VALMYND ×

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

1 af 4

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag og af því tilefni var Stóra upplestrarkeppnin hjá 7.bekk sett formlega og einnig Litla upplestrarkeppnin hjá 4. bekk. Athöfnin fór fram í Hömrum og stýrði Guðbjörg Halla Magnadóttir, skólastjóri, dagskránni. Elna Kristín Líf Karlsdóttir úr 8.bekk las ljóð, en hún stóð sig afar vel í Stóru upplestrarkeppninni í fyrra. Þá lék Gunnsteinn Skúli Helgason lag á gítar eftir Emmsjé Gauta og gerði það af miklu öryggi.

Í lokin sungu svo allir saman lagið Á íslensku má alltaf finna svar, lag Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Þórarins Eldjárns, við undirleik Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. 

Vel heppnuðum þemadögum lokið

Síðustu tvo daga voru þemadagar hjá okkur undir yfirskriftinni ,,Hafið". Nemendur fengust við fjölbreytt verkefni og má sjá stóran hluta afrakstursins á göngum skólans. Einhverjir hópar nemenda fór í heimsókn til Kerecis, þar sem var sérstaklega vel tekið á móti þeim, einhverjir fóru í fjöruferð, stórfiskaleik, krufðu fiska og fleira og fleira.

Þemadagar sem þessir stuðla að betri umhverfisvitund og skilningi á náttúruvísindum og hlutverki þeirra innan nútíma samfélags, sem er stór þáttur í þroska og menntun barna og unglinga. Einnig eflist samstarf nemenda og félagsfærni, auk þess sem samblöndun hópa og samvinna hefur forvarnargildi gegn einelti, en dagur gegn einelti er einmitt 8. nóvember ár hvert.

Við erum virkilega stolt af nemendum okkar og starfsfólki, sem gerðu þemadaga þessa jafn skemmtilega og áhugaverða og raun ber vitni. Við hvetjum foreldra til að líta við hjá okkur í næstu viku og sjá afrakstur þessara daga.

 

 

Lína langsokkur 80 ára

Í tilefni af 80 ára afmæli Línu langsokks á þessu ári hefur verið sett upp sýning á bókunum um hana og öðrum persónum eftir Astrid Lindgren.

Það var einmitt í nóvember árið 1945 sem fyrsta sagan kom út. Og nú hefur Lína verið þýdd á 80 tungumál.

Þemadagar

Á morgun og fimmtudaginn eru þemadagar undir yfirskriftinni Hafið. Nemendum á hverju stigi fyrir sig verður skipt í hópa og vinnur hver hópur fjölbreytt verkefni sem tengjast þessu yfirgripsmikla þema og hefðbundin stundaskrá víkur.

Engar íþróttir eða sérgreinar eru kenndar þessa tvo daga og lýkur skóladögunum kl. 13:00 hjá öllum nemendum. Strætóar fara frá skólanum kl. 13:15.

Jól í skókassa

Í allmörg ár hafa nemendur 7.bekkjar skólans tekið þátt í verkefninu Jól í skókassa. Verkefnið felst í því að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Í hverjum og einum kassa þarf að vera að minnsta kosti einn hlutur úr hverjum flokki; leikfang, skóladót, hreinlætisvörur, sælgæti og föt.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu, þar sem þeim verður m.a. dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Í morgun fóru nemendur 7.bekkjar G.Í. sem leið lá upp í Ísafjarðarkirkju og afhentu sr. Magnúsi Erlingssyni, sem er tengiliður verkefnisins hér á Ísafirði, jólapakka til þessara barna. Það verða glöð börn í Úkraínu sem taka við gjöfunum og vonum við að þau njóti sem best þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Skáld í heimsókn

1 af 3

Í morgun heimsóttu rithöfundarnir Rebekka Sif Stefánsdóttir og Kristín Björg Sigurvinsdóttir nemendur í 1. - 4. bekk, á vegum verkefnisins Skáld í skólum. Þær hafa dýrkað bækur frá því að þær lærðu stafina og mega því teljast sérfróðar um króka og kima bókaheimsins. Þær fengu nemendur í lið með sér sem spæjarar, til að kanna óþekktar lendur og leysa dularfullu bókaráðgátuna. Nemendur tóku virkan þátt í verkefninu og sýndu mikinn áhuga.

