VALMYND ×

Fréttir

Litla Act alone

1 af 2

Litla Act alone er haldin hátíðleg fyrir æsku Vestfjarða þessa dagana. Í morgun var röðin komin að G.Í. og fengu öll stig sína sýningu í Hömrum. Yngsta stigið fékk sýninguna Sól á Vestfjörðum en eldri nemendum var boðið upp á Lalla og töframanninn. 

Sýningarnar voru mjög vel heppnaðar og nemendur skemmtu sér frábærlega.

Mygla í hluta skólans

Nýlega voru gerðar rakamælingar í kennslustofum 211-213 á annarri hæð gula hússins. Niðurstöðurnar gáfu tilefni til frekari skoðunar og því voru tekin sýni til að kanna hvort mygla leyndist í stofunum. Niðurstaða sýnatöku er að mygla fannst í öllum stofunum, mismikil þó. Ákveðið hefur verið að rýma stofurnar á þessum gangi og verða þær ekki teknar aftur í notkun fyrr en framkvæmdum er lokið.
Ráðist verður í framkvæmdir til að uppræta mygluna eins fljótt og auðið er en ljóst er að framkvæmdin verður umfangsmikil og á þessu stigi er óvíst hver verkhraðinn verður vegna skorts á iðnaðarmönnum. Því er hafin vinna við að kortleggja þá möguleika sem í boði eru fyrir skólastarfið í haust.


Aðal verkefnið núna er að koma nemendum 6. og 7. bekkjar fyrir í öðrum rýmum skólans og fer starfsfólk skólans í það verkefni strax í fyrramálið, eftir leiðbeiningum frá sérfræðingi í mygluskemmdum. Af þeim sökum verðum við að biðja foreldra um að hafa þá nemendur heima á morgun.
Eflaust vakna nú margar spurningar hjá foreldrum varðandi þetta mál og því hefur verið ákveðið að bjóða til upplýsingafundar á miðvikudaginn nk. Nákvæmari tímasetning er ekki ljós en hún verður send til foreldra um leið og hún liggur fyrir.

Smáréttaveisla í heimilisfræði

Annar hópur nemenda í heimilisfræðivali
Annar hópur nemenda í heimilisfræðivali
1 af 2

Heimilisfræðival hjá Guðlaugu Jónsdóttur, bauð upp á smáréttaveislu á dögunum. Matseðillinn var aldeilis fjölbreyttur, þar sem mátti sjá hrökkbrauð og hummus, sushi að hætti nemans, litlar veislupítsur, kjúklinga- og blaðlauksböku með sætri chillisósu, mexíkóskar körfur hlaðnar góðgæti, súkkulaðihrísbita og suðræna ávexti með vanillusósu.

Gestirnir, sem voru úr hópi starfsmanna, kunnu vel að meta þessar glæsilegu veitingar og gerðu þeim góð skil.

 

Fjöruhreinsun

Nemendur í 7.bekk fóru í hreinsunarstarf í fjörunni við Fjarðarstrætið á dögunum. Var það liður í verkefni sem Vatnsendaskóli stendur fyrir, sem miðar að sameiginlegu átaki í að hreinsa fjörur í kringum landið. Til stendur að merkja inn á kort hversu mikill hluti strandlengju Íslands verður hreinsaður, en hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook síðu verkefnisins; 7.bekkur hreinsar í kringum landið.

1.bekkingar fá öryggishjálma að gjöf

Í morgun komu þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson og Sveinbjörn Björnsson frá Kiwanisklúbbnum Básum hér á Ísafirði og færðu öllum 1. bekkingum, alls 48 krökkum, öryggishjálma að gjöf. 

Um leið og við þökkum Kiwanismönnum kærlega fyrir þessar rausnarlegu gjafir, þá minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, bæði á reiðhjólum, hlaupahjólum og hvers kyns öðrum hjólum.

 

 

Nýtt skóladagatal

Nú er skóladagatal fyrir næsta skólaár klárt og hægt að nálgast það hér.

Skólahreysti lokið þetta árið

1 af 4

Lið G.Í. keppti í undanrásum Skólahreysti í Garðabæ í dag. Það var við ofurefli að etja hjá okkar fólki, en liðið hafnaði í 8.sæti riðilsins og komst því ekki áfram upp úr riðlinum. Tvö efstu liðin úr hverjum riðli komast í úrslitakeppnina sem haldin verður í næsta mánuði. 

Við erum mjög stolt af þessum krökkum okkar sem leggja sig virkilega fram þrátt fyrir bágborna aðstöðu miðað við marga aðra skóla, sem hafa fullkomnar skólahreystibrautir við sína skóla.

Nemendur í útivistarvali gengu upp á varnargarðinn við Seljaland í dag og þaðan upp að Skíðheimum og fylgdust að sjálfsögðu með skólafélögunum keppa í beinni útsendingu á RÚV. 

Undankeppni í Skólahreysti á morgun

Á morgun tekur G.Í. þátt í undankeppni Skólahreysti í Garðabæ. G.Í. keppir í 1.riðli ásamt 9 öðrum skólum, víðs vegar að af landinu, en alls eru riðlarnir 7 þetta árið. Efstu liðin úr hverjum riðli keppa svo til úrslita í Laugardalshöllinni þann 21.maí n.k.

Fyrir hönd G.Í. keppa þau Anna Salína Hilmarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Birta Kristín Ingadóttir, Grétar Smári Samúelsson og Tómas Elí Vilhelmsson. Þjálfari liðsins er Axel Sveinsson, íþróttakennari.

Undankeppnin verður sýnd á RÚV kl. 14:00 í beinni útsendingu. Við óskum okkar fólki góðs gengis og fylgjumst spennt með.

Fjölgun nemenda

Nemendafjöldi við G.Í. í dag er nú kominn í 388 og er það fjölgun um 25 nemendur eða um 7% á milli ára. Fjöldi nemenda hefur ekki verið svo mikill í 10 ár og er svo sannarlega tilefni til að fagna þessari þróun.

Fjöldi nemenda er mjög misjafn eftir árgöngum:

1.bekkur 48 nemendur (3 hópar)

2.bekkur 30 nemendur (2 hópar)

3.bekkur 25 nemendur (1 hópur)

4.bekkur 50 nemendur (2 hópar)

5.bekkur 47 nemendur (2 hópar)

6.bekkur 44 nemendur (2 hópar)

7.bekkur 32 nemendur (2 hópar)

8.bekkur 39 nemendur (2 hópar)

9.bekkur 32 nemendur (2 hópar)

10.bekkur 41 nemandi (1 hópur, teymiskennsla)

 

Skjátími barna - samfélagslegt vandamál?

Þriðjudaginn 19. apríl kl.20:00 verður foreldrum grunnskólabarna boðið á fyrirlestur um skjátíma barna sem haldinn verður af Margréti Lilju Guðmundsdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknum og greiningu. Fyrirlesturinn verður í matsal Grunnskólans á Ísafirði og við vonum að sem flestir foreldrar sjái sér fært að mæta enda sýna rannsóknir að skjátími barna hafi aukist á sl. 2 árum.