VALMYND ×

Fréttir

Vinaliðanámskeið

1 af 3

Sigríður Inga Viggósdóttir, umsjónarmaður vinaliðaverkefnisins, kom í heimsókn til okkar í síðustu viku. Hún kenndi bæði nýjum vinaliðum og þeim sem hafa verið vinaliðar hjá okkur í vetur nýja leiki auk þess sem farið var yfir hvað það er að vera vinaliði. Krakkarnir sem voru valdir til að vera vinaliðar í haust fengu ekki námskeið vegna covid ástandsins og var því boðið að mæta með nýju vinaliðunum sem byrja í næstu viku. Þeir læra hvernig best er að stýra leikjum og að bjóða krökkum sem eru einir að taka þátt. Einnig þurfa vinaliðar að vera skipulagðir og fá smá tíma fyrir frímínútur til að stilla upp sinni vinaliðastöð.

Það var líf og fjör á námskeiðinu hjá Sigríði Ingu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Vinaliðastarfið er gefandi og skemmtilegt og fá nemendur góða leiðtogaþjálfun sem nýtist þeim í öllu starfi. /AFR

Legó í kennslu

1 af 3

Síðustu fjögur árin höfum við verið að innleiða Legó sem kennslutæki, aðallega til að byggja upp samvinnu- og samskiptafærni hjá nemendum. Sum kubbasettin eru sérhönnuð fyrir kennslu, önnur eru hefðbundin sett og þá er það kennsluaðferðin sem stýrir því hvaða markmiðum er unnið að.

Hópvinna með hefðbundin sett byggir á því að þrír nemendur skipti með sér verkum. Einn er með leiðbeiningarnar (sem hinir sjá ekki), lýsir því hvaða kubba á að finna og hvernig á að setja þá saman. Annar á að finna kubbana og þriðji setur þá saman. Þarna þjálfum við nemendur í því að segja hvað á að gera og reynum okkar besta til að nota ekki orðið NEI. Eftir hverja opnu eru leiðbeiningarnar bornar saman við verkið og athugað hvort eitthvað þurfi að laga. Áherslan er á að auka orðaforða, að nemendur hlusti af athygli, útskýri á skýran hátt og endurtaki ef með þarf. Þetta þjálfar þolinmæði, umburðarlyndi og að koma fram við aðra af virðingu, auk þess sem hægt er að nýta það til að kenna grunnorðaforða í tungumálum.

Við nýtum einnig sögugerðarlegó til að þjálfa frásögn og vinna með þá þætti sem við notum við skapandi skrif, hugtakalegó sem tengir hlutbundna vinnu við abstrakt hugtök og tilfinningar, Legó vélmenni til að takast á við verk í áföngum og vinna með forritun, Legó fígúrur til að auka úthald í lestri, allrahanda Legó til að kenna stærðfræði og svo mætti lengi telja, því möguleikarnir eru óþrjótandi.

Námskeið í kennslu með Legó hafa verið haldin fyrir starfsfólk skólans, bæði kennara og stuðningsfulltrúa og hefur Laufey Eyþórsdóttir stýrt þeim hluta. Hún nýtir einnig Lego í kennslu, auk þess sem Jón Hálfdán Pétursson kennir á tæknilegó í valgreinum á mið- og unglingastigi.

Það er gaman frá því að segja að sjónvarpsmenn frá Landanum komu við hjá okkur á dögunum og tóku upp efni og verður það innslag sýnt núna á sunnudagskvöldið. 

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Landssamband slökkviliðsmanna efndi til eldvarnaviku í desember síðastliðinn. Slökkviliðsmenn heimsóttu 3. bekk af því tilefni og lögðu sérstakt verkefni fyrir nemendur ásamt eldvarnagetraun, auk þess sem þeir fræddu nemendur um eldvarnir.

Góð þátttaka var í getrauninni og var einn vinningshafi frá G.Í. dreginn út og var hinn heppni Antoni Guðjón Andersen og tók hann við viðurkenningarskjali og gjafabréfi hjá Spilavinum úr hendi Hlyns Kristjánssonar, slökkviliðsmanns.

Við óskum Antoni innilega til hamingju.

Maskadagur - maskaböll

Mynd frá maskadegi 2015
Mynd frá maskadegi 2015

Mánudaginn 15.febrúar er bolludagur/maskadagur. Þá hvetjum við alla til að mæta í búningum, bæði nemendur og starfsfólk. Maskaböll verða með aðeins öðru sniði en venjulega, þar sem ekki er leyfilegt að hafa fleiri en 50 nemendur í sama rými. Eva danskennari mun stýra dansinum í dansstofunni og verður dagskráin eftirfarandi:

kl.08:10-08:40  1. og 2. bekkur
kl.08:45-09:15  3.bekkur
kl.09:50-10:20  4.bekkur
kl.10:20-10:50  5.bekkur
kl.11:20-11:50  6.bekkur
kl.12:30-13:00  7.bekkur

Að sjálfsögðu er velkomið að koma með bollur í nesti á bolludaginn. 

