VALMYND ×

Fréttir

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi og hefst kennsla aftur þriðjudaginn 23. apríl. Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Lesið til að njóta

Nemendur í 5. - 7. bekk eru nú í lestrarátaki þar sem þeir ætla að fylla heila hillu af lesnum bókum. Útbúin hefur verið ,,hilla" á einn vegg skólans, þar sem nemendur setja miða með nafni sínu, bókarheiti og gefa bókinni einkunn. Nú verður spennandi að sjá hversu langan tíma tekur að fylla bókahilluna.

Vel heppnaður skíða- og útivistardagur

Göngutúr í Tungudal
Göngutúr í Tungudal
1 af 5

Veðrið lék aldeilis við okkur í gær þegar haldinn var skíða- og útivistardagur í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Nemendur brunuðu niður brekkurnar á skíðum, brettum, þotum, sleðum eða þoturössum. Einnig fóru nemendur í góða göngutúra, enda umhverfið einstaklega fallegt á svona góðviðrisdegi. 

Við erum svo sannarlega heppin að búa hér í þessari náttúruparadís þar sem útivistarsvæðið er nánast í bakgarðinum og hægt að stökkva til með skömmum fyrirvara.

Skíða- og útivistardagur á morgun

Þar sem að skíðafæri og veðurspá er mjög góð, höfum við ákveðið að hafa skíða- og útivistardag á morgun, þriðjudaginn 2. apríl í Tungudal fyrir 5. - 10. bekk. Strætó fer þá frá skólanum kl. 9:30 og úr Tungudal heim aftur kl. 13:00 og tekur rúnt um Seljalandsveg og inn í Holtahverfi. Þeir sem vilja vera lengur, mega það sér að kostnaðarlausu, en sjá þá um að koma sér heim aftur. Nemendur þurfa ekki að mæta í skólann að morgni en við förum þess á leit við foreldra að þeir sem geti, skutli nemendum á skíðasvæðið til að létta á strætónum. Lyfturnar opna kl. 10:00 og er nóg að mæta þá upp eftir.
Hægt verður að leigja skíði/bretti og skó á kr. 2.000 fyrir daginn. Þeir nemendur sem ekki vilja vera á skíðum/brettum geta komið með snjóþotur, sleða eða ruslapoka til að renna sér á og einnig getum við lánað rassaþotur. 
Þeir sem eru í áskrift í mötuneyti fá nesti þaðan, samlokur og fernudrykki.

Íþróttahátíð lokið

Það var mikið líf og fjör á íþróttahátíð 4. - 7. bekkjar í morgun, þar sem nemendur spreyttu sig á hinum ýmsu þátttökugreinum. Leikgleðin var svo sannarlega við völd og gaman að gera breytingar á hefðbundnum skóladögum svona annað slagið. 
Við virðum óskir þeirra sem ekki vilja myndbirtingar, þannig að ekki eru birtar myndir af öllum.

Íþróttahátíð 4. - 7. bekkjar

Á morgun verður haldin íþróttahátíð hjá 4. - 7. bekk á Torfnesi, þar sem ekki hefur verið hægt að halda skíðadag hingað til. Keppnisgreinar verða: Froskalappa-boðhlaup, skotleikur, skyrát, sippkeppni, keilustríð, besti stuðningurinn, kókosbolluát, hundur og kjötbein, köngulóafótbolti og spilaleikur. Kennarar og stuðningsfulltrúar munu einnig taka þátt í hluta af keppnisgreinum til að auka á gleðina.

Íþróttakennarar stýra keppninni og hvetja alla til mæta með góða skapið og baráttuandann. Nemendur leggja af stað frá skólanum kl. 8:15 og verður hver árgangur með sinn keppnislit. 4.bekkur verður gulur, 5.bekkur rauður, 6.bekkur grænn og 7.bekkur blár og er mikið lagt upp úr samstöðu og samvinnu. Við vonum að allir skemmti sér vel á morgun og komi endurnærðir í skólann aftur um kl. 10:30.

Úrslit í lestrarátaki

Búið er að draga í síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns og ljóst er að met var slegið í lestri bóka þetta árið. Samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Þetta þýðir að á fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns!

Veittar voru viðurkenningar fyrir mesta lestur hlutfallslega á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina: 

Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness

Allir þessir skólar fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drógu eitt foreldri og fimm krakka úr lestrarmiðapottinum við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni, Grófinni. Hin sex heppnu sem dregin voru, verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum.

Þá var einn nemandi frá hverjum þátttökuskóla dreginn út og fær sá áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út. Sá heppni í Grunnskólanum á Ísafirði var Baltasar Goði Hafberg Hlynsson í 4.KB og óskum við honum til hamingju. Ennfremur óskum við öllum þátttakendum til hamingju með lesturinn.

 

Upplýsingafundur fyrir starfsmenn og foreldra

Klukkan 16.15 í dag, mánudaginn 25. mars, verður haldinn kynningarfundur fyrir starfsfólk og foreldra um niðurstöður úr sýnatöku úr stofum í austurálmu Grunnskólans á Ísafirði. Eins og kynnt hefur verið þá innihéldu sýni af báðum hæðum álmunnar myglu og ljóst að fara þarf í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæðinu. Á fundinum mun Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í þessum málefnum hjá verkfræðistofunni Eflu, fara yfir málið með starfsfólki og foreldrum. Þá kynna Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri og sviðsstjórarnir Margrét Halldórsdóttir og Brynjar Þór Jónasson hvað þetta þýðir fyrir skólastarfið og til hvaða aðgerða þarf að grípa. Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri verður einnig á fundinum og svarar fyrirspurnum.

Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á fundinum, enda er samvinna skóla og heimilis nauðsynleg í þessu eins og öðru.

G.Í. í úrslit Skólahreysti

Magnús Örn, Kári, Hrefna Dís, Bríet, Solveig Amalía og Helgi Ingimar.
Magnús Örn, Kári, Hrefna Dís, Bríet, Solveig Amalía og Helgi Ingimar.

G.Í. komst áfram í úrslitakeppni Skólahreysti í kvöld, eftir sigur í Vestfjarðariðlinum. Það var ekki þrautalaust fyrir hópinn að komast suður, þar sem ekki var flogið í gær og morgunvélin bilaði í morgun og snéri við. En allt gekk þetta á endanum og lenti hópurinn í Reykjavík um miðjan dag í dag.

Lið G.Í. skipuðu þau Magnús Örn Guðnason, Kári Eydal, Bríet Sigurðardóttir, Hrefna Dís Pálsdóttir, Solveig Amalía Atladóttir og Helgi Ingimar Þórðarson. Þjálfari og fararstjóri var Atli Freyr Rúnarsson.

Úrslit urðu þau að G.Í. sigraði riðilinn, Grunnskóli Bolungarvík hafnaði í 2. sæti, Grunnskólinn á Þingeyri í því 3. og Súðavíkurskóli í 4. sæti. Það er aðdáunarvert að þessir litlu skólar nái að senda lið í keppni sem þessa, en í þetta skiptið lánaði G.Í. Stefán Frey Jónsson til Þingeyringanna til að ná tilskildum fjölda.

Þau 12 lið sem sigra sína riðla, munu svo keppa til úrslita í Laugardalshöllinni þann 8. maí n.k.

Við óskum öllum innilega til hamingju og góðrar heimferðar.