Jólalestur
Krakkarnir í GÍ taka jólabókahefð Íslendinga alvarlega og voru dugleg að lesa í desember. Þau sem vildu tóku þátt í örlitlum jólaleik, sem fólst í því að fyrir hverja lesna bók var nafn bókarinnar skrifað á jólakúlu og hún var svo hengd á jólatréð í glugga bókasafnsins.
Yngri krakkarnir voru ötulli en þau eldri við skreytingarnar og ekki vildu allir skreyta en samtals fóru 160 kúlur, stjörnur og hjörtu á tréð. Það gera að minnsta kosti 160 lesnar bækur í desember.
Krakkarnir höfðu gaman af þessu uppátæki og voru stolt af skreytingunum sínum. Ef þú lesandi góður hefur ekki ennþá frétt af þessu uppátæki þá hvetjum við þig til að spyrja börnin í nágrenni þínu hvort þau hafi tekið þátt og hvaða bækur þau lásu.