Síðustu fjögur árin höfum við verið að innleiða Legó sem kennslutæki, aðallega til að byggja upp samvinnu- og samskiptafærni hjá nemendum. Sum kubbasettin eru sérhönnuð fyrir kennslu, önnur eru hefðbundin sett og þá er það kennsluaðferðin sem stýrir því hvaða markmiðum er unnið að.
Hópvinna með hefðbundin sett byggir á því að þrír nemendur skipti með sér verkum. Einn er með leiðbeiningarnar (sem hinir sjá ekki), lýsir því hvaða kubba á að finna og hvernig á að setja þá saman. Annar á að finna kubbana og þriðji setur þá saman. Þarna þjálfum við nemendur í því að segja hvað á að gera og reynum okkar besta til að nota ekki orðið NEI. Eftir hverja opnu eru leiðbeiningarnar bornar saman við verkið og athugað hvort eitthvað þurfi að laga. Áherslan er á að auka orðaforða, að nemendur hlusti af athygli, útskýri á skýran hátt og endurtaki ef með þarf. Þetta þjálfar þolinmæði, umburðarlyndi og að koma fram við aðra af virðingu, auk þess sem hægt er að nýta það til að kenna grunnorðaforða í tungumálum.
Við nýtum einnig sögugerðarlegó til að þjálfa frásögn og vinna með þá þætti sem við notum við skapandi skrif, hugtakalegó sem tengir hlutbundna vinnu við abstrakt hugtök og tilfinningar, Legó vélmenni til að takast á við verk í áföngum og vinna með forritun, Legó fígúrur til að auka úthald í lestri, allrahanda Legó til að kenna stærðfræði og svo mætti lengi telja, því möguleikarnir eru óþrjótandi.
Námskeið í kennslu með Legó hafa verið haldin fyrir starfsfólk skólans, bæði kennara og stuðningsfulltrúa og hefur Laufey Eyþórsdóttir stýrt þeim hluta. Hún nýtir einnig Lego í kennslu, auk þess sem Jón Hálfdán Pétursson kennir á tæknilegó í valgreinum á mið- og unglingastigi.
Það er gaman frá því að segja að sjónvarpsmenn frá Landanum komu við hjá okkur á dögunum og tóku upp efni og verður það innslag sýnt núna á sunnudagskvöldið.