Undanfarin ár hefur verið starfsdagur á sprengidaginn, en þetta árið var starfsdagurinn færður til fimmtudags og liggur þá að vetrarfríi sem er á föstudaginn.

 

Þemadagar

Í gær og fyrradag voru þemadagar hér í skólanum. Nemendum var skipt í hópa þar sem hver hópur valdi sér eitt land til umfjöllunar. Útfærslurnar voru margvíslegar og vinnan fjölbreytt og skemmtileg, allt frá bakstri á dönskum bollum til brasilísks stríðsdans og japansks sushi. Það var virkilega gaman að sjá vinnuna og afraksturinn hjá krökkunum og eru allir veggir skólans þaktir fallegum hugmyndaríkum verkum.

Með þemanámi sem þessu er hægt að nálgast ýmis félagsleg markmið eins og til dæmis að þjálfa nemendur í samvinnu, fá nemendur til að skilja að samhjálp og sanngirni auðveldar starfið, að þeir læri hvað felst í málamiðlun, að þeir læri að hlusta á skoðanir annarra og taki mark á þeim og að nemendur læri að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Á bak við vinnuna þessa tvo daga nálgast nemendur mörg markmið aðalnámskrár og samþætting sem þessi þvert á námsgreinar gerir námið ennþá skemmtilegra og innihaldsríkara.

Bókaverðlaun barnanna

Á skólabókasafninu er nú hægt að taka þátt í kosningu um vinsælustu barnabækur ársins, Bókaverðlaun barnanna og stendur kosning yfir til 25. mars næstkomandi. Nemendur geta valið eina til þrjár bækur, sem þeim þykja skemmtilegar eða áhugaverðar af þeim sem komu út árið 2020. Atkvæðaseðlar liggja frammi á skólasafninu og einnig er hægt að kjósa á vef Borgarbókasafns. Niðurstöður verða kynntar á sumardaginn fyrsta 22. apríl og munum við draga úr þátttökuseðlum hjá okkur og veita bókagjöf í verðlaun.

Slóðin á kynningu verkefnisins er hér.

 

 

 

 

 

Grjónagrautur mallandi

Í heimilisfræði þarf að leysa hin ýmsu verkefni. Í vikunni tóku nemendur í 6.bekk sig til og elduðu grjónagraut. Eins og flestir fullorðnir vita er hægt að sinna ýmsum heimilisstörfum á meðan grauturinn mallar. Það var því ákveðið að nýta tímann og taka vinnustöðvarnar í gegn. Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðifræðikennari, sagði krakkana sérstaklega duglega og hafi þeir leyst verkefnið með stakri prýði.

Ný skólahreystitæki í notkun

Vorið 2019 hlaut skólinn verðlaun að fjáræð kr. 100.000 fyrir þátttöku sína í Hreyfiviku UMFÍ. Hugmyndin var að nýta fjármunina til kaupa á einhverjum tækjum sem hvetja til hreyfingar og heilbrigðis. Valin voru tæki til æfinga á hreystigreip, upphífingum og dýfum, sem eru keppnisgreinar í Skólahreysti. Nú eru tækin loksins komin á sinn stað í skólanum og var gaman að sjá þegar ungir nemendur nýttu tækifærið um leið og húsvörðurinn okkar var búinn að koma þeim fyrir og verða þau eflaust vel nýtt í framtíðinni.

Foreldradagur

Þriðjudaginn 2.febrúar n.k. er foreldradagur hjá okkur. Foreldrar geta bókað viðtalstíma við umsjónarkennara frá og með deginum í dag inni á www.mentor.is 

Skákdagurinn 2021

1 af 2

Í dag er Skákdagurinn, en hann er tileinkaður Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fyrrverandi forseta Alþjóða skáksambandsins. Friðrik sem er 86 ára í dag var eitt sinn meðal bestu skákmanna heims og teflir enn reglulega og gefur af sér til yngri kynslóða. Í tilefni dagsins var efnt til fjölteflis hér í skólanum. Smári Rafn Teitsson, skákkennari og umsjónarkennari, tefldi við rúmlega 40 nemendur úr 5. - 10. bekk. Úrslitin þarf vart að ræða, en nemendur stóðu sig vel og létu nokkrir hafa aðeins fyrir sér.

Í vetur kennir Smári Rafn skák bæði í vali á miðstigi og unglingastigi og hefur hann vakið upp áhuga, sérstaklega á miðstigi. Skákin er holl hugaríþrótt sem þjálfar rökhugsun og eykur sköpunargáfuna og vonum við að fjölteflið í dag ýti enn frekar undir skákáhuga innan skólans.