VALMYND ×

Fréttir

Sjálfstyrking

Elísabet Lorange  (Mynd: vimulaus.is)
Elísabet Lorange (Mynd: vimulaus.is)

Þessa viku hefur Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur, verið í heimsókn hjá okkur og haldið sjálfstyrkingar- og samskiptanámskeið fyrir nemendur í 5. og 8. bekk. Við höfum mjög góða reynslu af störfum hennar undanfarin ár, þar sem hún nær mjög vel til nemendahópa og vinnur með eflingu sjálfsmyndar og samskiptahæfni.

Elísabet útskrifaðist sem kennari frá KHÍ árið 1997 og lauk MA í listmeðferð árið 2005 frá University of Hertfordshire. Hún hefur unnið með börnum, unglingum og fullorðnum í einstaklings- og hópmeðferð síðastliðin 10 ár ásamt því að hafa stýrt ýmiss konar námskeiðum. Einnig hefur hún nokkurra ára reynslu sem kennari og hefur verið með námskeið í Foreldrahúsi og Ljósinu.

 

Starfsdagur

Samkvæmt skóladagatali eru 5 starfsdagar kennara á starfstíma nemenda, með hliðsjón af kjarasamningum. Sá fyrsti er nú á föstudaginn, þegar kennarar í Kennarasambandi Vestfjarða hittast á Birkimel á Barðaströnd og halda sinn aðalfund og hlýða á faglega fyrirlestra. Þetta er því sameiginlegur starfsdagur allra skóla á Vestfjörðum.

Það er því engin kennsla föstudaginn 6. september, en Dægradvöl er opin frá kl. 13:20 - 16:00.

Sterkari út í lífið

Í upphafi skólaárs er gott fyrir alla sem koma að uppeldi barna að huga að verkfærum til að hjálpa börnunum við að byggja sig upp. 

Heimasíðan Sterkari út í lífið inniheldur fróðleik og verkfæri sem auðveldar foreldrum og fagaðilum samtöl um ýmislegt sem snertir sjálfsmynd barna og unglinga. Inni á síðunni er verkfærakista fyrir samtöl og æfingar sem styrkja sjálfsmynd barna og unglinga.

Við hvetjum alla uppalendur til að kíkja inn á síðuna og nýta sér þetta góða efni sem þar er.

 

Útivistardagar

Veðrið leikur við okkur þessa dagana og kemur það sér aldeilis vel í þeim fjallgöngum sem standa nú yfir. Í morgun sigldu 10.bekkingar norður á Hesteyri og ganga þaðan yfir Sléttuheiði að Sæbóli í Aðalvík þar sem þeir gista í tjöldum í nótt. Árgangurinn kemur svo siglandi þaðan á morgun.

4.bekkur gekk upp í Naustahvilft í morgun í blíðviðrinu og 9.bekkur gekk upp á Kistufell eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en það er 781 m.y.s.  Á næstu dögum munu svo þeir árgangar sem eftir eru grípa einhvern góðviðrisdaginn til sinnar fjallgöngu.

Breyttar útivistarreglur

Við minnum á breyttar útivistarreglur frá og með 1. september. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20 nema í fylgd með fullorðnum og 13-16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 22 með þeirri undantekningu að þau séu á heimleið frá viðurkenndri skóla-, æskulýðs- eða íþróttasamkomu. Foreldrum er heimilt að stytta þennan tíma en ekki lengja og vonum við að allir taki höndum saman um að virða þessar reglur.

7.bekkur á heimleið

Mynd frá Reykjum
Mynd frá Reykjum

Nú er 7. bekkur á heimleið frá Reykjum í Hrútafirði og er áætluð heimkoma á milli kl. 17:00 og 17:30.

Sú hefð að 7. bekkur fari í skólabúðirnar er orðin alllöng og hefur gefist afar vel. Nemendur dvelja frá mánudegi til föstudags í búðunum ásamt nokkrum af starfsmönnum skólans. Starfið beinist að sömu markmiðum og í grunnskólum og auk þess er lögð sérstök áhersla á að auka samstöðu, efla samvinnu og félagslega aðlögun og fleira. Það er þroskandi að takast á við nýjar áskoranir og margir hafa t.d. aldrei sofið annarsstaðar en heima hjá sér, svo að dæmi sé tekið.

