VALMYND ×

Fréttir

Skapandi skautaverkefni

Í myndmennt öðlast nemendur tækifæri til að læra og tjá sig án orða. Þeir geta ýmist unnið á gagnrýninn hátt með málefni daglegs lífs eða með ímyndunaraflið. Í myndmenntinni hjá 4.bekk í morgun unnu nemendur með ímyndunaraflið, tengdu menningu sína og umhverfi saman og efldu skapandi og gagnrýna hugsun. Afurðin var glæsilegt myndverk af þeim sjálfum á skautum.

Vegna fyrirspurna um þjónustu talmeinafræðings

Skóla- og tómstundasviði hafa borist fyrirspurnir frá foreldrum og kennurum um hvaða þjónustu Ísafjarðarbær býður upp á fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri með málþroska- og framburðarfrávik. Talmeinaþjónusta flokkast sem heilbrigðisþjónusta þó svo að sveitarfélögin sjái um að útvega fagfólkið.

Í vetur hefur enginn talmeinafræðingur verið starfandi á Ísafirði þar sem enginn með slíka menntun hefur fengist í verkið og þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að bjóða upp á almenna þjónustu talmeinafræðings fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri.  Í fámennari skólunum hefur þjónustan verið keypt af Tröppu í tal- og framburðarþjálfun, en þar sem Trappa býður aðeins upp á takmarkaðan fjölda plássa hafa þau ekki getað bætt við börnunum á Ísafirði.

Ísafjarðarbær hefur þó haft tök á því í vetur að fá Signýju Gunnarsdóttur talmeinafræðing til Ísafjarðar einu sinni í mánuði, til að skima fyrir og greina málþroskavanda barna með áherslu á áætlanagerð og eftirfylgd í leik- og grunnskólum.

Leik- og grunnskólar hafa svo í samvinnu við foreldra verið að vinna að snemmtækri íhlutun í málþroska og stuðla þannig að fyrirbyggjandi aðgerðum sem geta komið í veg fyrir langvarandi námsvanda.

Foreldrar barna með málþroskavanda hafa svo alltaf kost á að útvega börnum sínum sjálfir þjónustu hjá öðrum talmeinafræðingum eða fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu.

Það er von okkar að það takist sem fyrst að ráða til okkar talmeinafræðing, enda er hér um mikilvæga heilbrigðisþjónustu að ræða. Staðan hefur því miður verið þannig að talmeinafræðingar eru fáir og mörg sveitarfélög að leitast eftir að ráða þá til sín.

 

Skóla- og tómstundasvið ísafjarðarbæjar

Sólarpönnukökur

1 af 2

Í dag er sólardagur okkar Ísfirðinga og því við hæfi að bjóða upp á pönnukökur. Unglingar í heimilisfræði hjá Salome Elínu Ingólfsdóttur áttu ekki í vandræðum með að henda í nokkrar pönnsur og mátti finna ilminn í loftinu á göngum skólans.

Þorrablót 10.bekkjar

Á morgun er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Samkvæmt venju bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 18:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:00.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans við harmonikuleik og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur. 

Opin vinnustofa

Solveig E. Söebech, myndmenntakennari, býður nemendum upp á opna vinnustofu þessar vikurnar. Vinnustofan er opin á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 12:50-15:45 og hafa nemendur verið duglegir að nýta sér það. Í síðustu viku gripu nokkrir nemendur úr 8.bekk tækifærið, fundu kork og pappa og hönnuðu gírkassa í Subaru, ásamt leikmyndamunum úr blöðum og gipsi. Í dag mættu upprennandi grafík listakonur í vinnustofuna í tilraunavinnu með prent af gelplötum. Sköpunargleðin var allsráðandi eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skapandi skólastarf

Lykilhæfni nemenda byggir meðal annars á sköpun, sjálfstæði og samvinnu, sem sífellt er verið að þjálfa í öllu námi. Undanfarið hafa nemendur á miðstigi verið í fjölbreyttri vinnu sem eflir þessa þætti. Í borðspilum, sem er valgrein á miðstigi, hönnuðu nemendur t.d. sín eigin borðspil frá grunni, með eigin reglum og útfærslum. Í textílmennt í 5.bekk hönnuðu nemendur svo sínar eigin sessur á stóla. Afraksturinn má sjá á meðfylgjandi myndum.

