VALMYND ×

Fréttir

Skólahald með eðlilegum hætti

Nú er orðið ljóst að við munum fara á landslínuna varðandi afléttingu á samkomubanninu. Það þýðir að mánudaginn 11. maí verður skólahald með eðlilegum hætti. Skólinn byrjar kl. 8:00 hjá öllum nemendum. Mötuneytið opnar og minnum við á að hægt er að skrá í mötuneytið á http://mataraskrift.isafjordur.is   Þeir sem eru í annaráskrift þurfa ekki að skrá.
Frímínútur, frístund, sund, list-og verkgreinar, hræringur og valgreinar eru á sínum stað samkvæmt stundatöflu. Íþróttir verða kenndar utandyra eins og alltaf í maí. Skólaakstur verður með eðlilegum hætti og samkvæmt áætlun.
Við stefnum á að uppbrotsdagar í maí/júní verði eins og undanfarin ár, þ.e. vorverkadagur, íþrótta-og leikjadagur og styttri ferðir í nágrenni skólans.


Við viljum þakka foreldrum, nemendum og starfsfólki skólans fyrir skilninginn, þolinmæðina og útsjónarsemina síðustu vikur og það er þessu að þakka að við erum komin á þennan stað. Við megum samt ekki gleyma okkur og muna eftir því að gera allt það sem í okkar valdi stendur til að halda veirunni niðri. Við gerum það t.d. með góðum handþvotti og sprittun og að halda fjarlægðarmörkum þar sem það er hægt. Einnig er mikilvægt að nemendur og starfsfólk mæti ekki í skólann ef það er með flensulík einkenni heldur hafi samband við heilsugæsluna og fái sýnatöku ef tilefni er til.

Óskilamunir

Í anddyri skólans (sundhallarmegin) liggur frammi mikið magn af óskilamunum, sem hefur verið flokkað og raðað snyrtilega. Við hvetjum foreldra til að líta við hjá okkur fyrir lok vikunnar og freista þess að finna týndan fatnað, en í upphafi næstu viku verður þetta tekið saman.
Fjölmargar myndir af óskilamununum má finna inni á FB síðu Foreldrafélags Grunnskólans.

Skólastarf að færast í eðlilegt horf

Það voru glaðir nemendur og starfsmenn sem mættu í skólann í morgun. Skipulagið frá því fyrir páska var engum gleymt og stóðu allir sig með mikilli prýði. Unglingarnir okkar voru líka langflestir ánægðir og kvörtuðu lítið yfir því að þurfa að vakna snemma. Við höldum áfram með bjartsýnina að leiðarljósi og vonum svo sannarlega að skólahaldið verði komið í eins eðlilegt horf og hægt er þann 11. maí.

Í vetur höfum við verið að vinna að samræmdum leiðum í upplýsingagjöf og sendum foreldrum því upplýsingavísi skólans (foreldrahluta) í tölvupósti. 

Skólinn opnaður að nýju

Nú er loksins eitthvað jákvætt að gerast og mun skólinn opna aftur mánudaginn 4. maí. Það verður hins vegar með þeim sömu takmörkunum og voru fyrir páska, að því undanskyldu að við höfum fengið samþykki sóttvarnarlæknis að skipta ekki 3. 4. og 6. bekk í þrjá hópa, heldur verða allir í umsjónarbekkjunum sínum. Mötuneytið verður ekki opið, nemendur fara ekki í list-og verkgreinar og ekki í íþróttir og sund. Frímínútur verða á mismunandi tímum og skólatíminn er skertur og verður eins og síðustu vikuna fyrir páska;

1.-4. bekkur   kl. 8:00-12:00
5.-7. bekkur   kl. 8:00-11:30
8. bekkur       kl. 8:30-10:30
9. bekkur       kl. 9:00-11:00
10. bekkur     kl. 9:15-11:15.

Það verður strætó kl 8:00 í skólann en við biðjum foreldra sem mögulega geta keyrt börnin sín að gera það, til þess að geta haldið lágsmarksfjölda nemenda í vagninum. Það er áfram sveigjanleg skólabyrjun milli 7:45-8:15 svo að það séu ekki allir að mæta á sama tíma, en við munum skrá seinkomur eftir 8:15. Við minnum líka á það að nemendur sem búa fyrir innan Seljalandsveg 44 og í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri. Ekki verða sérstakar ferðir fyrir unglingana heldur hvetjum við þá að koma á hjólum, eða gangandi í skólann og nýta þennan ferðamáta í stað íþróttanna sem falla niður. Strætó verður svo heim kl. 11:35 og 12:05, fyrir yngsta- og miðstig.

Vonandi verður þetta skipulag aðeins 4.-8. maí og skólahald með eðlilegum hætti eftir það. Það fer þó eftir því hvernig Covid -19 þróast hjá okkur. Nú sem áður verðum við að vanda okkur og sofna ekki á verðinum, það er enn samkomubann fyrir 20 eða fleiri og nemendur eiga enn ekki að umgangast aðra en þá sem eru í þeirra hóp. Við erum full bjartsýni og vonum svo innilega að við séum farin að sjá fyrir endann á samkomubanninu og að við getum fljótlega farið að fylgja tilmælum á landsvísu.

