VALMYND ×

Fréttir

Djákninn á Myrká

Í morgun var 3. - 5. bekk boðið upp á tónverkið Djákninn á Myrká eftir Huga Guðmundsson, en verkið hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um barnaverk á Norrænum Músíkdögum í Finnlandi árið 2013. Tónlistarhópurinn Djákninn flutti verkið, en hópinn skipa þeir Sverrir Guðjónsson sögumaður, Pétur Jónasson gítarleikari, Haukur Gröndal klarinettleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari.

Tónverkið er á vegum verkefnisins List fyrir alla, sem er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Stefnt er að því að yfir tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytileika listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Fullveldisdagurinn

Á morgun fögnum við 1.des., en hann ber upp á sunnudag þetta árið. Við bjóðum foreldra og forráðamenn sérstaklega velkomna í heimsókn til okkar og verðum með verk nemenda sýnileg. Einnig hvetjum við nemendur og starfsfólk til að klæðast betri fötunum til að auka á hátíðleikann.

Annað kvöld sýnir svo leiklistarval skólans verkið Útskriftarferðin kl. 20:00 og hvetjum við sem flesta til að mæta.

Leiksýning

Föstudaginn 29. nóvember sýnir leiklistarval skólans leikritið Útskriftarferðin eftir Björk Jakobsdóttur. Um 20 nemendur koma að sýningunni á einn eða annan hátt og er Elín Sveinsdóttir, leikstjóri, en hún er leiklistarkennari hér við skólann.

Sýningin hefst kl. 20:00 í sal skólans og er almennt miðaverð kr. 1.000 en kr. 800 fyrir eldri borgara, en frítt fyrir börn 5 ára og yngri.

Umræðufundur

1 af 2

Í gær fór fram umræðufundur starfsfólks skóla, Frístundar, Dægradvalar og foreldra nemenda í 1. - 3. bekk, varðandi bætt samskipti. Markmið fundarins var að bæta skólabraginn og þá menningu sem er í hópnum.

Mjög góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar og góðar umræður. Við munum nú taka saman allar þær góðu hugmyndir sem settar voru niður og kalla til undirbúningshópinn sem stofnaður var, til að vinna frekar úr þeim.

Við viljum enn og aftur þakka foreldrum sérstaklega fyrir góð viðbrögð við þessu ákalli okkar, því án þeirra fáum við litlu áorkað.

Allt í köku!

Nemendum okkar er ýmislegt til lista lagt. Í gær fóru krakkarnir í heimilisfræði í 8.bekk heim með dýrindis kökur, sem þeir höfðu bakað og skreytt undir handleiðslu Guðlaugar Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Miðað við þessa frumraun hópsins má búast við ýmsu af þessum krökkum í framtíðinni þegar kemur að kökugerð. Vel gert krakkar!

Átak um bætt samskipti

Nú er að fara af stað átak um bætt samskipti, hegðun og framkomu í 1.-3. bekk. Við viljum byggja upp jákvæð samskipti með það að markmiði að bæta skólabraginn og þá menningu sem er í hópnum. Undirbúningshópur starfsmanna skóla, Frístundar, Dægradvalar og fulltrúa foreldra hefur verið að störfum og leggur til að allir foreldrar, ásamt starfsfólki hittist á umræðufundi þann 25. nóvember  kl. 17:00 í sal skólans. 10. bekkur mun bjóða upp á barnapössun (endurgjaldslaust) í dansstofunni á meðan fundinum stendur, fyrir þá sem það vilja. Það er mjög mikilvægt að sem flestir mæti því með samstilltu átaki getum við bætt skólabraginn.

Dagur íslenskrar tungu

1 af 4

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur um allt land þann 16. nóvember ár hvert, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í þetta skiptið bar daginn upp á laugardag og því var ákveðið að færa dagskrá skólans til dagsins í dag. Nemendur 4. og 7. bekkjar hittust í Hömrum í morgun, þar sem Heiður Hallgrímsdóttir úr 8. bekk las sögubút, en hún sigraði í Stóru upplestrarkeppninni í vor. Einnig flutti Guðrún Eva Bjarkadóttir úr 8. bekk ljóð, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar.

Agnes Elísabet Sindradóttir úr 7. bekk lék á fiðlu og Andri Pétur Zakarías Ágústsson lék á trommur, auk þess sem Sveinfríður Olga Veturliðadóttir lék undir fjöldasöng og flutti ávarp, þar sem hún setti formlega Stóru og Litlu upplestrarkeppnina.

Í morgun hófst einnig lestrarátak hér í skólanum, þar sem við hvetjum alla nemendur og starfsmenn til að lesa sem mest þessa vikuna að minnsta kosti og ekki væri verra að fá heimilin með.

Starfsdagur

Föstudaginn 15. nóvember er starfsdagur hér í skólanum, en Dægradvöl verður opin frá kl. 13:20 - 16:00.

Nemendaþing um samskipti

Í morgun var nemendaþing hér í skólanum þar sem nemendur 6. - 10. bekkjar fjölluðu um samskipti. Um 170 nemendum var skipt í 17 hópa, þar sem þjálfaðir borðstjórar úr 9. og 10. bekk stýrðu umræðum. Teknar voru fyrir spurningarnar hvað eru góð samskipti, hvað eru ekki góð samskipti, hvað geta nemendur gert til að bæta samskipti og hvað geta starfsmenn gert til að bæta samskipti. Borðstjórar gættu þess að allir væru virkir í hópunum og drógu svo saman niðurstöður sem kynntar voru fyrir nemendum, starfsfólki og foreldrum.

Niðurstöður allra hópa verða nú teknar saman og þeim komið á framfæri síðar.

Nemendaþing

Frá nemendaþingi haustið 2017 þegar fjallað var um samskiptamiðla
Frá nemendaþingi haustið 2017 þegar fjallað var um samskiptamiðla

Á degi gegn einelti, þann 8. nóvember munu nemendur í 6.-10. bekk sækja nemendaþing hér í skólanum undir yfirskriftinni samskipti. Nemendur vinna í hópum og er hver hópur með hópstjóra sem hefur fengið tilsögn í því hlutverki ásamt fundarstjórn. Þingið fer fram í miðlotunni þ.e. á milli kl. 9:40 og 11:00.

Við bjóðum foreldrum að koma kl. 11:15 og hlusta á kynningar á niðurstöðum þingsins og vonumst til að sem flestir sjái sér fært að koma.

Þetta er fjórða nemendaþingið sem við höldum, en áður höfum við fjallað um hlutverk, jafnrétti og samskiptamiðla.