VALMYND ×

Fréttir

Skipulag næstu daga

Nú er að koma mynd á skipulagið hjá okkur fyrir næstu daga. Ljóst er að umtalsverð röskun verður á skóladegi allra nemenda, mismikil þó. Við leggjum áherslu á að halda yngstu börnunum sem mest í skólanum og er það í forgangi hjá okkur.

  • 1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 til 12:40. Frístundin dettur út en Dægradvölin tekur við sínum börnum kl. 12:40.
  • 5.-7. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 – 12:15 alla daga.
  • 8. og 9. bekkur mætir 2.-3. í viku frá frá kl. 13:00-15:00. Umsjónarkennarar senda nánari útærslu.
  • 10.bekkur mætir alla daga milli 13:00 og 15:00.

Mötuneytið verður lokað og nemendur í 1.-7. bekk þurfa að hafa morgunnesti og hádegisnesti ef þurfa þykir. Allar íþrótta- og verkgreinar verða með öðrum hætti og þurfa nemendur ekki að taka með sér íþrótta- og sundföt.

Strætóferðir verða á sama tíma að morgni en við hvetjum foreldra að keyra börn sín og best ef hægt er að hafa sveigjanlega skólabyrjun frá 7:45 til 8:20.  Engar seinkomur verða skráður fyrr en eftir 8:20. Einnig viljum við vekja athygli á því að þar sem nemendur sem búa í Miðtúni og innar í  firðinum og þeir sem búa í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri og aðrir ekki. Þá mun strætisvagninn ekki stoppa á stoppstöðvum við bókasafnið, Seljalandsvegi (nema við Miðtúnsbrekkuna) og Krók. Þetta er gert til að reyna að viðhalda leyfilegum hámarksfjölda í þessum aðstæðum.

  • Strætó fer frá skólanum 12:20 fyrir miðstigið,
  • 12:50 fyrir þá sem ekki fara í Dægradvöl á yngsta stigi.
  • Strætó verður einnig fyrir unglingana 12:50 úr Holtahverfi og 12:40 úr Hnífsdal og frá skólanum kl. 15:10

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta hefur mikil áhrif á daglegt líf fjölskyldna en þetta eru þær aðstæður sem við búum við í dag og leggjum við okkur fram um að framfylgja fyrirmælum sem yfirvöld setja okkur eins og t.d. hámark nemenda í hverjum námshóp er 20.  Hóparnir mega aldrei hittast og verða alltaf að vera í sama rými.

Helstu einkenni Covid 19 sjúkdómsins eru hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta og slappleiki. Sýni nemendur þessi einkenni á að halda þeim heima. Ef nemendur hafa verið veikir og þurfa að vera inni í frímínútum þá er mælst til að þeir verði heima.

Við vonumst til að allir hafi skilning á þessum aðstæðum og að með þessum aðgerðum leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að hægja á framgangi veirunnar.

Foreldrar eru beðnir um að takmarka heimsóknir í skólann og nýta síma og tölvupóst til samskipta.

Eins og þetta sé ekki nóg þá er veðurspáin fyrir morgundaginn mjög slæm.  Ef hún gengur eftir verður aðeins lágmarksþjónusta í skólanum og þeir foreldrar sem geta haft börn sín heima eru hvattir til þess. Við minnum á að hægt er að tilkynna slík forföll á einkaskilaboðum á facebook síðu skólans eða hringja í skólann í fyrramálið.

Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við umsjónarkennara barna ykkar og eins mun heimasíðan og facebook síðan verða reglulega uppfærðar, þar sem viðbúið er að eitthvað eigi enn eftir að breytast.

Þessar upplýsingar eru nú í þýðingum yfir á ensku, pólsku og thaílensku og verða sendar í tölvupósti á foreldra um leið og hægt er. 

