VALMYND ×

Fréttir

Breyting á opnunartíma skólans og skrifstofu

Opnunartími skrifstofu og skólans breytist nú vegna vinnustyttingar annars starfsfólks en kennara. Í samningum opinberra starfsmanna kemur fram að starfsfólk eigi rétt á vinnustyttingu, 65 mínútur á viku frá og með 1. janúar 2021, sem á svo að verða fjórar stundir á viku í nokkrum skrefum. Ísafjarðarbær ákvað að fara alla leið og allir starfsmenn hans eiga nú að fá fjórar stundir á viku í vinnustyttingu. Það er í höndum hverrar stofnunar fyrir sig að útfæra þetta og útfærslan getur líka verið mismunandi eftir starfshópum í skólanum. Allt árið 2021 er reynslutími og ætlum við einnig að endurskoða okkar skipulag í febrúar þegar við sjáum hvernig þetta gengur. Þær breytingar sem verða hjá okkur eru þær helstar að til að koma til móts við vinnustyttinguna munum við loka skrifstofu skólans kl. 14:00 á föstudögum, einnig mun skólanum verða lokað á þeim tíma. Þetta tekur gildi frá og með föstudeginum 8. janúar.

Nýársóskir

 

Ég óska nemendum, foreldrum og starfsfólki gleðilegs nýs árs og þakka fyrir lærdómsríkt og krefjandi ár 2020. Eins og kunnugt er setti heilbrigðisráðherra nýja reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem gildir frá 1. janúar til og með 28. febrúar 2021. Í henni segir m.a. að heimilt sé að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 2 metra nálægðartakmörkum milli starfsfólks og sé ekki hægt að virða hana á að nota andlitsgrímur. Það mega ekki vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými en starfsmönnum heimilt að fara á milli hópa. Það mega ekki vera fleiri en 50 nemendur í sama rými, undantekning í anddyrum, göngum, mötuneyti og skólaakstri. Blöndun hópa er heimil. Við stefnum því ótrauð á eðlilegt skólastarf á nýju ári; verkgreinar, hræringur og mötuneyti koma inn og því fullur skóladagur nemenda. Upplýsingar um skráningu í mötuneytið koma 4. janúar og þá þarf að hafa hraðar hendur til að skrá nemendur því mötuneytið tekur til starfa fyrir alla nemendur 5. janúar því kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þann dag.
Eftir sem áður er ekki gert ráð fyrir að foreldrar og aðstandendur komi inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til. Stjórnendum grunnskóla er heimilt að krefja foreldra, þurfi þeir að koma inn í skóla­bygg­ingu, um að nota andlitsgrímur. Sama á við um aðra, svo sem starfsmenn skólaþjónustu og vegna vöruflutninga.
Að öllu þessu sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir gott og gefandi samstarf á liðnu ári, með von um bjartari tíma.

Jólaleyfi

Í morgun voru litlu jólin haldin hátíðleg hjá okkur og einkenndust þau af notalegri samverustund hvers bekkjar. Nemendur og starfsfólk héldu svo heim á leið í kærkomið jólafrí eftir annasama tíma undanfarið. Kennsla hefst á nýju ári þriðjudaginn 5.janúar 2021.

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Meðfylgjandi er klippa sem sýnir jólastemninguna undanfarna daga og vonum við að þið njótið vel.

https://youtu.be/hnqpO3kNMCs 

Jólasveinar í heimsókn

1 af 2

Það var mikið fjör hjá okkur í 1. - 4. bekk í dag, þegar tveir rauðklæddir bræður kíktu við hjá okkur þrátt fyrir mikið annríki þessa daga. Þetta voru þeir Hurðaskellir og Stúfur, sem áttu leið um bæinn og langaði til að líta við hjá yngstu nemendunum. Þeir könnuðust við marga krakka sem þeir hittu, enda þekktir fyrir að fylgjast með skóm í gluggum og gefa eitthvað góðgæti eða annað sem gleður börnin.

