VALMYND ×

Fréttir

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Landssamband slökkviliðsmanna efndi til eldvarnaviku í desember síðastliðinn. Slökkviliðsmenn heimsóttu 3. bekk af því tilefni og lögðu sérstakt verkefni fyrir nemendur ásamt eldvarnagetraun, auk þess sem þeir fræddu nemendur um eldvarnir.

Góð þátttaka var í getrauninni og var einn vinningshafi frá G.Í. dreginn út og var hinn heppni Antoni Guðjón Andersen og tók hann við viðurkenningarskjali og gjafabréfi hjá Spilavinum úr hendi Hlyns Kristjánssonar, slökkviliðsmanns.

Við óskum Antoni innilega til hamingju.

Maskadagur - maskaböll

Mynd frá maskadegi 2015
Mynd frá maskadegi 2015

Mánudaginn 15.febrúar er bolludagur/maskadagur. Þá hvetjum við alla til að mæta í búningum, bæði nemendur og starfsfólk. Maskaböll verða með aðeins öðru sniði en venjulega, þar sem ekki er leyfilegt að hafa fleiri en 50 nemendur í sama rými. Eva danskennari mun stýra dansinum í dansstofunni og verður dagskráin eftirfarandi:

kl.08:10-08:40  1. og 2. bekkur
kl.08:45-09:15  3.bekkur
kl.09:50-10:20  4.bekkur
kl.10:20-10:50  5.bekkur
kl.11:20-11:50  6.bekkur
kl.12:30-13:00  7.bekkur

Að sjálfsögðu er velkomið að koma með bollur í nesti á bolludaginn. 

Undanfarin ár hefur verið starfsdagur á sprengidaginn, en þetta árið var starfsdagurinn færður til fimmtudags og liggur þá að vetrarfríi sem er á föstudaginn.

 

Þemadagar

Í gær og fyrradag voru þemadagar hér í skólanum. Nemendum var skipt í hópa þar sem hver hópur valdi sér eitt land til umfjöllunar. Útfærslurnar voru margvíslegar og vinnan fjölbreytt og skemmtileg, allt frá bakstri á dönskum bollum til brasilísks stríðsdans og japansks sushi. Það var virkilega gaman að sjá vinnuna og afraksturinn hjá krökkunum og eru allir veggir skólans þaktir fallegum hugmyndaríkum verkum.

Með þemanámi sem þessu er hægt að nálgast ýmis félagsleg markmið eins og til dæmis að þjálfa nemendur í samvinnu, fá nemendur til að skilja að samhjálp og sanngirni auðveldar starfið, að þeir læri hvað felst í málamiðlun, að þeir læri að hlusta á skoðanir annarra og taki mark á þeim og að nemendur læri að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Á bak við vinnuna þessa tvo daga nálgast nemendur mörg markmið aðalnámskrár og samþætting sem þessi þvert á námsgreinar gerir námið ennþá skemmtilegra og innihaldsríkara.

Bókaverðlaun barnanna

Á skólabókasafninu er nú hægt að taka þátt í kosningu um vinsælustu barnabækur ársins, Bókaverðlaun barnanna og stendur kosning yfir til 25. mars næstkomandi. Nemendur geta valið eina til þrjár bækur, sem þeim þykja skemmtilegar eða áhugaverðar af þeim sem komu út árið 2020. Atkvæðaseðlar liggja frammi á skólasafninu og einnig er hægt að kjósa á vef Borgarbókasafns. Niðurstöður verða kynntar á sumardaginn fyrsta 22. apríl og munum við draga úr þátttökuseðlum hjá okkur og veita bókagjöf í verðlaun.

Slóðin á kynningu verkefnisins er hér.

 

 

 

 

 

Grjónagrautur mallandi

Í heimilisfræði þarf að leysa hin ýmsu verkefni. Í vikunni tóku nemendur í 6.bekk sig til og elduðu grjónagraut. Eins og flestir fullorðnir vita er hægt að sinna ýmsum heimilisstörfum á meðan grauturinn mallar. Það var því ákveðið að nýta tímann og taka vinnustöðvarnar í gegn. Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðifræðikennari, sagði krakkana sérstaklega duglega og hafi þeir leyst verkefnið með stakri prýði.

