VALMYND ×

Fréttir

Ráðning aðstoðarskólastjóra

Starf aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Ísafirði var auglýst í febrúar. Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri, sem verið hefur í leyfi frá skólanum síðasta eitt og hálft árið, sagði starfi sínu lausu. Tvær umsóknir bárust og voru báðir umsækjendur boðaðir í viðtal hjá mannauðsstjóra og sviðsstjóra ásamt skólastjóra.  Að þeim loknum var ákveðið að ráða Helgu S. Snorradóttur sem hefur leyst af sem aðstoðarskólastjóri við skólann síðustu þrjú og hálft ár. Helga hefur öðlast mikla reynslu síðustu ár sem stjórnandi hér við skólann og óskum við henni velfarnaðar í starfinu.

Dagur 5

Nú stefnum við í aðra vikuna í samkomubanninu. Eins og þið hafið væntanlega séð í fréttum þá hafa yfirvöld verið að herða bannið og vitum við ekki alveg hvaða áhrif það muni hafa á okkur í skólanum. Við tökum alltaf einn dag í einu og látum vita um leið og einhverjar breytingar verða. Það er eitthvað orðið um það að foreldrar ákveða að hafa börnin sín heima. Ég hvet þá foreldra sem það kjósa að hafa samband við skólann og láta vita af því. Við höldum sérstaklega utan um allar skráningar vegna Covid19 og eigum að standa skila á þeim til landlæknis.

Það hafa komið ábendingar frá foreldrum um að börn sitji of þétt saman í strætó. Við fengum upplýsingar frá strætó um að þetta hafi komið fyrir einn dag fyrir helgi og að of mörg börn sem ekki eigi að taka strætó hafi verið um borð. Ég vil árétta það að aðeins börn sem búa fyrir innan Seljalandsveg 44 og í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri.

Unnið er að útfærslu hjá Ísafjarðarbæ varðandi gjöld fyrir þjónustu í leik- og grunnskóla ásamt dægradvöl í ljósi stöðunnar og skertrar þjónustu. Nánari upplýsinga er að vænta innan fárra daga.

Hér fyrir neðan eru tenglar á ýmislegt varðandi Covid 19 og fræðslu til barna á ýmsum tungumálum.
Efnið er aðgengilegt á Arabísku, dönsku, ensku, portúgölsku og serbnesku ásamt fleiri tungumálum. Það hefur einnig verið þýtt á íslensku af landlæknisembætti og fylgir sá hlekkur hér að neðan líka.

Íslenska
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item39944/Hallo%20eg%20heiti%20korona.pdf 

Arabíska
Einfalt skýringarefni og vinnubók á arabísku um corona
https://660919d3-b85b-43c3-a3ad-3de6a9d37099.filesusr.com/ugd/64c685_098e20a6f2b44d31b861492f1150aebf.pdf 

Útskýringarmyndband fyrir börn um handþvott
https://www.facebook.com/unicefdanmark/videos/626134641297548/ 

Enska
Hvernig hægt er að tala við börn um corona-vírusinn
https://www.unicef.org/coronavirus/how-talk-your-child-about-coronavirus-covid-19 

Myndband um handþvott - útskýrt af barni á ensku
https://www.facebook.com/Unicef.uk/videos/192256995405194/

Einfalt myndband um corona á ensku
https://www.facebook.com/afghanistanunicef/videos/566461574220751/ 

Filippseysk mál
Myndband um handþvott á filippseysku
https://www.facebook.com/OfficialDOHgov/videos/206068727129412/ 

Myndband um hvernig hægt er að tala við börn um corona
https://www.facebook.com/UNICEF.Portugal/videos/202756817712493/ 

Pólska 
Upplýsingamynd á pólsku um vírusinn
https://www.facebook.com/unicefpolska/photos/a.353556111544/10157144502326545/?type=3&theater 

