VALMYND ×

Fréttir

Veltibíllinn í heimsókn

1 af 3

Í morgun fengum við Pál Halldór Halldórsson, Hnífsdæling og rallýkappa með meiru í heimsókn til okkar með veltibílinn. Veltibíllinn er í eigu Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna og er af gerðinni VW Golf en kerran var smíðuð á Íslandi. Markmið heimsóknarinnar var að fræða nemendur um mikilvægi öryggisbelta í bifreiðum, sem Páll innti vel af hendi. Allir nemendur skólans sem vildu fengu að prófa bílinn, sem fór nokkrar veltur með 5 farþega í einu. Krökkunum fannst þetta mikil upplifun og gera sér vonandi enn frekari grein fyrir nauðsyn beltanna í framtíðinni.

Staðan í dag

Í ljósi aukningar á Covid smitum síðastliðna helgi þá verðum við að vera enn varkárari og enn meðvitaðri um okkar einstaklingsbundnu sóttvarnir og passa sérstaklega upp á nálægðartakmörkin sem er einn metri og ef við getum komið tveggja metra nálægðartakmörkum við þá er það enn betra. Við viljum hafa aðgengi utanaðkomandi aðila sem ekki tengjast skólastarfinu sem minnst og þeir aðilar sem þó verða að koma inn í skólann virði tveggja metra regluna auk persónubundnu sóttvarnanna. Starfsemi sem ekki tengist skólanum er ekki leyfð til og með 5. október t.d. óformlegt íþróttastarf fullorðinna sem ekki tilheyrir ÍSÍ og hópfundir með foreldrum.
Þetta þýðir að við verðum að fresta öllum foreldrafundum þar til eftir 5. október en hvetjum foreldra til að vera í góðu sambandi við okkur í skólanum. Foreldrar sem eiga erindi í skólann eiga að spritta hendur við inngang og hafa samband við ritara.
Við höfum fullan skilning á því að fólk sé orðið langþreytt á þessu ástandi en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að starfsemi skólans haldist órofin.

Haustball 10.bekkjar

Í kvöld heldur 10.bekkur haustball í salnum okkar góða. Ballið er fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar og er frá kl. 19:30-22:30. Aðgangseyrir er kr. 1.000 og verður sjoppa á staðnum með krap, gos og nammi. Rúta fer í Hnífsdal og inn í fjörð að loknu balli. Nemendum frá nágrannaskólum okkar er boðið á ballið ásamt fylgdarmanni.

10. bekkur hvetur sem flesta til að mæta og skemmta sér með þeim.

 

 

Nemendur skoða útilistaverk

1 af 3

Nemendur 5.bekkjar hafa verið að skoða útilistaverk bæjarins undanfarið og lært ýmislegt fróðlegt um þau. Á meðfylgjandi myndum má sjá myndir af nokkrum verkum sem nemendur unnu eftir slíka skoðunarferð.

List fyrir alla

1 af 2

Í gær og fyrradag vorum við svo heppin að fá heimsókn frá dönsurunum Valgerði Rúnarsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur, á vegum verkefnisins List fyrir alla, í boði Dansgarðsins sem eru samtök um danskennslu og dansfræðslu.

Þær stöllur gerðu loftið að viðfangsefni sínu þar sem kannaðir voru alls kyns hreyfimöguleikar líkamans og hvernig hann tengist rýminu, ryþma og tónlist. Þær náðu vel til nemenda og fengu þá til þess að virkja sköpunarkraftinn í gegnum danslistina og veittu þeim góða innsýn í þá listgrein.

Göngum í skólann

Verkefnið Göngum í skólann er nú hafið og er skólinn skráður til leiks. Meginmarkmið verkefnisins er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. 

Í ár tekur Ísland þátt í 14. skipti í þessu alþjóðlega verkefni sem hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. 