Sveinarnir síkátu léku á als oddi og skemmtu nemendum með söng og ýmsum uppátækjum. Við vonum að þeir hafi haft jafn gaman af heimsókninni og við og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.

Litlu jólin

Föstudaginn 18. desember er síðasti skóladagur ársins. Nemendur mæta þá í betri fötunum og eru í skólanum frá kl. 10:00-12:00 og halda litlu jólin hátíðleg í sínum bekkjastofum. Sú venja að ganga kringum jólatréð er því miður ekki möguleg þetta árið, þar sem blöndun hópa er enn ekki leyfð og sleppum við auk þess öllum jólapökkum. En við gerum okkar besta til að gera daginn sem hátíðlegastan og eiga notalegar stundir saman.

Strætó fer úr firðinum og Hnífsdal kl. 9:40 og til baka aftur rúmlega 12:00. Dægradvöl er opin eftir það og eru foreldrar beðnir að láta vita þangað ef þeir ætla ekki að nýta sér það úrræði.

Gjafir til barna í neyð

Skóli í kassa - bráðabirgðaskóli með námsgögnum fyrir 40 börn
Skóli í kassa - bráðabirgðaskóli með námsgögnum fyrir 40 börn

Ákvörðun hefur verið tekin um að nemendur skiptist ekki á jólapökkum á litlu jólunum hjá okkur. Í framhaldi af því hafa foreldrar í nokkrum árgöngum tekið höndum saman um að gefa gjafir í nafni árganganna, til barna í neyð. Nemendur 9.bekkjar gefa til dæmis ,,Sanna gjöf" í gegnum Unicef og fjárfestu í bráðabirgðaskóla með námsgögnum fyrir 40 börn ásamt leikjapökkum sem innihalda sippubönd og fleira. 

Margt smátt gerir eitt stórt og er gaman að sjá samstöðuna og samhuginn sem ríkir á meðal nemenda og foreldra þegar á reynir. Þessar gjafir geta svo sannarlega bjargað mannslífum en eins og við vitum þá er mikil þörf á aðstoð víða um heim og hvert framlag skiptir máli.

Sungið á Eyri

1 af 2

Það er ýmislegt gert á aðventunni þó bannsett veiran hefti margar góðar hugmyndir. Í gær sá 6.GS við henni og gerði sér ferð upp á Hjúkrunarheimilið Eyri og söng þrjú lög fyrir utan allar deildir heimilisins. Á leið sinni upp eftir slóst skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, Bergþór Pálsson, með í för og leiddi sönginn ásamt Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur umsjónarkennara. Þetta var gefandi og skemmtileg stund sem allir nutu vel.

Ný reglugerð og litlu jól

Nú hefur ný reglugerð varðandi sóttvarnir litið dagsins ljós. Það eru litlar breytingar hjá okkur en þó þær að grímuskyldan fellur niður á unglingastigi. Þannig að frá morgundeginum er ekki skylda fyrir nemendur að vera með grímur en ef þeir kjósa svo þá er það í góðu lagi. Að öðru leyti höldum við óbreyttu skipulagi til jóla.
Þær takmarkanir sem nú eru í gildi hafa áhrif á litlu jólin að því leyti að ekki er hægt að blanda hópum saman þannig að jólaböllin falla niður. Litlu jólin verða því eingöngu í bekkjarstofum milli 10 og 12 þann 18. desember. Einnig teljum við það skynsamlegt að nemendur skiptist ekki á jólapökkum í ljósi aðstæðna.

Jólin nálgast

Það er hefð fyrir því í skólanum að nemendur skreyti hurðirnar. Þetta er skreytingin hjá 8. bekk og það mætti segja að hún væri lýsandi fyrir komandi jól.

Engar breytingar

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra í dag verða engar tilslakanir á sóttvarnarreglunum. Það þýðir það að hjá okkur verða engar breytingar og höldum við því skipulagi sem nú er við lýði að minnsta kosti til 9. desember.  Þetta eru vissulega vonbrigði því við höfðum vonast til þess að það yrðu einhverjar breytingar.  En það er ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og halda áfram og vonast eftir jákvæðum breytingum í næstu viku.