VALMYND ×

Fréttir

Það er leikur að læra

1 af 2
Útinám er alltaf hluti af náminu, enda felur íslensk náttúra í sér margbreytileg námstækifæri fyrir nemendur og læra þeir að njóta nærumhverfisins hvernig svo sem viðrar. Á dögunum fór hópur unglinga upp í Jónsgarð í rigningunni og lærði að poppa á eldstæði og að ganga á línu. Það er leikur að læra!
 
 
 
 
 
 
 

Samræmd próf í vikunni

Eins og kunnugt er þá urðu miklir erfiðileikar við fyrirlögn samræmda prófsins í íslensku sem haldið var 9. mars s.l. og í kjölfarið var stærðfræði og ensku prófinu frestað. Í framhaldi af því ákvað Mennta- og menningarmálaráðuneytið að gefa nemendum frjálst val um að taka öll prófin á tímabilinu 17. mars - 30. apríl þar sem ekki tókst að gera fullnægjandi lagfæringar á kerfinu. Í ljósi þess er fyrirlögn hinna valkvæðu könnunarprófa á pappír.

Grunnskólinn á Ísafirði ákvað að velja komandi viku fyrir fyrirlögnina. Enginn nemandi skólans er skráður í íslenskuprófið, en 5 nemendur munu þreyta stærðfræðiprófið á þriðjudaginn og 7 nemendur enskuprófið á miðvikudaginn og óskum við þeim góðs gengis. Alls eru 39 nemendur í árgangnum. 

Bókaverðlaun barnanna

Á hverju vori er börnum á aldrinum 6-12 ára boðið að kjósa uppáhalds barnabækur ársins. Kosningin fór fram á almennings- og skólabókasöfnum um allt land og á vef Borgarbókasafnsins.

Við höfum nú dregið út vinningshafa úr hópi kjósenda og var það Chimamanda Silvia Ohiri í 3.KO sem hlaut bókina Lang- elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Við óskum henni innilega til hamingju og vonum að hún njóti lestursins!

Ný reglugerð frá 15.apríl

Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem gildir frá 15. apríl til 5. maí þá er engin breyting hjá okkur nema að nálægðartakmörkin er einn metri í stað tveggja áður.
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi, þ.m.t. íþróttastarfi, í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Sé starfs­fólki ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum skal það nota andlitsgrímur. Ekki skulu vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa og rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og starfsfólk tónlistar­skóla.
Nemendur eru undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil.
Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk noti andlitsgrímu.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara. Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skóla­byggingar nema nauðsyn beri til og skulu þá nota andlitsgrímu.
Aðrir sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu halda 1 metra takmörkun, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana.
Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.
Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar skólabúðir og skipu­lagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri.

Hér má sjá reglugerðina í heild sinni. 

 

Árshátíðarmyndbönd

1.bekkur á sviði
1.bekkur á sviði

Árshátíð skólans fór fram miðvikudaginn 24.mars síðastliðinn og var skólum landsins lokað af sóttvarnarástæðum í lok þess dags. Ætlunin var að sýna árshátíðaratriði allra bekkja aftur á fimmtudeginum, en það tókst ekki. Við vorum samt það heppin að fá Viðburðastofu Vestfjarða til að taka upp allar sýningar á miðvikudeginum. Foreldrar hafa nú fengið krækjur á sýningar sinna barna og geta hlaðið þeim niður til 1. júní næstkomandi. Efnið verður einnig varðveitt hér í skólanum. 

Við fyllumst alltaf stolti þegar við sjáum stóra sem smáa á sviði og allir hafa sín hlutverk og leggja sig fram um að skila sínu sem best. Ekki má heldur gleyma þeim nemendum sem standa utan sviðs og gera þetta gerlegt með stjórnun hljóðs, lýsingar, förðunar og sviðsstjórnar. 

Við vonum að aðstandendur séu ánægðir með þá lausn að taka sýningarnar upp, þar sem ekki var mögulegt að bjóða áhorfendum í hús í þessu covid-ástandi. Njótið vel!

Styrkur til leiðsagnarnáms

Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2021-2022. Grunnskólinn á Ísafirði hlaut 900.000 kr. ásamt Grunnskólanum á Suðureyri, Grunnskóla Önundafjarðar, Grunnskólanum á Þingeyri, Súðavíkurskóla og Grunnskóla Bolungarvíkur, til innleiðingar leiðsagnarnáms. Veittir voru styrkir til 42 verkefna að upphæð rúmlega 54 millj. kr. og var eitt annað verkefni á Vestfjörðum sem hlaut styrk.

Markmið verkefnisins er að innleiða leiðsagnarnám sem byggt er á aðferðafræði Shirley Clarke, í öllum grunnskólum á norðanverðum Vestfjörðum. Í stuttu máli má segja að leiðsagnarnám snúist um að hjálpa nemandanum til að komast frá þeim stað sem hann er á í náminu og að markmiði sínu. Með því móti verða gæði náms aukin sem skilar sér í valdeflingu nemenda og meiri námsáhuga og ábyrgðar á eigin námi. Ennfremur mun verkefnið efla fagvitund kennara og annars starfsfólks skólanna og bæta samstarfsvettvang á norðanverðum Vestfjörðum, þvert á sveitafélög.

Verkefnið mun standa yfir frá ágúst 2021 - desember 2023 og hefur Nanna Kristín Christiansen tekið að sér að leiðsegja skólunum gegnum þetta ferli. Hún er fyrrverandi verkefnastjóri hjá fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og stýrði innleiðingu leiðsagnarnáms hjá Reykjavíkurborg. 

