VALMYND ×

Fréttir

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í sal skólans. Þar lásu 10 af 12 nemendum sem valdir höfðu verið úr árgangnum í fyrri undankeppni, sögubrot og ljóð að eigin vali, en því miður forfölluðust tveir. Sveinfríður Olga skólastjóri stýrði keppninni og voru dómarar þær Auður Yngvadóttir, Elín Sveinsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir. Þeirra hlutverk var ekki auðvelt, en þær þurftu að velja 6 nemendur sem keppa munu fyrir hönd skólans á lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í Hömrum þann 5.apríl n.k.

Úrslitin urðu þau að Aram Nói Norðdahl Widell, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, Helga Sigríður Jónsdóttir, Sigurbjörg Danía Árnadóttir, Sylvía Rán Magnúsdóttir og Vésteinn Guðjónsson munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni. Til vara verður Gunnar Geir Gunnarsson.

Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.

Allt frá upphafi hefur keppnin verið haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Nú er því lokið og keppnin því undir skólunum sjálfum komin. Grunnskólarnir á norðanverðum Vestfjörðum ákváðu í haust að taka höndum saman og skiptast á skipulagningu. Þetta árið verður lokahátíðin í höndum okkar Ísfirðinga, á næsta ári taka Bolvíkingar við keflinu og árið 2024 verður röðin komin að Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík.

Hafa ber í huga að „keppnin" er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meira í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn. Keppnin er sett formlega á degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember ár hvert og lýkur í mars/apríl með lokahátíð.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góðan árangur og hlökkum til að fylgjast með lokahátíðinni í Hömrum þann 5.apríl kl.17:00. Ennfremur viljum við þakka þeim Guðnýju S. Stefánsdóttur og Jóni Ólafi Eiríkssyni, umsjónarkennurum í 7.bekk og foreldrum allra nemenda kærlega fyrir þeirra framlag, en þjálfun nemenda hefur alfarið verið í þeirra höndum.

Árshátíð GÍ 2022- Tímaflakk

Nú styttist heldur betur í árshátíðina okkar og tilhlökkun og spenningur í gangi.  Æfingar og undirbúningur ganga vel þrátt fyrir að eitt lítið veirugrey láti á sér kræla. Að þessu sinni er enginn aðgangseyrir. Hér fyrir neðan er skipulag á árshátíðarsýningum. 

 

  1. sýning –miðvikudaginn 23. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

  1. sýning – miðvikudaginn 23. mars kl. 11:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

 

  1. sýning – fimmtudaginn 24. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

  1. sýningfimmtudaginn 24. mars kl kl. 11:00

            Flytjendur: 1.-6.bekkur

            Áhorfendur: Tangi og unglingastig

 

  1. sýning – fimmtudaginn 24. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 7.–10. bekkur,

Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra

(7.-10. bekkur mætir 9:40 á föstudeginum)

 

Samstarf grunnskóla og Menntaskólans á Ísafirði

Miðvikudaginn 9. mars hittust skólastjórnendur grunnskóla á norðanverðum Vesfjörðum og Menntaskólans á Ísafirði á fundi. Umræðuefnið var efling samstarfs milli skólastiganna tveggja. Mikill hugur er í skólastjórnendum um að auka samstarf milli skólastiganna, bæði hvað varðar starfsfólk og nemendur. Næsti fundur skólastjórnenda verður haldinn í Grunnskólanum í Bolungarvík í byrjun maí og þar verða línurnar fyrir formlegra frekara samstarfi betur lagðar.

Óveður í dag

Að ósk verktaka sem sér um akstur verður síðasta ferð skólaaksturs frá skóla í dag kl. 9:30. Foreldrar eru beðnir um að sækja aðra nemendur fyrir 11 þar sem veðurspáin virðist vera að ganga eftir.

Kökugerð

Síðustu tvær vikur hafa unglingar í heimilisfræðivali unnið við kökugerð. Í fyrri vikunni bökuðu þau svamptertubotna og bjuggu til sykurmassa. Í vikunni sem er að líða var kakan síðan sett saman og skreytt. Að sögn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara voru nemendur mjög áhugasamir og lögðu flestir heilmikla vinnu og metnað í verkið.

Þótt oftast sé hollusta og heilbrigði í forgrunni í heimilisfræðinni er nauðsynlegt að gleðja stundum munn og maga - ekki spillir ef óhollustan gleður augað um leið.

Leit með snjóflóðaýlum

1 af 2

Í vetur er boðið upp á fjölbreytt val á unglingastigi. Ein valgrein heitir útivist, sem er undir leiðsögn Katrínar Sifjar Kristbjörnsdóttur. Þar læra nemendur m.a. að njóta nærumhverfisins og hvers ber að varast í umhverfinu, til að öðlast þekkingu, skilning og virðingu fyrir náttúrunni.

Í tengslum við námið fengu nemendur góða heimsókn í kennslustund í gær, þegar Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofunni, kom og fræddi þá um snjóflóð. Í framhaldi af því var farið í létta keppni í að leita með aðstoð snjóflóðaýla. Það þurfti ekki að fara upp í fjall til að finna snjó, heldur dugði að fara undir næsta húsvegg skólans í þetta skiptið. Við þökkum Óliver kærlega fyrir skemmtilegt og fræðandi innlegg í kennsluna.

 

Þorrablóti/góugleði frestað

Vegna mikilla veikinda nemenda í 10. bekk hefur verið ákveðið að fresta þorrblótinu/góugleðinni til 1. apríl næstkomandi. Vonandi verða allir búnir að jafna sig þá. 

Þorrablót/góugleði 10.bekkjar

Nú er loksins komið að hinu eina sanna þorrablóti hjá 10. bekk. Vegna fjöldatakmarkana fram í febrúar var ekki hægt að halda það á þorranum sjálfum, en góan er ekkert síðri og því ekki eftir neinu að bíða núna.

Þorrablótið verður haldið fimmtudaginn 10. mars. Húsið opnar kl. 19:00 og borðhaldið sjálft hefst kl. 19:30. Skemmtiatriði eru í höndum forelda og starfsfólks skólans og að því loknu verður dansinn stiginn við harmonikkuundirleik. Krakkarnir í 10.bekk hafa verið að æfa gömlu dansana á fullu undir leiðsögn Hlífar Guðmundsdóttur og Sveinbjörns Björnssonar og hafa þau öll staðið sig með eindæmum vel.

Þorrablót nemenda 10.bekkjar hafa verið haldin frá árinu 1981 (árgangur 1965) og hefur einu sinni fallið niður, þ.e. í fyrra vegna covid-19.

Maskadagur

Það var líf og fjör í skólanum hjá okkur í dag, enda maskadagur. Veðurfræðingar gáfu út gula viðvörun fyrir Vestfirði í gær og í morgun, sem breyttist svo í appelsínugula eftir að skólastarf var hafið, en það hafði ekki áhrif á gleðina sem ríkti hjá börnunum. Nemendur fengu sitt árlega maskaball í 1. - 7. bekk og var gaman að sjá allar þær persónur, dýr, ofurhetjur, furðuverur og allt hvað heitir. Allar þessar verur skemmtu sér saman í sátt og samlyndi og höfðu leikgleðina og samheldnina að leiðarljósi í dag.

 

Strætó í dag

Strætó fer frá skólanum kl. 14  í dag, inn í fjörð og út í Hnífsdal.  Ekki verða fleiri ferðir frá skólanum í dag og akstur frístundarútu fellur niður í dag vegna versnandi færðar.