VALMYND ×

Fréttir

Íslandsmót barnaskólasveita í skák

Á morgun, laugardaginn 13.apríl fer fram Íslandsmót barnaskólasveita í skák, sem ætlað er nemendum í 4. - 7. bekk. Mótið er haldið í Rimaskóla og hefst klukkan 13:00 og verða tefldar átta umferðir eftir svissneska kerfinu.

Grunnskólinn á Ísafirði á eina sveit á mótinu og er það annað árið í röð sem við tökum þátt. Í sveit skólans eru þau: Karma Halldórsson, Nirvaan Halldórsson, Svaha Halldórsdóttir, Stefan-Alexnadru Croitoru og Nicolae Razvan Croitoru. Liðsstjóri er Halldór Pálmi Bjarkason sem á allan heiður að þátttöku sveitarinnar. Við óskum okkar fólki góðs gengis.

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

1 af 2

Í gær fór lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fram í Félagsheimilinu á Þingeyri. Þrettán nemendur af norðanverðum Vestfjörðum spreyttu sig í lestrinum og stóðu sig allir með stakri prýði. Dómurum var svo sannarlega vandi á höndum að velja nemendur í efstu þrjú sætin. Niðurstaðan varð sú að í fyrsta sæti varð Símon Richard Eraclides, í öðru sæti varð Emelía Rós Stígsdóttir og í þriðja sæti Vanda Rós Stefánsdóttir. Öll eru þau nemendur Grunnskólans á Ísafirði og óskum við þeim innilega til hamingju, sem og öllum öðrum þátttakendum. Æfingaferlið hefur staðið yfir allt frá Degi íslenskrar tungu 16.nóvember síðastliðinn og nemendur verið duglegir og tekið miklum framförum í framsögn og að rækta talað mál.

Skólakeppni upplestrarkeppninnar

Í morgun fór fram skólakeppni upplestrarkeppninnar þar sem sextán nemendur úr 7. bekk kepptu um sæti á Lokahátíð upplestrarkeppninnar sem fram fer á Þingeyri eftir viku. Dómarar að þessu sinni voru Fjölnir Ásbjörnsson, Helga S. Snorradóttir og Rannveig Halldórsdóttir. Þeir nemendur sem munu keppa fyrir hönd skólans verða þau Aðalheiður Orradóttir, Elínborg Birna Vignisdóttir, Emelía Rós Stígsdóttir, Emilía Rós Sindradóttir, Matthías Kristján Magnason, Pétur Arnar Kristjánsson, Salka Rosina Gallo, Símon Richard Eraclides og Vanda Rós Stefánsdóttir. Til vara verður Freyja Rún Atladóttir.

Við óskum öllum lesurum í 7.bekk innilega til hamingju með góðan árangur í keppninni og hlökkum til að fylgjast með keppendum á lokahátíðinni.

Síðasta árshátíðarsýningin á fimmtudaginn

Sjötta og síðasta árshátíðarsýningin, sem frestað var fyrir páska, verður fimmtudaginn 4.apríl kl. 20:00 í sal skólans.
Flytjendur eru 7. - 10. bekkur og áhorfendur í sal eru 9. og 10. bekkur ásamt gestum. Aðgangseyrir er kr.1.000 sem rennur í tækjasjóð og er hægt að nota miða sem keyptir voru fyrir páska. Enginn posi er á staðnum. Því miður er ekki pláss fyrir yngri nemendur í salnum og biðjum við foreldra vinsamlegast að virða það. Við höfum hins vegar tekið upp sýningar til að sýna hér í skólanum svo að allir nemendur geti fengið að horfa á alla.

Páskaleyfi

Í dag vantaði í það minnsta þriðjung nemenda í skólann vegna ófærðar og vegalokana. Samkvæmt útgefnum verkreglum lokum við ekki skóla nema í algjörri neyð og látum þá foreldra fá þær upplýsingar í pósti fyrir klukkan 7 að morgni. Einnig er það auglýst hér á heimasíðunni og á Facebook síðu skólans fyrir klukkan 7.

Því miður gátum við ekki haldið loka árshátíðarsýninguna í morgun eins og til stóð, þar sem margir nemendur og starfsfólk var fjarverandi, en stefnum að því sem fyrst eftir páska og auglýsum það þegar tímasetning liggur fyrir.

