VALMYND ×

Fréttir

Dagur 13

Ekki áttum við von á því eftir hádegið í gær að við yrðum í þessari stöðu í dag. Sú ráðstöfun Almannavarna að loka skólunum er varrúðaráðstofun sem gerð er til að hindra smit. Það er enginn nemandi né starfsmaður smitaður svo vitað sé. Við vitum ekki heldur hversu lengi þessi ráðstöfun varir, það skýrist síðar og munum við koma upplýsingum til ykkar um leið og vitum framvinduna.
Það er mjög mikilvægt að við hjálpumst öll að við að reyna að hindra smitin og það gerum við best með því að fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum Almannavarna. Við verðum að taka því alvarlega þegar mælst er til að samgangur barna milli heimila sé eins lítill og hægt er.
Við hvetjum foreldra sem eru í forgangi starfsfólks í framlínustörfum um aukna skóla-og leikskólaþjónustu, að sækja um fyrir börnin og þarf að gera það á hverjum föstudegi meðan ástandið er eins og það er. Einnig geta þessir foreldrar haft samband ef skyndilegar breytingar verða á störfum þeirra og við vinnum úr því.
Það er von okkar að þrátt fyrir erfiðar aðstæður að þá eigum við öll gleðilega páska.

Skólanum lokað frá og með 2.apríl 2020

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur í samráði við sóttvarnalækni og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra ákveðið að bregðast við Covid-19 smiti í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði með hertum aðgerðum, eins og hér greinir:

  • Leik- og grunnskólum í Bolungarvík og á Ísafirði verði lokað frá og með morgundeginum 2. apríl 2020. Þó skulu börn á forgangslistum fá vistun á leikskólum og 1. og 2. bekkjum grunnskóla.   

  • Samkomubann verði miðað við 5 manns (þetta á þó ekki við um fjölskyldur sem búa á sama heimili).    

  • Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum (>150 fermetrar) sé að hámarki 30 á hverjum tíma.

  • Hvatt er til þess að fólk haldi sig heima, haldi samskiptafjarlægð, takmarki ferðir og fylgi leiðbeiningum yfirvalda.

Þeim vinnustöðum eða hópum sem telja sig þurfa undanþágu er bent á að sækja um slíkt hjá heilbrigðisráðuneytinu.

 

Rauði Kross Íslands veitir fólki í sóttkví og einangrun aðstoð í síma, 1717.

Þessi ráðstöfun er tímabundin, ætluð til að hefta Covid-19 smit. Smitrakning stendur yfir og beðið er niðurstöðu nokkurs fjölda sýna sem tekin hafa verið.

 

Ákvörðunin tekur að svo stöddu ekki til Suðureyrar, Flateyrar, Þingeyrar eða Súðavíkur. Er það á grundvelli stöðu smitrakningar í dag. Áfram eru íbúar á þessum stöðum hvattir til að fylgja almennum reglum og leiðbeiningum.  

 

Fólk sem finnur til einkenna á að halda sig heima og hafa samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í síma 450 4500 eða á heilsuvera.is. Tekin eru sýni alla virka daga á Ísafirði kl. 10-11, en fyrst þarf að fá samband við lækni. Spurningum um sjúkdóminn sjálfan er mörgum svarað á Covid.is.

 

Frekari upplýsingar um þessar reglur verða veittar í netfanginu yfirstjorn-lvf@logreglan.is og á Facebook-síðu Lögreglunnar á Vestfjörðum.

 //Click the link for information in English
//Kliknij link, aby uzyskać informacje w języku polskim

https://www.isafjordur.is/is/moya/news/hertar-adgerdir-a-isafirdi-hnifsdal-og-bolungarvik-vegna-covid-19?fbclid=IwAR00OdefEGlfe2qUn3yFBCP9c-PJGclXNcZ0IQPTAgr9V_oE4PcuxuACzn8

 

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum, 1. apríl 2020.

