Í vikulokin
Nú bíðum við frétta af næstu tilmælum vegna kórónuveirunnar. í upphafi vikunnar vorum við orðin bjartsýn á að geta komið skólastarfinu í eðlilegt horf; tekið inn hringekjur í verkgreinum, valgreinum á mið-og unglingastigi, mötuneytinu í fulla notkun, sem sagt fullan skóladag hjá öllum. Í dag erum við ekki eins bjartsýn og tölurnar yfir smit síðustu daga vekja áhyggjur um að minna verði af tilslökunum en við bjuggumst við. Þetta kemur þó vonandi í ljós um helgina og þið fáið upplýsingar í síðasta lagi á þriðjudaginn.
Við sjáum og finnum það hjá eldri nemendum sem eru alltaf með grímurnar að þeir eru farnir að þreytast á þeim og við skiljum það fullkomlega. Þeir eru búnir að standa sig ótrúlega vel og það er bara þannig að þegar maður er farinn að sjá fyrir endann á erfiðleikum og leiðindum þá eykst óþreyjan og það er að gerast núna. Það gæti reynst þeim erfitt ef það kemur svo í ljós eftir helgi að grímuskyldan verði áfram við lýði. Við höfum verið að ræða við þá að við verðum að standa saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til að hleypa kórónuófétinu ekki af stað hér hjá okkur.
Við vonum það besta en búum okkur undir að það verði ekki gerðar tilslakanir eftir helgi.
Á þriðjudaginn er 1. desember og á þeim degi hefur verið hefð að hafa opið hús. Nú er það ekki í boði en það væri gaman ef nemendur og starfsfólk brjóti upp hversdaginn og mæti í betri fötunum.
Deila