Rebekka Sif er rithöfundur og söngkona. Hún hefur skrifað þónokkrar bækur, t.d. Gling Gló, Flot og Trúnað. Kristín Björg er höfundur ungmennabókaflokksins Dulstafir, en fyrsta bókin, Dóttir hafsins, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá hefur Kristín einnig skrifað léttlestrarbækurnar Ráðgátugleraugun, Silfurflautuna og barnabókina Amelía og Óliver.

Þess má til gamans geta að báðir þessir rithöfundar eru ættaðir héðan að vestan; þ.e. frá Ísafirði og Suðureyri.

 

 

Kosningar í nemendaráð

1 af 2

Í skólum er borin virðing fyrir manngildi hvers og eins og nemendur þjálfaðir í að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Lýðræði og mannréttindi eru einn af grunnþáttum menntunar og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum grunnskóla. Skólinn er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni til þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Þessa dagana fer fram lýðræðisleg kosning í 5. - 10. bekk þar sem nemendur kjósa tvo úr hverjum árgangi til setu í nemendaráði, sem vinnur m.a. að félags- og velferðarmálum þeirra. Í 5.bekk var framboðsfundur í morgun, þar sem 13 nemendur buðu sig fram og héldu framboðsræður. Að þeim loknum var gengið til kosninga, kjörklefar voru á staðnum og kjörkassi fyrir atkvæði. Úrslit urðu þau að Sólbjört Milla Gunnarsdóttir og Birkir Snær Þórisson fengu flest atkvæði og verða því fulltrúar 5.bekkjar í nemendaráði. Til vara verða þau Kári Vakaris Hauksson, Elín Bergþóra Gylfadóttir, Kristinn Ísak Sigurðsson og Vilborg Ása Sveinbjörnsdóttir.

Við hlökkum til að fá þessa fulltrúa til starfa í nemendaráði og óskum öllum árgangnum til hamingju með sína fulltrúa og þau lýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð voru í kosningunni.

Gjöf frá Foreldrafélaginu

Velvilvji samfélagsins er okkur mikils virði og eigum við mjög marga velunnara sem standa við bakið á okkur. Á dögunum barst okkur fótboltaspil að gjöf frá Foreldrafélagi GÍ og erum við innilega þakklát fyrir það. Nemendur kunna vel að meta hvers kyns afþreyingu í frímínútum og er fótboltaspilið  því afar kærkomið.

100 ára starfsaldur

Frá vinstri: Berglind, Rannveig, Helga og Halla skólastjóri.
Frá vinstri: Berglind, Rannveig, Helga og Halla skólastjóri.

Mannauður er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja og stofnana. Nú á dögunum var því fagnað hér innanhúss að þrír starfsmenn hafa starfað við skólann í yfir 30 ár hver - eða ríflega 100 ár samtals. Berglind Árnadóttir, deildarstjóri stoðþjónustu á lengstan starfsaldur eða 38 ár. Rannveig Halldórsdóttir, bókasafnsfræðingur hefur starfað hér í 33 ár og Helga Aðalsteinsdóttir, deildarstjóri yngsta stigs í 32 ár. Þessar konur hafa helgað líf sitt því að starfa með börnum í öll þessi ár og er það virkilega dýrmætt fyrir skólann og samfélagið allt.

Af þessu tilefni var boðið upp á kökur og fengu þær allar blómvönd, sem þakklætisvott fyrir trúmennsku og góð störf.

Íslenskt mál

1 af 3

Í hverjum mánuði tökum við fyrir málshátt, orðatvennu og orðtak mánaðarins. Í október er málshátturinn Hver er sinnar gæfu smiður, orðtakið Að bíta á jaxlinn og orðatvennan dragsúgur og dumbungur. Með þetta er svo unnið í íslensku og öðrum námsgreinum eins og hægt er. Þetta er virkilega skemmtilegt og orðin á allra vörum þessa dagana.