Sex mikilvæg atriði fyrir foreldra til að vita um corona
https://www.facebook.com/unicefpolska/videos/193305385275817/ 

Serbneska
Einfalt skýringarmyndband um corona
https://www.facebook.com/UNICEFSrbija/videos/2621675431412543/ 

Hvernig hægt er að tala við börn um corona
https://www.unicef.org/serbia/covid-19-korona-virus?fbclid=IwAR3BiHmnE5ClP0gWi3m_OvptspmInykdkLYDW3NTBZir-NtNhrbbVjdzysA 

Taílenska
Myndband fyrir börn og fullorðna um hvernig hægt er að verjast corona
https://www.facebook.com/unicefthailand/ 

Dagur fjögur

Nú er fyrstu vikunni lokið og hefur starfið gengið eftir atvikum mjög vel í þessum krefjandi aðstæðum. Þetta reynist þó yngstu börnunum erfiðast, einna helst að þurfa alltaf að vera á sama stað í húsinu og hitta ekki aðra krakka en sinn hóp. En þau eru ótrúlega flott og gaman að fylgjast með þeim þvo og spritta hendur. Þó að aðstæður séu óvenjulegar þá eru ljósir punktar í skólastarfinu t.d. eru ekki lengur hlaup á göngunum og engir árekstrar í anddyrum. Við erum meira segja búin að slökkva á skólabjöllunni.

Okkur langar að vitna í orð Ragnars Þórs Péturssonar sem hann skrifaði á heimasíðu Kennarasambandsins og lýsir vel ástandinu: ,, Þreytt en þrautgóð stétt skólafólks mun nú ganga inn í helgina og vonandi fá verðskuldaða hvíld áður en næsta áskorun bíður rétt handan við hornið". Við erum stolt af okkar fólki sem hefur tekist á við ástandið af jákvæðni og æðruleysi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá tilmæli frá Almannavarnardeild um samkomubann og börn og biðjum við aðstandendur að kíkja á það.

Dagur þrjú

Þetta fer að að verða eins og vísan um 13 daga jóla - dagur þrjú! Dagurinn gekk vel og gaman að fylgjast með starfsfólkinu stýra umferðinni um skólann eins og umferðarlöggur. Það viðraði vel til útiveru og það léttir lundina. En eins og áður þá eru langflestir að fara að tilmælum og andinn í skólanum góður. Mig langar að biðja ykkur að ítreka við börnin ykkar að þau noti aðeins þá innganga sem þeim hefur verið úthlutað og séu ekki að stytta sér leið í gegnum skólann, t.d. til að fara í Tónlistarskólann. Það er gott fyrir okkur öll að huga vel að því hvernig við tölum um þá sem kunna að veikjast, og muna að veiran fer ekki eftir aldri, getu, kyni, landamærum eða þjóðernislegum uppruna.

Dagur tvö í samkomubanni

Dagur tvö gekk að mestu leyti mjög vel.  Nemendur eru vel undirbúnir og flestir sýna þessum skrítnu aðstæðum skilning og samstarf heimila og skóla skilar sér vel til nemenda.  Við í skólanum finnum fyrir stuðningi og hvatningu frá foreldrum og þökkum við kærlega fyrir það.

Eins og áður hefur komið fram þá tökum við einn dag í einu og getum alveg eins búist við því að skipulagið okkar taki breytingum.  Hvað varðar strætó þá viljum við biðja ykkur um að minna börnin á að sitja eitt í sæti en það er í lagi fyrir systkini að sitja saman og þegar þau fara úr vagninum við skólann að þau fylgist með þeim sem er með þeim í hóp inn í skólann.  Allt þetta er gert til að auðvelda smitrakningu ef til hennar kæmi og einnig að forðast smit.

Hér má finna gagnlegt efni og gátlista fyrir skóla, nemendur og foreldra um skólastarf á tímum COVID-19.