Nú tekur páskaleyfi við og óskum við starfsfólki, nemendum og fjölskyldum gleðilegrar páskahátíðar. Skólahald hefst að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 2.apríl 2024.

 

Ófærð

Í dag er Skutulsfjarðarbraut frá Grænagarði að Tunguá lokuð ásamt Eyrarhlíð. Strætisvagnar ganga ekki fram að hádegi. Skólinn er samt opinn fyrir þá sem komast og fellum við niður árshátíðarsýningu sem vera átti í dag.

Kvöldsýningu árshátíðar frestað

Vegna óveðurs og óvissustigs verðum við því miður að fresta kvöldsýningunni í dag fimmtudaginn 21.mars til morguns föstudagsins 22.mars kl.9:00.
Þessi sýning er fyrir 9. og 10.bekk og þeirra gesti, og sýnd verða atriði frá 7. - 10.bekk.
Við vonum að þessi ráðstöfun komi sér ekki illa fyrir gesti 9. og 10.bekkjar.

Skólinn opinn í dag

Skólinn verður opinn í dag þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Við hvetjum þó alla til að fara varlega og biðjum foreldra að fylgja yngri börnum að strætó eða í skólann. Ef foreldrar hafa börn sín heima í dag skal það tilkynnt í Mentor.

Appelsínugul veðurviðvörun

Á morgun, mánudaginn 18.mars 2024 er appelsínugul veðurviðvörun og spáð norðaustan 18-25 m/s og snjókomu. Við bendum foreldrum á verklag Ísafjarðarbæjar er óveður geisar, en samkvæmt því geta foreldrar haldið börnum sínum heima og tilkynnt það í gegnum Mentor. 

Við munum taka stöðuna í fyrramálið og gefum frekari upplýsingar fyrir kl. 7:00 ef röskun verður á skólahaldi.

Árshátíð í næstu viku

Prúðbúnir dyraverðir á árshátíð 2014
Prúðbúnir dyraverðir á árshátíð 2014

Miðvikudaginn 20. mars og fimmtudaginn 21. mars verður árshátíð skólans haldin. Yfirskriftin þetta árið er ,,Innlit í áratug" og verður gaman að sjá hvert hver og einn árgangur leiðir okkur að þessu sinni. Nemendur hafa æft stíft þessa vikuna og er spennan farin að magnast. Það getur verið flókið að koma 390 nemendum í hlutverk, en allt hefst þetta að lokum með mikilli vinnu og útsjónarsemi starfsmanna. Ekki má gleyma því að fjölmargir nemendur koma að tæknimálum, kynningum, förðun, sviðsstjórn og fleiru, auk þeirra sem stíga á svið, þannig að styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín sem best og öll hlutverk mikilvæg.

Við höfum nú fjölgað sýningum frá því í fyrra, þegar áhorfendafjöldi flæddi nánast út úr húsi á kvöldsýningu. Við höfum því tvær kvöldsýningar þetta árið til að mæta því. Sýningarnar verða eins og hér segir:

Miðvikudagur 20. mars 2024

1.sýning kl. 9:00, flytjendur 1. - 6. bekkur, nemendur í 1. og 2. bekk horfa á ásamt sínum gestum

2.sýning kl.11:00, flytjendur 5.-10.bekkur, nemendur í 5. og 6. bekk horfa á ásamt sínum gestum

3.sýning kl.20:00, flytjendur 7.-10.bekkur, nemendur í 7. og 8. bekk horfa á ásamt sínum gestum.

 

Fimmtudagur 21.mars 2024

4.sýning kl. 9:00, flytjendur 1. - 6. bekkur, nemendur í 3. og 4. bekk horfa á ásamt sínum gestum

5.sýning kl.11:00, flytjendur 1. - 4. bekkur, nemendur Tanga og unglingastig horfa á (engir utanaðkomandi gestir)

6.sýning kl.20:00, flytjendur 7.-10. bekkur, nemendur 9. og 10. bekk horfa á ásamt gestum.

 

Miðaverð er kr. 1.000 fyrir gesti og er hægt að nýta miðann á fleiri en eina sýningu ef á þarf að halda. Aðeins er tekið við peningum, enginn posi á staðnum. Andvirði miðasölu fer í tækjasjóð. Við biðjum foreldra og aðra gesti að virða skipulagið eins og hægt er til að komast hjá sem mestri mannþröng.