VALMYND ×

Fréttir

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Ólympíuhlaup ÍSÍ hefur nú tekið við af Norræna skólahlaupinu sem hefur verið hluti af skólaíþróttum síðan 1984. Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. 

Nemendur Grunnskólans á Ísafirði hlupu s.l. miðvikudag og stóðu nemendur sig afar vel að vanda. Hlaupið var frá Seljalandsvegi 2 og var hlaupaleiðin ýmist inn að Engi, Seljalandi eða golfskála, allt eftir aldri og getu nemenda.

Í huganum heim

Út er komin bókin Í huganum heim eftir Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu), heimilisfræðikennara við skólann. Bókin byggir á æskuminningum hennar úr sveitinni á Melum í Hrútafirði, þar sem hún ólst upp. Lesendur fá að kynnast dýrunum í sveitinni, sveitastörfum og leikjum barnanna, þar sem hættur geta leynst víða. 

Í huganum heim er falleg og bráðskemmtileg bók sem brúar kynslóðabilið og er því kjörin til samlesturs barna og fullorðinna. Didda hefur einstaklega góða frásagnargáfu og í bókinni er mikill texti með ríkum orðaforða. Fallegar myndir Hlífar Unu Bárudóttur prýða bókina og verður lífið á Melum ljóslifandi fyrir augum lesenda. 

Bókin er nú komin til útláns á bókasafni skólans og hvetjum við nemendur til að næla sér í eintak og kynnast lífinu hennar Diddu í sveitinni. Við erum afar stolt af okkar konu og óskum henni innilega til hamingju með bókina.

 

Göngum í skólann

9.bekkur gekk á Kistufell
9.bekkur gekk á Kistufell
1 af 2

Göngum í skólann verkefnið hófst formlega í dag, miðvikudaginn 8. september. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur að sjálfsögðu þátt í verkefninu nú sem endranær og hvetur alla til ganga eða hjóla í skólann. Fjallgöngurnar okkar skipa einnig stóran sess hjá okkur hvað varðar hreyfingu og heilbrigði. Fjórir árgangar fóru í fjallgöngur í dag, mismunandi erfiðar gönguleiðir. 2.bekkur fór á Hafrafellsháls, 6.bekkur á Sandfell, 7.bekkur að Fossavatni og 9.bekkur á Kistufell. Fyrir utan fjallgöngur allra árganga þessa dagana, er mikil áhersla lögð á útivist og hreyfingu allan mánuðinn.

Haustball 10.bekkjar

Það er komið að langþráðu haustballi unglinganna okkar. 10.bekkur skólans býður 8., 9. og 10. bekk á haustball í sal Grunnskólans á Ísafirði fimmtudaginn 9.september kl 20:00-23:00. Það kostar 1.000 kr. inn á ballið og er einungis tekið við peningum. Sjoppa verður á staðnum og góð tónlist. Árgangurinn hvetur alla til að koma með góða skapið og hlakkar til að sjá sem flesta.

 

Sýnatökur á morgun

Nú fer að sjá fyrir endann á sóttkvínni og vonum við svo sannarlega að enginn sé smitaður. Heilbrigðisstofnunin hafði samband og bað okkur að skipta hópnum sem á að mæta í sýnatökuna á morgun í þrennt, til að dreifa álaginu. Ef einhver tími hentar betur en annar, þá er það í lagi, það er einungis verið að reyna að dreifa hópnum þannig að það komi ekki allir á sama tíma
Kl. 13:30 1. HA
Kl. 13:50 1. HF og 1. MG
Kl. 14:10 2. AS og 2. ÁH
Nú krossum við fingur og vonum það besta. Við hlökkum til að sjá sem flesta á mánudaginn.

Upplýsingar varðandi sóttkví og einangrun

Að gefnu tilefni þá eru hér reglur varðandi einangrun og sóttkví samkvæmt tilmælum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

- Ef barn eða foreldri fer í sýnatöku vegna einkenna þá er viðkomandi í einangrun og aðrir fjölskyldumeðlimir í sóttkví og mæta ekki í skóla eða vinnu.

- Börn í smitgát mega mæta í skólann, t.d. ef foreldri eða systkini eru í sóttkví og einkennalaus.

 

10.bekkur í haustferð

1 af 2

Það er margt um að vera í skólanum hjá okkur þrátt fyrir að kórónuveirusmit og sóttkví setji mark sitt á skólastarfið. Nemendur í 10.bekk héldu af stað siglandi í sína árlegu haustferð í morgun, en ferðinni var heitið norður á Hesteyri. Þaðan gengur svo hópurinn yfir í Aðalvík, þar sem gist verður í tjöldum í nótt og komið heim aftur á morgun.

Það er vaskur hópur foreldra sem gengur með krökkunum og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. Veðrið leikur við hópinn í dag eins og sjá má á meðfylgjandi myndum frá Hólmfríði Völu Svavarsdóttur.

Átta smit greind í 1.bekk

Við höfum nú fengið þær upplýsingar frá heilsugæslunni að fjórir nemendur til viðbótar greindust jákvæðir í sýnatökum gærdagsins. Smitin eru því orðin samtals 8, öll í 1. bekk. Það eru há gildi í sýnunum og því má búast við að þetta sé bara upphafið.

Það er mjög mikilvægt að fara strax aftur í sýnatöku ef einkenna verður vart, ekki bíða neitt með það því 10 daga einangrunin hefst við greiningu.

Tvö smit í viðbót

Við vorum að fá upplýsingar um það frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að smitin eru nú orðin fjögur, öll í 1. bekk. Enn er beðið eftir niðurstöðum úr fjölmörgum prófum og fáum við þær á morgun.
 
Það er alveg ljóst að þetta afbrigði sem er hér á ferðinni er bráðsmitandi og ítrekum við að aldrei er nógu varlega farið. Ef börnin, eða aðrir í fjölskyldunni sýna minnstu einkenni, verður að panta sýnatöku strax. Ef barn er með einkenni þá er það í einangrun þar til niðurstöður úr prófunum koma og einnig allir aðrir úr fjölskyldunni.

Smit í nemendahópnum

Upp eru komin 2 kórónuveirusmit í 1.bekk. Það hefur þau áhrif hjá okkur að allur 1. bekkur og stór hluti 2. bekkjar eru komnir í sóttkví út næstu viku, þar sem þeir hópar eru saman í frístund og dægradvöl. Auk þeirra eru 5 starfsmenn skólans einnig komnir í sóttkví, eða alls um 80 manns. Nokkrir nemendur í 2.bekk sem ekki voru með þeim smituðu í hópum sleppa við sóttkví. 

Sóttkvíin nær aðeins til nemendanna sjálfra en ekki fjölskyldna þeirra. Foreldrar og systkini þurfa samt sem áður að viðhafa svokallaða smitgát, sem felst í því að sýna sérstaka gát, gæta vel að smitvörnum og takmarka samneyti við viðkvæma einstaklinga og aðra eins og hægt er. Ef minnstu einkenna verður vart, á að fara í sýnatöku.

Smitið er væntanlega útbreiddara en haldið var í fyrstu og því fara allir þeir nemendur sem komnir eru í sóttkví, í hraðpróf á morgun, sunnudag. Nánara skipulag hefur verið sent í tölvupósti til viðkomandi foreldra og inn á síðu Foreldrafélags GÍ.

Vonandi næst utan um þetta fljótt og vel með sameinuðu átaki okkar allra.