VALMYND ×

Fréttir

1.bekkingar fá reiðhjólahjálma

Síðastliðinn föstudag komu Kristján Andri Guðjónsson og Marinó Arnórsson frá Kiwanisklúbbnum Básum færandi hendi og afhentu 1.bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis er að stuðla að öryggi barna í umferðinni og nýtast hjálmarnir vel við notkun reiðhjóla, hlaupahjóla, hjólabretta og hjólaskauta. Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína og biðjum við foreldra að merkja þá vel. Fyrir hönd barnanna þökkum við Kiwanismönnum kærlega fyrir gjöfina.

Spurningakeppni á miðstigi

1 af 3

Undanfarna mánuði hafa krakkarnir á miðstigi verið undirbúa sig fyrir spurningakeppnina ÉG VEIT með því að lesa 12 valdar skáldsögur. Valdir voru þrír fulltrúar úr hverjum bekk í keppnislið en samt sem áður þurftu allir að undirbúa sig vel því keppnisliðið þarf hjálp frá bekknum sínum til að svara spurningunum. Síðastliðinn föstudag hófst svo keppnin með því að hvert lið keppti tvisvar sinnum. Stigin úr þessum tveimur keppnum voru lögð saman og þau tvö lið sem voru með hæstu samanlögðu stigin kepptu svo til úrslita í dag en það voru 5. JÁ og 7. AY.  Úrslit urðu þau að 7. AY bar sigur úr býtum og hreppti farandbikarinn Vitann sem mun tilheyra bekknum fram að næstu keppni sem áætlað er að halda næsta vetur. Einnig fékk keppnisliðið sjálft verðlaun en það var Penninn Eymundsson sem gaf hverjum liðsmanni bókina Lending eftir Hjalta Halldórsson að gjöf. Axel Sveinsson, umsjónarkennari í 6.bekk stýrði keppninni af röggsemi og dómari var Rannveig Halldórsdóttir, bókasafnsfræðingur.

Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn og um leið óskum við öllum nemendum miðstigs ásamt starfsmönnum til hamingju með vel heppnaðan undirbúning og skemmtun. Að lokum hvetjum alla nemendur til að halda áfram góðum dampi í lestrinum í sumar.

Kallað eftir tilnefningum fyrir framúrskarandi skólastarf

Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar kallar eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna fyrir framúrskarandi skólastarf sem unnið er í skólasamfélagi Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024. Skilafrestur er til og með 30.júní, en nánari upplýsingar má lesa hér.

Heimsókn á Suðureyri

Undanfarna daga hafa nemendur í 1. bekk verið að læra um fiska m.a. verið að æfa sig í að lesa fræðitexta. Nemendur hafa aukið orðaforða sinn og unnið verkefni þar sem orðin hrygna, seiði, hængur, roð, hrogn, sundmagi, tálkn og hreistur koma fyrir auk þess sem þeir hafa lært nokkur algeng nöfn á fisktegundum. Hápunktur þessara þemavinnu var svo heimsókn í Súgandafjörð í dag. Þar fengu nemendum að kíkja í heimsókn í Íslandssögu og Klofning og kynna sér fiskvinnslu. Nemendur fengu að sjá hvernig fiskur er afhausaður, roðflettur og unninn í sölu pakkningar og ekkert fer til spillis. Nánast allt er nýtt, t.d. eru hausarnir og beinagarðurinn þurrkaðir og seldir til Nígeríu og afgangs fiskur er hakkaður og nýttur í fiskibollur.

Súgfirðingar eru höfðingjar heim að sækja og í lok ferðarinnar voru nemendur leystir út með ýsuflökum í soðið og harðfisk. Takk fyrir okkur!

Fulltrúar G.Í. í úrslit í Pangeu

Úrslit í stærðfræðikeppni Pangeu voru haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð s.l. laugardag. Þrír nemendur skólans tryggðu sér þátttöku þar og tóku tveir þeirra þátt, þeir Jökull Örn Þorvarðarson úr 8.bekk og Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson úr 9.bekk. Þeir gerðu sér lítið fyrir og voru á meðal þeirra 87 bestu í úrslitunum af rúmlega 4900 þátttakendum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim og óskum við þeim innilega til hamingju.

Úrslit í Pangeu

Úrslit í stærðfræðikeppni Pangeu verða haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð laugardaginn 11. maí og stendur dagskráin yfir frá kl. 11:30 til 15:30. 

