnum allt þetta ferli og mega vera virkilega stoltar af sínum nemendum og starfi.