VALMYND ×

Fréttir

Í vikulokin

Nú bíðum við frétta af næstu tilmælum vegna kórónuveirunnar.  í upphafi vikunnar vorum við orðin bjartsýn á að geta komið skólastarfinu í eðlilegt  horf; tekið inn hringekjur í verkgreinum, valgreinum á mið-og unglingastigi, mötuneytinu í fulla notkun, sem sagt fullan skóladag hjá öllum.  Í dag erum við ekki eins bjartsýn og tölurnar yfir smit síðustu daga vekja áhyggjur um að minna verði af tilslökunum en við bjuggumst við.  Þetta kemur þó vonandi í ljós um helgina og þið fáið upplýsingar í síðasta lagi á þriðjudaginn.

Við sjáum og finnum það hjá eldri nemendum sem eru alltaf með grímurnar að þeir eru farnir að þreytast á þeim og við skiljum það fullkomlega.  Þeir eru búnir að standa sig ótrúlega vel og það er bara þannig að þegar maður er farinn að sjá fyrir endann á erfiðleikum og leiðindum þá eykst óþreyjan og það er að gerast núna.  Það gæti reynst þeim erfitt ef það kemur svo í ljós eftir helgi að grímuskyldan verði áfram við lýði.  Við höfum verið að ræða við þá að við verðum að standa saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til að hleypa kórónuófétinu ekki af stað hér hjá okkur.

Við vonum það besta en búum okkur undir að það verði ekki gerðar tilslakanir eftir helgi.

Á þriðjudaginn er 1. desember og á þeim degi hefur verið hefð að hafa opið hús.  Nú er það ekki í boði en það væri gaman ef nemendur og starfsfólk brjóti upp hversdaginn og mæti í betri fötunum.

Starfsdagur

Miðvikudaginn 25.nóvember er starfsdagur hér í skólanum og engin kennsla.

Leikið á Silfurtorgi

1 af 2

Síðasti grímudagur 5. - 7. bekkjar var í gær. 6.GS dreif sig út í góða veðrið eins og svo oft áður og var svo heppinn að hitta á leikskólakrakka frá Tanga. Að sjálfsögðu var tækifærið nýtt og farið í Hókí pókí.

Ný reglugerð tekur gildi 18.nóvember

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi gildir 18. nóvember – 1. desember. Helstu breytingar eru þær að grímuskylda í 5.-7. bekk er afnumin og íþróttir og sund koma inn. Einnig geta nemendur í 5.-10. bekk farið út í frímínútur grímulausir. Að öðru leyti er skipulagið frá 3.-17. nóvember í gildi.
 
Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til og nota þá grímu. Það sama á við um alla aðra starfsmenn, svo sem starfsfólk í frístund og dægradvöl, starfsfólk skólaþjónustu og vegna vöruflutninga.
 
Í 1.-4. bekk er 50 barna hámark í hverju rými og grímuskyldan á ekki við. Það verður óskertur skóladagur hjá þessum árgöngum. Frístund, dægradvöl og mötuneyti verða á sínum stað með breytingum þó og til að koma öllum nemendum á yngsta stiginu fyrir í mötuneytinu borðar 2. og 4. bekkur fyrir framan matsal. Íþróttir og sund koma inn.
 
Í 5.-7. bekk er ekki grímuskylda, nemendur geta farið í list-og verkgreinar, en það má ekki blanda hópunum saman. Íþróttir á Torfnesi geta hafist en hverjum árgangi verður skipt í tvo hópa og skilrúm á milli hópa svo að ekki verði farið yfir 25 manna hámarkið í hverju rými. Það verður ekki hægt að nota sturturnar og til að mæta álaginu í búningsklefum verða hóparnir látnir skarast. Frímínútur verða með eðlilegum hætti. Þar sem við getum ekki komið hádegismat fyrir vegna fjöldatakmarkana mun verða kennsla til 12:15 en þá verður strætó.
 
Í 8.-10. bekk er grímuskylda þar sem við getum ekki tryggt tveggja metra fjarlægðarmörk og á það við um öll rými skólans, þannig að nemendur verða að vera með grímur allsstaðar, á leið inn og út úr skóla og einnig í kennslustundum og hvetjum við alla sem geta að nota eigin grímur í skólanum. Að öðrum kosti mun skólinn útvega þær. Nemendur eiga einnig að vera með grímur í strætó. Nemendur gata valið um að fara út í frímínútur eða verið inn í stofum, ekki er leyfilegt að vera á göngunum. Þar sem við getum ekki komið hádegismat fyrir vegna fjöldatakmarkana og grímuskyldan er enn við lýði mun verða kennsla til 12:15 en þá verður strætó.
Hámarksfjöldi er 25 í hverju rými fyrir sig. Hverjum árgangi á unglingastigi verður því skipt í tvo fasta hópa, og hver hópur í sér stofu. 8. og 9. bekkur getur farið í sund þar sem fjöldinn er innan marka og hópaskiptingin getur því haldið sér. Matartíminn fellur niður og verður mataráskrift endurgreidd.
 