Heppnir lestrarhestar

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember s.l. efndi skólasafnið til bókagetraunar fyrir alla bekki. Getraunin fólst í því að para saman bókarkápur og upphafssetningar viðkomandi bókar og voru útdráttarverðlaun fyrir heppna þátttakendur. Hinir heppnu reyndust svo vera þau Árný Fjóla Hlöðversdóttir og Oskar Godlewski og óskum við þeim innilega til hamingju.

Í lok nóvember startaði skólasafnið svo jólaklúbbi þar sem þátttakendur áttu að lesa fjórar bækur, fá stimpil á bókamerkið sitt og setja nafnið sitt að því loknu í lukkupott. Útdráttarverðlaun voru í boði en þau hlutu þau Kári Vakaris Hauksson, Elín Bergþóra Gylfadóttir, Hulda Margrét Gísladóttir, Sigurbjörg Ólöf Þórunnardóttir og Sigrún Þórey Þórisdóttir. Við óskum þeim innilega til hamingju, en allir þessu duglegu lesendur fengu bók að gjöf.

Við vonum svo sannarlega að allir nemendur njóti lestrar um jólin, því lestur er auðvitað bestur!

Litlu jólin og jólaleyfi

Á morgun miðvikudaginn 20.desember er síðasti skóladagur fyrir jólaleyfi. Þann dag höldum við litlu jólin hátíðleg, mætum spariklædd, göngum syngjandi kringum jólatréð, borðum sparinesti og njótum síðustu samverustunda ársins.

Litlu jólin eru frá kl. 9:00 - 12:00 og fer strætó klukkustund seinna af stað en venjulega úr firðinum og Hnífsdal. Hann fer svo til baka frá skólanum kl. 12:05 og þar með hefst jólaleyfið.

Við óskum starfsfólki okkar, nemendum og fjölskyldum þeirra ásamt öllum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar með kærri þökk fyrir árið sem er að kveðja. Skólastarf hefst á nýju ári fimmtudaginn 4. janúar samkvæmt stundaskrá.

Sýning leiklistarvals

Leiklistarval skólans hefur verið að setja upp leiksýninguna Jóladagatalið, sem er eftir leikara í Leikfélagi Hólmavíkur. Leikstjóri er Jóhanna Ása Einarsdóttir og stýrir Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir tæknimálum ásamt tækniráði nemenda. Frumsýning verður þriðjudaginn 12.desember kl. 17:00 og önnur sýning miðvikudaginn 13.desember kl. 17:00 í sal skólans. Sýningin er við hæfi allra fjölskyldumeðlima og er aðgangseyrir kr. 500. Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.

Jólakaffihús

Nemendur í heimilisfræðivali á unglingastigi eru önnum kafnir þessa dagana, en óneitanlega setur aðventan sterkan svip á verkefnavalið á þessum árstíma. Í vikunni var skólaeldhúsinu breytt í lítið jólakaffihús þar sem boðið var upp á nokkrar tegundir af smákökum, heitt súkkulaði með rjóma og kaffi. Starfsfólk skólans og fjölskyldur nemenda voru svo lánsöm að fá að þiggja þessar ljúffengu veitingar í notalegu andrúmslofti og umhverfi, en nemendur skiptust á að veita þeim skemmtilegan félagsskap og góða þjónustu.
Það eru þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir og Salome Elín Ingólfsdóttir sem stýra nemendum styrkum höndum í gegnum allt þetta ferli af sinni alkunnu snilld.