VALMYND ×

Fréttir

Takmarkað skólahald

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið auk þess sem sett hefur verið á samkomubann sem gildir frá og með mánudeginum 16. mars kl 00:00 til og með 13. apríl kl. 00:00. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Í leik- og grunnskólum verður sett hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er.

Það er ljóst að við þurfum að gera sérstakar ráðstafanir til að fara eftir þessum fyrirmælum, t.d. hvað nemendafjölda í kennslustofum snertir, matsal, frímínútum og strætó, svo dæmi séu tekin. Farið verður í nánara skipulag á morgun og munum við uppfæra fréttir hér á heimasíðunni um leið og hægt er og senda tölvupóst til foreldra.

 

Samræmd könnunarpróf að baki

Í morgun lauk síðasta samræmda könnunarprófinu hjá 9. bekk, en árgangurinn hefur þreytt próf í íslensku, stærðfræði og ensku síðustu daga. Fyrirlögnin gekk eins og best verður á kosið og engir tæknilegir örðugleikar. Nemendum var skipt í tvo hópa þar sem fyrri hópurinn tók prófið kl. 8:20 og sá seinni um leið og fyrri hópurinn lauk sínu prófi. Nemendum var boðið upp á morgunverð kl. 8:00 áður en próftaka hófst.

Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar.

 

Upplýsingar vegna neyðarstigs almannavarna

Þar sem neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna COVID-19 kórónaveirunnar viljum við koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

  • Skólinn mun halda uppi starfsemi eins lengi og unnt er.
  • Markmið er að starfsmenn skóla haldi áfram störfum þó að nemendur eða starfsfólk sé sent heim vegna sóttvarnarráðstafana.
  • Kennarar eru að undirbúa fjarkennslu og heimanám ef til þess kemur.
  • Í skólanum hefur handspritti verið komið fyrir við aðalinngang skólans og við matsal, auk allra salerna í skólanum.
  • Leiðbeiningar um hvernig draga megi úr sýkingarhættu hefur verið komið fyrir á nokkrum stöðum í skólanum (á íslensku, ensku og pólsku).
  • Kennarar hafa farið yfir handþvott með nemendum.
  • Lögð er áhersla á að þrífa vel yfirborðsfleti, svo sem handrið, hurðarhúna, ljósarofa og fleira.
  • Nemendum í mötuneyti er skammtað á diskana til að draga úr smithættu.

    Í ljósi aðstæðna höfum við ákveðið að fresta árshátíð skólans að sinni og munum við taka stöðuna eftir páska.

    Það er mikilvægt samfélagslegt verkefni að tryggja að menntun og skólahald líði sem minnst fyrir þessar aðstæður og því treystum við á góða samvinnu heimila og skóla nú sem endranær.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum

Anna María Ragnarsdóttir, Jóhann Ingi Guðmundsson og Dagný Rut Davíðsdóttir höfnuðu í þremur efstu sætunum
Anna María Ragnarsdóttir, Jóhann Ingi Guðmundsson og Dagný Rut Davíðsdóttir höfnuðu í þremur efstu sætunum
1 af 2

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tólf nemendur frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla. Fyrir hönd G.Í. lásu þau Anna María Ragnarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Guðríður Vala Atladóttir, Hjálmar Helgi Jakobsson, Kolbrún María Ármannsdóttir, Patrekur Bjarni Snorrason og Sigurður Oddur Steinþórsson.

Dómarar þetta árið voru þau Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Dagný Annasdóttir, Dagný Arnalds, Kristbjörg Sunna Reynisdóttir og Þorleifur Hauksson og var fundarstjórn í höndum Stefaníu Ásmundsdóttur, sviðsstjóri Skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar. Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri á Suðureyri, flutti hugleiðslu varðandi lestur og Heiður Hallgrímsdóttir sigurvegari keppninnar í fyrra kynnti skáld keppninnar.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Jóhann Ingi Guðmundsson frá Grunnskóla Bolungarvíkur sigraði, Dagný Rut Davíðsdóttir G.Í. hafnaði í 2. sæti og Anna María Ragnarsdóttir G.Í. í því 3. Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ekki má heldur gleyma þeim kennurum sem hafa séð um þjálfun þeirra ásamt foreldrum, árangurinn er einnig þeirra. 

Boðað verkfall FOSVEST

Aðildarfélög BSRB hafa boðað til verkfallsaðgerða hjá 13 aðildarfélögum á landinu og er FOSVEST þar á meðal. Allsherjarverkfall er boðað dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31.mars og 1.apríl.

