VALMYND ×

Fréttir

Bókagjöf

Í morgun barst skólanum bókagjöf frá samtökunum Stöndum saman Vestfirðir. Samtökin voru stofnuð árið 2016 með það í huga að standa saman að því að bæta samfélagið okkar eins og hægt er. Í þetta sinn var ákveðið að safna fyrir bókagjöf í alla leik- og grunnskóla á Vestfjörðum, en það eru alls 13 leikskólar og 12 grunnskólar. Markmiðið er að allir skólar á Vestfjörðum fái fallegar jólabækur til að hægt sé að eiga góða jóla lestrarstund.

Samtökin hafa staðið fyrir tveimur söfnunum á þessu ári, annars vegar fyrir heyrnamælingartæki fyrir HVEST og hins vegar fyrir hjartastuðtækjum til nota á skíðasvæðinu á Ísafirði.

Við þökkum kærlega fyrir þessa rausnarlegu og góðu gjöf, sem á eflaust eftir að gleðja marga lesendur.

Skólablak

1 af 3

Í dag bauð Blaksamband Íslands nemendum í 4. - 6. bekk upp á kynningu á skólablaki í íþróttahúsinu á Torfnesi. Þetta er hluti af hringferð um landið þar sem öllum skólum boðin þátttaka.

Markmiðið með skólablaki er að kynna blakíþróttina fyrir krökkum og kennurum, einfalda kennsluaðferðir og auka sýnileika hennar á landsvísu. Einnig er þetta frábær vettvangur fyrir hópefli fyrir nemendur.

Góð mæting á opnum degi

1 af 4

Í dag var opið hús hjá okkur þar sem foreldrum og öðrum velunnurum var boðið að líta við hjá okkur. Mætingin var framar öllum vonum og erum við starfsfólkið virkilega þakklátt fyrir þann fjölda heimsókna sem við fengum. Við finnum að það var virkilega kominn tími til að opna skólann upp á gátt eftir covid og myglu undanfarin ár. 

Tilgangurinn var fyrst og fremst að kynna starfið fyrir fjölskyldum nemenda okkar og vitum við að nemendur okkar eru alsælir með heimsóknirnar og glaðir að geta sýnt sínum nánustu hvað þeir eru að fást við í skólastarfinu.

Við viljum þakka ykkur kæru foreldrar, afar, ömmur og öll þið hin sem sáuð ykkur fært að líta við hjá okkur í dag, þið gerðuð daginn eftirminnilegan.

Opinn dagur

Á morgun, þann fyrsta 1.desember, fögnum við fullveldi Íslands. Það gerum við m.a. með því að mæta í betri fötunum í skólann og bjóða foreldrum og öðrum velunnurum í heimsókn til okkar, líta við í kennslu og skoða verk nemenda. Við verðum með heitt á könnunni og piparkökur á kaffistofu starfsmanna og vonumst til að sjá sem flesta.

Jólakaffihús

Nemendur í heimilisfræðivali á unglingastigi eru önnum kafnir þessa dagana, en óneitanlega setur koma jólanna sterkan svip á verkefnavalið á þessum árstíma. Í liðinni viku var skólaeldhúsinu breytt í lítið jólakaffihús þar sem boðið var upp á nokkrar tegundir af smákökum, heitt súkkulaði með rjóma og kaffi. Starfsfólk skólans var svo lánsamt að fá að þiggja þessar ljúffengu veitingar í notalegu andrúmslofti og umhverfi, en nemendur skiptust á að veita þeim skemmtilegan félagsskap og góða þjónustu. Það var virkilega gaman fyrir alla að upplifa þessa indælu og öðruvísi samverustund starfsfólks og nemenda. Í næstu viku tekur við hinn hefðbundni piparkökuhúsabakstur og rétt fyrir jól er stefnt að konfektgerð.

Það eru þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir, Elva Jóhannsdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir sem stýra nemendum styrkum höndum í gegnum allt þetta ferli og mega vera virkilega stoltar af sínum nemendum og starfi.

Leiksýning

Í morgun bauð Kómedíuleikhúsið nemendum 1. - 5. bekkjar upp á leiksýninguna Tindátarnir, sem er byggð á samnefndri ljóðabók Steins Steinarrs. Leikverkið er barna- og fjölskyldumiðað með mikilvægt erindi, þar sem umfjöllunarefnið er stríð með öllum sínum hörmungum og leiðu afleiðingum. Það er sett upp sem skuggabrúðuleikhús, sem er lítið notað leikhúsform hér á landi, en fangaði vel athygli nemenda. 