Ný skólahreystitæki í notkun

Vorið 2019 hlaut skólinn verðlaun að fjáræð kr. 100.000 fyrir þátttöku sína í Hreyfiviku UMFÍ. Hugmyndin var að nýta fjármunina til kaupa á einhverjum tækjum sem hvetja til hreyfingar og heilbrigðis. Valin voru tæki til æfinga á hreystigreip, upphífingum og dýfum, sem eru keppnisgreinar í Skólahreysti. Nú eru tækin loksins komin á sinn stað í skólanum og var gaman að sjá þegar ungir nemendur nýttu tækifærið um leið og húsvörðurinn okkar var búinn að koma þeim fyrir og verða þau eflaust vel nýtt í framtíðinni.

Foreldradagur

Þriðjudaginn 2.febrúar n.k. er foreldradagur hjá okkur. Foreldrar geta bókað viðtalstíma við umsjónarkennara frá og með deginum í dag inni á www.mentor.is 

Skákdagurinn 2021

1 af 2

Í dag er Skákdagurinn, en hann er tileinkaður Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fyrrverandi forseta Alþjóða skáksambandsins. Friðrik sem er 86 ára í dag var eitt sinn meðal bestu skákmanna heims og teflir enn reglulega og gefur af sér til yngri kynslóða. Í tilefni dagsins var efnt til fjölteflis hér í skólanum. Smári Rafn Teitsson, skákkennari og umsjónarkennari, tefldi við rúmlega 40 nemendur úr 5. - 10. bekk. Úrslitin þarf vart að ræða, en nemendur stóðu sig vel og létu nokkrir hafa aðeins fyrir sér.

Í vetur kennir Smári Rafn skák bæði í vali á miðstigi og unglingastigi og hefur hann vakið upp áhuga, sérstaklega á miðstigi. Skákin er holl hugaríþrótt sem þjálfar rökhugsun og eykur sköpunargáfuna og vonum við að fjölteflið í dag ýti enn frekar undir skákáhuga innan skólans.

Sólardagur

Í dag, 25. janúar, er sólardagur Ísfirðinga sem miðast við þann dag er sólin nær niður í Sólgötu eftir um 2ja mánaða fjarveru. Allir nemendur og starfsmenn brugðu sér út á skólalóð í morgun og dönsuðu nokkra ,,sólardansa" saman til að fagna þessum kærkomnu tímamótum og brjóta upp hversdaginn. Að því loknu hittust vinabekkirnir í 2. og 9. bekk og áttu saman góða stund í dansi, spilum, förðun og fleiru. Að sjálfsögðu var boðið upp á pönnukökur sem eru ómissandi á þessum degi. Aðrir bekkir fögnuðu þessum degi hver á sinn hátt. Ekki lét sólin þó sjá sig í dag, en við munum taka fagnandi á móti henni þegar veðurskilyrði leyfa.

Dansæfingar hjá 10.bekk

1 af 2

Allt frá árinu 1981 hafa foreldrar nemenda í 10.bekk haldið þorrablót fyrir árganginn, eða alls 40 sinnum. Þessar skemmtanir hafa staðið upp úr hvað varðar glæsileika og skemmtanagildi. Nemendur, foreldrar, ömmur og afar mæta gjarnan í sínu fínasta pússi og margir í þjóðbúningum, borða saman þorramat, njóta heimatilbúinna skemmtiatriða foreldra sem alltaf slá í gegn, syngja þjóðleg lög og dansa að lokum gömlu dansana upp á gamla mátann. Starfsmenn skólans eru einnig boðnir á blótin og hafa þeir alltaf haft skemmtiatriði á dagskránni.

Því miður er ekki færi á að halda slíka skemmtun á bóndadaginn 22.janúar eins og áætlað var, vegna fjöldatakmarkana í þeirri reglugerð sem nú er í gildi til 28.febrúar n.k. vegna farsóttarinnar. Þrátt fyrir það hafa 10.bekkingar hafið dansæfingar undir stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. Við erum staðráðin í því að halda einhverja skemmtun fyrir árganginn þegar um hægist í samfélaginu, hvenær sem það nú verður. Eitt er víst að dansinn verður klár hjá krökkunum og gaman að sjá gleðina sem skein úr þeirra augum á dansæfingu í morgun.