VALMYND ×

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

1 af 4

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur um allt land þann 16. nóvember ár hvert, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í þetta skiptið bar daginn upp á laugardag og því var ákveðið að færa dagskrá skólans til dagsins í dag. Nemendur 4. og 7. bekkjar hittust í Hömrum í morgun, þar sem Heiður Hallgrímsdóttir úr 8. bekk las sögubút, en hún sigraði í Stóru upplestrarkeppninni í vor. Einnig flutti Guðrún Eva Bjarkadóttir úr 8. bekk ljóð, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar.

Agnes Elísabet Sindradóttir úr 7. bekk lék á fiðlu og Andri Pétur Zakarías Ágústsson lék á trommur, auk þess sem Sveinfríður Olga Veturliðadóttir lék undir fjöldasöng og flutti ávarp, þar sem hún setti formlega Stóru og Litlu upplestrarkeppnina.

Í morgun hófst einnig lestrarátak hér í skólanum, þar sem við hvetjum alla nemendur og starfsmenn til að lesa sem mest þessa vikuna að minnsta kosti og ekki væri verra að fá heimilin með.

Starfsdagur

Föstudaginn 15. nóvember er starfsdagur hér í skólanum, en Dægradvöl verður opin frá kl. 13:20 - 16:00.

Nemendaþing um samskipti

Í morgun var nemendaþing hér í skólanum þar sem nemendur 6. - 10. bekkjar fjölluðu um samskipti. Um 170 nemendum var skipt í 17 hópa, þar sem þjálfaðir borðstjórar úr 9. og 10. bekk stýrðu umræðum. Teknar voru fyrir spurningarnar hvað eru góð samskipti, hvað eru ekki góð samskipti, hvað geta nemendur gert til að bæta samskipti og hvað geta starfsmenn gert til að bæta samskipti. Borðstjórar gættu þess að allir væru virkir í hópunum og drógu svo saman niðurstöður sem kynntar voru fyrir nemendum, starfsfólki og foreldrum.

Niðurstöður allra hópa verða nú teknar saman og þeim komið á framfæri síðar.

Nemendaþing

Frá nemendaþingi haustið 2017 þegar fjallað var um samskiptamiðla
Frá nemendaþingi haustið 2017 þegar fjallað var um samskiptamiðla

Á degi gegn einelti, þann 8. nóvember munu nemendur í 6.-10. bekk sækja nemendaþing hér í skólanum undir yfirskriftinni samskipti. Nemendur vinna í hópum og er hver hópur með hópstjóra sem hefur fengið tilsögn í því hlutverki ásamt fundarstjórn. Þingið fer fram í miðlotunni þ.e. á milli kl. 9:40 og 11:00.

Við bjóðum foreldrum að koma kl. 11:15 og hlusta á kynningar á niðurstöðum þingsins og vonumst til að sem flestir sjái sér fært að koma.

Þetta er fjórða nemendaþingið sem við höldum, en áður höfum við fjallað um hlutverk, jafnrétti og samskiptamiðla.

Hrekkjavökuball

Í gær var Halloween ball hjá unglingastigi skólans. Mikið var lagt í skreytingar og búninga og sjálfsagt ekki fyrir mjög viðkvæma að vera á svæðinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það var mikil stemning og gaman að sjá hvað allir tóku höndum saman um að gera þetta sem skemmtilegast. Einnig má bæta því við að starfsmenn voru einstaklega hrifnir af tónlistarsmekk unglinganna.

Hrekkjavaka

Foreldrafélag grunnskólans stendur fyrir hrekkjavöku þriðjudaginn 5. nóvember fyrir 1.-7. bekk. Fyrir 1.-4. bekk verður hrekkjavökuball milli 17:00 og 18:30 og fyrir 5.-7. bekk milli 18:30 og 20:00. Pizzusneiðar á kostnaðarverði og nokkrar stöðvar með ólíkum þrautum. Hvetjum börn sem foreldra til að mæta í búningum.

Skáld í skólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Í ár fara 6 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra. Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Á morgun koma þau Linda Ólafsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson í heimsókn í 1. - 4. bekk með sinn hluta af dagskránni. Linda er teiknari og barnabókahöfundur og hefur myndskreytt fjölda bóka, m.a. Íslandsbók barnanna, Móa hrekkjusvín, Dúkku og sitt eigið höfundaverk, LEIKA?. Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og má þar nefna tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Fyrir Íslandsbók barnanna fékk Linda heiðurssæti á lista IBBY 2018. Vilhelm Anton Jónsson er söngvari og tónlistarmaður, kvikmyndaleikari og þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi og þar að auki barnabókahöfundur. Árið 2013 sendi hann frá sér fyrstu Vísindabók Villa og nú sex árum síðar eru hinar vinsælu vísindabækur orðnar fimm talsins, þ.á m. Vísindabók Villa: truflaðar tilraunir og Vísindabók Villa: geimurinn og geimferðir sem hann skrifaði með Sævari Helga Bragasyni.

Bakstur í 3.bekk

Fjölbreytt sköpun
Fjölbreytt sköpun
1 af 4

Þessa dagana eru skipti á hópum í verkgreinum. ,,Útskriftarverkefni” þriðju bekkinga í heimilisfræði var bakstur, þar sem nemendur fengu þau fyrirmæli að móta dýr. Sum dýrin voru mjög framandi, komin frá fjarlægum slóðum eins og til dæmis skjaldbaka, krókódíll, breiðnefur og leðurblaka. Önnur komu frekar úr nærumhverfi barnanna eins og til dæmis selurinn frá Hvítanesi og hinn kafloðni heimilishundur Húgó. Þarna mátti líka sjá annan hund, átvaglið hann Kára sem ræðst iðulega á bakstur barnanna á heimilinu og étur hann upp til agna, með skreyttum pokanum.

Meðfylgjandi myndir tók Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, af afrakstri nemendanna.

Starfsdagur í næstu viku

Starfsdagur alls starfsfólks Ísafjarðarbæjar verður fimmtudaginn 24. október milli klukkan 12.30 og 16.00 í íþróttahúsinu á Torfnesi. Starfsdagurinn er ekki hluti af innra starfi stofnana bæjarins, líkt og hefðbundnir starfsdagar eru, og í einhverjum tilvikum er hann því ekki skráður t.d. á skóladagatöl. Hver og ein stofnun ákveður lokunartíma, enda getur hann verið mismunandi eftir vegalengd á milli staða.
Dagurinn samanstendur af fyrirlestrum og verkefnavinnu með þann tilgang að stuðla að því að starfsfólk Ísafjarðarbæjar nái góðri stjórn á streitu, líðan, verkefnum og einbeitingu.

Skólastarfi lýkur kl. 12:00 þennan dag og munu þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá að borða fyrir þann tíma. Strætó fer frá skólanum kl. 12:00.