VALMYND ×

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Þrettán nemendur úr 7.bekk grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, lásu sögubrot eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri var kynnir hátíðarinnar og Herdís M. Hübner hélt erindi um lestur. Dagný Rut Davíðsdóttir, sem varð í 2.sæti keppnninnar í fyrra, kynnti skáld keppninnar.

Flutt voru tónlistaratriði af nemendum Tónlistarskóla Ísafjarðar. Lúðrasveit T.Í. flutti 2 lög, Þórunn Hafdís Stefánsdóttir lék á pianó lagið Stingum af og Katrín Fjóla Alexíusdóttir lék á gítar lagið Raindrops keep falling on my head.

Dómarar keppninnar að þessu sinni voru þau Bergþór Pálsson, Jóna Símonía Bjarnadóttir og Kristbjörg Sunna Reynisdóttir. Niðurstaðan varð sú að Margrét Mjöll Sindradóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði sigraði, í öðru sæti varð Marcin Anikiej frá Grunnskólanum á Suðureyri og Jón Guðni Guðmundsson frá Grunnskóla Bolungarvíkur hafnaði í því þriðja.

Við óskum öllum keppendum, foreldrun og kennurum þeirra innilega til hamingju með frábæran árangur.

 

Breyting á samræmdum könnunarprófum

Í samræmdu könnunarprófi í íslensku í 9. bekk sem lagt var fyrir í morgun komu upp tæknileg vandamál í prófakerfi. Vandinn lýsti sér í því að margir nemendur áttu erfitt með að komast inn í prófin eða duttu út úr kerfinu áður en þeir höfðu lokið próftöku. Menntamálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum og harmar þau vandamál sem komu upp við fyrirlögn þeirra. Stofnunin er nú að greina stöðuna með þjónustuaðila prófakerfisins og vinna að viðeigandi úrlausn. Þar sem ekki hefur fengist fullnægjandi lausn á þeim vanda sem upp kom var nauðsynlegt að endurskoða fyrirlögn prófanna.
Að höfðu samráði við Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur verið ákveðið að fresta samræmdum könnunarprófum í stærðfræði og ensku í þessari viku. Skólum er gefinn kostur á að leggja öll þrjú samræmdu könnunarprófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá og með næsta mánudegi.
Við í GÍ höfum ákveðið að leggja íslensku prófið fyrir aftur þar sem langflestir lentu í vandræðum í prófatökunni. Prófin verða því á þriðjudaginn 16. mars (íslenska), miðvikudaginn 17. mars (stærðfræði) og fimmtudaginn 18. mars (enska).
Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur í erfiðum aðstæðum og þykir okkur miður að þetta hafi farið svona. Vonandi ganga prófin snurðulaust fyrir sig í næstu viku.

Ný viðbragðsáætlun gegn einelti

Skólinn hefur nú gefið út nýja viðbragðsáætlun gegn einelti sem tók gildi 1.mars síðastliðinn. Foreldrar og starfsmenn hafa kallað eftir endurbótum sem er nú lokið. Sjálfsmatsteymi skólans, sem skipað er 5 starfsmönnum, tók áætlunina saman ásamt fulltrúa foreldrafélags skólans. Hún var svo lögð fyrir alla starfsmenn og skólaráð, sem skipað er fulltrúum nemenda, starfsmanna, foreldra og grenndarsamfélags. Það er því mikil vinna sem liggur að baki og allir framangreindir aðilar ánægðir með útkomuna.

Við hvetjum alla til að kynna sér þessa nýju útgáfu sem við vonum að eigi eftir að gera vinnsluferlið markvissara og áhrifaríkara.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar í sal skólans. Tólf nemendur úr 7.bekk lásu sögubrot og ljóð að eigin vali og stóðu sig allir með sóma. Í hléi sýndu nemendur myndir frá ferð sinni í Skólabúðirnar að Reykjum, sem farin var í ágúst s.l., auk þess sem lagið var tekið við undirleik nokkurra nemenda og starfsmanna.

