VALMYND ×

Fréttir

Nemendur og kennarar í Portúgal á vegum Erasmus

 
 

Nemendur í 9. og 10. bekk, ásamt 2 kennurum eru búin að vera í Barcelos í Portúgal þessa viku. Þetta er án efa einstakt tækifæri til að auka fræðslu og skilning á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með því að taka þátt í ýmsum verkefnum og námskeiðum fá þau að kynnast hvernig lönd vinna að því að ná þessum markmiðum, allt frá menntun og jafnrétti til loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar.

Barcelos er sérstaklega þekkt fyrir handverk og list, þar á meðal hinar litríku Barcelos hanastyttur sem hafa mikla þjóðmenningartengingu. Nemendurnir munu eflaust heimsækja sögulega staði, njóta portúgalskrar matargerðar og kynnast siðum sem gera borgina einstaka.

Ferðin er ekki aðeins fræðandi heldur einnig tækifæri fyrir nemendurna að stækka sjóndeildarhring sinn, þróa samskiptahæfni og efla félagslegan þroska í alþjóðlegu samhengi. Með þessari reynslu eiga þau eftir að koma til baka með nýja sýn á samfélagið og heiminn í kringum sig. Vonandi nýtast þau þekkingunni og upplifuninni til framtíðarverkefna og persónulegrar þróunar.

Þorgrímur Þráinsson í heimsókn

Í dag kom Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur með meiru, í heimsókn til okkar. Hann hélt fyrirlestur sem ber nafnið Verum ástfangin af lífinu fyrir 10. bekk, hvatningarfyrirlestur, þar sem hann brýnir fyrir nemendum að bera ábyrgð á sjálfum sér, sýna samkennd, þrautsegju, koma fallega fram, gera góðverk, sinna litlu hlutunum daglega og setja sér markmið. 

Þá bauð hann nemendum á miðstigi upp á fyrirlesturinn Tendrum ljós fyrir lestri. Þar kynnti hann bækurnar sínar, hvatti nemendur til að nýta bókasafnið sem mest og lesa meira til að öðlast ríkari orðaforða og meira sjálfstraust. 

Við hvetjum foreldra til að taka samtalið heima um fyrirlestrana og mögulega eru til einhverjar bækur á heimilum nemenda eftir Þorgrím. 

8. bekkur í hópefli

Í gær og í dag hefur 8. bekkur verið í hópefli. Það hefur verið óformleg kennsla með skemmtilegri dagskrá. Þau fóru meðal annars í Blómagarðinn með vinabekknum sínum. Í dag fara þau svo öll saman í félagsmiðstöðina þar sem verður haldið ,,Pálínuboð"

Hrekkjavökuundirbúningur í 8. bekk

8.bekkur hefur verið að undirbúa sig fyrir hrekkjavökuna með því að búa til myndir og skreytingar í myndmennt. Það eru bæði einstaklings- og hópaverkefni í gangi og þó nokkur upplýsingavinna búin að eiga sér stað.

Draugagangur, dagur hinna dauðu (mexíkóskur hátíðisdagur), og ýmislegt að handan rætt og skoðað. Og auðvitað hin hefðbundna hrekkjavaka skoðuð.

Alþjóðadagur kennara

Kennaradagurinn er haldinn hátíðlegur um víða veröld 5. október ár hvert. Hérna í skólanum var boðið upp á vöfflur fyrir alla starfsmenn og fóru allir mjög glaðir inn í helgina. 

„Tökum höndum saman á Alþjóðadegi kennara og hvetjum stjórnvöld allra landa til að meta rödd kennara, fjárfesta í kennurum og vandaðri opinberri menntun. Metum raddir kennara að verðleikum og stefnum á nýjan samfélagssáttmála um menntun.“ 

Svo hljóða skilaboð frá Alþjóðasamtökum kennara (Education International), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO).

Þema dagsins undirstrikar, að mati samtakanna, hve brýnt það er að eiga samtal við kennara um hvernig best sé að takast á við þær áskoranir sem blasa við, en síðast en ekki síst, sé mikilvægt að viðurkenna og um leið njóta góðs af sérfræðiþekkingu kennara og framlagi þeirra til menntunar.

Að síðustu er hvatt til þess að kennarar um allan heim taki sig saman og skori á stjórnvöld og samfélagið að eiga samtal um kennarastarfið.

Hvers vegna kennaradagur?

Stofnað var til Alþjóðadags kennara að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994. Markmiðið með deginum hefur ávallt verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en líka að efla samtakamátt kennara og huga að hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni.

Skuggaleikhús 6. bekkjar - Leikur í skugganum!

Í byrjun skólaárs fengu krakkarnir í 6. bekk það verkefni að skapa karaktera, skrifa handrit og búa til pappírsverur sem áttu að líta vel út í skuggaleikhúsi. Á mánudaginn héldu þau svo skuggaleiksýningu fyrir bekkjarfélaga sína. Frá hugmyndum um drauga til furðudýra, var sköpunarkrafturinn í hámarki. Sögurnar voru bæði spennandi og skemmtilegar, og þegar kom að leiksýningunni var spennan í loftinu. Með dimmum ljósum tóku skuggarnir að lifna við á tjaldinu. Skuggaleikhúsið var ekki bara verkefni, heldur líka dýrmæt reynsla sem sýndi hversu gaman er að láta ímyndunaraflið fljúga

Samráðsdagur

Á morgun, þriðjudaginn 1. október, er samráðsdagur og því ekki hefðbundin kennsla. 10. bekkur mun selja vöfflur og djús og hvetjum við foreldra til að eiga notalega stund með krökkunum fyrir eða eftir viðtöl. 

Allir í hókípókí

Í lok hreyfiviku Evrópu fóru allir nemendur og starfsfólk í hókípókí á Eyrartúni. Það er nauðsynlegt að leika sér og hafa gaman. Allir skemmtu sér vel og voru vinabekkir saman þar sem eldri nemendur leiddu yngri nemendur í leiknum. 

Uppbrot í íþróttakennslu

Nemendur í 5. - 10. bekk fengur að fara í mínígolf og í hjólabraut í íþróttatímum vikunnar. Einnig fengu þau að prófa leikinn ,,Cornhole" sem er leikur þar sem kasta þarf baunapokum og reyna að hitta ofan í holu. Í næstu viku fara allir nemendur inn í íþróttahúsin og því kjörið tækifæri að enda skemmtilegan september með öðruvísi íþróttum.

Stöðvavinna í 4. bekk

Krakkarnir í 4. KS voru í stöðvavinnu í stærðfræði og náttúrufræði. Þau eru að vinna með Sprota í stærðfræði og Halló heimur í náttúrufræði.