Tindátarnir er 51. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið en leikhúsið hefur starfað á Vestfjörðum síðan 2001 og er eina atvinnuleikhúsið á svæðinu. Sýningarnar í morgun voru samkvæmt samningi Ísafjarðarbæjar við leikhúsið og erum við afar þakklát fyrir að fá tækifæri til að njóta slíkrar leiksýningar.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og héldu nemendur og starfsfólk upp á hann með ýmsu móti. Setning Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Hömrum undir stjórn Kristjáns Arnars Ingasonar, skólastjóra, þar sem nemendur 7.bekkjar voru gestir. Sigurbjörg Danía Árnadóttir og Sylvía Rán Magnúsdóttir úr 8.bekk lásu sögubút og ljóð, en þær stóðu sig báðar mjög vel í keppninni í fyrra. Þá var einnig boðið upp á tónlistaratriði, þar sem Jökull Örn Þorvarðarson lék á fiðlu við undirleik Iwonu Frach, píanókennara og þær stöllur Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir og Saga Björgvinsdóttir léku fjórhent á píanó, frumasamið lag. Í lokin var svo sunginn fjöldasöngur við undileik Bergþórs Pálssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Nú tekur við heilmikil dagskrá hjá 7.bekk, þar sem áhersla er á vandaðan og skýran upplestur í vetur. Lokahátíð keppninnar verður svo í mars, þar sem nemendur af norðanverðum Vestfjörðum koma fram og sýna hvað þeir hafa lært í vetur.

Við þökkum Tónlistarskóla Ísafjarðar kærlega fyrir aðstoðina við tónlistarflutning og húsrými. Það er alltaf svolítill hátíðarblær yfir Hömrum og virkilega notalegt að njóta menningar þar.

 

Pláss fyrir okkur öll

Í dag og í gær hafa verið þemadagar í gangi hjá okkur undir yfirskriftinni ,,Pláss fyrir okkur öll". Verkefnin sem lögð voru fyrir nemendur voru mjög fjölbreytt og miðuðu öll að því að vinna að umburðarlyndi gagnvart öllu fólki. Við þurfum öll að virða fjölbreytileikann og fagna honum, þar sem engir tveir einstaklingar eru eins og allir eiga rétt á að vera nákvæmlega eins og þeir eru. Í gær var baráttudagur gegn einelti og þemavinnan einnig hugsuð sem forvarnir gegn andfélagslegri hegðun. Við vonum svo sannarlega að þessi vinna skili sér í dýpri skilningi á fjölbreytileikanum og að við temjum okkur öll meira umburðarlyndi gagnvart öðrum. Það er pláss fyrir okkur öll - án þess að traðka á öðrum.

Jólagjafir til Úkraínu

1 af 2

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla 36 kassa, sem þeir skiluðu til sr. Magnúsar Erlingssonar, prests í Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.  Skókassarnir verða sendir til Úkraínu og eiga án efa eftir að gleðja viðtakendur, sem er einmitt markmið gefenda. 

Verðlaun fræðslunefndar

Frá vinstri: Berglind, Harpa, Katrín Sif og Finney. Á myndina vantar þau Bryndísi og Jón Hálfdán.
Frá vinstri: Berglind, Harpa, Katrín Sif og Finney. Á myndina vantar þau Bryndísi og Jón Hálfdán.
1 af 3

Í morgun kom Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar ásamt fríðu föruneyti og veitti skólanum verðlaun fyrir framúrskarandi skólaumhverfi. Verðlaunin voru veitt vegna verkefnisins Útistærðfræði á unglingastigi, en heiðurinn að því verkefni eiga stærðfræðikennararnir Berglind Árnadóttir, Bryndís Bjarnason, Harpa Henrýsdóttir, Jón Hálfdán Pétursson og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir.

Haustið 2021 fóru stærðfræðikennarar í GÍ á námskeið um útikennslu og eftir það var ákveðið að hafa útistærðfræði vikulega í unglingadeildinni veturinn 21-22. Hugmyndin byggir á því að nemendur fái aðgengileg verkefni sem tengjast nærumhverfinu og krefjast þess að hugsað sé á stærðfræðilegan hátt svo hægt sé að leysa þau. Kennarar sáu miklar breytingar á viðhorfi nemenda til stærðfræðinnar og margir sáu loksins gleðina og gagnið í stærðfræðinámi svo ákveðið hefur verið að halda þessu áfram núna veturinn 22-23.

Auk þessa verkefnis hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar viðurkenningu fyrir verkefnið Brú milli skólastiga - samstarf leik- og grunnskóla og óskum við þeim innilega til hamingju.