VALMYND ×

Fréttir

Árshátíð að baki og páskaleyfi

7.bekkur á sviði
7.bekkur á sviði

Nú er lokið 5 árshátíðarsýningum og eru allir í skýjunum yfir útkomunni og aðsókn, sem hefur aldrei verið meiri. Yfirskriftin þetta árið var Íþróttir og var einstaklega gaman að sjá mismunandi útfærslur árganga. Flestallir nemendur skólans stigu á svið eða komu að tæknimálum eða förðun og er alveg einstakt að upplifa stemninguna sem ríkir þessa daga. Nám er svo miklu meira en bóknám. Leikur er mikilvæg námsaðferð sem opnar víddir þar sem sköpunargleði getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild. Í því ferli sem undirbúningur árshátíðarsýninga er, verða margir sigrar hjá einstaklingum sem efla sjálfsmynd, félagsfærni og frumkvæði svo fátt eitt sé nefnt.

Við erum mjög stolt af nemendum okkar og starfsfólki eftir þessa erilsömu daga og förum öll glöð inn í páskaleyfið. Kennsla hefst að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 11.apríl og vonum við að allir njóti þess vel.

 

Við viljum í lokin koma því á framfæri að stefnt er að skíðadegi miðvikudaginn 12.apríl ef veður og snjór leyfir.

Gleðilega páska!

Árshátíð í næstu viku

Árshátíð skólans verður miðvikudaginn 29. og fimmtudaginn 30.mars. Æfingar standa nú yfir og mikið í lagt að venju, en nemendur völdu yfirskriftina ,,Íþróttir" að þessu sinni.

Sýningar eru eftirfarandi:

1. sýning miðvikudaginn 29.mars kl. 9:00

Flytjendur: 1. - 7. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 1. og 2. bekk ásamt gestum

 

2. sýning miðvikudaginn 29.mars kl. 11:00

Flytjendur: 5. - 10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5. - 7. bekk ásamt gestum

 

3. sýning fimmtudaginn 30.mars kl. 9:00

Flytjendur: 1. - 7. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk ásamt gestum

 

4. sýning fimmtudaginn 30.mars kl. 11:00

Flytjendur: 1. - 6. bekkur

Áhorfendur: Nemendur Tanga og unglingastig

 

5. sýning fimmtudaginn 30.mars kl. 20:00

Flytjendur: 7. - 10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 8. - 10. bekk ásamt gestum

 

Nemendur 7. - 10. bekkjar fá frí í fyrstu tveimur tímunum á föstudag vegna kvöldsýningar á fimmtudeginum.

Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir alla gesti 16 ára og eldri (posi á staðnum), og rennur ágóðinn í tækjasjóð. Aðgöngumiðar gilda á allar sýningar, þannig að hver og einn greiðir aðeins einu sinni.

Mötuneytið er opið þessa daga og verður boðið upp á samlokur og djús á miðvikudeginum en pylsur og djús á fimmtudeginum, þar sem matsalurinn er upptekinn vegna sýninga.

Umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar heim varðandi skipulagið hjá hverjum og einum árgangi.

Kökubakstur

Þekking og leikni í heimilisstörfum er kjarni heimilisfræðinnar og honum tengjast allir þættir námsins, fræðilegir sem verklegir. Í verklegum greinum er stuðlað að alhliða þroska nemenda, sjálfstæði í verki og lausnaleit, auk þess sem nemendur læra að líta á eigin verk og ákvarðanir gagnrýnum augum. Þetta eykur sjálfsöryggi og starfsánægju og gefur jafnframt tækifæri til sköpunar. Fátt styrkir betur sjálfsmyndina en vel unnið verk og ekki er nú verra ef hægt er að gleðja sína nánustu í leiðinni. Nemendur í heimilisfræðivali hjá Guðlaugu Jónsdóttur, mega vera virkilega stoltir af kökunum sínum sem þeir bökuðu og skreyttu nú á dögunum. Við höfum það fyrir satt að þær séu ekki aðeins fallegar heldur einnig sérstaklega bragðgóðar og myndu sóma sér vel á veisluborðum. Stundum þurfum við að taka okkur smá hlé frá hollustunni, það er nú bara þannig!

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Á fimmtudaginn fór lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fram í Félagsheimili Bolungarvíkur. Ellefu nemendur af norðanverðum Vestfjörðum spreyttu sig í lestrinum og stóðu sig allir með stakri prýði. Sigurvegari varð Jósef Ægir Vernharðsson frá Grunnskólanum á Suðureyri og óskum við honum innilega til hamingju, sem og öllum öðrum þátttakendum. Æfingaferlið hefur staðið yfir allt frá Degi íslenskrar tungu 16.nóvember síðastliðinn og nemendur verið duglegir og tekið miklum framförum í framsögn og að rækta talað mál.

Fyrirlestur um nethegðun

Í morgun fengu nemendur 7. - 10. bekkjar fræðslu sem unnin hefur verið af Insight og Huawei í samstarfi við Heimili og Skóla og SAFT um nethegðun. Fræðslan sem nefnist SmartBus var kynnt af Lalla Töframanni, sem er sérstaklega þjálfaður í þessu efni og er frábær fyrirmynd. Hann náði að tengjast nemendum mjög vel og skapaði skemmtilega og góða upplifun úr efninu. Nemendur svöruðu könnun, sem skilað hefur mjög góðum upplýsingum um hegðun barna á netinu. Síðan árið 2020 hafa rúmlega 2000 nemendur svarað og niðurstöður verið greindar í tveimur skýrslum. Könnunin hjálpar SAFT, Heimili og Skóla og öðrum hagsmunaraðilum að skilja stöðu barna á Íslandi hvað varðar áhættusama hegðun á samfélagsmiðlum, kunnáttu þeirra um netöryggi og réttindi, miðað við börn á Norðurlöndum. Engum persónulegum gögnum er safnað í SmartBus fræðslunni, sem fram fer í samræmi við persónuvernd og virðir innlenda menntunarstaðla.