Í dómnefnd að þessu sinni sátu þær Edda Kristmundsdóttir, Rannveig Halldórsdóttir og Helga Björt Möller. Starf þeirra var ekki öfundsvert, en þær komust þó að niðurstöðu að lokum. Þau sem munu keppa fyrir hönd skólans á Lokahátíð upplestrarkeppninnar í Hömrum miðvikudaginn 10.mars eru þau: Árni Tero Neo Árnason, Bríet Emma Freysdóttir, Eyþór Freyr Árnason, Helena Stefánsdóttir, Kristján Hrafn Kristjánsson, Margrét Mjöll Sindradóttir og Orri Norðfjörð. Til vara verður Soffía Rún Pálsdóttir. Við óskum öllum innilega til hamingju með frammistöðuna í dag og fylgjumst spennt með framhaldinu.

Vinaliðanámskeið

1 af 3

Sigríður Inga Viggósdóttir, umsjónarmaður vinaliðaverkefnisins, kom í heimsókn til okkar í síðustu viku. Hún kenndi bæði nýjum vinaliðum og þeim sem hafa verið vinaliðar hjá okkur í vetur nýja leiki auk þess sem farið var yfir hvað það er að vera vinaliði. Krakkarnir sem voru valdir til að vera vinaliðar í haust fengu ekki námskeið vegna covid ástandsins og var því boðið að mæta með nýju vinaliðunum sem byrja í næstu viku. Þeir læra hvernig best er að stýra leikjum og að bjóða krökkum sem eru einir að taka þátt. Einnig þurfa vinaliðar að vera skipulagðir og fá smá tíma fyrir frímínútur til að stilla upp sinni vinaliðastöð.

Það var líf og fjör á námskeiðinu hjá Sigríði Ingu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Vinaliðastarfið er gefandi og skemmtilegt og fá nemendur góða leiðtogaþjálfun sem nýtist þeim í öllu starfi. /AFR

Legó í kennslu

1 af 3

Síðustu fjögur árin höfum við verið að innleiða Legó sem kennslutæki, aðallega til að byggja upp samvinnu- og samskiptafærni hjá nemendum. Sum kubbasettin eru sérhönnuð fyrir kennslu, önnur eru hefðbundin sett og þá er það kennsluaðferðin sem stýrir því hvaða markmiðum er unnið að.

Hópvinna með hefðbundin sett byggir á því að þrír nemendur skipti með sér verkum. Einn er með leiðbeiningarnar (sem hinir sjá ekki), lýsir því hvaða kubba á að finna og hvernig á að setja þá saman. Annar á að finna kubbana og þriðji setur þá saman. Þarna þjálfum við nemendur í því að segja hvað á að gera og reynum okkar besta til að nota ekki orðið NEI. Eftir hverja opnu eru leiðbeiningarnar bornar saman við verkið og athugað hvort eitthvað þurfi að laga. Áherslan er á að auka orðaforða, að nemendur hlusti af athygli, útskýri á skýran hátt og endurtaki ef með þarf. Þetta þjálfar þolinmæði, umburðarlyndi og að koma fram við aðra af virðingu, auk þess sem hægt er að nýta það til að kenna grunnorðaforða í tungumálum.

Við nýtum einnig sögugerðarlegó til að þjálfa frásögn og vinna með þá þætti sem við notum við skapandi skrif, hugtakalegó sem tengir hlutbundna vinnu við abstrakt hugtök og tilfinningar, Legó vélmenni til að takast á við verk í áföngum og vinna með forritun, Legó fígúrur til að auka úthald í lestri, allrahanda Legó til að kenna stærðfræði og svo mætti lengi telja, því möguleikarnir eru óþrjótandi.

Námskeið í kennslu með Legó hafa verið haldin fyrir starfsfólk skólans, bæði kennara og stuðningsfulltrúa og hefur Laufey Eyþórsdóttir stýrt þeim hluta. Hún nýtir einnig Lego í kennslu, auk þess sem Jón Hálfdán Pétursson kennir á tæknilegó í valgreinum á mið- og unglingastigi.