Það er sérstaklega ánægjulegt að Ísafjarðarbær hefur boðið öllum sínum nemendum endurgjaldslaust í skólabúðirnar allt frá árinu 2014, en innkoma af árshátíð nemenda G.Í. hefur dekkað ferðakostnað, þannig að enginn kostnaður fellur á heimilin. Það er reynsla okkar að allir koma ríkari heim eftir dvöl að Reykjum og minningarnar varðveitast um ókomin ár.

 

Fjallgöngur

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana skunda nemendur upp um fjöll og firnindi og fór 3. bekkur hjólandi inn í Dagverðardal í morgun og gekk þaðan á Hnífa. Hópurinn naut veðurblíðunnar og útsýnisins eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og komu margir berjabláir af fjalli eftir góðan göngutúr. Fjallgöngurnar eru einnig mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna.  

Skólabyrjun

Í morgun var skólasetning í sal skólans hjá 2. - 10. bekk, þar sem Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, tók á móti nemendum og fjölmörgum aðstandendum þeirra. Nemendur 1. bekkjar voru boðnir sérstaklega í viðtöl til sinna umsjónarkennara. Við skólasetninguna fór Olga m.a. yfir stöðu húsnæðismála, en eins og allir vita þá greindist mygla í gráa skólanum/gagnfræðaskólanum í mars síðastliðnum og hafa endurbætur staðið yfir í allt sumar. Á miðvikudaginn í næstu viku mun efri hæðin verða klár, en gert er ráð fyrir að neðri hæðin klárist um mánaðamótin september - október.

Það verður mikill munur fyrir skólastarfið að fá efri hæðina afhenta á ný, en þrengslin síðustu mánuði hafa tekið á alla, bæði starfsfólk og nemendur og alveg einstakt hvað allir hafa sýnt mikið umburðarlyndi við þessar erfiðar aðstæður. En nú horfir þetta allt til betri vegar og munu u.þ.b. 130 nemendur fá nýuppgerðar kennslustofur í næstu viku.

7. bekkur er á leið í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði á mánudagsmorgun og mun dvelja þar fram á föstudag. Mæting hjá þeim er kl. 7:45 á mánudaginn og hafa umsjónarkennarar sent allar frekari upplýsingar til foreldra.

Að öðru leyti eru fyrstu skóladagarnir hefðbundnir og hlökkum við til komandi skólaárs með nýjum áskorunum.

 

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður fimmtudaginn 22. ágúst 2019 í sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

Kl. 9:00      8., 9. og 10. bekkur

Kl. 10:00     5., 6. og 7.bekkur

Kl. 11:00     2., 3. og 4. bekkur

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega í viðtöl til umsjónarkennara með foreldrum, en allir foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir á skólasetningu.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst.

Minningarorð

Í dag kveðjum við Monicu Mackintosh sem kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í rúm 30 ár allt þar til hún lét af störfum vegna veikinda sinna fyrir rúmu ári.  Monica var einstakur samstarfsmaður, traust og heil í öllum samskiptum. Henni var umhugað um samstarfsfólkið sitt og margir sem leituðu til hennar.  Hún náði öllum með sér og var hrókur alls fagnaðar í félagsstarfi starfsmanna.  Monica var líka einstakur kennari. Hún  bar hag nemenda sinna fyrir brjósti, var metnaðarfull fyrir þeirra hönd og vildi þeim allt hið besta.  Það var mjög gott að koma inn í kennslustundir hjá henni því þar var alltaf notalegt andrúmsloft og auðséð að gagnkvæm virðing, traust og gleði ríkti. Hún var fljót að tileinka sér allar nýjungar í skólastarfinu, hvort sem um var að ræða kennsluaðferðir eða tæknimál. Monica var mjög skipulögð og fátt virtist koma henni úr jafnvægi og tók hún á erfiðum  málum með yfirvegun og jafnaðargeði. Monica skilur eftir sig stórt skarð í starfsmannahópi skólans sem og hjá  nemendum og foreldrum því í svona litlu samfélagi er nálægðin mikil og margir sem notið hafa leiðsagnar hennar í gegnum árin.

Það er með virðingu og þökk sem við kveðjum Monicu í dag og flytjum við fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

F.h. Grunnskólans á Ísafirði

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri

Helga S. Snorradóttir, aðstoðarskólastjóri