Fyrsti dagur í samkomubanni

Nú er fyrsta degi í samkomubanni lokið og erum við býsna ánægð með hvernig til tókst, en alltaf er eitthvað sem kemur upp og þarfnast úrlausna. Veðrið spillti nokkuð fyrir gleðinni í dag og bauð ekki upp á mikla útivist, en margir hópar nýttu sér það þó og nutu útiverunnar eins og hægt var.

Á yngsta stiginu reyndi helst á að það tekur á að vera í sama rými allan þennan tíma.  Kennarar eru vakandi yfir því að brjóta upp daginn og hafa einhverja útivist á hverjum degi. Það reynist líka sumum nemendum erfitt að skilja það að þeir þurfa að ganga um annan inngang en þeir eru vanir, skórnir fara í aðra hillu, geta ekki farið í frímínútur, mat, íþróttir og verkgreinar svo fátt eitt sé nefnt.

Á miðstiginu gekk vel og unglingarnir okkar sem mættu í dag (8. og 10. bekkur) sýndu fullan skilning á þessum aðstæðum og voru samstarfsfúsir. Við höldum ótrauð áfram og trúum því að með þessum aðgerðum þá erum við að gera okkar til að hindra útbreiðslu veirunnar.

Við viljum þakka foreldrum/forráðamönnum fyrir jákvæð viðbrögð við skipulaginu hjá okkur og vitum að þetta gengur ekki án velvilja þeirra og að allir hjálpist að. Það er nauðsynlegt að allir virði það að ganga um þau anddyri sem ætlast er til, til að tryggja það að ef upp kemur smit að skólinn sé ekki allur undir og loka þurfi honum öllum og senda alla heim, nemendur og starfsmenn.

Okkur er gert að takmarka allar heimsóknir í skólann á meðan samkomubanni stendur og því er minnt á  að foreldrar bíði eftir börnunum í því anddyri sem barnið notar. Ef þarf að koma einhverju til barnanna t.d. nesti sem gleymdist þá er best að koma við hjá ritaranum með það og hann kemur því svo áleiðis.

Staðan í dag

Nokkuð hvasst er í dag en veður eflaust misjafnt eftir byggðakjörnum. Strætisvagnar ganga hér innanbæjar, en morgunferðum til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar hefur verið aflýst. Við biðjum foreldra að meta stöðuna og láta vita ef börn þeirra koma ekki í skólann í dag.

Skipulag næstu daga

Nú er að koma mynd á skipulagið hjá okkur fyrir næstu daga. Ljóst er að umtalsverð röskun verður á skóladegi allra nemenda, mismikil þó. Við leggjum áherslu á að halda yngstu börnunum sem mest í skólanum og er það í forgangi hjá okkur.

  • 1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 til 12:40. Frístundin dettur út en Dægradvölin tekur við sínum börnum kl. 12:40.
  • 5.-7. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 – 12:15 alla daga.
  • 8. og 9. bekkur mætir 2.-3. í viku frá frá kl. 13:00-15:00. Umsjónarkennarar senda nánari útærslu.
  • 10.bekkur mætir alla daga milli 13:00 og 15:00.

Mötuneytið verður lokað og nemendur í 1.-7. bekk þurfa að hafa morgunnesti og hádegisnesti ef þurfa þykir. Allar íþrótta- og verkgreinar verða með öðrum hætti og þurfa nemendur ekki að taka með sér íþrótta- og sundföt.

Strætóferðir verða á sama tíma að morgni en við hvetjum foreldra að keyra börn sín og best ef hægt er að hafa sveigjanlega skólabyrjun frá 7:45 til 8:20.  Engar seinkomur verða skráður fyrr en eftir 8:20. Einnig viljum við vekja athygli á því að þar sem nemendur sem búa í Miðtúni og innar í  firðinum og þeir sem búa í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri og aðrir ekki. Þá mun strætisvagninn ekki stoppa á stoppstöðvum við bókasafnið, Seljalandsvegi (nema við Miðtúnsbrekkuna) og Krók. Þetta er gert til að reyna að viðhalda leyfilegum hámarksfjölda í þessum aðstæðum.

