VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn til Aþenu

Þessa viku hafa fimm nemendur í 9. bekk, frá Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskólanum á Suðureyri, verið í heimsókn til jafnaldra í Aþenu ásamt nemendum frá Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu. Með þeim í för eru þær Jóna Benediktsdóttir og Bergljót Halldórsdóttir.

Ferðin er farin vegna samstarfsverkefnis á vegum Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið byggir á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948.

Heiti verkefnisins er: Living in a Challenging World og það byggist á því að allar greinar Mannréttindayfirlýsingarinnar eru skoðaðar. Allir nemendur í 9. Bekk G.Í. taka þátt og er fyrsta hluta verkefnisins nú lokið. Í fyrsta hlutanum voru teknar fyrir fyrstu fimm greinar yfirlýsingarinnar og fjalla þær um frelsi og jafnrétti.  

Þessir fimm nemendur ásamt nemendum frá áðurnefndum löndum halda áfram að fjalla um frelsi og jafnrétti og  auk þess að mynda tengsl við krakka frá öðrum Evrópulöndum, eru áhugaverðustu staðirnir skoðaðir og það er svo sannarlega af nógu að taka í Aþenu.

Heiður sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
1 af 3

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tíu nemendur frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla. Fyrir hönd G.Í. lásu þau Guðrún Eva Bjarkadóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hákon Ari Heimisson, Heiður Hallgrímsdóttir, Helgi Rafn Hermannsson og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir.

Í hléi léku þeir Ívar Hrafn Ágústsson á trommur, Pétur Örn Sigurðsson á hljómborð og Hákon Ari Heimisson á trommur, lagið Happier eftir Marshmello Bastille, sem þeir útsettu sjálfir.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, Dagný Annasdóttir og Dagný Arnalds og var fundarstjórn í höndum Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ávörp fluttu þeir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri og Baldur Sigurðsson, formaður dómnefndar. Mariann Rähni frá Grunnskóla Bolungarvíkur kynnti skáld keppninnar, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar í fyrra.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Heiður Hallgrímsdóttir sigraði, Hákon Ari Heimsson hafnaði í 2. sæti og Guðrún Eva Bjarkadóttir í því 3., öll úr Grunnskólanum á Ísafirði. Aukaverðlaun fyrir framúrskarandi flutning á Guttavísum hlaut Kristinn Hallur Jónsson frá Grunnskólanum í Bolungarvík. Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ekki má heldur gleyma þeim kennurum sem hafa séð um þjálfun þeirra ásamt foreldrum, árangurinn er einnig þeirra. 

Textílmennt í 5. bekk

Verkgreinar eru ekki síður mikilvægar en þær bóklegu og alltaf gaman að sjá afurðir nemenda. Í 5. bekk hafa nemendur verið að sauma bútasaumspúða, húfur og fleira sem eiga örugglega eftir að fylgja þeim næstu árin.

Skólastjóraröltið

2.bekkur í Námsveri
2.bekkur í Námsveri
1 af 10

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað hægt er að gera í samstilltum hóp. Nú hefur 1.-4. bekk verið kennt í nokkra daga á ýmsum stöðum í skólanum og ekki annað að sjá en að það gangi vel.  Starfsfólkið breytti á undraverðum tíma ýmsum rýmum skólans í kennslustofur fyrir árgangana sem þurfti að flytja úr gráa húsinu (gamla gagganum).  það er vissulega víða þröngt og margir sem hafa þurft að aðlaga sig en allir tilbúnir að gera sitt besta til að láta þetta ganga upp, bæði kennarar og nemendur og er þeim öllum þakkað fyrir það.

Ávaxtakarfan

Í dag býður Foreldrafélag G.Í. í samstarfi við Edinborgarhúsið, nemendum í 1.-4. bekk á sýningu Leikfélags M.Í. á Ávaxtakörfunni. Sýningin hefst kl. 12:00 í Edinborgarhúsinu og er áætlað að henni ljúki um kl. 13:30. Starfsfólk skólans og Frístundar fylgja nemendum fram og til baka og vonum við að allir njóti vel.

