VALMYND ×

Alþjóðadagur kennara

Kennaradagurinn er haldinn hátíðlegur um víða veröld 5. október ár hvert. Hérna í skólanum var boðið upp á vöfflur fyrir alla starfsmenn og fóru allir mjög glaðir inn í helgina. 

„Tökum höndum saman á Alþjóðadegi kennara og hvetjum stjórnvöld allra landa til að meta rödd kennara, fjárfesta í kennurum og vandaðri opinberri menntun. Metum raddir kennara að verðleikum og stefnum á nýjan samfélagssáttmála um menntun.“ 

Svo hljóða skilaboð frá Alþjóðasamtökum kennara (Education International), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO).

Þema dagsins undirstrikar, að mati samtakanna, hve brýnt það er að eiga samtal við kennara um hvernig best sé að takast á við þær áskoranir sem blasa við, en síðast en ekki síst, sé mikilvægt að viðurkenna og um leið njóta góðs af sérfræðiþekkingu kennara og framlagi þeirra til menntunar.

Að síðustu er hvatt til þess að kennarar um allan heim taki sig saman og skori á stjórnvöld og samfélagið að eiga samtal um kennarastarfið.

Hvers vegna kennaradagur?

Stofnað var til Alþjóðadags kennara að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994. Markmiðið með deginum hefur ávallt verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en líka að efla samtakamátt kennara og huga að hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni.

Deila