Pangea stærðfræðikeppni er fyrir alla nemendur 8. og 9. bekkja grunnskóla landsins. Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.

Þrír nemendur frá GÍ komust áfram í gegnum fyrstu tvær umferðirnar og alla leið í úrslit. Það voru þau Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir og Jökull Örn Þorvarðarson úr 8.bekk, og Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson úr 9.bekk. Við óskum þeim góðs gengis.

 

Karma Íslandsmeistari í skólaskák

Karma Halldórsson Íslandsmeistari (lengst t.v.) ásamt öðrum efstu keppendum. Mynd:skak.is
Karma Halldórsson Íslandsmeistari (lengst t.v.) ásamt öðrum efstu keppendum. Mynd:skak.is

Íslandsmótið í skólaskák fór fram um helgina í Brekkuskóla á Akureyri. Karma Halldórsson, nemandi í 4.bekk G.Í. gerði sér lítið fyrir og sigraði í 1.-4. bekk og er því Íslandsmeistari í þeim flokki. Hann vann allar sínar skákir, alls 11 talsins sem telst stórkostlegur árangur, ekki síst miðað við litla keppnisreynslu hans. Við óskum Karma innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.

Þess má til gamans geta að þetta er annar Íslandsmeistari G.Í. á aðeins þremur vikum, en þann 18.apríl sló Saga Björgvinsdóttir Íslandsmet í hreystigreip í Skólahreysti. Algjörlega frábær árangur hjá þessum flottu fulltrúum skólans!

Halla nýr skólastjóri

Guðbjörg Halla Magnadóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri G.Í. frá 1.ágúst næstkomandi. Halla hefur verið kennari við skólann frá árinu 1999 og deildarstjóri frá árinu 2007 og er því öllum hnútum kunnug. Hún lauk B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 2003 og MT gráðu frá Háskóla Íslands 2023. Halla er fædd og uppalin á Ísafirði, gift Þresti Jóhannessyni og eiga þau fjóra uppkomna syni. Við óskum Höllu innilega til hamingju með starfið.

Heimsókn frá Alþingi

1 af 4

Í ár eru 80 ár liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins. Af því tilefni heimsækir starfsfólk skrifstofu Alþingis grunnskóla á landsbyggðinni og setur upp eins konar Skólaþing fyrir nemendur í efstu bekkjunum. Markmið heimsóknanna er að efla lýðræðisvitund, fræða nemendur um störf Alþingis og veita innsýn í dagleg störf þingmanna.

Á Alþingi hefur Skólaþing verið starfrækt frá árinu 2007 en á slíku þingi fara nemendur í 10.bekk í hlutverkaleik þar sem þeir setja sig í spor þingmanna og fylgja reglum um starfshætti Alþingis.

Í dag erum við svo heppin hér í G.Í. að fá heimsókn frá tveimur starfsmönnum skrifstofu Alþingis og eru nemendur 9. og 10. bekkjar því ,,þingmenn" í dag. Við þökkum Alþingi kærlega fyrir komuna og vonum svo sannarlega að við eigum eftir að sjá einhverja nemendur á Alþingi í framtíðinni.

Litla upplestrarkeppnin í 4.bekk

1 af 4

Á hverju vori taka nemendur 4. bekkjar þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem er undanfari Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk.  Keppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin þar sem ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni og  að allir nemendur taki þátt sem liðsheild.

Í morgun fór keppnin fram í Hömrum að viðstöddum foreldrum og gestum 4.bekkjar, ásamt nemendum 3. bekkjar. Flutt voru ljóð, sögubrot, vísur, málfarsmolar, þula, skrýtlur og andheiti, - allt eftir íslenska höfunda. Sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar á norðanverðum Vestfjörðum, Símon Richard Eraclides,  flutti einnig ljóð og textabrot af sinni einlægni. Þá léku tvær stúlkur úr árgangnum, þær Fjóla Gunnarsdóttir og Isabel Snæbrá Rodriguez sitt hvort lagið á píanó.

Flytjendur allir ásamt kennurum stóðu sig með mikilli prýði, þannig að unun var á að hlýða. Að flutningi loknum var boðið upp á veitingar og að sjálfsögðu fengu allir nemendur viðurkenningarskjal. Til hamingju 4.bekkur!