Staðan í dag

Það er ómetanlegt fyrir okkur í skólanum að finna skilninginn, samhuginn og þolinmæðina sem foreldrar og samfélagið allt hefur sýnt okkur á undanförnum vikum. Við vonum svo sannarlega að nú fari að sjá fyrir endann á þessum höftum og við getum lokið skólaárinu með eðlilegu skólahaldi. Við erum ekki búin að fá neinar nýjar upplýsingar um framhaldið en vonandi koma þær í næstu viku.
Ekki þarf að gera miklar breytingar á námsmatinu þar sem við höfum nú í nokkur ár notað símat, sem þýðir að verkefni nemenda eru metin jafnóðum og próf og kannanir lögð fyrir jafnt og þétt yfir skólaárið. Kennarar munu nýta öll þessi gögn sem þeir hafa safnað yfir veturinn til að leggja mat á stöðu nemenda í vor. Kannski verða einhver hlutapróf í lok maí, en við verðum að sjá til með það hvernig þeim verður háttað þegar við vitum hvert framhaldið er. Eins verður tekin ákvörðun um skólaferðalag og útskrift í vor þegar við fáum upplýsingar um hvernig skólahaldi verður háttað eftir 4 maí.

Gleðilegt sumar

Við óskum nemendum, fjölskyldum þeirra og bæjarbúum öllum gleðilegs sumars með kærri þökk fyrir einstakt samstarf á þessum fordæmalausu tímum. Við vonum að sumarið verði okkur öllum gæfuríkt og gjöfult eftir langan og krefjandi vetur.

Þjónusta sálfræðinga

Þar sem ekki hefur verið hægt vegna ástandsins í þjóðfélaginu að veita sérfræðiaðstoð sálfræðinga sl. vikur þá hafa sálfræðingarnir okkar þær Sólveig Norðfjörð og Björg Norðfjörð ákveðið að opna fyrir ráðgjöf með símaviðtölum við nemendur, foreldra og kennara. Einnig ætla þær að hafa samband við þá foreldra sem bíða eftir niðurstöðum viðtala frá því í febrúar.

Þeir sem telja sig þurfa ráðgjöf er bent á að hafa samband við Sólveigu eða Björgu í gegnum tölvupóst: solveignordfjord@gmail.com  eða bjorg00@hotmail.com gefa upp nafn, símanúmer og jafnvel nafn barnsins ef það hefur verið í viðtölum hjá þeim. Þær munu síðan hafa samband við viðkomandi við fyrsta tækifæri.

Sálfræðingarnir sem starfa við leik- og  grunnskóla Ísafjarðarbæjar eru hluti af skólaþjónustu sveitarfélagsins og sinna allri almennri sálfræðivinnu við skólanna. Sálfræðingarnir vinna í nánu samstarfi við starfsfólk leik- og grunnskólanna og aðra þá sem koma að málefnum barna.

Staðan í dag

Nú er að koma mynd á skipulagið fyrir þessa og næstu viku. Foreldrar hafa nú fengið upplýsingar frá umsjónarkennurum hvernig kennslu og heimavinnu er háttað hjá hverjum árgangi fyrir sig og fá áframhaldandi upplýsingar daglega.

Á yngsta- og miðstigi er lögð áhersla á daglegan lestur og ýmis önnur verkefni sem skemmtilegt er að vinna heima. Búast má við því að bætt verði í á miðstiginu í næstu viku. Unglingastigið sinnir sínu námi í gegnum Google Classroom og hittir umsjónarkennara sína í fundarforriti í google alla daga.

Ef einhverjar spurningar vakna vegna skipulagsins þá endilega hafið samband við umsjónarkennara. Við erum öll að fóta okkur í þessum nýju aðstæðum og kannski verða einhverjir hnökrar, en við höfum öll sýnt það undanfarnar vikur að þegar við tökum höndum saman þá getum við svo margt. Starfsfólk skólans fæst við ýmis verkefni þessa daga, stærsti hópurinn er auðvitað að sinna og undirbúa kennslu og heimavinnu nemenda, nokkrir starfsmenn eru með nemendur í forgangshópi á morgnana, hluti starfsmanna aðstoðar við Covid skimun heilbrigðisstofnunarinnar og það er meira segja verið að sauma gardínur fyrir skólann. Það eru nefnilega allskonar verk sem þarf að vinna.

Áframhaldandi lokun

Eins og komið hefur fram hjá aðgerðarstjórn almannavarna á Vestfjörðum er skólahald áfram með breyttu sniði næstu tvær vikurnar að minnsta kosti. Það þýðir að skólinn er lokaður þennan tíma og nemendur mæta því ekki í skólann. Kennarar munu verða í sambandi við foreldra í gegnum tölvupóst á morgun og kynna þeim fyrirkomulag kennslunnar næstu tvær vikurnar. Við hvetjum foreldra einnig til að vera í sambandi við umsjónarkennara, starfs- og námsráðgjafa eða hvern þann sem þeir vilja ef einhverjar spurningar eða áhyggjur vakna varðandi nemendur. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda.

Við bendum einnig foreldrum í framlínustörfum sem óska eftir aukinni skólaþjónustu á að hægt er sækja um þá þjónustu á island.is og verður að gera það í hverri viku.

Gleðilega páska

Við sendum nemendum og fjölskyldum þeirra bestu þakkir fyrir einstakt samstarf á þessum erfiðu tímum undanfarnar vikur. Við gerum ráð fyrir svipuðu skólastarfi eftir páska, sem byggist á fjarkennslu, en munum koma frekari upplýsingum á framfæri þriðjudaginn 14. apríl.

Með von um gleðilega páska,

starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði