VALMYND ×

Fréttir

10.bekkur í skólaferðalagi

Mynd: heydalur.is
Mynd: heydalur.is

Í gærmorgun hélt 10. bekkur í sitt árlega skólaferðalag ásamt umsjónarkennurum og fulltrúum foreldra. Þetta árið var ákveðið að fara í Heydal í Mjóafirði sem býður upp á fjölbreytta afþreyingu.

Eftir gærdaginn var búið að fara í reiðtúra, á kajak og í sund. Í dag verður svipuð dagskrá auk gönguferða eða fjallgangna, þannig að hópurinn hefur nóg fyrir stafni.

Áætluð heimkoma er svo um hádegisbilið á morgun.

Síðustu dagar skólaársins

Það hefur verið mikið skipulag undanfarið við að setja niður síðustu daga skólaársins hjá hverjum og einum árgangi. Nú er það klárt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Alltaf er hætta á að veðrið setji eitthvað strik í reikninginn, en kennarar munu senda póst á viðkomandi bekki ef einhverjar breytingar verða.

Borðað úti

Krakkarnir í heimilisfræðihópnum í 6. bekk elduðu ítalskt spaghettí með kjötsósu síðastliðinn föstudag. Að sjálfsögðu notuðu þeir góða veðrið og borðuðu úti og voru allir sammála um að maturinn væri sérstaklega ljúffengur. Glæsilegt krakkar!

Lögreglan í heimsókn

1 af 2

Í morgun komu þeir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn og Gylfi Þ. Gíslason, varðstjóri, í heimsókn til okkar. Þeir félagar töluðu við nemendur 5. - 7. bekkjar um ýmsa öryggisþætti varðandi reiðhjól, rafmagnshlaupahjól og vespur, auk þess sem þeir fóru yfir útivistarreglurnar.

Krakkarnir hlustuðu af athygli og spurðu út í ýmsa þætti. Þeir eru miður sín yfir því að einhverjir hafi verið að losa framdekk á reiðhjólum undanfarið, enda alveg grafalvarlegt mál. Við hvetjum alla krakka til að fara varlega í umferðinni og gæta sérstaklega að því að framhjólin séu föst áður en farið er af stað.

Meistarataktar í kökugerð

Heimilisfræðihópur 8. bekkjar, undir leiðsögn Guðlaugar Jónsdóttur,  bakaði og skreytti þessar fínu kökur í síðustu viku. Það voru stoltir krakkar sem fóru heim með herlegheitin fyrir helgina. Vel gert krakkar!

1.bekkingar fá reiðhjólahjálma að gjöf

Glaðir hjálmaeigendur ásamt Kiwanismönnum.
Glaðir hjálmaeigendur ásamt Kiwanismönnum.

Í morgun komu þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson og Gunnlaugur Finnbogason frá Kiwanisklúbbnum Básum og afhentu 1.bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf. Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni með því að gefa nemendum 1.bekk reiðhjólahjálma. Hjálmarnir nýtast einnig vel við notkun hjólabretta og hjólaskauta. 

Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína í dag og hvetjum við alla til að merkja þá vel. 

Foreldrakönnun

Fyrir helgi sendum við út könnun til allra foreldra varðandi nokkra þætti skólastarfsins. Okkur er mikið í mun að fá sem flesta foreldra til að svara og fá þannig sem gleggsta mynd varðandi okkar styrkleika og veikleika. Við hvetjum því alla til að svara könnuninni sem fyrst, en hún tekur einungis um 2-3 mínútur.

Skólahald með eðlilegum hætti

Nú er orðið ljóst að við munum fara á landslínuna varðandi afléttingu á samkomubanninu. Það þýðir að mánudaginn 11. maí verður skólahald með eðlilegum hætti. Skólinn byrjar kl. 8:00 hjá öllum nemendum. Mötuneytið opnar og minnum við á að hægt er að skrá í mötuneytið á http://mataraskrift.isafjordur.is   Þeir sem eru í annaráskrift þurfa ekki að skrá.
Frímínútur, frístund, sund, list-og verkgreinar, hræringur og valgreinar eru á sínum stað samkvæmt stundatöflu. Íþróttir verða kenndar utandyra eins og alltaf í maí. Skólaakstur verður með eðlilegum hætti og samkvæmt áætlun.
Við stefnum á að uppbrotsdagar í maí/júní verði eins og undanfarin ár, þ.e. vorverkadagur, íþrótta-og leikjadagur og styttri ferðir í nágrenni skólans.


Við viljum þakka foreldrum, nemendum og starfsfólki skólans fyrir skilninginn, þolinmæðina og útsjónarsemina síðustu vikur og það er þessu að þakka að við erum komin á þennan stað. Við megum samt ekki gleyma okkur og muna eftir því að gera allt það sem í okkar valdi stendur til að halda veirunni niðri. Við gerum það t.d. með góðum handþvotti og sprittun og að halda fjarlægðarmörkum þar sem það er hægt. Einnig er mikilvægt að nemendur og starfsfólk mæti ekki í skólann ef það er með flensulík einkenni heldur hafi samband við heilsugæsluna og fái sýnatöku ef tilefni er til.

Óskilamunir

Í anddyri skólans (sundhallarmegin) liggur frammi mikið magn af óskilamunum, sem hefur verið flokkað og raðað snyrtilega. Við hvetjum foreldra til að líta við hjá okkur fyrir lok vikunnar og freista þess að finna týndan fatnað, en í upphafi næstu viku verður þetta tekið saman.
Fjölmargar myndir af óskilamununum má finna inni á FB síðu Foreldrafélags Grunnskólans.

Skólastarf að færast í eðlilegt horf

Það voru glaðir nemendur og starfsmenn sem mættu í skólann í morgun. Skipulagið frá því fyrir páska var engum gleymt og stóðu allir sig með mikilli prýði. Unglingarnir okkar voru líka langflestir ánægðir og kvörtuðu lítið yfir því að þurfa að vakna snemma. Við höldum áfram með bjartsýnina að leiðarljósi og vonum svo sannarlega að skólahaldið verði komið í eins eðlilegt horf og hægt er þann 11. maí.

Í vetur höfum við verið að vinna að samræmdum leiðum í upplýsingagjöf og sendum foreldrum því upplýsingavísi skólans (foreldrahluta) í tölvupósti.