VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn á Hrafnseyri

Nemendur 8.bekkjar heimsóttu Hrafnseyri við Arnarfjörð í gær, þar sem Valdimar J. Halldórsson, staðarhaldari, fræddi nemendur um sögu staðarins og einnig var safnið um Jón Sigurðsson skoðað. Farið var í leiki á túninu og að lokum fékk hópurinn að heyra söguna af galdramanninum sem hvílir í kirkjugarðinum.

Eftir það var farið yfir að Dynjanda þar sem starfsmenn grilluðu pylsur á meðan nemendur skoðuðu fossinn. Hópurinn var heppinn með veður, það rigndi bara rétt á meðan gengið var frá grillinu.

Við erum heppin að hafa slíkan sögustað sem Hrafnseyri er en saga 19.aldar er einmitt eitt af viðfangsefnum 8.bekkjar og sjálfstæðisbarátta Íslendinga með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar.

Leikjadagur á yngsta stigi

Í dag er leikjadagur hjá 1. - 4. bekk á Torfnesi þar sem íþróttakennarar hafa skipulagt hina ýmsu leiki. Nemendum er skipt í hópa sem fara í bandý, hlaupaleiki, hringleiki og boltafjör. Veðrið hefur leikið við okkur eins og sést á meðfylgjandi myndum og vonandi hafa allir skemmt sér sem best. Fjörinu lýkur um kl. 11:30 þegar allir koma til baka í hús.

Lokaball nemenda

Það hefur því miður verið lítið um félagslíf hjá nemendum í vetur vegna ástandsins í samfélaginu. 10.bekkur nær þó að halda lokaballið sitt fimmtudaginn 3.júní í matsal skólans. Nemendum 7. - 9.bekkjar er boðið og kostar aðgöngumiðinn kr. 1.000. Sjoppa verður á staðnum með krap, popp, gos og nammi til að auka dansorkuna.

Ballið er frá kl. 19:30 - 22:30 og fer rúta út í Hnífsdal og inn í fjörð að ballinu loknu.

Gróðursetning hjá 6.bekk

1 af 4

Í morgun fór 6.bekkur inn í Tungudal til gróðursetningar. Yrkjusjóður úthlutaði skólanum 134 birkiplöntum sem nemendur settu niður og vonum við að þær eigi eftir að dafna vel.

10.bekkur á heimleið

Nú er heimferðardagur hjá 10.bekk og er áætluð brottför frá Bakkaflöt kl. 12:00. Ferðin hefur gengið vel þrátt fyrir að veður hafi sett strik í reikninginn. Hópurinn komst ekki í ,,river rafting" í fyrradag eins og til stóð vegna hvassviðris, en krakkarnir vöknuðu þess í stað snemma í morgun og náðu að ljúka þeirri ferð.

Áætluð heimkoma er um kl. 19:00 í kvöld.

Skólaferðalag 10.bekkjar

1 af 2

Nemendur 10.bekkjar lögðu af stað í skólaferðalag norður að Bakkaflöt í Skagafirði í morgun. Auk nemenda eru umsjónarkennarar og nokkrir foreldrar með í för og mun hópurinn dvelja á Bakkaflöt fram á mánudag. Dagskráin er þétt og skemmtileg næstu daga hjá þeim og vonum við að allir njóti ferðarinnar sem best.

Karímarímambó og Súkkulaðiópera

Litla Act alone bauð öllum nemendum skólans upp á einleikna viðburði í morgun í Hömrum. Yngsta stigið naut skemmtilegrar dagskrár í tali og tónum með Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni, sem ber nafnið Karímarímambó.  Eldri nemendum var boðið upp á súkkulaðióperuna Bon appétit! með Guju Sandholt.

Nemendur kunnu vel að meta þessa listviðburði og þökkum við kærlega fyrir okkur.

Heimsókn í Raggagarð

Vordagskráin hjá okkur er fjölbreytt og skemmtileg eins og áður og nemendur og starfsfólk úti um hvippinn og hvappinn þessa dagana. Vinabekkirnir 2. og 9. bekkur fóru í heimsókn í Raggagarð í Súðavík í morgun og léku sér saman í blíðunni. Ferðin tókst vel í alla staði og virkilega gaman að geta nýtt sér þessa frábæru aðstöðu hjá nágrönnum okkar í Súðavík.

Nemendasýning í Hversdagssafninu

1 af 3

Hlutirnir segja sögu er yfirskrift sýningar sem nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk settu upp í Hversdagssafninu undir stjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Í vetur hefur hópurinn kynnt sér menningu og sköpun í Skutulsfirði og heimsótt til að mynda Byggðasafnið, þar sem hugmyndin að sýningunni kviknaði. Ferlið við að velja hlut og skoða söguna sem hluturinn segir hefur verið mjög gefandi fyrir nemendur.

Sýningin, sem er gluggasýning, stendur til 3. júní og hægt að skoða hana hvenær sem er fram að þeim tíma.

Tekið þátt í Krakkasvari

Nemendur í 6. og 7. bekk tóku þátt í Krakkasvari á RÚV í gær eftir áskorun frá Dalvíkurskóla. Þar svöruðu krakkarnir því hvaða íþróttagrein þau veldu ef þau mættu velja eina atvinnuíþróttagrein. Þeir skoruðu svo á Grunnskóla Bolungarvíkur til þátttöku í næsta þætti.

Innslagið á RÚV má sjá hér