VALMYND ×

Fréttir

Skuggaleikhús 6. bekkjar - Leikur í skugganum!

Í byrjun skólaárs fengu krakkarnir í 6. bekk það verkefni að skapa karaktera, skrifa handrit og búa til pappírsverur sem áttu að líta vel út í skuggaleikhúsi. Á mánudaginn héldu þau svo skuggaleiksýningu fyrir bekkjarfélaga sína. Frá hugmyndum um drauga til furðudýra, var sköpunarkrafturinn í hámarki. Sögurnar voru bæði spennandi og skemmtilegar, og þegar kom að leiksýningunni var spennan í loftinu. Með dimmum ljósum tóku skuggarnir að lifna við á tjaldinu. Skuggaleikhúsið var ekki bara verkefni, heldur líka dýrmæt reynsla sem sýndi hversu gaman er að láta ímyndunaraflið fljúga

Samráðsdagur

Á morgun, þriðjudaginn 1. október, er samráðsdagur og því ekki hefðbundin kennsla. 10. bekkur mun selja vöfflur og djús og hvetjum við foreldra til að eiga notalega stund með krökkunum fyrir eða eftir viðtöl. 

Allir í hókípókí

Í lok hreyfiviku Evrópu fóru allir nemendur og starfsfólk í hókípókí á Eyrartúni. Það er nauðsynlegt að leika sér og hafa gaman. Allir skemmtu sér vel og voru vinabekkir saman þar sem eldri nemendur leiddu yngri nemendur í leiknum. 

Uppbrot í íþróttakennslu

Nemendur í 5. - 10. bekk fengur að fara í mínígolf og í hjólabraut í íþróttatímum vikunnar. Einnig fengu þau að prófa leikinn ,,Cornhole" sem er leikur þar sem kasta þarf baunapokum og reyna að hitta ofan í holu. Í næstu viku fara allir nemendur inn í íþróttahúsin og því kjörið tækifæri að enda skemmtilegan september með öðruvísi íþróttum.

Stöðvavinna í 4. bekk

Krakkarnir í 4. KS voru í stöðvavinnu í stærðfræði og náttúrufræði. Þau eru að vinna með Sprota í stærðfræði og Halló heimur í náttúrufræði. 

Myndmennt í hringekju

Nemendur í 4. bekk í hringekjuhópi luku við formfræði æfingu og skreyttu gluggann í myndmenntastofunni, myndirnar fá að vera uppi þangað til lotunni lýkur. Einnig voru þau að æfa sig í að vinna standandi við trönur fyrir komandi verkefni. 

Ólympíuhlaupið

Ólympíuhlaup ÍSÍ, áður Norræna skólahlaupið, hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla allt frá árinu 1984. Nemendur Grunnskólans á Ísafirði ætla að hlaupa í dag eins og mörg undanfarin ár. 

Hlaupið hefst kl. 10.00 og er hlaupið inn Seljalandsveginn og svo er misjafnt eftir árgöngum hversu langt þeir hlaupa. 

1. - 4. bekkur  - að Engi og til baka.

5. - 7. bekkur - að ,,Brúarnesti" og til baka.

8. - 10. bekkur - að Golfskála og til baka. 

Þrír skólaar sem ljúka þátttöku í hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ eru dregnir út og hver þeirra fær 150.000 króna inneign í Altis. 

Textílmennt og endurvinnsla

Nemendur hafa verið að vinna með það að endurvinna kassa utan af  ,,Ipödum" í textílmennt. Í 3. bekk var teiknuð mynd af einhverju eftirminnilegu frá sumrinu og unnið áfram yfir í efni og þaðan á kassana. 5. og 6. bekkur teiknaði mynd og útfærði það svo með garni. 

Klæðumst bleiku á morgun

Sú sorg sem hefur verið í samfélaginu hefur ekki farið fram hjá neinum undanfarnar vikur. Ung stúlka var tekin frá fjölskyldu og vinum í blóma lífsins. Á morgun fer útför hennar fram og við hérna í skólanum viljum minnast hennar með því að klæðast bleiku. Það eiga margir um sárt að binda, fjölskyldur þolenda og ekki síður fjölskylda geranda. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og á stundum sem þessum þá er mikilvægt að hlúa að þeim sem standa manni næst en einnig að hugsa út fyrir boxið og skoða hvort að við getum hjálpað á einhvern hátt innan okkar samfélags eða á öðrum stöðum. 

Gulur dagur

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Það er von undirbúningshópsins að gulur september, auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. 

10. september er gulur dagur og ætlum við hérna í skólanum að klæðast gulu á morgun og hvetjum alla til að gera slíkt hið sama.

#gulurseptember