Dagur 12

Við finnum fyrir því að veiran nálgast okkur og staðfestum smitum á Vestfjörðum fjölgar. Foreldrar hafa verið að hafa samband og velta því fyrir sér hvort þeir ættu að halda börnunum sínum heima. Aðstæður barna eru mjög misjafnar og því er það alltaf ákvörðun foreldra hvort þeir senda börnin í skólann. Það er engin breyting hjá okkur, við höldum okkar skipulagi og gerum það besta í stöðunni. Við hvetjum foreldra til að koma öllum upplýsingum til okkar, hvort sem þeir hyggjast hafa börnin sín í sóttkví eða upp kemur grunur um smit.

En að öðru og léttara tali. Menntamálaráðherra er að hleypa lestrarverkefni af stokkunum í dag fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvattir til að nýta þann tíma sem nú gefst til lesturs. Verkefnið kallast Tími til að lesa. Árangurinn er mældur í tíma og allir Íslendingar hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni www.timitiladlesa.is. Verkefnið mun standa til 30. apríl og þá verður þess freistað að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Þetta er mjög spennandi verkefni og hvetjum við ykkur og börnin ykkar til að taka þátt.

 

Dagur 11

Það er allt gott að frétta af okkur í dag. Flestir nemendur eru komnir í ágæta rútínu en margir sakna ,,hefðbundna" skólastarfsins og heyrst hefur á eldri nemendum að þeir sakni þess að mæta reglulega í skólann og hitta félagana. Kennarar í yngri bekkjum finna mun á nemendum eftir að skóladagurinn var styttur um eina kennslustund og finnst að nemendur ráði betur við daginn núna. Það er reynt að hafa eins mikið uppbrot á skóladeginum eins og aðstæður leyfa, útiveru, páskaföndur og ýmsa aðra vinnu.

Á fimmtudaginn 2. apríl eru börn og fullorðnir hvattir til að klæðast bláu, til að sýna einhverfum stuðning og samstöðu. Það væri gaman að sjá sem flesta bláklædda þann dag og fagna fjölbreytileikanum og styðja einhverfa.

Á facebook síðu foreldrafélags skólans eru nú komnar heilmargar myndir af óskilamunum hér í skólanum. Endilega kíkið á myndirnar og athugið hvort þið kannist við eitthvað af þeim. Þið getið svo alltaf nálgast óskilamunina í skólanum í anddyrinu gegnt Sundhöllinni.

Netskákmót

Skáksamband Íslands í samvinnu við grunnskóla á Vestfjörðum blása til netskákmóta fyrir grunnskólanemendur svæðisins. Mótin verða alla fimmtudaga og hefjast klukkan 16:30 og standa í klukkustund. Fyrsta mótið er nú á fimmtudaginn kemur 2. apríl kl. 16:30 og verður teflt á www.chess.com 

Mótin eru þannig að eftir hverja skák byrjar alltaf ný skák um leið, gegn nýjum andstæðingi. Einungis þarf að smella á ,,next match" þegar skákin er búin.

 Til að taka þátt þarf að fara í gegnum fáein einföld skref. Best er að klára skref 1 og 2 sem fyrst.

  1. Búa til aðgang á www.chess.com (ef aðgangur er ekki til staðar nú þegar). Aðgangur er ókeypis og einfalt að búa til aðgang: https://www.chess.com/register 
  2.  Gerast meðlimur í hópnum Skólaskák Vestfirðir
  3.  Skrá sig á mótin sem er hægt að gera frá 60 mínútum áður en þau hefjast. Hér er tengill á fyrsta mót. 

Smellið á join og bíðið eftir að fyrsta skák byrjar klukkan nákvæmlega 16:30

Til að tefla í mótinu þarf að notast við fartölvu eða borðtölvu. Chess.com appið virkar ekki í mótum.

Hér má sjá almennar leiðbeiningar um hvernig má skrá sig á chess.com. 

Mótin verða alla fimmtudaga næstu vikurnar og hefjast alltaf klukkan 16:30. Til að vera með í mótum á næstunni þarf einfaldlega að mæta á chess.com frá 15:30 á fimmtudögum og skrá sig í mótið í gegnum hópinn Skólaskák Vestfirðir.