Kökugerð

1 af 2

Það er alltaf gaman að sjá nemendur að störfum og uppskeru þeirra, ekki síst þegar gleðin skín úr hverju andliti. Það átti svo sannarlega við á dögunum þegar nemendur kláruðu meistarastykki sín í kökugerð í heimilisfræðivali hjá Guðlaugu Jónsdóttur. Kökurnar voru glæsilegar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og myndu sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er. Fleiri myndir má sjá hér í myndasafni skólans.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Verðandi fulltrúar G.Í. á lokahátíðinni
Verðandi fulltrúar G.Í. á lokahátíðinni
1 af 2

Síðastliðinn fimmtudag fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem valdir voru fulltrúar skólans til að taka þátt í lokahátíðinni sem fram fer þriðjudaginn 19. mars n.k. í Hömrum.

Tólf nemendur sem valdir höfðu verið úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð, Sveinfríður S. Stefánsdóttir og Matilda H. Maeekalle léku á hljómborð, auk þess sem farið var yfir Reykjaferðina s.l. haust í máli og myndum.

Dómarar voru þau Ingi Björn Guðnason, Helga Björk Jóhannsdóttir og Rannveig Halldórsdóttir. Niðurstöður þeirra voru þær að þau Guðrún Eva Bjarkadóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Heiður Hallgrímsdóttir, Helgi Rafn Hermannsson, Jón Gunnar Kanishka Shiransson, Matilda Harriet Maeekalle og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni og Hákon Ari Heimisson verður varamaður þeirra.
Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góða frammistöðu og hlökkum til lokahátíðarinnar.

Starfsdagur á morgun

Það er mikið líf og fjör í skólanum í dag og margskonar persónur og furðuverur sem mættu í skólann í morgun, enda bolludagur eða maskadagur. Sögupersónur úr Harrý Potter eru áberandi og má því segja að skólinn minni á Hogwart í dag.

Maskadagshefðin er upprunalega rakin til hefðar þegar strákar marseruðu um bæi með söng og betli á bolludag í lok 19. aldar, segir Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðukona Safnahússins á Ísafirði. Hún segir hefðina hafa lagst af á landinu að mestu, nema á Akureyri þar sem siðurinn var svo fluttur yfir á öskudag og breiddist þannig út um landið á ný. Ísfirðingar og nágrannar hafi hins vegar haldið í upprunalega siðinn og klæðast því grímubúningum í dag. „Við vitum allavega um siðinn frá því í kringum 1900 og kannski aðeins fyrr, þá tíðkaðist að börn fóru á milli húsa og rassskelltu með bolluvöndum og fengu bollur og klæddu sig svo upp.“ Hún segir að þá hafi siðurinn ekki einungis náð til barna heldur líka til fullorðinna. Jóna Símonía segir að mögulega gæti siðurinn hafa lagst niður um tíma en að uppúr 1940 hafi verið grímudansleikir á þessum degi og svo hafi börnin eignast daginn (Heimild: ruv.is).

Á morgun, sprengidag, er svo starfsdagur hér í skólanum og geta nemendur því slakað á eftir annasaman dag.

Fréttabréf febrúarmánaðar

Nú er enn einn mánuðurinn að baki og ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram. Við birtum fréttabréf skólans á tveggja mánaða fresti og má nálgast fréttabréf febrúarmánaðar hér.

,,Þetta er það sem ég elskaði að gera"

Síðasta skólaár var Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri í námsleyfi, en hún lauk meistaraprófi í Stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands síðastliðið haust.  Föstudaginn 23. febrúar kynnti hún svo afrakstur leyfisins, meistararitgerð sína  sem ber heitið Þetta er það sem ég elskaði að gera.  Ritgerðin byggir á rannsókn sem Olga gerði síðasta vetur en í henni tók hún tíu kennara af höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi tali með það að markmiði að skoða hver reynsla kennara er af áreitni nemenda og foreldra og hvaða áhrif hún hefur á liðan þeirra.  

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áreitni nemenda og foreldra sé til staðar í grunnskólum. Þátttakendur hafa allir orðið fyrir áreitni af hendi nemenda og flestir átt í erfiðum samskiptum við foreldra. Áreitnin hefur áhrif á líðan þeirra, bæði í einkalífi og starfi og lýsa margir þeirra einkennum kulnunar í starfi, svo sem þreytu og örmögnun, minnkandi gleði og að þeir hugsi um að hætta í starfinu. Þeim finnst álagið mikið og erfitt að takast á við vanda nemenda, en margir nemendur virðast eiga í miklum hegðunarvanda, hver svo sem ástæðan er. Það er einnig umhugsunarvert hversu mikil áhrif erfið samskipti við foreldra hafa á líðan kennaranna og flestir þátttakendur lýsa atvikum þar sem foreldrar sýna óviðeigandi hegðun gagnvart þeim. Það virðist einnig nokkuð algengt að nemendur séu áreitnir við kennarana sína og hömlulausir í samskiptum við þá og aðra nemendur. 