Undurbúningur hafinn vegna samkomubanns

Við erum byrjuð á undirbúningi á skipulagi skólastarfsins til að mæta samkomubanninu sem sett hefur verið á vegna Covid 19 veirunnar. Það er í mörg horn að líta og alveg ljóst að röskun verður á skólastarfinu, t.d. bara það að nemendur mega aldrei vera fleiri en 20 í hóp og hóparnir mega ekki hittast kallar á ýmsar breytingar. Við ætlum að leggja okkur fram og gera það sem er í okkar valdi til að hægja á framgangi veirunnar. Nú sem endranær náum við bestum árangri með góðu samstarfi heimila og skóla og þegar við leggjumst öll á eitt þá getum við svo margt. Það eru mismunandi aðstæður hjá nemendum og ef einhverjir foreldrar vilja halda börnunum sínum heima t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma hjá börnum eða aðstandendum þá höfum við fullan skilning á því. Þeir foreldrar sem kjósa að hafa börnin sín heima hafi samband við skólann (umsjónarkennara) og það verður komið til móts við þau börn með heimanámi og fjarkennslu.

Á morgun er starfsdagur í skólanum og þið fáið upplýsingar seinni partinn þegar við verðum búin að leggja línurnar. Við verðum að taka einn dag í einu og við komum til ykkar upplýsingum í tölvupósti, hér á heimasíðu skólans og facebook síðunni.

Skipulagsdagur á mánudag

Vegna tilmæla um samkomubann og þeirrar röskunar á skólastarfi sem það hefur í för með sér verður skipulagsdagur starfsfólks í skólanum mánudaginn 16. mars og þar af leiðandi engin kennsla. 

Takmarkað skólahald

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið auk þess sem sett hefur verið á samkomubann sem gildir frá og með mánudeginum 16. mars kl 00:00 til og með 13. apríl kl. 00:00. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Í leik- og grunnskólum verður sett hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er.

Það er ljóst að við þurfum að gera sérstakar ráðstafanir til að fara eftir þessum fyrirmælum, t.d. hvað nemendafjölda í kennslustofum snertir, matsal, frímínútum og strætó, svo dæmi séu tekin. Farið verður í nánara skipulag á morgun og munum við uppfæra fréttir hér á heimasíðunni um leið og hægt er og senda tölvupóst til foreldra.

 

Samræmd könnunarpróf að baki

Í morgun lauk síðasta samræmda könnunarprófinu hjá 9. bekk, en árgangurinn hefur þreytt próf í íslensku, stærðfræði og ensku síðustu daga. Fyrirlögnin gekk eins og best verður á kosið og engir tæknilegir örðugleikar. Nemendum var skipt í tvo hópa þar sem fyrri hópurinn tók prófið kl. 8:20 og sá seinni um leið og fyrri hópurinn lauk sínu prófi. Nemendum var boðið upp á morgunverð kl. 8:00 áður en próftaka hófst.

Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar.

 

Upplýsingar vegna neyðarstigs almannavarna

Þar sem neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna COVID-19 kórónaveirunnar viljum við koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

  • Skólinn mun halda uppi starfsemi eins lengi og unnt er.
  • Markmið er að starfsmenn skóla haldi áfram störfum þó að nemendur eða starfsfólk sé sent heim vegna sóttvarnarráðstafana.
  • Kennarar eru að undirbúa fjarkennslu og heimanám ef til þess kemur.
  • Í skólanum hefur handspritti verið komið fyrir við aðalinngang skólans og við matsal, auk allra salerna í skólanum.
  • Leiðbeiningar um hvernig draga megi úr sýkingarhættu hefur verið komið fyrir á nokkrum stöðum í skólanum (á íslensku, ensku og pólsku).
  • Kennarar hafa farið yfir handþvott með nemendum.
  • Lögð er áhersla á að þrífa vel yfirborðsfleti, svo sem handrið, hurðarhúna, ljósarofa og fleira.
  • Nemendum í mötuneyti er skammtað á diskana til að draga úr smithættu.

    Í ljósi aðstæðna höfum við ákveðið að fresta árshátíð skólans að sinni og munum við taka stöðuna eftir páska.