Það er gaman frá því að segja að sjónvarpsmenn frá Landanum komu við hjá okkur á dögunum og tóku upp efni og verður það innslag sýnt núna á sunnudagskvöldið. 

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Landssamband slökkviliðsmanna efndi til eldvarnaviku í desember síðastliðinn. Slökkviliðsmenn heimsóttu 3. bekk af því tilefni og lögðu sérstakt verkefni fyrir nemendur ásamt eldvarnagetraun, auk þess sem þeir fræddu nemendur um eldvarnir.

Góð þátttaka var í getrauninni og var einn vinningshafi frá G.Í. dreginn út og var hinn heppni Antoni Guðjón Andersen og tók hann við viðurkenningarskjali og gjafabréfi hjá Spilavinum úr hendi Hlyns Kristjánssonar, slökkviliðsmanns.

Við óskum Antoni innilega til hamingju.

Maskadagur - maskaböll

Mynd frá maskadegi 2015
Mynd frá maskadegi 2015

Mánudaginn 15.febrúar er bolludagur/maskadagur. Þá hvetjum við alla til að mæta í búningum, bæði nemendur og starfsfólk. Maskaböll verða með aðeins öðru sniði en venjulega, þar sem ekki er leyfilegt að hafa fleiri en 50 nemendur í sama rými. Eva danskennari mun stýra dansinum í dansstofunni og verður dagskráin eftirfarandi:

kl.08:10-08:40  1. og 2. bekkur
kl.08:45-09:15  3.bekkur
kl.09:50-10:20  4.bekkur
kl.10:20-10:50  5.bekkur
kl.11:20-11:50  6.bekkur
kl.12:30-13:00  7.bekkur

Að sjálfsögðu er velkomið að koma með bollur í nesti á bolludaginn. 

Undanfarin ár hefur verið starfsdagur á sprengidaginn, en þetta árið var starfsdagurinn færður til fimmtudags og liggur þá að vetrarfríi sem er á föstudaginn.

 

Þemadagar

Í gær og fyrradag voru þemadagar hér í skólanum. Nemendum var skipt í hópa þar sem hver hópur valdi sér eitt land til umfjöllunar. Útfærslurnar voru margvíslegar og vinnan fjölbreytt og skemmtileg, allt frá bakstri á dönskum bollum til brasilísks stríðsdans og japansks sushi. Það var virkilega gaman að sjá vinnuna og afraksturinn hjá krökkunum og eru allir veggir skólans þaktir fallegum hugmyndaríkum verkum.

Með þemanámi sem þessu er hægt að nálgast ýmis félagsleg markmið eins og til dæmis að þjálfa nemendur í samvinnu, fá nemendur til að skilja að samhjálp og sanngirni auðveldar starfið, að þeir læri hvað felst í málamiðlun, að þeir læri að hlusta á skoðanir annarra og taki mark á þeim og að nemendur læri að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Á bak við vinnuna þessa tvo daga nálgast nemendur mörg markmið aðalnámskrár og samþætting sem þessi þvert á námsgreinar gerir námið ennþá skemmtilegra og innihaldsríkara.

Bókaverðlaun barnanna

Á skólabókasafninu er nú hægt að taka þátt í kosningu um vinsælustu barnabækur ársins, Bókaverðlaun barnanna og stendur kosning yfir til 25. mars næstkomandi. Nemendur geta valið eina til þrjár bækur, sem þeim þykja skemmtilegar eða áhugaverðar af þeim sem komu út árið 2020. Atkvæðaseðlar liggja frammi á skólasafninu og einnig er hægt að kjósa á vef Borgarbókasafns. Niðurstöður verða kynntar á sumardaginn fyrsta 22. apríl og munum við draga úr þátttökuseðlum hjá okkur og veita bókagjöf í verðlaun.

Slóðin á kynningu verkefnisins er hér.