Við hvetjum alla áhugasama til að taka þátt, en öllum spurningum er svarað á netfangið  stefan.steingrimur.bergsson@rvkskolar.is 

 

 

Dagur 10

Við hefjum nú síðustu viku fyrir páskafrí. Við ættum að vera á fullu í árshátíðarundirbúningi því árshátíð skólans var fyrirhuguð nú á miðvikudag og fimmtudag. Þess í stað erum við með skertan skóladag og allt niðurnjörfað og skipulagt út í ystu æsar, meira að segja salernisferðirnar. En við látum ekki deigan síga og höldum okkar striki eins og hægt er.

Við höfum fengið ábendingar um það að börn sem ekki eru í sama skólahóp séu að leika eftir skóla og þau gefa sjálf þá skýringu að það megi ef foreldrar leyfi það. Við í skólanum stýrum ekki því sem börnin gera eftir skóla en við hvetjum foreldra eindregið að fara að fyrirmælum yfirvalda þar sem mælst er til þess að börn séu ekki að umgangast önnur börn en þau sem eru með þeim í skólahóp.

Dagur 9

Þá er fyrstu tveimur vikunum lokið eftir að samkomubann var sett á. Nú er komin reynsla á skipulagið sem við settum á fyrir tveimur vikum og starfsfólk skólans búið að vera ótrúlega skapandi og sveigjanlegt í að finna allskonar lausnir til að geta haldið skólastarfinu gangandi og þökkum við þeim fyrir mjög gott starf. Eins viljum við þakka foreldrum fyrir sinn þátt í þessu stóra verkefni, það hefur verið að gott að finna fyrir stuðningi þeirra og skilningi.
En eins og áður sagði er reynsla komin á skipulagið og nýjabrumið að fara af. Þessi stífi rammi og að vissu leyti einangrun sem börnin upplifa hér í skólanum veldur mörgum þeirra álagi og erfitt að halda þetta út allan daginn. Við ætlum því að gera nokkrar breytingar á síðustu vikunni fyrir páskafrí.

Nemendur í 1.-4. bekk verða í skólanum til kl. 12 og 5.-7. bekkur til kl. 11:30. Dægradvölin mun taka við börnum sem skráð eru í dægradvölina kl. 12 og strætóferðin færist til 12:05. Einnig verður strætó ferðinni fyrir 5.-7. bekk flýtt til 11:35.

8.-10. bekkur heldur sínu skipulagi nema við ætlum að færa tímana fram um hálftíma. Unglingarnir verða því frá 12:30-14:30 í skólanum. Vonandi verða þessar breytingar til að að létta álagi á börnin.


Við leggjum okkur fram um að fara að fyrirmælum landlæknis um að halda hópum aðskildum á skólatíma og hafa aldrei fleiri en 20 í hóp. Við hvetjum foreldra til að gera slíkt hið sama og passa að börn úr mismunandi hópum séu ekki saman eftir skóla. Hér er tengill á ráðleggingar landlæknis varðandi það.


Við minnum foreldra sem eru í skilgreindum forgangi starfsfólks í framlínustörfum að mati Almannavarndardeilda, að það þarf að sækja um beiðni um aukna skóla-og leikskólaþjónustu á hverjum föstudegi.


Við erum þakklát foreldrum sem keyra börnin sín og sækja eftir skóla til að auðvelda strætó að halda fjarlægðarmörk í vögnunum. Við bendum þó á að hliðið við Norðurveginn, þar sem strætó stoppar er bilað og verið er að bíða eftir aukahlut í það. Það er ekki ætlast til að ekið sé þar í gegn og að skólanum við Aðalstræti, hvorki á morgnana fyrir 8 né heldur eftir að skóla lýkur. Þetta er skilgreind skólalóð og foreldrar verða að bíða fyrir utan hana.

Dagur 8

1 af 3

Við erum ótrúlega þakklát þegar veðrið er gott eins og núna. Margir hópar nýttu góða veðrið í dag til útivistar og það gerir daginn svo miklu betri þegar hægt er að fara í góða göngutúra og leika í snjónum.

