VALMYND ×

Fréttir

Úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Elma Katrín Steingrímsdóttir og Tanja Kristín Ragnarsdóttir við uppfinningu sína
Elma Katrín Steingrímsdóttir og Tanja Kristín Ragnarsdóttir við uppfinningu sína

Úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) voru tilkynnt með viðhöfn í Háskólanum í Reykjavík í fyrradag þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra ávörpuðu hugvitsfólkið og ahentu verðlaun í ýmsum flokkum. Keppnin var nú haldin í 28. sinn og bárust yfir 1200 hugmyndir, frá 38 skólum víðs vegar af landinu. Dómnefnd valdi 26 hugmyndir í vinnusmiðjuna, þ.e. úrslitakeppnina og var ein hugmynd frá G.Í. þar á meðal. Það voru þær Tanja Kristín Ragnarsdóttir og Elma Katrín Steingrímsdóttir sem komust áfram með hugmynd sína, sem fór í gegnum strangt matsferli þar sem hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi var metið. Þær stöllur hönnuðu brauðrist með nýsköpunartvisti sem virkar þannig að brauðsneiðarnar falla sjálfar á disk undir brauðristinni þegar þær eru tilbúnar.

Sigurvegarar NKG 2019 voru þær Anna Valgerður Árnadóttir og Oliwia Huba úr Brekkubæjarskóla á Akranesi með hafragrautaruppáhellara. Nánari upplýsingar um úrslit og keppnina sjálfa má finna hér.

 

Vorverkadagur

Föstudaginn 24. maí er vorverkadagur hér í skólanum þar sem 1. - 9. bekkur hafa allir sín ákveðnu umhverfisverkefni í samstarfi við Ísafjarðarbæ.
Nemendur mæta í skólann kl. 8:00 með nesti í bakpoka og klæddir til útiveru. Mötuneytið býður öllum nemendum skólans upp á grillaðar pylsur á milli kl. 12:00 og 13:00. Frístundin og dægradvölin færast til kl. 12:40 og fara aðrir heim með strætó kl. 13:00 frá skólanum. Engin strætóferð verður kl. 14:00, en bókasafnið er opið til kl. 16:00 ef einhverjir þurfa að bíða eftir tómstundastarfi.
Náttúran er viðkvæm og hana þarf að umgangast af mikilli gát og virðingu. Vorverkadagur sem þessi miðar að því að nemendur gefi umhverfi sínu frekari gaum og beri umhyggju fyrir því.
Við vonum að allir njóti samverunnar þennan dag þrátt fyrir að spáin mætti vera betri, en við höfum alltaf skjól hér í skólanum ef þurfa þykir.

Vinaliðar ljúka störfum

Allt frá haustinu 2014 hefur Grunnskólinn á Ísafirði verið þátttakandi í hinu svokallaða Vinaliðaverkefni. Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Einnig miðar það að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur í 4.-6. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang í frímínútum og taka til eftir leikina.

Verkefnið er norskt að uppruna og í dag eru um 1400 grunnskólar í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem taka þátt í því, en Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli hér á landi. Verkefnið hlaut hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2018 og hefur sannað gildi sitt í þeim skólum sem hafa innleitt það.

Nemendur G.Í. hafa verið duglegir í vetur að taka þátt í verkefninu og hafa margir nemendur starfað sem vinaliðar. Á dögunum var uppskeruhátíð þeirra sem voru að ljúka störfum og var hópnum þökkuð vel unnin störf og að því loknu var þeim boðið í bíó.

 

Vorferð 10. bekkjar

Sundlaugin á Hofsósi
Sundlaugin á Hofsósi

Á morgun heldur 10. bekkur í sitt árlega vorferðalag. Ferðinni er heitið að Bakkaflöt í Skagafirði og verður lagt af stað frá skólanum kl. 9:00. Í Skagafirði verður ýmislegt gert sér til skemmtunar, t.d. farið í River Rafting, Paintball, hestaferð, sund á Hofsósi og fleira. Á föstudaginn verður svo haldið heim á leið og komið til Ísafjarðar seinni partinn.

Vordagskráin

Nú er vordagskráin komin hér inn á heimasíðuna.

Útikennsla

Þegar veður leyfir eru tækifærin nýtt til útikennslu. Í síðasta mánuði mátti sjá nokkra 7. bekkinga úti á skólalóð í smíðum þar sem þeir voru að tálga fugla undir styrkri stjórn Bjarnveigar S. Jakobsdóttur, smíðakennara. 
Nú vonum við að vorið fari að koma fyrir alvöru þannig að tækifærum til útikennslu fjölgi og skólalóðin lifni við.

Heimsókn frá Kaufering

Hópurinn ásamt nokkrum nemendum G.Í. og starfsmanni sjóminjasafnsins Ósvarar
Hópurinn ásamt nokkrum nemendum G.Í. og starfsmanni sjóminjasafnsins Ósvarar

Í síðustu viku komu átta nemendur (allt stelpur) frá Kaufering, vinabæ Ísafjarðarbæjar í heimsókn til okkar ásamt tveimur kennurum. Þau komu akandi frá Reykjavík og voru himinsæl með ferðina þar sem þau sáu bæði hvali og seli á leiðinni.

Auk heimsóknar í G.Í. fóru þau til Bolungarvíkur og í skólaheimsókn til Suðureyrar og Þingeyrar. Einnig heimsóttu þau sveitabæ, skoðuðu hesta, fóru í siglingu, skoðuðu söfn og fóru í víkingaskálann á Þingeyri þar sem allir sem vildu gátu klætt sig upp í víkingaklæði. Hópurinn bakaði brauð við opinn eld að víkingasið og var það mikil upplifun.

Tíminn var fljótur að líða við leik og störf og það var ánægður hópur sem við kvöddum á föstudagsmorgun og voru allir sammála um að þessi ferð myndi seint líða þeim úr minni.

Hlutverk foreldra í forvörnum

Náum áttum - Samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál, býður til fundar miðvikudaginn 15. maí n.k. kl. 8:15-10:00 á Grand hóteli í Reykjavík. Fundurinn fjallar um hlutverk foreldra í forvörnum og er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Allar frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu hópsins; www.naumattum.is og einnig verða upptökur frá fundinum aðgengilegar þar að honum loknum.

Úrslitakeppni í Skólahreysti

Lið G.Í. - Á myndina vantar Stefán Frey Jónsson, sem keppir í forföllum Magnúsar Arnar Guðnasonar.
Lið G.Í. - Á myndina vantar Stefán Frey Jónsson, sem keppir í forföllum Magnúsar Arnar Guðnasonar.

Í kvöld keppir G.Í. í úrslitum í Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Húsið opnar kl. 19:00 og hefst keppnin sjálf kl. 20:00. Við skorum á áhugasama að mæta og hvetja okkar fólk, en einnig verður keppnin sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Fyrir hönd G.Í. keppa þau Stefán Freyr Jónsson, Kári Eydal, Bríet Sigurðardóttir, Hrefna Dís Pálsdóttir, Solveig Amalía Atladóttir og Helgi Ingimar Þórðarson. Þjálfari og fararstjóri er Atli Freyr Rúnarsson. Við óskum krökkunum góðs gengis og fylgjumst spennt með.