Árshátíð að baki og páskaleyfi
Nú er lokið 5 árshátíðarsýningum og eru allir í skýjunum yfir útkomunni og aðsókn, sem hefur aldrei verið meiri. Yfirskriftin þetta árið var Íþróttir og var einstaklega gaman að sjá mismunandi útfærslur árganga. Flestallir nemendur skólans stigu á svið eða komu að tæknimálum eða förðun og er alveg einstakt að upplifa stemninguna sem ríkir þessa daga. Nám er svo miklu meira en bóknám. Leikur er mikilvæg námsaðferð sem opnar víddir þar sem sköpunargleði getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild. Í því ferli sem undirbúningur árshátíðarsýninga er, verða margir sigrar hjá einstaklingum sem efla sjálfsmynd, félagsfærni og frumkvæði svo fátt eitt sé nefnt.
Við erum mjög stolt af nemendum okkar og starfsfólki eftir þessa erilsömu daga og förum öll glöð inn í páskaleyfið. Kennsla hefst að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 11.apríl og vonum við að allir njóti þess vel.
Við viljum í lokin koma því á framfæri að stefnt er að skíðadegi miðvikudaginn 12.apríl ef veður og snjór leyfir.
Gleðilega páska!
Deila