    Það er mikilvægt samfélagslegt verkefni að tryggja að menntun og skólahald líði sem minnst fyrir þessar aðstæður og því treystum við á góða samvinnu heimila og skóla nú sem endranær.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum

Anna María Ragnarsdóttir, Jóhann Ingi Guðmundsson og Dagný Rut Davíðsdóttir höfnuðu í þremur efstu sætunum
Anna María Ragnarsdóttir, Jóhann Ingi Guðmundsson og Dagný Rut Davíðsdóttir höfnuðu í þremur efstu sætunum
1 af 2

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tólf nemendur frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla. Fyrir hönd G.Í. lásu þau Anna María Ragnarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Guðríður Vala Atladóttir, Hjálmar Helgi Jakobsson, Kolbrún María Ármannsdóttir, Patrekur Bjarni Snorrason og Sigurður Oddur Steinþórsson.

Dómarar þetta árið voru þau Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Dagný Annasdóttir, Dagný Arnalds, Kristbjörg Sunna Reynisdóttir og Þorleifur Hauksson og var fundarstjórn í höndum Stefaníu Ásmundsdóttur, sviðsstjóri Skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar. Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri á Suðureyri, flutti hugleiðslu varðandi lestur og Heiður Hallgrímsdóttir sigurvegari keppninnar í fyrra kynnti skáld keppninnar.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Jóhann Ingi Guðmundsson frá Grunnskóla Bolungarvíkur sigraði, Dagný Rut Davíðsdóttir G.Í. hafnaði í 2. sæti og Anna María Ragnarsdóttir G.Í. í því 3. Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ekki má heldur gleyma þeim kennurum sem hafa séð um þjálfun þeirra ásamt foreldrum, árangurinn er einnig þeirra. 

Boðað verkfall FOSVEST

Aðildarfélög BSRB hafa boðað til verkfallsaðgerða hjá 13 aðildarfélögum á landinu og er FOSVEST þar á meðal. Allsherjarverkfall er boðað dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31.mars og 1.apríl.

Ef af verkfalli verður hefur það áhrif á starfsemi okkar þar sem 8 af okkar starfsmönnum eru í FOSVEST. Þjónusta okkar mun að sjálfsögðu skerðast, en sem betur fer er ekki þörf á að halda neinum nemendum heima. Íþróttahúsin bæði verða lokuð ásamt sundlauginni og eiga nemendur því að mæta í skólahúsnæðið sjálft í þeim tímum.

Afrakstur þemadaga

Á þemadögum í febrúar voru unnin margvísleg skemmtileg verkefni. Unglingastigið fjallaði um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og valdi hver hópur sér ákveðið markmið til að vinna með. Afraksturinn má sjá hér þar sem sköpunargleði nemenda fær notið sín til fulls.

Upplýsingar varðandi kórónaveiruna

Vegna óvissustigs varðandi COVID-19 kórónaveiruna vill skólahjúkrunarfræðingur vekja athygli á viðbrögðum heilsugæslunnar varðandi veiruna:

Ekki koma beint á heilsugæslustöð, hringdu fyrst

Til að draga úr smithættu er fólki sem hefur ástæðu til að ætla að það hafi sýkst af kórónaveirunni, bent á að hringja á heilsugæsluna á opnunartíma eða í vaktsímann 1700 sem er opinn allan sólarhringinn og fá leiðbeiningar. 

Fólk sem hefur einkenni sjúkdómsins á ekki að koma á heilsugæsluna eða bráðamóttöku beint heldur hringja og fá ráðleggingar. Helstu einkenni eru hiti, hósti, beinverkir og öndunarerfiðleikar.

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit.

Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Hér í skólanum er handsápa og handspritt á öllum salernum og í matsal og hvetjum við alla til að nýta það.

Einnig er bent á vef Embættis landlæknis þar sem hægt er að nálgast nýjustu upplýsingarnar um veiruna hverju sinni.

Höfum svo í huga að fréttir varðandi þennan faraldur geta komið illa við börn og jafnvel valdið kvíða. Við vitum að þó veiran breiðist hratt út að þá er líklegt að fólk sem er hraust fyrir nái sér af veikinni en dauðsföll hafa aðallega orðið hjá þeim sem eru veikari fyrir eða hafa haft undirliggjandi sjúkdóma.