VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn í Raggagarð

Vordagskráin hjá okkur er fjölbreytt og skemmtileg eins og áður og nemendur og starfsfólk úti um hvippinn og hvappinn þessa dagana. Vinabekkirnir 2. og 9. bekkur fóru í heimsókn í Raggagarð í Súðavík í morgun og léku sér saman í blíðunni. Ferðin tókst vel í alla staði og virkilega gaman að geta nýtt sér þessa frábæru aðstöðu hjá nágrönnum okkar í Súðavík.

Nemendasýning í Hversdagssafninu

1 af 3

Hlutirnir segja sögu er yfirskrift sýningar sem nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk settu upp í Hversdagssafninu undir stjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Í vetur hefur hópurinn kynnt sér menningu og sköpun í Skutulsfirði og heimsótt til að mynda Byggðasafnið, þar sem hugmyndin að sýningunni kviknaði. Ferlið við að velja hlut og skoða söguna sem hluturinn segir hefur verið mjög gefandi fyrir nemendur.

Sýningin, sem er gluggasýning, stendur til 3. júní og hægt að skoða hana hvenær sem er fram að þeim tíma.

Tekið þátt í Krakkasvari

Nemendur í 6. og 7. bekk tóku þátt í Krakkasvari á RÚV í gær eftir áskorun frá Dalvíkurskóla. Þar svöruðu krakkarnir því hvaða íþróttagrein þau veldu ef þau mættu velja eina atvinnuíþróttagrein. Þeir skoruðu svo á Grunnskóla Bolungarvíkur til þátttöku í næsta þætti.

Innslagið á RÚV má sjá hér 

Þemavika 10.bekkjar

Þessa vikuna eru þemadagar hjá 10.bekk. Nemendur klæðast ákveðnum klæðnaði hvern dag og fara í útileiki og setur það lit sinn á skólastarfið. Í dag var þemað sveita/lopapeysur og fór hópurinn í brennó á sparkvellinum og tvítví í blómagarðinum. Á morgun verður yfirskriftin ,,Celeb" og verður spennandi að sjá hvaða persónur birtast hér á göngunum. Þemavikunni lýkur svo með náttfata/kósýdegi á föstudaginn.

Uppskeruhátíð vinaliða

Í morgun hittust nemendur sem starfað hafa sem vinaliðar í vetur, í félagsmiðstöðinni og fögnuðu góðu starfi í vetur. Þeir Atli Freyr og Árni Heiðar, íþróttakennarar, settu upp skemmtidagskrá fyrir krakkana með alls konar leikjum og buðu svo upp á smá hressingu. Við þökkum þessum flotta hóp kærlega fyrir sitt frábæra starf í vetur.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann frá haustinu 2014 og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum, minnka togstreitu milli nemenda og hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

 

Ítalskur matseðill

1 af 3

Góða veðrið hefur heldur betur verið vel nýtt hjá okkur undanfarna daga. Í fyrradag var ítalskur matseðill hjá nemendum 6.bekkjar í heimilisfræði hjá Guðlaugu Jónsdóttur og elduðu þeir ítalska grænmetissúpu og bökuðu brauðstangir með. 

Það var ekki amalegt að njóta matarins utan dyra í blíðviðrinu og var sannkölluð Miðjarðarhafsstemning!

Úrslit í riðlakeppni Skólahreysti

G.Í. tók þátt í riðlakeppni Skólahreysti sem fram fór í Kópavogi í gær. Liðið okkar hafnaði í 8.sæti í mjög sterkum riðli og erum við afar stolt af okkar fólki sem æfir við erfiðar aðstæður miðað við mörg önnur lið sem hafa skólahreystibrautir á skólalóðum sínum.

Holtaskóli sigraði riðilinn og Grunnskóli Bolungarvíkur hafnaði í 2. sæti. Þessi tvö lið komast því áfram í úrslitakeppnina sem haldin verður síðar í mánuðinum.

GÍ keppir í Skólahreysti

Hópurinn tilbúinn til brottfarar
Hópurinn tilbúinn til brottfarar

Í dag keppir GÍ í undankeppni Skólahreysti í Digranesi kl. 17:00. Fyrir hönd skólans keppa þau Agnes Þóra Snorradóttir, Ástmar Kristinsson, Grétar Smári Samúelsson og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir. Til vara eru þau Elma Katrín Steingrímsdóttir og Kristinn Hallur Jónsson. Liðsstjóri hópsins er Guðný Stefanía Stefánsdóttir kennari.

Keppnin verður sýnd beint á RÚV kl. 17:00 og fylgjumst við spennt með og sendum baráttukveðjur til hópsins.

Útivist

1 af 2

Það fer ekki á milli mála að vorið er komið, þó lofthiti sýni ekki margar gráður. Eitt af því sem er svo gaman við vorið er hvað tíminn er vel nýttur til útivistar. Síðastliðinn föstudag bauð 3. bekkur nemendum 9. bekkjar með sér í fótbolta í útivist og létu unglingarnir ekki bjóða sér það tvisvar, heldur hlupu til og léku við þá yngri eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Við bíðum samt eftir fleiri hitagráðum áður en úlpurnar fá að fjúka!

Fögnum fjölbreytileikanum

Í dag flöggum við regnbogafánanum til að fagna fjölbreytileikanum í sinni víðustu mynd. Með því móti minnum við okkur á að allar manneskjur eiga rétt á að njóta sömu mannréttinda án tillits til uppruna þeirra, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar ómálefnalegrar stöðu. Umræður hafa skapast inni í bekkjum sem utan og finnst nemendum mikilvægt að fá að vera nákvæmlega eins og hver og einn vill. Það er enginn sem getur stöðvað mann í að vera maður sjálfur.