Við vonum að nemendur okkar standi sterkari fótum á netinu eftir þessa fræðslu og nái enn betri fræni til að vafra um netheiminn á öruggan og gefandi hátt.

Opinn skólaráðsfundur

Fimmtudaginn 16.mars verður opinn skólaráðsfundur Grunnskólans á Ísafirði kl.15.00. Þar verður meðal annars rættt um skóladagatal næsta skólaárs. Við hvetjum áhugasama til að fylgjast með fundinum í gegnum Teams forritið.

Fundur í Microsoft Teams
Tengjast í tölvunni, farsímaforritinu eða tæki herbergisins
Smelltu hér til að tengjast fundinum
Fundarkenni: 399 844 689 405
Aðgangskóði: dpcoZY

Lært um líkamann í 2.bekk

Eitt af því sem börn á yngsta stiginu eiga að ná færni í samkvæmt Aðalnámskrá Grunnskóla er að útskýra á einfaldan hátt byggingu og starfsemi mannslíkamans. Með það að markmiði hafa börnin í 2. bekk verið að vinna með mannslíkamann undanfarið og eitt af verkefnunum var að búa til beinagrind. Við slíka vinnu þarf að gæta að mörgu og vanda sig á allan hátt, enda líkami mannsins flókinn og vandasamt fyrirbæri í byggingu. En vandvirknin, áhuginn og eljan skilaði árangri hjá nemendum og úr urðu þessir líka vel gerðu líkamar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Lögreglan í heimsókn

Í gær fengum við góða heimsókn frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn, ræddi við nemendur 9. og 10. bekkjar um samskipti, hvað við megum gera og hvað ekki. Einnig var rætt um ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt ásamt hótunum. Síðast en ekki síst var farið inn á skuggahliðar netsins, hvað ber að varast og hvað við megum leyfa okkur að birta þar. Ofbeldi birtist því miður allsstaðar, líka á netinu. Nemendur fengu góð ráð varðandi netnotkun og hér má sjá myndband frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem við hvetjum nemendur og alla til að horfa á.

Við vonum að þessi fræðsla skili sér til okkar allra og vonandi getum við boðið upp á hana í fleiri árgöngum.

 

Unnið eftir uppskriftum

Í heimilisfræðinni hafa nemendur í gegnum tíðina unnið eftir nokkuð nákvæmum uppskriftum, enda kveður eitt hæfniviðmið greinarinnar á um það að nemendur geti unnið eftir uppskrift. En námskráin býður upp á ýmislegt annað eins og til dæmis að virkja frumkvæði nemenda, að nemendur þjálfist í góðri samvinnu og síðan er áherslan á sköpun alltaf að verða fyrirferðarmeiri.

Í vetur höfum við verið með verkefni í heimilisfræðinni í 7. bekk og allt upp í 10. bekk þar sem nemendur geta svo sannarlega látið reyna á þessa þætti. Í gær var til dæmis tími hjá 7. bekk þar sem nemendur áttu að búa til pastarétt. Þeim var skipt upp í tveggja og þriggja manna hópa og þurftu að koma sér saman um hvaða hráefni þeir vildu nota, en kennarinn hafði tekið það fram. Eftir að nemendur höfðu fengið stutta kynningu og leiðbeiningar um gerð pastarétta afgreiddi Guðlaug Jónsdóttir, kennari,  þau með hráefnið og síðan var bara byrjað að elda. Árangurinn var frábær! Vinnugleðin var allsráðandi, frumkvæðið ótrúlega mikið og pastaréttirnir smökkuðust afar vel.

Kennarar og nemendur eru sammála um að svona tímar séu afar gagnlegir, ekki síst við að kveikja áhuga og metnað nemenda.

Þýskir gestir í heimsókn

Á árunum 2015-2017 tók Grunnskólinn á Ísafirði þátt í Erasmus+ verkefni ásamt skólum frá Þýskalandi, Portúgal, Króatíu, Lettlandi og Kýpur. Í því samstarfi komust á tengsl á milli GÍ og Städtische Adolf-Reichwein-Gesamtschule skólans í Lüdenscheid í Þýskalandi. Sá skóli er nú í innleiðingarferli á upplýsingatækni í skólastarfi og fannst tilvalið að heimsækja skóla sem er langt kominn í því ferli. Haft var samband við Guðbjörgu Höllu Magnadóttur, sem er verkefnastjóri GÍ í þeirri innleiðingu, sem tók erindinu fagnandi. Úr varð að þær Victoria Oberbörsch og Theresia Vogel frá STARG skólanum eru í heimsókn hjá okkur þessa viku og fylgjast með notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þær hafa fengið að kynnast því hvernig nemendur allt frá 1. og upp í 10.bekk nýta sér upplýsingatæknina með spjaldtölvur í forgrunni. Það má segja að margt hafi komið þeim á óvart og finnst þeim kennsluhættir t.d. mjög nútímalegir og fjölbreyttir hjá okkur, þar sem nemendur fá mikið rými til sköpunar. 

Við vonum svo sannarlega að þær stöllur hafi haft bæði gagn og gaman af þessari heimsókn og vonumst til að frekara samstarf sé mögulegt í framtíðinni á milli þessara tveggja skóla.