VALMYND ×

Fréttir

Íslandsmótið í Boccia

Ívar íþróttafélag fatlaðra, hélt Íslandsmótið í Boccia um síðustu helgi hér á Ísafirði. Nemendur í 8. og 9. bekk G.Í. tóku að sér dómgæslu og aðstoðuðu við mótið, en Boccia hefur verið valgrein hjá þeim í vetur og var mótið hluti af því námi.

Mótsstjórn sendi nemendum þakklætiskveðjur og sögðu þá hafa sýnt framúrskarandi viðmót og staðið sig frábærlega.

Nýtt nemendaráð

Nemendaráð er kosið árlega af nemendum í 8.-10. bekk, en það vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Í síðustu viku fór fram kosning og voru þessir nemendir valdir:

8.bekkur

Berglind Sara Friðbjörnsdóttir

Kristján Eðvald Ragnarsson

Sveinfríður Sigrún Stefánsdóttir

Tómas Elí Vilhelmsson

 

9.bekkur

Agnes Þóra Snorradóttir

Brynja Dís Höskuldsdóttir

Hörður Christian Newman

Jón Haukur Vignisson

 

10.bekkur

Halla María Ólafsdóttir

Lilja Borg Jóhannsdóttir

Stefán Freyr Jónsson

 

Við óskum þessum nemendum til hamingju og hlökkum til að starfa með þeim í vetur.

 

Samræmd könnunarpróf

Í morgun lauk samræmdu könnunarprófi í stærðfræði hjá 4. bekk, en íslenskuprófið var í gær. Fyrirlögnin gekk eins og best verður á kosið og er sömu sögu að segja af 7. bekk, sem þreytti prófin í síðustu viku.

Nemendur stóðu sig vel í þessum prófum og erum við viss um að allir hafi gert sitt besta. Við munum svo eiga von á niðurstöðum í lok október.

Tímapantanir í foreldraviðtöl

Á miðvikudaginn í næstu viku verða foreldraviðtöl hjá okkur, þar sem foreldrar mæta í viðtöl til umsjónarkennara ásamt börnum sínum. Foreldrar velja sér tíma í gegnum Mentor og verður opnað fyrir skráningar kl. 8:00 í fyrramálið.

Kynning frá Rannsóknum og greiningu

Í kvöld mun Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu koma til okkar og kynna fyrir foreldrum niðurstöður á rannsóknum á högum ungmenna hér fyrir vestan. Ungt fólk rannsóknarröðin nær yfir öll börn og ungmenni á Íslandi í 5.-10. bekkjum grunnskóla og eru um 4000 þátttakendur á ári hverju. Í könnuninni eru lagðar fyrir spurningar um fjölskylduaðstæður, stuðning foreldra og jafningja, skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, neyslu vímuefna, árangur í námi, félagslegar aðstæður og fleira.Það er mjög áhugavert fyrir alla foreldra að mæta á kynninguna,  því oft skapast mjög góðar umræður meðal foreldra um þessi mál. Það eru t.d. blikur á lofti varðandi aukna vímuefnaneyslu unglinga og þurfum við að taka höndum saman áður en hún verður meiri.  Kynningin verður í sal GÍ í kvöld kl. 20:00.

Gangapassinn í notkun

1 af 3

Í vetur ætlum við að fara af stað með svokallaðan gangapassa til að vekja nemendur til umhugsunar um umgengni. Handhafi passans fer með umsjónarbekkinn sinn a.m.k. tvisvar í þeirri viku um skólann að raða skóm í hillur, tína upp rusl af gólfi, hengja upp úlpur og slíkt.

6.AY hóf yfirferð sína um skólann í dag og var virkilega gaman að sjá ganga skólans eftir þeirra góðu störf, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Sjálfstyrking

Elísabet Lorange  (Mynd: vimulaus.is)
Elísabet Lorange (Mynd: vimulaus.is)

Þessa viku hefur Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur, verið í heimsókn hjá okkur og haldið sjálfstyrkingar- og samskiptanámskeið fyrir nemendur í 5. og 8. bekk. Við höfum mjög góða reynslu af störfum hennar undanfarin ár, þar sem hún nær mjög vel til nemendahópa og vinnur með eflingu sjálfsmyndar og samskiptahæfni.

Elísabet útskrifaðist sem kennari frá KHÍ árið 1997 og lauk MA í listmeðferð árið 2005 frá University of Hertfordshire. Hún hefur unnið með börnum, unglingum og fullorðnum í einstaklings- og hópmeðferð síðastliðin 10 ár ásamt því að hafa stýrt ýmiss konar námskeiðum. Einnig hefur hún nokkurra ára reynslu sem kennari og hefur verið með námskeið í Foreldrahúsi og Ljósinu.

 

Starfsdagur

Samkvæmt skóladagatali eru 5 starfsdagar kennara á starfstíma nemenda, með hliðsjón af kjarasamningum. Sá fyrsti er nú á föstudaginn, þegar kennarar í Kennarasambandi Vestfjarða hittast á Birkimel á Barðaströnd og halda sinn aðalfund og hlýða á faglega fyrirlestra. Þetta er því sameiginlegur starfsdagur allra skóla á Vestfjörðum.

Það er því engin kennsla föstudaginn 6. september, en Dægradvöl er opin frá kl. 13:20 - 16:00.

Sterkari út í lífið

Í upphafi skólaárs er gott fyrir alla sem koma að uppeldi barna að huga að verkfærum til að hjálpa börnunum við að byggja sig upp. 

Heimasíðan Sterkari út í lífið inniheldur fróðleik og verkfæri sem auðveldar foreldrum og fagaðilum samtöl um ýmislegt sem snertir sjálfsmynd barna og unglinga. Inni á síðunni er verkfærakista fyrir samtöl og æfingar sem styrkja sjálfsmynd barna og unglinga.

Við hvetjum alla uppalendur til að kíkja inn á síðuna og nýta sér þetta góða efni sem þar er.

 

Útivistardagar

Veðrið leikur við okkur þessa dagana og kemur það sér aldeilis vel í þeim fjallgöngum sem standa nú yfir. Í morgun sigldu 10.bekkingar norður á Hesteyri og ganga þaðan yfir Sléttuheiði að Sæbóli í Aðalvík þar sem þeir gista í tjöldum í nótt. Árgangurinn kemur svo siglandi þaðan á morgun.

4.bekkur gekk upp í Naustahvilft í morgun í blíðviðrinu og 9.bekkur gekk upp á Kistufell eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en það er 781 m.y.s.  Á næstu dögum munu svo þeir árgangar sem eftir eru grípa einhvern góðviðrisdaginn til sinnar fjallgöngu.