 

Daglega lífið

6.bekkur í útivist
6.bekkur í útivist
1 af 5

Þrátt fyrir grímuskyldu, fjöldatakmarkanir, sóttvarnarreglur og hvað allt heitir, þá gengur lífið sinn gang hér hjá okkur. Krakkarnir eru ótrúlega duglegir þrátt fyrir allt og reyna kennarar að brjóta upp daginn og njóta útiveru og samveru sem best. Verkgreinar hafa legið niðri að mestu leyti, þar sem nemendur mega ekki fara inn í verkgreinastofur, á milli sóttvarnarhólfa. Verkgreinakennararnir brugðu þá á það ráð að láta nemendur hanna borðspil frá grunni og útfæra á eigin hátt. Það tókst ljómandi vel og á meðfylgjandi myndum má sjá 5.bekk spila eigin útgáfur. 

Dagur íslenskrar tungu

1 af 2

Í dag, 16.nóvember, er dagur íslenskrar tungu, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni var setning litlu og stóru upplestrarkeppnanna í 4. og 7. bekk. Eins og gefur að skilja var engin samkoma á sal líkt og undanfarin ár, heldur var brugðist við ástandinu og dagskráin send út frá skrifstofu skólatjóra og út í bekkjastofur 4. og 7. bekkjar.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina og Kristín Oddsdóttir, kennari, kynnti dagskrána. Þær Anna María Ragnarsdóttir og Dagný Rut Davíðsdóttir nemendur í 8. bekk fluttu ljóð, en þær náðu langt í upplestrarkeppninni í fyrra. Þá var hlustað á tónlist í boði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og voru keppnirnar formlega settar að því loknu.

Markmið upplestrarkeppni í grunnskóla er að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. 

Í vikulokin

 

Vikan hefur gengið ágætlega og nemendur eiga hrós skilið fyrir hvernig þeir taka taka þessum hertu sóttvarnarreglum.  Við sjáum þó að ákveðinnar þreytu er farið að gæta, sérstaklega varðandi grímurnar.

Nú hefur heilbrigðisráðherra kynnt nýja reglugerð sem gildir frá 18. nóvember til 2. desember, og samkvæmt henni verður aðeins slakað á hvað varðar fjöldatakmarkanir í skólum.  Það er gert til að koma til móts við framhaldsskólanna en breytir ekki miklu hjá okkur í grunnskólunum. Íþróttir barna með og án snertinga verða heimilaðar en sundlaugar verða enn lokaðar. Við í grunnskólunum bíðum eftir nánari útfærslu og getum vonandi kynnt hana á mánudag eða þriðjudag í næstu viku.

Í vikulokin

Nú er fyrstu vikunni í þessari lotu að ljúka. Mér finnst hún heilt yfir hafa gengið vel og þið sýnt okkur skilning og stuðning við breytt skipulag. Það skiptir okkur mjög miklu að finna það að við erum öll í þessu saman. Það er svo ótrúlega mikilvægt að geta haldið úti skólastarfi og að röskunin sé með minnsta móti fyrir nemendur. Mér finnst líka að nemendur standi sig ótrúlega vel. Þeir taka langflestir vel í grímunotkunina og skilja mikilvægi hennar. Eins reynir á alla nemendur að vera meira og minna inn í umsjónarstofunum sínum allan skóladaginn og þá sérstaklega þau yngstu sem eru fullan skóladag.
Vonandi verður hægt að létta á sóttvarnarreglunum strax eftir 17. nóvember og vil ég trúa því að það verði hægt, allavega að við losnum við grímur og að við getum farið í eðlilegt ástand hvað varðar kennsluna, þó svo að kannski verði enn fjöldatakmarkanir og aðgengi utanaðkomandi aðila verði enn takmarkað.

Við óskum ykkur góðrar helgar og við skulum reyna að hafa gleðina að leiðarljósi og njóta samveru við fjölskyldu þessa helgi þar sem yfirvöld hafa hvatt okkur til að ferðast innanhúss þessa helgi.

Starfsdagur 25. nóv

Þar sem starfsdagurinn 2.nóvember fór alfarið í nýtt skipulag vegna nýrra sóttvarnarreglna, verður starfsdagurinn sem vera átti 11.nóvember færður til 25. nóvember n.k.

Staðan í dag

Kæru foreldrar!
Fyrsti dagur í þessari lotu hertra samkomutakmarkana gekk að mörgu leyti vel. Það voru margir nemendur sem voru með grímur á sér þegar þeir komu inn í skólann í morgun. Það er náttúrulega grímuskylda í strætó fyrir börn fædd 2010 og eldri, og nemendur sem komu úr strætó enn með grímurnar á sér.  
Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að það er erfitt að vera með grímuna lengi og þegar líða tók á daginn þá þreyttust margir og vildu ekki hafa hana. Við biðjum ykkur því að ræða mikilvægi grímunotkunar við börnin ykkar og ítreka það að við verðum að gera þetta saman. Þar fyrir utan þá er grímuskyldan í reglugerð og við verðum öll að hlýða henni. Það er engin undanþága nema fyrir þá sem hafa fengið covid eða aðrar læknisfræðilegar ástæður, sem þarf þá að skila vottorði fyrir. Við vonum að grímurnar venjist fljótt og allir átti sig fljótt á mikilvægi þeirra.
Það voru nokkrir smávægilegir hnökrar sem komu í ljós á nýja skipulaginu okkar, en okkar frábæra starfsfólk er fljótt að slípa þá til og þökkum við þeim enn og aftur fyrir þeirra góða og lausnamiðaða starf.
Við finnum vel fyrir stuðningi ykkar núna kæru foreldrar og er það ómetanlegt og veitir okkur kraft til að takast á við verkefnin sem covidið færir okkur.