VALMYND ×

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

Í dag var haldið upp á dag íslenskrar tungu, með setningu litlu og stóru upplestrarkeppnanna í 4. og 7. bekk. Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina og lék undir fjöldasöng þar sem nemendur sungu ljóðið ,,Á íslensku". Orri Norðfjörð, nemandi í 8. bekk, las sögubrot og Iðunn Óliversdóttir lék á píanó.

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert.

Nýjar sóttvarnarreglur

 

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra vegna covid 19, tók gildi í gær. Það verða ekki miklar breytingar hjá okkur í skólanum en reglugerðin gerir ráð fyrir að :

1 m fjarlægðartakmörk milli starfsmanna og nemenda frá 5. bekk.

Ekki mega vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými.

1.– 4. bekkur með engar fjarlægðartakmarkanir

5. – 10. bekkur með 1 m fjarlægðartakmarkanir

Blöndun milli hópa er heimil og foreldrar og gestir í skólastarfi verði með andlitsgrímur sem og kennarar nema þegar nemendur eru sestir í kennslustofum. Ekki er grímuskylda úti í frímínútum fyrir nemendur og góðar sótthreinsanir í skólanum nú sem áður.

Undanþága er gerð frá 50 manna hámarki í opnum rýmum, svo sem í anddyrum, göngum og mötuneyti. Hádegisverður  er því án takmarkana allavega til að byrja með. Strætó verður með óbreyttum hætti.

Netsambandslaust

Vegna bilunar á netsambandi er ekki hægt að ná sambandi við skiptiborð skólans. Ekki er fyrirséð hversu lengi það mun vara fram á morgundaginn (fimmtudag), en bendum á gsm númer skólans sem er 894-1688.

Við bendum foreldrum einnig á möguleikann að skrá veikindi barna í gegnum Mentor.

Nemendaþing

Á fimmtudag og föstudag eru þemadagar í skólanum. Skóladagurinn er með breyttu sniði á mið- og unglingastigi en nemendur vinna í hópum þvert á árganga ýmis verkefni tengd Skutulsfirði. Þessir dagar eru styttri á þessum stigum og lýkur skóladeginum kl. 12 báða dagana en þá fara nemendur í mat og geta farið heim að því loknu. Aukaferð í strætó fer frá skólanum kl. 12:30.

Á yngsta stiginu verður þemavinna til kl. 11:00 og eftir það tekur hefðbundin dagskrá við samkvæmt stundaskrá.

Nemendaþing um einelti

Í dag er baráttudagur gegn einelti, en verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins ákvað að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti, allt frá árinu 2011.

Það er mjög mikilvægt að allir taki höndum saman um að koma í veg fyrir einelti og andfélagslega hegðun. Það er ekki síst gert með fræðslu og umræðum, sem hafa verið markvissar núna síðustu daga hjá okkur.

Í framhaldi af þeirri fræðslu héldum við nemendaþing um einelti í morgun hjá 6. - 10. bekk. Nemendum var skipt í 19 hópa sem stýrt var af hópstjórum úr 10.bekk. Fjórar spurningar voru lagðar fyrir nemendur:

1. Hvernig birtist einelti okkur?

2. Hvaða áhrif hefur einelti á okkur (þolendur/gerendur/aðra)?

3. Hvað getum við gert til að stöðva einelti?

4. Hvað getum við sjálf gert til að vinna gegn eða koma í veg fyrir einelti?

Hópstjórar stýrðu umræðum, þar sem allir fengu tækifæri á að tjá sig og leggja sitt af mörkum. Í lokin var svo samantekt á þeim atriðum sem hverjum hóp fannst mikilvægust. Skólastjórnendur munu svo taka niðurstöðurnar saman og koma þeim á framfæri, á meðal nemenda, starfsmanna og foreldra.

Ástæðan fyrir nemendaþingi sem þessu er að við viljum að nemendur séu virkir í skólastarfinu, að sjónarmið þeirra skipti máli og þeir sjái að þeir geti haft raunveruleg áhrif á mótun skólabragsins. Til að vinna að því markmiði höfum við reglulega sett upp nemendaþing þar sem nemendur ræða saman um áhrifaþætti í skólastarfinu og samfélaginu. Vinna sem þessi rímar vel við grunnþætti menntunar í Aðalnámskrá grunnskóla, þar sem lýðræði og jafnrétti er haft að leiðarljósi ásamt virkri þátttöku, gagnrýnni hugsun og samvinnu svo fátt eitt sé nefnt.

Síðastliðinn vetur var viðbragðsáætlun skólans gegn einelti endurunnin og tók hún gildi 1.mars s.l. Hægt er að nálgast hana hér

 

 

Jól í skókassa

1 af 3

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla 21 kassa, sem þeir skiluðu til sr. Grétars Halldórs Gunnarssonar, prests í Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

 

Húsbyggingar mældar

1 af 4

10. bekkur er að læra um einslaga þríhyrninga og prófa að nota eiginleika þeirra á hagnýtan hátt. Í dag fór nemendahópurinn út með spegla og málbönd til að mæla hæð bygginga í nágrenni skólans. Spegillinn er settur á jörðina og svo stillir einn sér upp þannig að hann sjái þakbrúnina á húsinu. Þá þarf að mæla þrjár lengdir, fjarlægðina frá húsi að spegli, fjarlægðina frá spegli að manneskju og hæð manneskjunnar upp að augum. Hlutföll milli hliða í einslaga þríhyrningum eru jöfn svo hæð hússins deilt með fjarlægðinni að speglinum er jöfn hæð manneskjunnar upp að augum deilt með fjarlægðinni að speglinum. Svona er búið að áætla hæð allra helstu bygginga i kringum skólann í morgun!

List fyrir alla

1 af 4

Í dag og í gær hafa nemendur í 8. og 9. bekk tekið þátt í listasmiðjum á vegum verkefnisins List fyrir alla. Í smiðjunum unnu nemendur með líffjölbreytileikann á norðurslóðum og veðrið og veðurkerfi, undir leiðsögn Öldu Cartwright og Kristínar Bogadóttur.

Afrakstur smiðjanna verður sýndur í Edinborgarhúsinu í dag á milli kl. 15:00 og 18:00.

Listaverk hjá 1.bekk

Í dag var spaðahópurinn í 1. bekk í myndmennt. Verkefni dagsins var að vinna með heita og kalda liti auk þess sem nemendur fengu að horfa á myndband með verkum Wassily Kandinsky. Nemendur fengu svo að spreyta sig á myndverkagerð í hans anda. Kandinsky var rússneskur listmálari og er talinn vera einn af merkustu listamönnum 20. aldarinnar. Hann er m.a. þekktur fyrir að vera frumkvöðull í abstraktlist.

Eitt af markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í sjónlistum er einmitt að kynna verk listamanna og leyfa nemendum að skapa sín eigin verk út frá kveikju.

Hrekkjavökuböll

Í kvöld heldur 10.bekkur Halloween ball og býður 8. og 9. bekk til gleðinnar. Ballið er í sal skólans og stendur frá k. 20:00-23:00. Aðangseyrir er kr. 1.500 fyrir þá sem ekki mæta í búningi, en kr. 1.000 fyrir aðra.

Á morgun heldur Foreldrafélag G.Í. svo tvö hrekkjavökuböll fyrir yngri nemendur, einnig í sal skólans. Fyrra ballið er fyrir 1. - 4. bekk og stendur frá kl.17:00 - 18:30. Seinna ballið er fyrir 5. - 7. bekk og stendur frá kl. 18:30 - 20.00.

Við vitum að það er mikið í lagt með skreytingum frá Foreldrafélaginu og hafa nemendur 10.bekkjar lagt mikinn metnað í skreytingarnar, þannig að skemmtunin verði sem mest.