VALMYND ×

Fréttir

Ný samþykkt heilbrigðisráðherra vegna fjölgunar covid smita

Samkvæmt minnisblaði sóttvarnarlæknis og samþykkt heilbrigðisráðherra frá því í gær þá eru ekki miklar breytingar hvað varðar skólana. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að geta haldið skólahaldi óskertu og verðum við öll að vera vakandi yfir því sem við getum gert.  Við biðjum þá foreldra sem eiga erindi í skólann að spritta hendur um leið og þeir koma inn og beina erindum sínum til ritara þar sem því verður við komið. Þar sem ekki er hægt að koma við eins metra fjarlægðarmörkum er grímuskylda. Við mælumst til þess að foreldrar fylgi ekki börnum sínum að skólastofum þeirra heldur aðeins inn í anddyri og ef þeir þurfa að koma t.d. nesti eða íþróttafötum sem gleymdust heima, að fara ekki með að stofum barna sinna heldur koma því til ritara sem kemur því áleiðis. Eins og fram kom fyrir helgi þá eru foreldraviðtölin í þetta skipti með rafrænum hætti, það er annaðhvort í síma eða fjarfundi og mjög mikilvægt er að foreldrar skrái sig á viðtalið í mentor.

Vonandi skila hertar reglur á landsvísu sér fljótlega og smitum fari að fækka. Með samstöðu og ábyrgð getum við kveðið veiruna niður.

Sóttkví nemenda

Á hverjum degi skólastarfsins það sem af er skólaári, eru nokkrir nemendur og starfsmenn skólans í sóttkví. Það eru ýmsar ástæður fyrir sóttkvínni:

-Úrvinnslusóttkví þegar einstaklingur er með einkenni fer í sýnatöku og bíður eftir niðurstöðum eða fjölskyldumeðlimur með einkenni fer í sýnatöku þá eru allir á heimilinu í úrvinnslusóttkví.

-Sóttkví er þegar einstaklingar hafa umgengist smitaðan einstakling eða verið í sama rými og smitaður einstaklingur. Þá fara viðkomandi í sóttkví í viku og svo sýnatöku. Reynist sýnið neikvætt þá eiga viðkomandi að fara varlega í eina viku í viðbót og eru þá í smitgát.

Skólinn hefur fengið þær upplýsingar að nemendur sem eru í slíkum aðstæðum þurfi að gæta þess að viðhalda tveggja metra nándarreglunni, hafa sér salerni og vera með grímur. Það er erfitt að verða við þessu í skólanum þar sem gangar og skólastofur eru þröngar. Þessa dagana erum við með sérúrræði fyrir nemendur í þessum sporum,  þeir ganga inn um sérinngang og eru í kennslustofu sem þeir hafa einir fyrir sig og það er einn og sami kennarinn sem kennir þeim.

Skólinn fær ekki upplýsingar frá heilbrigðisstofnun hvaða einstaklingar eru í sóttkví eða eru smitaðir þannig að það er mjög mikilvægt að foreldrar láti skólann vita og hvaða upplýsingar og leiðbeiningar þeir hafa fengið varðandi sóttkví barna sinna því ástæður og aðstæður eru svo einstaklingsbundnar. Skólinn reynir að verða við öllum aðstæðum en það geta komið upp þær aðstæður í skólanum að við getum ekki sinnt öllum tilvikum t.d. ef það er bara einn nemandi sem á að vera í smitgát eftir sóttkví þá gæti staðan verið sú að við höfum ekki kennara til að kenna einu barni í sérúrræði. Þá þyrfti að finna til önnur úrræði eins og fjarkennslu.

Rafræn foreldraviðtöl

Í ljósi covid aðstæðna verður foreldraviðtalsdagurinn 7. október með öðru sniði en vanalega. Fundirnir verða með rafrænum hætti og/eða með símtölum. Við gerum ráð fyrir að í 1.-5. bekk verði símafundir, þannig að umsjónarkennarar hringi á fyrirfram ákveðnum tímum í foreldra. Í 6.-10. bekk verða fundirnir í gegnum Google Meet og munu nemendur fara heim með iPadana sína á mánudaginn. Flestir nemendur þekkja vel þetta forrit frá því í vor og einnig munu kennarar rifja upp með þeim hvernig forritið virkar. Eftir sem áður verða foreldrar að skrá sig á viðtalstíma í mentor eins og áður og það verður opnað fyrir skráningarnar kl. 14 á morgun, föstudag. Foreldrar nemenda í 1.-5. bekk verða að láta fylgja í athugasemd símanúmer sem á að hringja í. Ef eitthvað er óljóst þá vinsamlegast hafið samband við umsjónarkennara.

Verum ástfangin af lífinu

Þorgrímur Þráinsson Mynd: NB forlag
Þorgrímur Þráinsson Mynd: NB forlag

Í gær heimsótti Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrrverandi knattspyrnumaður nemendur í 9. og 10. bekk með fyrirlesturinn ,,Verum ástfangin af lífinu".  Þar fjallaði hann um markmiðasetningar, árangur og lífið sjálft og hvatti nemendur til að láta drauma sína rætast með því að bera ábyrgð á eigin lífi, setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér til að ná markmiðunum og skipuleggja sig í samræmi við það.

