VALMYND ×

Staðan í dag

Kæru foreldrar!
Fyrsti dagur í þessari lotu hertra samkomutakmarkana gekk að mörgu leyti vel. Það voru margir nemendur sem voru með grímur á sér þegar þeir komu inn í skólann í morgun. Það er náttúrulega grímuskylda í strætó fyrir börn fædd 2010 og eldri, og nemendur sem komu úr strætó enn með grímurnar á sér.  
Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að það er erfitt að vera með grímuna lengi og þegar líða tók á daginn þá þreyttust margir og vildu ekki hafa hana. Við biðjum ykkur því að ræða mikilvægi grímunotkunar við börnin ykkar og ítreka það að við verðum að gera þetta saman. Þar fyrir utan þá er grímuskyldan í reglugerð og við verðum öll að hlýða henni. Það er engin undanþága nema fyrir þá sem hafa fengið covid eða aðrar læknisfræðilegar ástæður, sem þarf þá að skila vottorði fyrir. Við vonum að grímurnar venjist fljótt og allir átti sig fljótt á mikilvægi þeirra.
Það voru nokkrir smávægilegir hnökrar sem komu í ljós á nýja skipulaginu okkar, en okkar frábæra starfsfólk er fljótt að slípa þá til og þökkum við þeim enn og aftur fyrir þeirra góða og lausnamiðaða starf.
Við finnum vel fyrir stuðningi ykkar núna kæru foreldrar og er það ómetanlegt og veitir okkur kraft til að takast á við verkefnin sem covidið færir okkur.

Deila