VALMYND ×

Fréttir

Þemadagar og vetrarfrí

Fimmtudaginn 13. febrúar er ætlunin að hafa þemadag fyrir alla nemendur skólans, en 1.-4.bekkur verður einnig í þemavinnu á miðvikudeginum. Yfirskriftin að þessu sinni er umhverfið og umhverfisvernd og munu nememendur vinna í hópum ýmis verkefni þessu tengd. Nemendum er blandað saman innan hvers stigs, þannig að nemendum á yngsta stigi er blandað saman, nemendum miðstigs blandað saman unglingastigið saman. Skólatími er eins og venjulega og valgreinar unglingastigs eftir hádegi halda sér.

Vetrarfríið okkar er svo föstudaginn 14. og mánudaginn 17. febrúar.

Ferðir strætó á áætlun

Ferðir strætisvagna eru samkvæmt áætlun í dag. 5.bekkur mætir á Torfnes í íþróttir núna kl.8:00 og fær akstur til baka í skólann kl. 9:20. Við fylgjumst með og tökum stöðuna þá með næstu íþróttahópa sem fara á Torfnes.

Sunnan stormur í kortunum

Nú er gul viðvörun í gangi fyrir morgundaginn, þar sem gert er ráð fyrir sunnan 18-23 m/s með vindhviðum allt að 35-40 m/s. Slíkur vindur er varasamur ökutækjum sem taka á sig mikinn vind og hvetjum við alla til að sýna aðgát í fyrramálið og fylgjast með tilkynningum hjá Strætisvögnum Ísafjarðar og Facebook síðu Lögreglunnar á Vestfjörðum.

Handbók fyrir aðstandendur

Mentor hefur gefið út nýja handbók fyrir aðstandendur og hvetjum við alla til að kynna sér hana hér, en hún er einnig vistuð undir foreldrahnappnum hér að ofan.

Lestrarátak

Í dag hefst lestrarátak hjá okkur, en það er eitt af þeim úrræðum sem lagt er til í Lestrarstefnu Ísafjarðarbæjar, til að efla lesfimi nemenda. Átakið stendur yfir alla þessa viku að lágmarki og útfæra kennarar það á ýmsan hátt. Sem dæmi ætlar 8.bekkur að fá góða gesti á hverjum degi fram að vetrarfríi til að ræða vítt og breitt um bækur og lestur, auk þess sem nemendur lesa daglega í skólanum.

Við hvetjum alla til að taka þátt í þessu með okkur, bæði nemendur og aðstandendur og bendum t.d. á bækling frá Heimili og skóla um lestrarnám.

Vinaliðum þökkuð vel unnin störf

Vinaliðar ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, sem haldið hefur utan um Vinaliðaverkefnið
Vinaliðar ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, sem haldið hefur utan um Vinaliðaverkefnið
1 af 2

Allt frá haustinu 2014 hefur Grunnskólinn á Ísafirði verið þátttakandi í hinu svokallaða Vinaliðaverkefni sem er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Einnig miðar það að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur í 4.-6. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang í frímínútum og taka til eftir leikina.

Verkefnið er norskt að uppruna og í dag eru um 1400 grunnskólar í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem taka þátt í því, en Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli hér á landi. Verkefnið hlaut hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2018 og hefur sannað gildi sitt í þeim skólum sem hafa innleitt það.

Nemendur G.Í. hafa verið duglegir í haust að taka þátt í verkefninu og hafa margir nemendur starfað sem vinaliðar. Á dögunum var uppskeruhátíð þeirra sem voru að ljúka störfum og var hópnum þökkuð vel unnin störf og að því loknu var þeim boðið upp á hressingu og skemmtilega afþreyingu. Nýr hópur vinaliða mun fá þjálfun á næstu vikum og tekur svo til starfa að því loknu.

40. þorrablót 10.bekkjar að baki

10.bekkur prúðbúinn á þorrablóti
10.bekkur prúðbúinn á þorrablóti
1 af 4

Í kvöld buðu foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldum mættu í sínu fínasta pússi og áttu saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans. Skemmtiatriði voru í boði foreldra og starfsmanna, auk þess sem gömul og þjóðleg lög voru sungin yfir borðhaldinu.

Að borðhaldi loknu var stiginn dans við undirleik þeirra Benedikts Sigurðssonar, Helga Hjálmtýssonar og Jóns Hallfreðs Engilbertssonar. Dansinum stýrði Hlíf Guðmundsdóttir, fyrrverandi kennari við GÍ, en hún hefur stýrt dansæfingum 10.bekkjar undanfarnar vikur ásamt Sveinbirni Björnssyni og boðið foreldrum upp á upprifjun á gömlu dönsunum, í fjarveru Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. Æfingarnar komu sér svo sannarlega vel í kvöld þar sem þorrablótsgestir dönsuðu stanslaust í tvær klukkustundir og ekki var að sjá neitt kynslóðabil á dansgólfinu.

Þorrablót þetta hefur verið haldið allt frá árinu 1981 og var þetta því 40. blótið. Þetta er svo sannarlega skemmtileg hefð sem allir njóta og verður vonandi viðhaldið um ókomin ár.

Foreldraviðtöl

Miðvikudaginn 29. janúar eru seinni foreldraviðtöl vetrarins. Búið er að opna fyrir bókanir þar sem foreldrar geta valið sér þann tíma sem best hentar hverjum.

Nýtt borðtennisborð

8.bekkingar sýna góð tilþrif
8.bekkingar sýna góð tilþrif
1 af 2

Í síðustu viku var vígsla á nýju borðtennisborði, sem skólinn festi kaup á fyrir unglingana okkar. Borðið hefur vakið mikla lukku og er mikið notað í frímínútum. Í morgun voru 8.bekkingar að leika í frímínútunum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Nokkrum strákum í 7. bekk datt þá það snjallræði í hug að raða saman nokkrum borðum í sinni stofu og útbúa hið fínasta borðtennisborð. 

Það er ljóst að borðtennisborðið á eftir að nýtast vel, enda hefur það verið í notkum í öllum frímínútum og virkilega gaman að sjá tilþrifin.

Engar strætóferðir í skólalok

Allur akstur Strætisvagna Ísafjarðar liggur niðri. Aðstæður verða næst skoðaðar klukkan 15:00.
Foreldrar eru beðnir um að sækja börn sín í skólann í lok skóladags.