VALMYND ×

Fréttir

Skólaslit

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 149. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Guðbjörg Halla Magnadóttir, deildarstjóri unglingastigs og verðandi skólastjóri setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Einar Orri Einarsson og Sigurbjörg Danía Árnadóttir, nemendur í 9.bekk.

Kristján Arnar Ingason skólastjóri, flutti ávarp, en hann lætur nú af störfum eftir 2 ára starf. Þá fluttu Óskar Ingimar Ómarsson og Soffía Rún Pálsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Nemendur buðu upp á þrjú tónlistaratriði. Ívar Örn Hálfdánarson flutti frumsamið lag á gítar, sem ber nafnið Dropar. Bríet Emma Freysdóttir flutti lagið úr Amélie eftir Yann Tiersen á píanó. Að síðustu léku þær Elísabet María Gunnlaugsdóttir og Soffía Rún Pálsdóttir fjórhent á píanó, þjóðlagið Á Sprengisandi í útsetningu Ísfirðingsins Vilbergs Viggóssonar.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Sölvey Marie Tómasdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Aurora Lív Jóhannsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir í 10. bekk og hana hlaut Stefán Eyjólfsson.

 

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Helena Stefánsdóttir.

Viðurkenningu fyrir listræna hæfileika, jákvæðni og áhugasemi í myndmennt hlaut Soffía Rún Pálsdóttir.

Viðurkenningu fyrir brennandi áhuga, kraft og dugnað í heimilisfræði hlaut Kristján Hrafn Kristjánsson.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Elísabet María Gunnlaugsdóttir og Eyþór Freyr Árnason.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun, vinnusemi, góð skil og framfarir í dönsku og hlaut Elsa Ragnheiður Stefánsdóttir þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Orri Norðfjörð.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Orri Norðfjörð.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Grétar Logi Sigurðsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Bríet Emma Freysdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu þau Árný Fjóla Hlöðversdóttir og Haukur Fjölnisson.

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráði hlutu þeir Alexander Valsson og Orri Norðfjörð.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2008 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 

Menningarmót

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, efndu Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins ,,Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið". Hugmyndin var að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi sínu og umhverfi á sjónrænan hátt s.s. fólk, landslag, menning, listir og áhugamál, og koma því svo til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir kom í heimsókn til okkar í apríl og leiddi verkefnið á miðstigi. Markmiðið var að koma til móts við þá kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjalla um menningarfærni og næmi og virkni í samfélaginu. Þá hefur framtakið inngildingu og þátttöku í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Grunnskólinn á Ísafirði er nú kominn á kortið og hægt að smella á það hér.

 

Skólaslit

Miðvikudaginn 5.júní verða skólaslit. 

  • Nemendur 1. bekkjar mæta í foreldraviðtöl sem bókuð eru í gegnum Mentor
  • Nemendur 2. - 7. bekkjar mæta í sínar bekkjarstofur kl. 10:00
  • Nemendur 8. - 10. bekkjar mæta í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00.

Vorskóli verðandi 1. bekkjar verður sama dag kl. 13:00 og eru foreldrar þeirra búnir að fá boðun um það.

1.bekkingar fá reiðhjólahjálma

Síðastliðinn föstudag komu Kristján Andri Guðjónsson og Marinó Arnórsson frá Kiwanisklúbbnum Básum færandi hendi og afhentu 1.bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis er að stuðla að öryggi barna í umferðinni og nýtast hjálmarnir vel við notkun reiðhjóla, hlaupahjóla, hjólabretta og hjólaskauta. Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína og biðjum við foreldra að merkja þá vel. Fyrir hönd barnanna þökkum við Kiwanismönnum kærlega fyrir gjöfina.

Spurningakeppni á miðstigi

1 af 3

Undanfarna mánuði hafa krakkarnir á miðstigi verið undirbúa sig fyrir spurningakeppnina ÉG VEIT með því að lesa 12 valdar skáldsögur. Valdir voru þrír fulltrúar úr hverjum bekk í keppnislið en samt sem áður þurftu allir að undirbúa sig vel því keppnisliðið þarf hjálp frá bekknum sínum til að svara spurningunum. Síðastliðinn föstudag hófst svo keppnin með því að hvert lið keppti tvisvar sinnum. Stigin úr þessum tveimur keppnum voru lögð saman og þau tvö lið sem voru með hæstu samanlögðu stigin kepptu svo til úrslita í dag en það voru 5. JÁ og 7. AY.  Úrslit urðu þau að 7. AY bar sigur úr býtum og hreppti farandbikarinn Vitann sem mun tilheyra bekknum fram að næstu keppni sem áætlað er að halda næsta vetur. Einnig fékk keppnisliðið sjálft verðlaun en það var Penninn Eymundsson sem gaf hverjum liðsmanni bókina Lending eftir Hjalta Halldórsson að gjöf. Axel Sveinsson, umsjónarkennari í 6.bekk stýrði keppninni af röggsemi og dómari var Rannveig Halldórsdóttir, bókasafnsfræðingur.

Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn og um leið óskum við öllum nemendum miðstigs ásamt starfsmönnum til hamingju með vel heppnaðan undirbúning og skemmtun. Að lokum hvetjum alla nemendur til að halda áfram góðum dampi í lestrinum í sumar.

Kallað eftir tilnefningum fyrir framúrskarandi skólastarf

Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar kallar eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna fyrir framúrskarandi skólastarf sem unnið er í skólasamfélagi Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024. Skilafrestur er til og með 30.júní, en nánari upplýsingar má lesa hér.

Heimsókn á Suðureyri

Undanfarna daga hafa nemendur í 1. bekk verið að læra um fiska m.a. verið að æfa sig í að lesa fræðitexta. Nemendur hafa aukið orðaforða sinn og unnið verkefni þar sem orðin hrygna, seiði, hængur, roð, hrogn, sundmagi, tálkn og hreistur koma fyrir auk þess sem þeir hafa lært nokkur algeng nöfn á fisktegundum. Hápunktur þessara þemavinnu var svo heimsókn í Súgandafjörð í dag. Þar fengu nemendum að kíkja í heimsókn í Íslandssögu og Klofning og kynna sér fiskvinnslu. Nemendur fengu að sjá hvernig fiskur er afhausaður, roðflettur og unninn í sölu pakkningar og ekkert fer til spillis. Nánast allt er nýtt, t.d. eru hausarnir og beinagarðurinn þurrkaðir og seldir til Nígeríu og afgangs fiskur er hakkaður og nýttur í fiskibollur.

Súgfirðingar eru höfðingjar heim að sækja og í lok ferðarinnar voru nemendur leystir út með ýsuflökum í soðið og harðfisk. Takk fyrir okkur!

Fulltrúar G.Í. í úrslit í Pangeu

Úrslit í stærðfræðikeppni Pangeu voru haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð s.l. laugardag. Þrír nemendur skólans tryggðu sér þátttöku þar og tóku tveir þeirra þátt, þeir Jökull Örn Þorvarðarson úr 8.bekk og Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson úr 9.bekk. Þeir gerðu sér lítið fyrir og voru á meðal þeirra 87 bestu í úrslitunum af rúmlega 4900 þátttakendum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim og óskum við þeim innilega til hamingju.

Úrslit í Pangeu

Úrslit í stærðfræðikeppni Pangeu verða haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð laugardaginn 11. maí og stendur dagskráin yfir frá kl. 11:30 til 15:30. 

Pangea stærðfræðikeppni er fyrir alla nemendur 8. og 9. bekkja grunnskóla landsins. Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.

Þrír nemendur frá GÍ komust áfram í gegnum fyrstu tvær umferðirnar og alla leið í úrslit. Það voru þau Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir og Jökull Örn Þorvarðarson úr 8.bekk, og Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson úr 9.bekk. Við óskum þeim góðs gengis.

 

Karma Íslandsmeistari í skólaskák

Karma Halldórsson Íslandsmeistari (lengst t.v.) ásamt öðrum efstu keppendum. Mynd:skak.is
Karma Halldórsson Íslandsmeistari (lengst t.v.) ásamt öðrum efstu keppendum. Mynd:skak.is

Íslandsmótið í skólaskák fór fram um helgina í Brekkuskóla á Akureyri. Karma Halldórsson, nemandi í 4.bekk G.Í. gerði sér lítið fyrir og sigraði í 1.-4. bekk og er því Íslandsmeistari í þeim flokki. Hann vann allar sínar skákir, alls 11 talsins sem telst stórkostlegur árangur, ekki síst miðað við litla keppnisreynslu hans. Við óskum Karma innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.

Þess má til gamans geta að þetta er annar Íslandsmeistari G.Í. á aðeins þremur vikum, en þann 18.apríl sló Saga Björgvinsdóttir Íslandsmet í hreystigreip í Skólahreysti. Algjörlega frábær árangur hjá þessum flottu fulltrúum skólans!