Fyrirlestur ljósa- og sviðsmyndahönnuðar

1 af 2

Ein af valgreinunum hjá unglingastiginu í vetur sem og undanfarin ár nefnist tækniráð. Í tækniráði læra nemendur helstu þætti ljósa- og hljóðvinnu og stýra þeim þáttum þegar settar eru upp leiksýningar og árshátíðarsýningar hér í skólanum, undir styrkri stjórn Evu Friðþjófsdóttur. 

Í síðustu viku fékk tækniráðið góða heimsókn þegar Friðþjófur Þorsteinsson kom og hélt fyrirlestur fyrir nemendur um lýsingu. Hann er ljósa- og sviðsmyndahönnuður og ráðgjafi við hönnun og endurbætur sviðslistahúsa. Nemendur nutu aldeilis góðs af þessari heimsókn og þökkum við Friðþjófi kærlega fyrir að gefa sér tíma til að heimsækja okkur.

Ekkert smit í skólanum

Við vorum minnt á það í dag hverju við getum átt von á varðandi Covid-19. Það var grunur um nýtt smit í skólanum í dag. Sá grunur reyndist ekki á rökum reistur heldur var um gamalt smit að ræða og einstaklingurinn ekki smitandi. Þetta hefur því engin áhrif á skólastarf og verður það með eðlilegum hætti á morgun (og vonandi alla daga). Við erum meðvituð um smit í bænum og sendum nemendur heim með námsgögn komi til þess að þeir þurfi að vera heima einhverja daga. Staðan er samt sú að það eru alltaf einhverjir nemendur og starfsmenn í úrvinnslusóttkví þannig að við verðum að halda vel vöku okkar varðandi sóttvarnir og smitgát. Við vinnum alltaf eftir fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda og gerum allt sem við getum til að reyna að koma í veg fyrir smit.

Umferðaröryggi

Af gefnu tilefni viljum við benda á að ný umferðarlög nr.77/2019 tóku gildi þann 1.janúar 2020. Hér má finna atriði er varða umferðaröryggi allra nemenda og hvetjum við foreldra og aðra forráðamenn til að fara yfir öryggismál með sínum börnum. Rafhlaupahjólum/vélknúnum hlaupahjólum hefur fjölgað í umferðinni og er mjög mikilvægt að gæta að öllum öryggisbúnaði hvað þau varðar. Samkvæmt lögum ber ungmennum yngri en 16 ára að nota hjálma á reiðhjólum og eru þau hvött til að gera slíkt hið sama á hlaupahjólunum.

Á vefnum www.umferd.is má auk þess finna allskyns fræðsluefni fyrir unga fólkið okkar í umferðinni.

7.bekkur á heimleið í dag

Allur hópurinn saman kominn á Reykjum
Allur hópurinn saman kominn á Reykjum

7.bekkur hefur dvalið í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði þessa viku og eru á heimleið í dag. Starfið í skólabúðunum beinist í öllum aðalatriðum að sömu markmiðum og starfið í grunnskólum. Lögð er sérstök áhersla á aukna samstöðu og eflingu samvinnu, félagslegrar aðlögunar og þroska nemenda. Einnig snýst dvölin um að takast á við áður óþekkt verkefni, kynnast nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta. Nemendur fá nasaþefinn af heimavistarforminu og er alltaf viss eftirvænting hjá nemendum að fá að dvelja saman nánast allan sólarhringinn. Þessa viku eru auk nemenda G.Í. nemendur frá Bíldudalsskóla, Patreksskóla, Grunnskóla Bolungarvíkur, Súðavíkurskóla og Oddeyrarskóla á Akureyri. Þannig að ljóst er að nemendur mynda ný kynni og dýrmætar minningar sem lifa eflaust lengi.

Hópurinn heldur af stað frá Reykjum um hádegisbilið og verður kominn heim til Ísafjarðar seinnipartinn. Kennarar munu setja nánari upplýsingar varðandi heimkomu inn á FB síðu árgangsins þegar nær dregur.