VALMYND ×

Fréttir

Kveðjusamsæti starfsmanna

F.v. Birgir Gunnarsson bæjarstjóri, Hermann A. Hákonarson húsvörður, Herdís M. Hübner kennari, Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri og Stefanía Ásmundsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs
F.v. Birgir Gunnarsson bæjarstjóri, Hermann A. Hákonarson húsvörður, Herdís M. Hübner kennari, Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri og Stefanía Ásmundsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs

Í dag var haldið kveðjusamsæti fyrir tvo af starfsmönnum Grunnskólans á Ísafirði sem láta nú af störfum vegna aldurs. Það eru þau Hermann Alfreð Hákonarson húsvörður og Herdís Magnea Hübner, kennar.  Hermann hefur starfað við skólann í 13 ár og Herdís í rúm 40 ár, þannig að það er mikil reynsla og þekking sem hverfur á braut með þeim. Við þökkum þeim báðum fyrir frábært samstarf og óskum þeim alls hins besta.

Skólaslit Grunnskólans á Ísafirði

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 145. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Anna Marý Jónasdóttir og Daði Hrafn Þorvarðarson.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og þau Gautur Óli Gíslason og Snæfríður Lillý Árnadóttir fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Að þessu sinni voru nemendur 8. og 9. bekkja kvaddir í sínum kennslustofum að morgni dags og voru eftirtaldar viðurkenningar veittar: 

8. bekkur - Tómas Elí Vilhelmsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Lilja Jóna Júlíusdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í vetur luku 6 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er 7. árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein og var kennslan í höndum Axels Rodriguez Överby þetta árið.  Nemendur sem luku prófi eru þau Arnar Ebenezer Agnarsson, Baldur Freyr Gylfason, Hrefna Dís Pálsdóttir, Jóhanna Ýr Barðadóttir, Sigrún Aðalheiður Aradóttir og Viktoría Rós Þórðardóttir.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Sigrún Aðalheiður Aradóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Oliwia Godlewska.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Gautur Óli Gíslason.

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í smíði og hönnun hlaut Adrian Nieduzak.

 

Crossfit Ísafjörður gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Kári Eydal og Viktoría Rós Þórðardóttir.

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Arndís Magnúsdóttir hana.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Viktoría Rós Þórðardóttir þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráði hlaut Arnar Rafnsson.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Viktoría Rós Þórðardóttir.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Lilja Borg Jóhannsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði og náttúrufræði hlaut Gautur Óli Gíslason.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu þær Sigrún Brynja Gunnarsdóttir og Snæfríður Lillý Árnadóttir.

 

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.  Þá viðurkenningu hlaut Lilja Borg Jóhannsdóttir.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2004 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Síðasti kennsludagur skólaársins

Í dag var síðasti kennsludagur þessa skólaárs. Á mánudaginn er starfsdagur án nemenda og á þriðjudag eru svo skólalit. Þau verða óhefðbundin eins og margt annað á þessu skólaári. 1.bekkur mætir í viðtöl með foreldrum sínum til umsjónarkennara, 2. - 9. bekkur mætir í sínar umsjónarstofur kl. 10:00 og 10.bekkur útskrifast við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00. Þetta er breyting frá fyrri árum þar sem unglingastigið allt hefur setið athöfnina, en til að fólk geti valið sér sæti með tilliti til 2ja metra reglunnar, þá höfum við þetta með þessum hætti þetta árið.

10.bekkur í skólaferðalagi

Mynd: heydalur.is
Mynd: heydalur.is

Í gærmorgun hélt 10. bekkur í sitt árlega skólaferðalag ásamt umsjónarkennurum og fulltrúum foreldra. Þetta árið var ákveðið að fara í Heydal í Mjóafirði sem býður upp á fjölbreytta afþreyingu.

Eftir gærdaginn var búið að fara í reiðtúra, á kajak og í sund. Í dag verður svipuð dagskrá auk gönguferða eða fjallgangna, þannig að hópurinn hefur nóg fyrir stafni.

Áætluð heimkoma er svo um hádegisbilið á morgun.

Síðustu dagar skólaársins

Það hefur verið mikið skipulag undanfarið við að setja niður síðustu daga skólaársins hjá hverjum og einum árgangi. Nú er það klárt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Alltaf er hætta á að veðrið setji eitthvað strik í reikninginn, en kennarar munu senda póst á viðkomandi bekki ef einhverjar breytingar verða.

Borðað úti

Krakkarnir í heimilisfræðihópnum í 6. bekk elduðu ítalskt spaghettí með kjötsósu síðastliðinn föstudag. Að sjálfsögðu notuðu þeir góða veðrið og borðuðu úti og voru allir sammála um að maturinn væri sérstaklega ljúffengur. Glæsilegt krakkar!

Lögreglan í heimsókn

1 af 2

Í morgun komu þeir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn og Gylfi Þ. Gíslason, varðstjóri, í heimsókn til okkar. Þeir félagar töluðu við nemendur 5. - 7. bekkjar um ýmsa öryggisþætti varðandi reiðhjól, rafmagnshlaupahjól og vespur, auk þess sem þeir fóru yfir útivistarreglurnar.

Krakkarnir hlustuðu af athygli og spurðu út í ýmsa þætti. Þeir eru miður sín yfir því að einhverjir hafi verið að losa framdekk á reiðhjólum undanfarið, enda alveg grafalvarlegt mál. Við hvetjum alla krakka til að fara varlega í umferðinni og gæta sérstaklega að því að framhjólin séu föst áður en farið er af stað.

Meistarataktar í kökugerð

Heimilisfræðihópur 8. bekkjar, undir leiðsögn Guðlaugar Jónsdóttur,  bakaði og skreytti þessar fínu kökur í síðustu viku. Það voru stoltir krakkar sem fóru heim með herlegheitin fyrir helgina. Vel gert krakkar!

1.bekkingar fá reiðhjólahjálma að gjöf

Glaðir hjálmaeigendur ásamt Kiwanismönnum.
Glaðir hjálmaeigendur ásamt Kiwanismönnum.

Í morgun komu þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson og Gunnlaugur Finnbogason frá Kiwanisklúbbnum Básum og afhentu 1.bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni með því að gefa nemendum 1.bekk reiðhjólahjálma. Hjálmarnir nýtast einnig vel við notkun hjólabretta og hjólaskauta. 

Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína í dag og hvetjum við alla til að merkja þá vel. 

Foreldrakönnun

Fyrir helgi sendum við út könnun til allra foreldra varðandi nokkra þætti skólastarfsins. Okkur er mikið í mun að fá sem flesta foreldra til að svara og fá þannig sem gleggsta mynd varðandi okkar styrkleika og veikleika. Við hvetjum því alla til að svara könnuninni sem fyrst, en hún tekur einungis um 2-3 mínútur.