Nemendur nota oft ljótt orðbragð við kennara sína, þeir hunsa þá og gera ekki það sem þeir eru beðnir um eða ætlast er til að þeir geri. Þeir hafa mjög oft truflandi áhrif á þá sem í kringum þá eru og taka mikið pláss. Slík hegðun nemenda hefur áhrif á líðan kennara og nefndu þátttakendur að þeir væru oft mjög þreyttir og orkulausir og að nemendur með hegðunarvandkvæði taki stundum yfir í kennslustundum og að þeir (kennararnir) komist ekki yfir það námsefni sem þeir ætluðu og skipulag þeirra fari í vaskinn. Sumir nefndu það líka að gleðin í starfinu væri minni og að þeir hlökkuðu ekki lengur til að mæta í vinnuna sína. 

Þátttakendur voru sammála um að þeir hafi oft haft samband við foreldra vegna erfiðleika barna þeirra. Flestir foreldrar taka því vel og fagna því þegar kennarar leita eftir samstarfi og leita lausna fyrir börnin og í þeim tilvikum er auðveldara að taka á þeim málum sem koma upp og stundum finnast lausnir í samstarfi allra aðila. En hins vegar er þó nokkuð um að foreldrar bregðist illa við, þeir saki kennarana um einelti og að þeir gefi börnunum ekki séns því þeir séu alltaf að hafa samband heim. Einnig geta foreldrar hafnað þeim úrræðum og lausnum sem í boði eru og þá sitja málin föst. Foreldrarnir eiga sumir það sameiginlegt að hafa misst sig á fundum og í símtölum við kennarana og kennararnir upplifa þá ógnandi.

Þátttakendur eru með ýmsar hugmyndir um hvað væri til bóta til að auðvelda starfið í skólunum. Þeir nefna flestir að farsælast væri að minnka hópana, í litlum hópum er minna um áreiti og þar af leiðandi minna um árekstra og minni líkur á að einhver missi stjórn á sér. Þeir nefna líka að teymiskennsla sé eftirsóknarverð að því leyti að þá eru alltaf tveir kennarar í hverjum hópi, það er árangursríkara að vera með tvo kennara og sleppa stuðningsfulltrúunum. Einnig dreifist ábyrgðin þegar tveir kennarar eru í hverjum hópi og starfið verður léttara.  

Að mati þátttakenda þarf að vera hægt að bregðast fyrr við agavandamálum og kippa nemendum út úr aðstæðum og jafnvel í sérstakt úrræði í skólanum þar sem nemandinn þyrfti svo að vinna sig aftur inn í bekkinn, og ofbeldi verður að hafa afleiðingar. Þeim finnst jafnframt að það þurfi fleira fagfólk í skólana, til dæmis einhvers konar unglingaráðgjafa sem er aðili sem nemendur geta leitað til og er talsmaður þeirra. Reykjavíkurborg er að setja hegðunarráðgjafa inn í skólana (einn í hverju hverfi) og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það gengur.

Nokkrir þátttakendur nefna uppbyggingarstefnuna Uppeldi til ábyrgðar og segja að hún skili árangri í þeim skólum sem vinna samkvæmt henni. Þeir nefna einnig að það sé mikilvægt að skólastjórnendur fylgist vel með líðan starfsfólksins síns og styðji við það. Jafnframt er mikilvægt að þeir reyni að manna forföll stuðningsfulltrúa og láti það ekki sitja á hakanum eins og stundum vill verða.

Samvinna og samstarf við foreldra er þátttakendum hugleikin og það kemur fram í viðtölunum að það skipti miklu máli og spurning um hvernig hægt sé að virkja foreldra betur, til dæmis að sækja fræðslufundi í skólanum. Einn þátttakandi nefnir að nemendur verði að læra að bera virðingu hver fyrir öðrum frá upphafi skólagöngu og að leggja áherslu á virðingu, vináttu og umhyggju í öllu skólastarfinu.