Þorgrímur fjallaði einnig um mikilvægi þess að halda góðu jafnvægi milli einkalífs, atvinnu og tómstunda til þess að þroskast fallega og lifa björtu lífi. Þá hvatti hann nemendur til að sýna samkennd, bera virðingu fyrir öllum og hafa hugrekki til að fylgja hjartanu, því við erum öll einstök og eigum að njóta þess.

Þorgrímur hefur farið með þennan fyrirlestur sinn um allt land og er nær alveg einstaklega vel til nemenda. Við þökkum honum kærlega fyrir komuna.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Unglingarnir hlaupa af stað
Unglingarnir hlaupa af stað
1 af 2

Í morgun tók skólinn þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ sem nú hefur tekið við af Norræna skólahlaupinu sem hefur verið hluti af skólaíþróttum síðan 1984. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Hlaupið var frá horni Seljalandsvegar og Urðarvegar. Yngstu nemendurnir hlupu inn að Engi og til baka, miðstigið inn að Seljalandi og til baka og unglingarnir gátu valið um að hlaupa inn að Seljalandi eða golfskála. Vel tókst til þrátt fyrir lágt hitastig, en veður var bjart og úrkomulaust og hið ágætasta hlaupaveður.

Handritin til barnanna

Í dag fékk 5.bekkur heimsókn frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heimsókn þessi er í tilefni af því að á næsta ári, þann 21.apríl, verða liðin 50 ár frá því að fyrstu miðaldahandritunum var skilað frá Danmörku til Íslands. Verkefnið Handritin til barnanna hefur verið þróað við stofnunina til að kveikja áhuga nemenda á miðstigi grunnskólanna á merku handritasafni Árna Magnússonar.
Þeir Snorri og Jakob (íslenskunemar) sögðu nemendum frá handritaarfi okkar Íslendinga, hvernig forfeður okkar báru sig að við að rita sögur og frásagnir ásamt mörgu áhugaverðu því tengdu.
 

Veltibíllinn í heimsókn

1 af 3

Í morgun fengum við Pál Halldór Halldórsson, Hnífsdæling og rallýkappa með meiru í heimsókn til okkar með veltibílinn. Veltibíllinn er í eigu Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna og er af gerðinni VW Golf en kerran var smíðuð á Íslandi. Markmið heimsóknarinnar var að fræða nemendur um mikilvægi öryggisbelta í bifreiðum, sem Páll innti vel af hendi. Allir nemendur skólans sem vildu fengu að prófa bílinn, sem fór nokkrar veltur með 5 farþega í einu. Krökkunum fannst þetta mikil upplifun og gera sér vonandi enn frekari grein fyrir nauðsyn beltanna í framtíðinni.

Staðan í dag

Í ljósi aukningar á Covid smitum síðastliðna helgi þá verðum við að vera enn varkárari og enn meðvitaðri um okkar einstaklingsbundnu sóttvarnir og passa sérstaklega upp á nálægðartakmörkin sem er einn metri og ef við getum komið tveggja metra nálægðartakmörkum við þá er það enn betra. Við viljum hafa aðgengi utanaðkomandi aðila sem ekki tengjast skólastarfinu sem minnst og þeir aðilar sem þó verða að koma inn í skólann virði tveggja metra regluna auk persónubundnu sóttvarnanna. Starfsemi sem ekki tengist skólanum er ekki leyfð til og með 5. október t.d. óformlegt íþróttastarf fullorðinna sem ekki tilheyrir ÍSÍ og hópfundir með foreldrum.
Þetta þýðir að við verðum að fresta öllum foreldrafundum þar til eftir 5. október en hvetjum foreldra til að vera í góðu sambandi við okkur í skólanum. Foreldrar sem eiga erindi í skólann eiga að spritta hendur við inngang og hafa samband við ritara.
Við höfum fullan skilning á því að fólk sé orðið langþreytt á þessu ástandi en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að starfsemi skólans haldist órofin.

Haustball 10.bekkjar

Í kvöld heldur 10.bekkur haustball í salnum okkar góða. Ballið er fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar og er frá kl. 19:30-22:30. Aðgangseyrir er kr. 1.000 og verður sjoppa á staðnum með krap, gos og nammi. Rúta fer í Hnífsdal og inn í fjörð að loknu balli. Nemendum frá nágrannaskólum okkar er boðið á ballið ásamt fylgdarmanni.

10. bekkur hvetur sem flesta til að mæta og skemmta sér með þeim.

 

 

Nemendur skoða útilistaverk

1 af 3

Nemendur 5.bekkjar hafa verið að skoða útilistaverk bæjarins undanfarið og lært ýmislegt fróðlegt um þau. Á meðfylgjandi myndum má sjá myndir af nokkrum verkum sem nemendur unnu eftir slíka skoðunarferð.