VALMYND ×

Fréttir

Göngum í skólann

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt samtarfsaðilum ræsti verkefnið Göngum í skólann í sextánda sinn 7. september s.l. 

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Verkefnið fer vel af stað og eru nú 78 skólar víðvegar um landið skráðir til leiks og er Grunnskólinn á Ísafirði þar á meðal. Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til að iðka virkan ferðamáta og munum við senda inn myndir frá skólanum.

Göngum í skólann lýkur miðvikudaginn 5. október, sem er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn.

Starfsdagur 9.sept.

Föstudaginn 9.september er starfsdagur hér í skólanum. Dægradvöl verður þó opin frá kl. 13:40-16:00.

Breyting á útivistarreglum frá 1.sept.

Lög um útivist barna og unglinga breytast í upphafi skólaárs ár hvert.  Frá og með 1.september mega 12 ára börn og yngri ekki vera úti eftir kl.20:00 og 13 - 16 ára börn mega ekki vera úti eftir kl. 22:00. Foreldrar og forráðamenn hafa fullan rétt til að stytta þessa tíma, en mjög mikilvægt er að þeir standi saman um að fylgja þessum reglum.

Markmiðið með útivistarreglunum er að stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir börn og unglinga. Reglurnar eru fyrst og fremst settar til verndar börnum og stuðla að því að þau séu ekki ein og eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur. 

7.bekkur í Skólabúðir

Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði
Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði

Í morgun fór 7.bekkur í sína árlegu ferð í Skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði. Skólabúðirnar hafa verið starfræktar um árabil og koma um 3.200 nemendur úr 7.bekk grunnskóla víða af landinu á hverju ári. Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur nú tekið við rekstri búðanna, en markmið þeirra er að leggja áherslu á óformlegt nám, styrkja félagsfærni ungmenna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi og ýta undir að þau hafi heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.

Í allmörg ár hefur Ísafjarðarbær greitt dvalargjald nemenda sem er kr. 30.000 á nemanda og fyrir það ber að þakka. Dvölin stendur frá mánudegi til föstudags og af fenginni reynslu vitum við að nemendur njóta sín vel við leik og störf. Þau koma heim reynslunni ríkari og fá einnig tækifæri til að kynnast nemendum úr öðrum skólum, en Grunnskóli Bolungarvíkur og Álfhólsskóli í Kópavogi eiga þessa viku bókaða með okkur.

Nánari upplýsingar um skólabúðirnar má finna á heimasíðu þeirra.

Fjallgöngur að hausti

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt.

Næstu daga skunda nemendur upp um fjöll og firnindi en 7.bekkur lauk sinni göngu s.l. miðvikudag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Leið þeirra lá um Engidal og upp að Fossavatni, alls 9,4 km. 

Nemendur 10.bekkjar sigla á mánudaginn norður á Flæðareyri og ganga yfir í Grunnavík, þar sem gist verður í tjöldum. Siglt verður heim aftur á þriðjudaginn. Fleiri árgangar verða á faraldsfæti á mánudaginn, þegar 1., 6., 8. og 9. bekkur stefna á sínar fjallgöngur, enda mjög góð veðurspá í kortunum.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda.  

Góður gangur í framkvæmdum

Nýir gluggar og gler og gert við múrklæðningu
Nýir gluggar og gler og gert við múrklæðningu
1 af 7

Í vor var ráðist í framkvæmdir á hluta húsnæðis G.Í. (gula húsinu) vegna myglu. Unnið hefur verið af miklum móð í allt sumar og allt lagt undir til að húsnæðið verði tilbúið til kennslu sem fyrst. 

Í gær var stórum áfanga náð þegar efri hæðin var afhent fullkláruð. Neðri hæðin er hins vegar ekki eins langt komin, en verður vonandi klár innan þriggja vikna. Það setur auðvitað strik í reikninginn varðandi skólabyrjun, en við erum lausnamiðuð og gátum fundið 5.bekk bráðabirgðarými á meðan og gerum það besta úr stöðunni.