  • Strætó fer frá skólanum 12:20 fyrir miðstigið,
  • 12:50 fyrir þá sem ekki fara í Dægradvöl á yngsta stigi.
  • Strætó verður einnig fyrir unglingana 12:50 úr Holtahverfi og 12:40 úr Hnífsdal og frá skólanum kl. 15:10

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta hefur mikil áhrif á daglegt líf fjölskyldna en þetta eru þær aðstæður sem við búum við í dag og leggjum við okkur fram um að framfylgja fyrirmælum sem yfirvöld setja okkur eins og t.d. hámark nemenda í hverjum námshóp er 20.  Hóparnir mega aldrei hittast og verða alltaf að vera í sama rými.

Helstu einkenni Covid 19 sjúkdómsins eru hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta og slappleiki. Sýni nemendur þessi einkenni á að halda þeim heima. Ef nemendur hafa verið veikir og þurfa að vera inni í frímínútum þá er mælst til að þeir verði heima.

Við vonumst til að allir hafi skilning á þessum aðstæðum og að með þessum aðgerðum leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að hægja á framgangi veirunnar.

Foreldrar eru beðnir um að takmarka heimsóknir í skólann og nýta síma og tölvupóst til samskipta.

Eins og þetta sé ekki nóg þá er veðurspáin fyrir morgundaginn mjög slæm.  Ef hún gengur eftir verður aðeins lágmarksþjónusta í skólanum og þeir foreldrar sem geta haft börn sín heima eru hvattir til þess. Við minnum á að hægt er að tilkynna slík forföll á einkaskilaboðum á facebook síðu skólans eða hringja í skólann í fyrramálið.

Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við umsjónarkennara barna ykkar og eins mun heimasíðan og facebook síðan verða reglulega uppfærðar, þar sem viðbúið er að eitthvað eigi enn eftir að breytast.

Þessar upplýsingar eru nú í þýðingum yfir á ensku, pólsku og thaílensku og verða sendar í tölvupósti á foreldra um leið og hægt er. 

Undurbúningur hafinn vegna samkomubanns

Við erum byrjuð á undirbúningi á skipulagi skólastarfsins til að mæta samkomubanninu sem sett hefur verið á vegna Covid 19 veirunnar. Það er í mörg horn að líta og alveg ljóst að röskun verður á skólastarfinu, t.d. bara það að nemendur mega aldrei vera fleiri en 20 í hóp og hóparnir mega ekki hittast kallar á ýmsar breytingar. Við ætlum að leggja okkur fram og gera það sem er í okkar valdi til að hægja á framgangi veirunnar. Nú sem endranær náum við bestum árangri með góðu samstarfi heimila og skóla og þegar við leggjumst öll á eitt þá getum við svo margt. Það eru mismunandi aðstæður hjá nemendum og ef einhverjir foreldrar vilja halda börnunum sínum heima t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma hjá börnum eða aðstandendum þá höfum við fullan skilning á því. Þeir foreldrar sem kjósa að hafa börnin sín heima hafi samband við skólann (umsjónarkennara) og það verður komið til móts við þau börn með heimanámi og fjarkennslu.

Á morgun er starfsdagur í skólanum og þið fáið upplýsingar seinni partinn þegar við verðum búin að leggja línurnar. Við verðum að taka einn dag í einu og við komum til ykkar upplýsingum í tölvupósti, hér á heimasíðu skólans og facebook síðunni.

Skipulagsdagur á mánudag

Vegna tilmæla um samkomubann og þeirrar röskunar á skólastarfi sem það hefur í för með sér verður skipulagsdagur starfsfólks í skólanum mánudaginn 16. mars og þar af leiðandi engin kennsla.