Styrkur þessi verður fyrst og fremst nýttur til námskeiða fyrir alla starfsmenn skólanna og kemur sér því afar vel við innleiðinguna. Lesa má nánar um styrkveitingar Sprotasjóðs hér.

Nýjar sóttvarnarreglur

 

Nú er nýja sóttvarnarreglugerðin frá heilbrigðisráðherra komin út.  Hún gildir til og með 15. apríl. Hún lítur betur út en við þorðum að vona og verða engar breytingar á kennslu:

  • Nemendur eru undanþegnir nálægðartakmörkun og grímuskyldu.
  • Hámarksfjöldi starfsmanna er 20 manns í rými og þeir mega fara milli rýma.
  • Starfsfólk skal virða 2 metra fjarlægðarreglu sín á milli og gagnvart nemendum en nota grímu ella.
  • Viðburðir eru heimilir í skólastarfinu með þátttöku nemenda og starfsfólks en engum utanaðkomandi.
  • Hámarksfjöldi nemenda í rými er 50 og blöndun milli hópa innan sama skóla er heimil.
  • Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilit að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk noti andlitsgrímu.
  • Allir sem koma í skólann eiga að vera með andlitsgrímu.
  • Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.

Kennsla hefst því samkvæmt stundaskrá  þriðjudaginn 6. apríl og vonum við að ekki þurfi að gera frekari ráðstafanir.

Með ósk um gleðilega páska

Olga og Helga.

Tertubakstur

Unglingar í heimilisfræðivali hjá Guðlaugu Jónsdóttur, heimilisfræðikennara, bökuðu og skreyttu tertur síðustu dagana fyrir páskaleyfi. Á meðfylgjandi myndum má sjá afraksturinn í höndum stoltra bakaranna og myndu þessar tertur sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er.

Þekking og leikni í heimilisstörfum er kjarni heimilisfræðinnar og honum tengjast allir þættir námsins, fræðilegir sem verklegir. Það er heilmikið nám sem fram fer í gegnum bakstur sem þennan og stoltið og gleðin sem skín af nemendum ber þess merki að vinnan hafi verið vel þess virði. 

Skólum lokað fram að páskum

Tíðindi dagsins eru heldur betur sláandi. Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag kom fram að stjórnvöld vilji leggja ofurkapp á að reyna að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar sem nú virðist breiðast hratt um landið okkar. Það ætla þau að gera meðal annars með því að loka grunnskólum, framhalds- og háskólum. Þessar ráðstafanir eiga að taka gildi á miðnætti og því er ljóst að það verður ekki skóli á morgun og föstudaginn.
Skólahúsnæðið verður opið á morgun, fimmtudag, milli 10 og 14 ef foreldrar þurfa að nálgast muni barna sinna, t.d. fatnað og þess háttar. Þá gildir að ekki mega vera fleiri en 10 á svæði í einu og allir með grímur og spritta hendur við komu.
Við gerum ráð fyrir að skólinn geti samt hafist samkvæmt stundaskrá strax eftir páskafrí þar sem skilja má fréttirnar sem svo að skólunum sé lokað þar til páskafríið hefst.
Við erum ótrúlega þakklát fyrir daginn í dag. Það náðist að taka upp öll árshátíðaratriðin og allir árgangar (nema 8.bekkur sem er að mestum hluta í Vatnaskógi) sýndu atriðin sín. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og sú mikla vinna sem starfsfólkið lagði í atriðin skilaði sér vel. Við stefnum á að senda foreldrum hlekk á atriði sinna barna þegar búið verður að ganga frá upptökunum. 
Að þessu sögðu óskum við ykkur gleðilegra páska og vonandi eigum við öll gott frí framundan þrátt fyrir aðstæðurnar.

Árshátíð

Nú er undirbúningur fyrir árshátíðina okkar hafinn og leikæfingar og búningamátun í hverju horni. Að þessu sinni verða eingöngu nemendasýningar þar sem við getum ekki komið áhorfendum fyrir miðað við þær takmarkanir sem eru í gildi. Við þyrftum að hafa 1 metra á milli óskyldra aðila og þá kæmust milli 50 og 60 manns í salinn. Sá áhorfendafjöldi myndi ekki einu sinni duga fyrir einn árgang. Við munum því að taka sýningarnar upp og senda tengil til foreldra. Nemendasýningarnar verða 24. og 25. mars - á skólatíma. Skipulagið á sýningunum er eftirfarandi:

1. sýning -miðvikudaginn 24. mars kl. 8:30.
Flytjendur: 1. - 7. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 2.-4.bekk

2. sýning - miðvikudaginn 24. mars kl. 9:50.
Flytjendur: 5.-10. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 5.-7. bekk.

3. sýning - fimmtudaginn 25. mars kl. 8:30
Flytjendur: 1.-4. bekkur Áhorfendur: 1. bekkur og nemendur af Tanga

4. sýning - fimmtudaginn 25. mars kl. 9:50.
Flytjendur: 5.-10. bekkur. Áhorfendur: 8.-10. bekkur.

Á miðvikudeginum verður kennsla fram að mat hjá 5.-10. bekk. Að öðru leyti verður kennsla samkvæmt stundaskrá þessa daga. Við vonum svo að eftir þessi undarlegu ár getum við verið með sýningar fyrir gesti á næsta ári.