Við hlökkum til að fá neðri hæðina afhenta, en stofurnar verða sem nýjar, með nýjum gluggum og gleri, nýju gólfefni og ljósum og án myglu!

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður mánudaginn 22. ágúst 2022 í sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

Kl. 9:00      8., 9. og 10. bekkur

Kl. 10:00     5., 6. og 7.bekkur

Kl. 11:00     2., 3. og 4. bekkur

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega ásamt foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara og hefst kennsla svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. ágúst hjá öllum nemendum.

Við vekjum athygli á því fyrir nýja bæjarbúa og þá sem eru að skrá börn sín í fyrsta skipti í grunnskóla, að Ísafjarðarbær útvegar grunnskólanemendum sínum ritföng og námsgögn endurgjaldslaust.

Skólabúðaferð 7.bekkjar að Reykjum í Hrútafirði frestast um viku frá því sem verið hefur undanfarin ár og fer hópurinn því mánudaginn 29.ágúst. Nánari upplýsingar varðandi ferðina verða sendar þegar þær liggja fyrir.

Við horfum bjartsýnum augum á veturinn og hlökkum til samstarfsins við nemendur, foreldra og aðra í skólasamfélaginu.

 

 

Skólastjóraskipti

Kristján Arnar Ingason tekur við lyklunum úr hendi Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur
Kristján Arnar Ingason tekur við lyklunum úr hendi Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur

Þann 1.ágúst tók Kristján Arnar Ingason við starfi skólastjóra G.Í. af Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur, sem gegnt hefur starfinu síðastliðin 15 ár. Um leið og við bjóðum Kristján Arnar velkominn til starfa, þökkum við Olgu fyrir vel unnin störf og gott samstarf, og óskum henni velfarnaðar í nýju starfi.

Gjöf frá árgangi 1966

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, fulltrúi árgangsins við gjöfina góðu
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, fulltrúi árgangsins við gjöfina góðu

Fyrrverandi nemendur skólans sem fæddir eru árið 1966 hittust hér á Ísafirði nú á vordögum og rifjuðu upp gamlar og góðar minningar frá grunnskólagöngu sinni. Við það tækifæri færðu þeir skólanum 3 gítara og 2 ukulele að gjöf. Hljóðfærin koma að afar góðum notum, jafnt í kennslu sem og við allskonar tækifæri og færum við árgangi 1966 kærar þakkir fyrir.

Nýr skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði

Kristján Arnar Ingason, nýr skólastjóri G.Í.
Kristján Arnar Ingason, nýr skólastjóri G.Í.

Kristján Arnar Ingason hefur verið ráðinn skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi.

Kristján lauk stúdentsprófi af uppeldisbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1998. Árið 2002 lauk hann svo B.Ed prófi til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Um þessar mundir leggur Kristján stund á meistaranám í stjórnun menntastofnana og auk þessa hefur hann aflað sér UEFA-B þjálfaragráðu frá Evrópska knattspyrnusambandinu og KSÍ-5 þjálfaragráðu frá Knattspyrnusambandi Íslands.

Kristján hefur 20 ára kennslureynslu en frá 2018 hefur hann starfað sem umsjónar- og faggreinakennari á eldra stigi og sem verkefnastjóri FabLab í Fellaskóla. Hann hefur jafnframt starfað tímabundið sem stigsstjóri eldra stigs, samhliða kennslu við skólann. Kristján starfaði sem deildarstjóri og umsjónarkennari við Birkimelsskóla og Patreksskóla árin 2016-2018 og þar áður sem fagstjóri og umsjónarkennari í Réttarholtsskóla árin 2002 til 2016. Á því tímabili (2008-2009) tók hann jafnframt að sér starf deildarstjóra unglingadeildar í Sæmundarskóla.

Við bjóðum Kristján hjartanlega velkominn til starfa, um leið og við þökkum Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur kærlega fyrir vel unnin störf, en hún hefur sinnt starfi skólastjóra frá nóvember 2007.