Foreldrar nemenda á unglingastigi eru hvattir til að fylgja þeim vel eftir og veita þeim aðhald og stuðning og hjálpa þeim að skipuleggja tímann sinn svo að heimavinnan verði ekki útundan.

Við biðjum ykkur um að fylgjast vel með póstinum á morgun því við erum að skoða nokkrar breytingar í 1.-7. bekk sem munu verða frá og með næsta mánudegi. Í póstinum í dag fylgdi einnig bréfið frá embætti landlæknis á pólsku og ensku, en það var sent heim á íslensku í gær.

Dagur 7

Það gengur allt sinn vanagang í þessum óvenjulegu aðstæðum.  Það verða samt alltaf einhverjar óvæntar uppákomur og starfsfólk hefur sýnt ótrúlegan sveigjanleika í að takast á við þær.

Skólanum barst í dag bréf frá embætti landlæknis þar sem fram kemur að líkur á smiti frá ungum börnum er töluvert ólíklegra en frá fullorðnum og frekar fátítt.  Þetta byggja þeir á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi og hinum Norðurlöndunum. Þetta þýðir að ekki er tilefni til þess að takmarka skólastarf í frekara sóttvarnarskyni.  

Við viljum benda á að ekki er lengur hægt að bjóða upp á ávextina á morgnana og foreldrar beðnir að senda börnin sín sem hafa verið í áskrift með nesti.

Allir foreldrar fengu póst í fyrradag frá hjúkrunarfræðingi þar sem fram kemur að enn er eitthvað um lús á yngsta stigi.  Nú er lag að koma henni frá og senda í samkomubann - en það gerist ekki nema með samstilltu átaki foreldra sem bera allaf ábyrgð á því að kemba hár barnanna sinna og meðhöndla það finni þeir lús sbr. tölvupóst frá því 23. mars sl.

Ísafjarðarbær hefur ákveðið vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi að endurgreiða marsmánuð frá 16. mars og að engir reikningar verði sendir út fyrir apríl.  Þeir sem eru í annaráskrift fá þennan hluta marsmánaðar endurgreiddan og síðan verðum við að sjá til eftir páska hvernig framhaldið verður.

Í morgun nýttum við okkur blíðviðrið til enn frekari útivistar og gerðu nemendur t.d. margskonar listaverk í snjónum með matarlit, byggðu virki og skúlptúra og renndu sér á þotum þar sem hægt var.

Dagur 6

Við erum alltaf að fara yfir skipulagið okkar og það það eru einhverjar smávægilegar breytingar sem við höfum gert í sambandi við starfsfólkið. Við erum enn að fækka þeim hópum sem kennarar koma að og reynum að hafa það þannig að kennarar fari ekki í fleiri en þrjá hópa og erum búin að skipta skólanum í þrjú svæði og takmörkum eins og hægt er samgang milli þeirra svæða.

Þegar kom að því að skipuleggja fjarkennslu á unglingastiginu bjuggum við auðvitað svo vel að vera frekar tæknivædd fyrir. Krakkarnir þekktu því helstu smáforrit og veflausnir sem þurfti til að sinna sínu námi heima. Krakkarnir eru duglegir að hafa samband og spyrja heilmikið, einnig er gaman að sjá að þau hjálpast að og eru oft búin að svara spurningum hvers annars áður en kennarar ná að svara. Við höfum tekið eftir því að það er rólegra yfir spjallþráðunum á morgnanna en uppúr hádegi og fram yfir kvöldmat er meiri virkni. Krakkarnir njóta þess að geta skipulagt daginn sinn sjálfir. Þrátt fyrir alla erfiðleikana sem fylgja samkomubanninu má sjá að margir nemendur og foreldrar sjá hérna tækifæri til að taka meiri ábyrgð á eigin námi og er það mjög jákvætt. Við hvetjum samt foreldra til að aðstoða krakkana við skipulag á náminu.