VALMYND ×

Fréttir

GÍ keppir í Skólahreysti

Hópurinn tilbúinn til brottfarar
Hópurinn tilbúinn til brottfarar

Í dag keppir GÍ í undankeppni Skólahreysti í Digranesi kl. 17:00. Fyrir hönd skólans keppa þau Agnes Þóra Snorradóttir, Ástmar Kristinsson, Grétar Smári Samúelsson og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir. Til vara eru þau Elma Katrín Steingrímsdóttir og Kristinn Hallur Jónsson. Liðsstjóri hópsins er Guðný Stefanía Stefánsdóttir kennari.

Keppnin verður sýnd beint á RÚV kl. 17:00 og fylgjumst við spennt með og sendum baráttukveðjur til hópsins.

Útivist

1 af 2

Það fer ekki á milli mála að vorið er komið, þó lofthiti sýni ekki margar gráður. Eitt af því sem er svo gaman við vorið er hvað tíminn er vel nýttur til útivistar. Síðastliðinn föstudag bauð 3. bekkur nemendum 9. bekkjar með sér í fótbolta í útivist og létu unglingarnir ekki bjóða sér það tvisvar, heldur hlupu til og léku við þá yngri eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Við bíðum samt eftir fleiri hitagráðum áður en úlpurnar fá að fjúka!

Fögnum fjölbreytileikanum

Í dag flöggum við regnbogafánanum til að fagna fjölbreytileikanum í sinni víðustu mynd. Með því móti minnum við okkur á að allar manneskjur eiga rétt á að njóta sömu mannréttinda án tillits til uppruna þeirra, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar ómálefnalegrar stöðu. Umræður hafa skapast inni í bekkjum sem utan og finnst nemendum mikilvægt að fá að vera nákvæmlega eins og hver og einn vill. Það er enginn sem getur stöðvað mann í að vera maður sjálfur.

Ruslatínsla

1 af 3

Nemendur 1. bekkjar tóku heldur betur til hendinni í morgun og tíndu rusl í næsta nágrenni skólans. Krakkarnir vita sem er að við þurfum að ganga vel um umhverfi okkar. Við vonum að bæjarbúar taki sér þessa ungu umhverfissinna til fyrirmyndar og láti ekki sitt eftir liggja í þessum málum.

1.bekkingar fá hlífðarhjálma

1 af 2

Í mörg ár hefur Kiwanisklúbburinn Básar á Ísafirði komið færandi hendi og gefið nemendum 1.bekkjar hlífðarhjálma að gjöf. Markmið hjálmaverkefnis þeirra hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni og nýtast hjálmarnir vel við notkun reiðhjóla, hjólabretta og hjólaskauta. 

Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína í dag og hvetjum við alla til að merkja þá vel. Við þökkum Kiwanismönnum kærlega fyrir þessa veglegu gjöf og vonum að nemendur njóti vel.

 

Sjónlistadagurinn

1 af 3

Í tilefni af sjónlistadeginum 11. mars s.l. brugðu nemendur 6.bekkjar upp hinum ýmsu skuggamyndum undir stjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Krakkarnir lærðu um tröll og bjuggu til skuggamyndir af þeim. Verkin voru svo hengd upp í stofugluggum árgangsins og eru hin mesta prýði.

Það er leikur að læra

1 af 2
Útinám er alltaf hluti af náminu, enda felur íslensk náttúra í sér margbreytileg námstækifæri fyrir nemendur og læra þeir að njóta nærumhverfisins hvernig svo sem viðrar. Á dögunum fór hópur unglinga upp í Jónsgarð í rigningunni og lærði að poppa á eldstæði og að ganga á línu. Það er leikur að læra!
 
 
 
 
 
 
 

Samræmd próf í vikunni

Eins og kunnugt er þá urðu miklir erfiðileikar við fyrirlögn samræmda prófsins í íslensku sem haldið var 9. mars s.l. og í kjölfarið var stærðfræði og ensku prófinu frestað. Í framhaldi af því ákvað Mennta- og menningarmálaráðuneytið að gefa nemendum frjálst val um að taka öll prófin á tímabilinu 17. mars - 30. apríl þar sem ekki tókst að gera fullnægjandi lagfæringar á kerfinu. Í ljósi þess er fyrirlögn hinna valkvæðu könnunarprófa á pappír.

Grunnskólinn á Ísafirði ákvað að velja komandi viku fyrir fyrirlögnina. Enginn nemandi skólans er skráður í íslenskuprófið, en 5 nemendur munu þreyta stærðfræðiprófið á þriðjudaginn og 7 nemendur enskuprófið á miðvikudaginn og óskum við þeim góðs gengis. Alls eru 39 nemendur í árgangnum. 

Bókaverðlaun barnanna

Á hverju vori er börnum á aldrinum 6-12 ára boðið að kjósa uppáhalds barnabækur ársins. Kosningin fór fram á almennings- og skólabókasöfnum um allt land og á vef Borgarbókasafnsins.

Við höfum nú dregið út vinningshafa úr hópi kjósenda og var það Chimamanda Silvia Ohiri í 3.KO sem hlaut bókina Lang- elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Við óskum henni innilega til hamingju og vonum að hún njóti lestursins!

Ný reglugerð frá 15.apríl

Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem gildir frá 15. apríl til 5. maí þá er engin breyting hjá okkur nema að nálægðartakmörkin er einn metri í stað tveggja áður.
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi, þ.m.t. íþróttastarfi, í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Sé starfs­fólki ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum skal það nota andlitsgrímur. Ekki skulu vera fleiri en 20 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa og rýma. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og starfsfólk tónlistar­skóla.
Nemendur eru undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil.
Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk noti andlitsgrímu.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara. Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skóla­byggingar nema nauðsyn beri til og skulu þá nota andlitsgrímu.
Aðrir sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu halda 1 metra takmörkun, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana.
Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.
Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar skólabúðir og skipu­lagt æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri.

Hér má sjá reglugerðina í heild sinni.