VALMYND ×

Fréttir

Útistærðfræði á unglingastigi

Á miðvikudögum í vetur er öll stærðfræði á unglingastigi kennd utandyra. Í morgun áttu nemendur í 8. og 10. bekk að búa til snjókarl þar sem miðjukúlan átti að hafa tvöfalt stærra ummál en efsta kúlan og neðsta kúlan átti að vera þrefalt stærri en sú efsta. Eina sem þau fengu var reipi til að hjálpa sér við mælingarnar.

Vinnan var skemmtileg og skapandi og gátu nemendur nýtt sér þann litla snjó sem okkur hlotnaðist í gær, ásamt ýmsu lauslegu sem fokið hafði svo sem trjágreinar.

Strætó á áætlun í dag

Allur akstur hjá Strætisvögnum Ísafjarðarbæjar eru á áætlun í dag, miðvikudag.

Skólalokum flýtt

Í samstarfi við bílstjórana í strætó hefur verið ákveðið að flýta strætóferðinni heim til 11:15 þar sem veðrið er að versna mjög hratt núna. Við vorum að senda sms á alla foreldra.

Skóla lýkur kl. 12:00

Síðasti strætó heim í dag er kl. 12:00 og þar með lýkur skóladeginum. Nemendur fá sinn matartíma hér í húsi áður en heim er haldið.

Við hvetjum foreldra til að sækja börn sín og fara varlega. Við vonum svo sannarlega að veðrið gangi yfir sem fyrst.

Óvissustig almannavarna

Vegna óvissustigs almannavarna og veðurviðvarana falla áætlunarferðir til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar niður í dag, en skólaakstur hér innanbæjar er á áætlun. 

Gul viðvörun er í gangi frá kl.7:00 - 10:00 og appelsínugul frá kl. 10:00 - 20:00 þar sem spáð er norðvestan 20-28 m/s og talsverðri snjókomu með skafrenningi og lélegu skyggni. 

Við hvetjum alla til að fara varlega og minnum foreldra á að hringja í skólann eða senda einkaskilaboð á Facebook síðu skólans ef þeir ákveða að hafa börn sín heima í dag. 

Slæm veðurspá og viðvaranir

Vegna slæmrar veðurspár er eftirfarandi upplýsingum komið á framfæri: 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

- Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu

- Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni

- Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa talhólfsnúmer, 878-1012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast með  á heimasíðu almannavarna.

Söngstund í 1. og 2. bekk

Í vetur býður Tónlistarskóli Ísafjarðar nemendum í 1. og 2. bekk í söngstund einu sinni í viku í Hömrum. Rúna Esradóttir, tónlistarkennari, stýrir söngstundinni af alúð og leikur undir á píanó. Nemendur og starfsfólk G.Í. kunna vel að meta þetta skemmtilega boð TÍ og krakkarnir syngja af innlifun.

Tónlistariðkun sem þessi reynir á hlustun, sköpun, tjáskipti og flutning, auk þess sem hún eflir næmi nemenda fyrir menningu. Söngstundir sem þessar ríma því vel við aðalnámskrána þar sem mikilvægi tónlistar er tengd öllu skólastarfi.

Við þökkum TÍ kærlega fyrir þetta einstaka framlag til eflingar tónlistar í skólanum.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Ólympíuhlaup ÍSÍ hefur nú tekið við af Norræna skólahlaupinu sem hefur verið hluti af skólaíþróttum síðan 1984. Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. 

Nemendur Grunnskólans á Ísafirði hlupu s.l. miðvikudag og stóðu nemendur sig afar vel að vanda. Hlaupið var frá Seljalandsvegi 2 og var hlaupaleiðin ýmist inn að Engi, Seljalandi eða golfskála, allt eftir aldri og getu nemenda.

Í huganum heim

Út er komin bókin Í huganum heim eftir Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu), heimilisfræðikennara við skólann. Bókin byggir á æskuminningum hennar úr sveitinni á Melum í Hrútafirði, þar sem hún ólst upp. Lesendur fá að kynnast dýrunum í sveitinni, sveitastörfum og leikjum barnanna, þar sem hættur geta leynst víða. 

Í huganum heim er falleg og bráðskemmtileg bók sem brúar kynslóðabilið og er því kjörin til samlesturs barna og fullorðinna. Didda hefur einstaklega góða frásagnargáfu og í bókinni er mikill texti með ríkum orðaforða. Fallegar myndir Hlífar Unu Bárudóttur prýða bókina og verður lífið á Melum ljóslifandi fyrir augum lesenda. 

Bókin er nú komin til útláns á bókasafni skólans og hvetjum við nemendur til að næla sér í eintak og kynnast lífinu hennar Diddu í sveitinni. Við erum afar stolt af okkar konu og óskum henni innilega til hamingju með bókina.

 

Göngum í skólann

9.bekkur gekk á Kistufell
9.bekkur gekk á Kistufell
1 af 2

Göngum í skólann verkefnið hófst formlega í dag, miðvikudaginn 8. september. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur að sjálfsögðu þátt í verkefninu nú sem endranær og hvetur alla til ganga eða hjóla í skólann. Fjallgöngurnar okkar skipa einnig stóran sess hjá okkur hvað varðar hreyfingu og heilbrigði. Fjórir árgangar fóru í fjallgöngur í dag, mismunandi erfiðar gönguleiðir. 2.bekkur fór á Hafrafellsháls, 6.bekkur á Sandfell, 7.bekkur að Fossavatni og 9.bekkur á Kistufell. Fyrir utan fjallgöngur allra árganga þessa dagana, er mikil áhersla lögð á útivist og hreyfingu allan mánuðinn.