Ef af verkfalli verður hefur það áhrif á starfsemi okkar þar sem 8 af okkar starfsmönnum eru í FOSVEST. Þjónusta okkar mun að sjálfsögðu skerðast, en sem betur fer er ekki þörf á að halda neinum nemendum heima. Íþróttahúsin bæði verða lokuð ásamt sundlauginni og eiga nemendur því að mæta í skólahúsnæðið sjálft í þeim tímum.

Afrakstur þemadaga

Á þemadögum í febrúar voru unnin margvísleg skemmtileg verkefni. Unglingastigið fjallaði um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og valdi hver hópur sér ákveðið markmið til að vinna með. Afraksturinn má sjá hér þar sem sköpunargleði nemenda fær notið sín til fulls.

Upplýsingar varðandi kórónaveiruna

Vegna óvissustigs varðandi COVID-19 kórónaveiruna vill skólahjúkrunarfræðingur vekja athygli á viðbrögðum heilsugæslunnar varðandi veiruna:

Ekki koma beint á heilsugæslustöð, hringdu fyrst

Til að draga úr smithættu er fólki sem hefur ástæðu til að ætla að það hafi sýkst af kórónaveirunni, bent á að hringja á heilsugæsluna á opnunartíma eða í vaktsímann 1700 sem er opinn allan sólarhringinn og fá leiðbeiningar. 

Fólk sem hefur einkenni sjúkdómsins á ekki að koma á heilsugæsluna eða bráðamóttöku beint heldur hringja og fá ráðleggingar. Helstu einkenni eru hiti, hósti, beinverkir og öndunarerfiðleikar.

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit.

Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Hér í skólanum er handsápa og handspritt á öllum salernum og í matsal og hvetjum við alla til að nýta það.

Einnig er bent á vef Embættis landlæknis þar sem hægt er að nálgast nýjustu upplýsingarnar um veiruna hverju sinni.

Höfum svo í huga að fréttir varðandi þennan faraldur geta komið illa við börn og jafnvel valdið kvíða. Við vitum að þó veiran breiðist hratt út að þá er líklegt að fólk sem er hraust fyrir nái sér af veikinni en dauðsföll hafa aðallega orðið hjá þeim sem eru veikari fyrir eða hafa haft undirliggjandi sjúkdóma.

 

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem valdir voru fulltrúar skólans til að taka þátt í lokahátíðinni sem fram fer miðvikudaginn 4.mars n.k. í Hömrum.

Fimmtán nemendur sem valdir höfðu verið úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð og farið var yfir Reykjaferðina s.l. haust í máli og myndum á meðan dómarar réðu ráðum sínum.

Dómarar voru þau Edda Kristmundsdóttir, Herdís Hübner og Jón Heimir Hreinsson. Niðurstöður þeirra voru þær að þau Anna María Ragnarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Guðríður Vala Atladóttir, Hjálmar Helgi Jakobsson, Kolbrún María Ármannsdóttir, Patrekur Bjarni Snorrason og Sigurður Oddur Steinþórsson munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni og til vara verða þær Anna Salína Hilmarsdóttir og Svala Katrín Birkisdóttir.

Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin leggur áherslu á markvissa rækt við móðurmálið og fá alla nemendur til að þjálfa upplestur, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Þessi þjálfun hefur farið fram í bekknum allt frá því í nóvember s.l. þar sem allir nemendur tóku þátt, auk þess sem nemendur hafa æft sig heima.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góða frammistöðu og hlökkum til lokahátíðarinnar.

Maskadagur

Mánudaginn 24. febrúar n.k. er maskadagur/bolludagur. Þá er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk mæti í búningum og er alltaf gaman að hitta hinar ýmsu persónur og fyrirbæri hér á göngunum.

Grímuballið verður á sínum stað og er skipulagið eftirfarandi:

1. - 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:00 - 10:40

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Þeir unglingar sem mæta í búningum eru velkomnir á grímuböll hjá vinabekkjum sínum og að sjálfsögðu er heimilt að koma með bollur af ýmsu tagi í nesti. 

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

Rúta frá Torfnesi í dag

Þar sem heldur virðist vera að bæta í vind, þá mun rúta sækja nemendur 5.bekkjar á Torfnes núna kl. 9:20. Í framhaldi af því munum við halda 6.bekk hér í skólanum, þ.e. að við sendum þau ekki á Torfnes kl. 9:40.